1226/2024. Úrskurður frá 25. nóvember 2024
Hinn 25. nóvember 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1226/2024 í máli ÚNU 23070005.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 7. júlí 2023, kærði […] ákvörðun Seðlabanka Íslands að synja honum um aðgang að samkomulagi Íslandsbanka hf. við Seðlabankann um að ljúka máli með sátt vegna brota Íslandsbanka við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bankanum, án yfirstrikana.
Kærandi óskaði eftir samkomulaginu 30. júní 2023. Með erindi Seðlabankans, dags. 7. júlí 2023, var beiðni kæranda hafnað. Að mati Seðlabankans væru þær upplýsingar sem strikað var yfir háðar þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, því þær vörðuðu viðskipti og rekstur eftirlitsskylds aðila, tengdra aðila eða annarra. Þá væru upplýsingarnar einnig háðar þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, því þær vörðuðu viðskipta- og fjárhagsmálefni viðskiptamanna Íslandsbanka. Loks var vísað til þess að óheimilt væri að afhenda upplýsingarnar samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
Í kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál ritar kærandi að þær upplýsingar sem strikað hafi verið yfir í sáttinni séu sama eðlis og upplýsingar um kaupendur á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka, sem fjármála- og efnahagsráðherra ákvað að birta í apríl 2022. Þá hafi Íslandsbanki gengist við því að stjórnendur og starfsmenn í bankanum hafi brotið lög í söluferlinu á hlutum ríkisins í bankanum í mars 2022. Ríkir hagsmunir standi til þess að almenningur fái allar upplýsingar um þetta mál.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Seðlabanka Íslands með erindi, dags. 10. júlí 2023, og bankanum gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að Seðlabankinn afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál þau gögn sem kæran varðar.
Umsögn Seðlabankans barst úrskurðarnefndinni 21. júlí 2023. Umsögninni fylgdu þau gögn sem kæran varðar. Í umsögninni kemur fram að þær upplýsingar sem strikað hafi verið yfir í sáttinni séu upplýsingar um hagi viðskiptamanna Seðlabankans, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra, og málefni bankans sem falli undir 1. mgr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Þá sé óhugsandi að líta öðruvísi svo á en að upplýsingarnar varði mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila eða einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Þá varði upplýsingarnar einnig viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna Íslandsbanka í skilningi 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
Að mati Seðlabankans breytir það engu um birtingu samkomulags Seðlabankans og Íslandsbanka að upplýsingar um kaupendur á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi verið birtar í apríl 2022. Þá séu þær upplýsingar, sem strikað hafi verið yfir, nákvæmari varðandi útboðið og bæði annars eðlis og efnis. Að auki geti það, að Íslandsbanki hafi gengist við því að lög hafi verið brotin, ekki vikið til hliðar skýrum ákvæðum um þagnarskyldu.
Umsögn Seðlabanka Íslands var kynnt kæranda með erindi, dags. 21. júlí 2023, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.
Með erindi, dags. 11. september 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir nánari skýringum frá Seðlabanka Íslands um heimfærslu yfirstrikaðra upplýsinga í samkomulaginu til þagnarskylduákvæða laga um Seðlabanka Íslands og laga um fjármálafyrirtæki. Þá óskaði nefndin eftir svari við því hvort bankinn liti svo á að þótt nöfn og heiti þeirra einstaklinga og lögaðila, sem yfirstrikaðar upplýsingar varða, kæmu ekki fram í samkomulaginu væri engu að síður unnt að bera kennsl á þá.
Svar Seðlabankans barst nefndinni 26. september 2024. Í því kemur fram að það sé mat bankans að upplýsingar, þar sem fjallað er sérstaklega um starfsmenn Íslandsbanka, viðskipti þeirra, störf eða hagi að öðru leyti, sem og málefni annarra einstaklinga sem að útboðinu komu, séu undirorpnar þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands þar sem þær varði hagi viðskiptamanna Seðlabankans, og viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra. Þá séu þær upplýsingar sem úrskurðarnefndin tiltók í erindi sínu í heild sinni undirorpnar þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 2. mgr. greinarinnar, óháð því hvort þær falli einnig undir þagnarskylduákvæði laga um Seðlabanka Íslands. Loks sé það mat bankans að unnt sé að bera kennsl á þá einstaklinga og lögaðila, sem upplýsingarnar sem strikaðar voru út fjalla um, þótt nöfn og heiti þeirra komi ekki fram í samkomulaginu.
Niðurstaða
1.
Mál þetta varðar ákvörðun Seðlabanka Íslands að synja kæranda um aðgang að samkomulagi fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Íslandsbanka hf. um að ljúka með sátt máli um meint lögbrot Íslandsbanka í tengslum við söluferli á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka. Í þeirri útgáfu samkomulagsins sem birt var á vef Seðlabanka Íslands 26. júní 2023 var strikað yfir upplýsingar sem Seðlabankinn telur að séu háðar þagnarskyldu samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands og lögum um fjármálafyrirtæki.
Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Andspænis slíkum ákvæðum eru sérstök þagnarskylduákvæði þar sem upplýsingar þær, sem þagnarskyldan tekur til, eru sérgreindar. Með gagnályktun frá 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga hefur verið á því byggt að sérstök þagnarskylduákvæði geti takmarkað rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Það fer eftir efni og orðalagi viðkomandi ákvæðis hvernig það verður skýrt og samræmt ákvæðum upplýsingalaga, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum.
Í 1. mgr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands segir eftirfarandi:
Bankaráðsmenn, seðlabankastjóri, varaseðlabankastjórar, nefndarmenn í peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Sama gildir um sérfræðinga, verktaka og aðra sem starfa fyrir eða á vegum bankans. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar að ákvæðið feli í sér sérstaka þagnarskyldu um upplýsingar um hagi viðskiptamanna bankans, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra og málefni bankans sjálfs, sem gangi framar rétti til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. til dæmis úrskurði nr. 966/2021, 1042/2021 og 1187/2024. Þá hefur verið lagt til grundvallar í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 329/2014 og 263/2015 að efnislega sambærilegt ákvæði í 1. mgr. 35. gr. þágildandi laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, hafi innihaldið sérstaka þagnarskyldu.
Í 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki segir eftirfarandi:
Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.
Úrskurðarnefndin hefur lagt til grundvallar að 1. mgr. ákvæðisins hafi að geyma sérstaka þagnarskyldu um upplýsingar um viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna fjármálafyrirtækja, sem gangi framar rétti til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. til dæmis úrskurð nr. 1180/2024. Svo sem fram kemur í 2. mgr. ákvæðisins fylgir þagnarskyldan upplýsingunum til þess sem veitir þeim viðtöku.
2.
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir þær upplýsingar sem Seðlabankinn strikaði yfir í samkomulaginu.
Það er mat nefndarinnar að upplýsingar sem bankinn hefur strikað yfir á blaðsíðum 10, 12, 15 og 17 séu upplýsingar um viðskipti og rekstur Íslandsbanka, sem eftirlitsskylds aðila Seðlabankans, í skilningi 1. mgr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands þar sem þær varða annars vegar skoðun Íslandsbanka á heimild bankans til að taka á sig uppgjörsáhættu í útboðinu og hins vegar það hvort Íslandsbanki hafi framkvæmt greiningu á hagsmunaárekstrum fyrir útboðið. Þar sem þessar upplýsingar teljast háðar sérstakri þagnarskyldu, sem gengur framar ákvæðum upplýsingalaga, verður ákvörðun Seðlabankans að synja beiðni um aðgang að framangreindum upplýsingum staðfest.
Það er einnig mat nefndarinnar að upplýsingar sem bankinn hefur strikað yfir á blaðsíðu 20, um aðila sem flokkaður var sem fagfjárfestir þegar útboðið hófst, á blaðsíðum 21 og 28, um fjárhæð tilboðs frá starfsmanni Íslandsbanka, á blaðsíðu 22, um einkahlutafélag sem gerði tilboð í útboðinu, og upplýsingar á blaðsíðum 52–71, um viðskiptavini sem Íslandsbanki flokkaði sem fagfjárfesta án þess að þeir uppfylltu skilyrði laga þess efnis að mati Seðlabankans, varða viðskiptamálefni viðskiptamanna Íslandsbanka í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Þar sem þessar upplýsingar teljast háðar sérstakri þagnarskyldu, sem gengur framar ákvæðum upplýsingalaga, verður ákvörðun Seðlabankans að synja beiðni um aðgang að framangreindum upplýsingum staðfest. Þótt ekki komi fram nöfn eða heiti þeirra viðskiptamanna sem fjallað er um telur úrskurðarnefndin að ef upplýsingar þær sem Seðlabankinn yfirstrikaði verði veittar sé ekki hægt að skjóta loku fyrir að unnt verði að bera kennsl á þá viðskiptamenn sem um ræðir, með þeim afleiðingum að brotið væri gegn þagnarskylduákvæði laga um fjármálafyrirtæki.
Upplýsingar sem bankinn hefur strikað yfir á blaðsíðum 21 og 26–28, um ákvæði í reglum Íslandsbanka um ráðstafanir vegna hagsmunaárekstra varðandi hámarksfjárhæð viðskipta starfsmanna bankans í einstökum viðskiptum innan viðskiptadags geta að mati úrskurðarnefndarinnar ekki talist þagnarskyldar með vísan til þess að reglurnar þar sem upplýsingarnar er að finna eru opinberlega aðgengilegar á vef Íslandsbanka. Verður Seðlabankanum því gert að veita kæranda aðgang að framangreindum upplýsingum.
Samkvæmt framangreindu er ljóst að þær upplýsingar sem strikað var yfir í samkomulagi því sem deilt er um aðgang að í málinu, að undanskildum framangreindum upplýsingum sem birtar hafa verið opinberlega, eru undirorpnar sérstakri þagnarskyldu samkvæmt lögum, sem gengur framar upplýsingarétti samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. Þagnarskyldan er fortakslaus og þótt hagsmunir almennings kunni að standa til þess að fá aðgang að upplýsingunum getur það ekki haft áhrif á framangreinda niðurstöðu. Með vísan til þessa telur úrskurðarnefndin ekki þörf á að taka afstöðu til frekari röksemda kæranda í málinu.
Úrskurðarorð
Seðlabankinn skal veita kæranda aðgang að samkomulagi Íslandsbanka hf. við Seðlabankann um að ljúka máli með sátt, dags. 9. júní 2023, í þeirri mynd sem birt var opinberlega á vef bankans 26. júní 2023, með þeirri breytingu að ekki skulu afmáðar upplýsingar um fjárhæð í:
- línum nr. 11 og 23 á bls. 21,
- næstneðstu línu á bls. 26,
- efstu línu á bls. 27, og
- línu nr. 9 á bls. 28.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Sigríður Árnadóttir