Hoppa yfir valmynd

1225/2024. Úrskurður frá 25. nóvember 2024

Hinn 25. nóvember 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1225/2024 í máli ÚNU 24080012.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 8. ágúst 2024, kærði […] til úrskurðarnefndar um upp­lýs­ingamál ófullnægjandi afgreiðslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á erindi hans. Kærandi átti dagana 3.–5. júlí 2024 í samskiptum við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um færsluskrá, eða log-skrá, fyrir tiltekið skjal sem þinglýst væri á eign kæranda. Kærandi vildi aðstoð við túlkun skrárinnar, einkum til að átta sig á hvaða notendur hefðu átt við skjalið og hvaða aðgerð hefði verið framkvæmd í hvert sinn. Stofnunin veitti honum ákveðin svör en benti kæranda á að Sýslumaður­inn […] ætti að kunna betri skil á upplýsingunum, enda væri það embættisins að svara fyrir það sem lyti að þinglýsingum þó svo að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annaðist rekstur þing­lýs­ingakerfisins fyrir sýslumenn.
 
Kærandi hafði aftur samband við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 22. júlí 2024 og beindi eftir­farandi fyrirspurn til stofnunarinnar:
 

Þar sem það hefur ekki enn komið fram hvað var nákvæmlega verið að framkvæma þarna þá beini ég eftirfarandi spurningum til HMS sem umsjónaraðila/ábyrgðaraðila fyrir Fasteignaskránni:
 

  1. Er þessi færsla þinglýsing, en það kemur ekki fram, hvorki status=þ, kronur=?
  2. Hvaða málsaðilar eru viðkomandi þessari færslu?
  3. Er þetta fært inn sem eignarheimild og þá sem hvaða skjaltegund?
  4. Var ekki bara verið að skrá skjalið á þetta landnúmer?
  5. Er HMS það ljóst að hægt er að skrá inn í þinglýsingarhluta Fasteignaskrár […] marklausu skjali án aðkomu þinglýsingarstjóra ef sá gállinn er á þeim aðila sem hefur til þess heim­ild þ.e. að skrá inn í kerfið?

 
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun svaraði erindi kæranda 8. ágúst 2024. Í svarinu kom fram að þegar lægi fyrir útskýring á log-skránni. Kæranda var bent á að hafa samband við sýslumann varð­andi þær spurningar sem hann beindi til stofnunarinnar, þar sem hann ætti að svara fyrir allt sem varðaði þinglýsingar.
 
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar er því lýst að kærandi hafi óskað eftir skýringum á umræddri log-skrá en hvorki Sýslumaðurinn […] né Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veiti full­nægj­andi svör. Húsnæðis- og mann­virkja­stofnun hafi yfirumsjón með fasteignaskrá og beri ábyrgð á kerfinu lögum samkvæmt.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með erindi, dags. 13. ágúst 2024, og stofn­un­inni gefinn kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að stofnunin afhenti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál þau gögn sem kær­an varðar.
 
Umsögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar barst úrskurðarnefndinni 26. ágúst 2024. Í henni kemur fram að fasteignaskrá hafi að geyma upplýsingar um þinglýst réttindi, svo sem um eigendur, veðbönd og kvaðir. Sýslumannsembætti skrái og þinglýsi skjölum rafrænt í þinglýsingarhluta fast­eignaskrár. Kærandi og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi verið í samskiptum um skeið í tengsl­um við ósk kæranda um að misræmi í skráningu á eignarhaldi jarðar kæranda yrði eytt. Í því sambandi hafi kærandi vísað til þess að í þinglýsingarhluta fasteignaskrár hafi afsali […] verið breytt í eignaryfirlýsingu. Stofnunin teldi ekki mögulegt að eyða misræminu þar sem sýslu­maður teldi að skjöl vantaði sem staðfestu fullt eignarhald kæranda. Í framhaldinu hafi kær­anda verið afhent log-skrá skjalsins og stofnunin útskýrt fyrir kæranda einstök efnisatriði skrár­inn­ar eins nákvæmlega og kostur var. Að mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi kærandi ekki beðið um gögn í skilningi upplýsingalaga og því sé rétt að vísa kærunni frá.
 
Umsögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar var kynnt kæranda með erindi, dags. 30. ágúst 2024, og honum gefinn kostur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Frekari athugasemdir kær­anda bárust ekki.
 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, taka þau til starfsemi stjórnvalda. Hús­næðis- og mannvirkjastofnun er stjórnvald, sbr. 1. gr. laga um Húsnæðis- og mannvirkja­stofnun, nr. 137/2019, og fellur þar með undir gildissvið laganna.
 
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um þinglýsingu. Undir þá afmörkun falla mál sem varða ákvörðun um þinglýsingu og ágreining um þinglýsingar og farið er með af hálfu þing­lýsingastjóra á grundvelli þinglýsingalaga, nr. 39/1978, með síðari breytingum. Húsnæðis- og mann­virkjastofnun fer ekki með meðferð slíkra mála og þótt stofnunin hafi ríku hlutverki að gegna um rekstur á fasteignaskrá fer hún ekki með ákvörðunarvald um þinglýsingar heldur þinglýsinga­stjóri, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. ákvæðis nr. I til bráðabirgða við lög nr. 39/1978. Samkvæmt þessu á undantekningarregla 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, hvað varðar þinglýsingar, almennt ekki við þegar óskað er að­gangs að gögnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem varða rekstur fast­eigna­skrár.
 
Upplýsingaréttur almennings á grundvelli upplýsingalaga tekur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna til að­gangs að fyrir­liggj­andi gögnum sem varða tiltekið mál og aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögn­um.
 
Þegar aðili sem heyrir undir gildis­svið laganna tekur á móti erindi sem ber með sér að vera beiðni um aðgang að gögn­um skal hann athuga hvort fyrir liggi annaðhvort þau gögn sem bein­línis er óskað eftir eða gögn sem innihalda þær upplýsingar sem tilgreindar eru í beiðninni, og taka ákvörðun um hvort aðgangur að gögn­un­um á grundvelli upplýsingalaga verði veittur.
 
Af upplýsingalögum verður ekki leidd sambærileg skylda til að svara erindum sem bera ekki með sér að vera beiðnir um að­gang að gögnum. Ekki er útilokað að skylt kunni að vera að bregðast við slík­um erind­um, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og óskráða leið­beiningar­reglu þess efnis að stjórn­völd­um sé skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauð­synlega aðstoð og leið­bein­ing­ar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Hins vegar er það ekki hlutverk úrskurðar­nefnd­ar um upp­lýs­inga­­mál að skera úr um rétt beiðanda til að fá svar við slíku erindi, sbr. 3. mgr. 17. gr. upp­lýs­inga­laga, sbr. og 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, eða ágrein­ing um það hvort erindinu hafi verið svarað með full­nægjandi hætti, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, enda byggja framan­greind­ar kæruheimildir á því að beð­ið hafi verið um aðgang að gögnum.
 
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir samskipti kæranda við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og önnur gögn máls­ins. Af þeim verður ráðið að kærandi óski ekki eftir aðgangi að gögnum í skilningi upp­lýsinga­laga, heldur skýringum frá stofnuninni um þýðingu og túlkun á færslum í log-skrá til­tek­ins skjals í þinglýsingarkerfi fasteignaskrár. Með vísan til framangreinds verður kærunni því vísað frá úrskurðar­nefnd um upplýsingamál. 
 

Úrskurðarorð

Kæru […], dags. 8. ágúst 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta