1227/2024. Úrskurður frá 3. desember 2024
Hinn 3. desember 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1227/2024 í máli ÚNU 23110012.
Kæra og málsatvik
Með kæru 16. nóvember 2023 kærði […] ákvarðanir Landspítala um synjun um afhendingu gagna.
Með bréfi 19. apríl 2023 til Landspítalans rakti kærandi meðal annars að […]læknar á vegum […], sem einnig störfuðu á spítalanum, virtust hafa nýtt sér aðgang að sjúkraskrám spítalans til að fletta upp sjúklingum […]. Læknarnir hefðu svo sent smáskilaboð (SMS) til sjúklinganna, sem þeir væru ekki í meðferðarsambandi við og í nafni Landspítalans, til að beina þeim í viðskipti við sjálfa sig í þeim tilgangi að hafa af því fjárhagslegan ávinning.
Í bréfinu setti kærandi fram tilteknar spurningar, meðal annars um hversu mörg skilaboð hefðu verið send út í nafni Landspítalans til sjúklinga […] þar sem þeim hefði verið vísað á […]. Jafnframt í hve mörgum tilfellum sameiginlegir starfsmenn spítalans og […] hefðu skoðað sjúkraskrár sjúklinga sem þeir væru ekki í meðferðarsambandi við í þeim tilgangi að senda þeim skilaboð. Þá óskaði kærandi eftir afhendingu log-skrár úr Heilsuveru eða öðrum haldbærum gögnum varðandi þetta atriði.
Landspítalinn svaraði bréfi kæranda 3. maí 2023 og tók meðal annars fram að spítalinn myndi taka ábendingar kæranda til frekari skoðunar í gegnum eftirlitsnefnd spítalans um rafræna sjúkraskrá og bregðast við með viðeigandi hætti kæmi í ljós að uppflettingar starfsmanna hefðu ekki samræmst lögum eða gildandi verklagsreglum.
Með tölvupósti 17. október 2023 til Landspítalans óskaði kærandi eftir efnislegum svörum við fyrrgreindum spurningum og bárust svör frá Landspítalanum með bréfi 25. sama mánaðar. Í svörum Landspítala kom meðal annars fram að málinu hefði umsvifalaust verið vísað til eftirlitsnefndar um rafræna sjúkraskrá. Jafnframt að engin smáskilaboð af því tagi sem erindi kæranda lyti að hefðu verið send út í nafni Landspítalans en ábendingu, um að skilaboðakerfi Heilsugáttar spítalans hefði verið notað í þeim tilgangi, hefði umsvifalaust verið komið í viðeigandi rannsóknarfarveg hjá spítalanum. Í niðurlagi svarsins kom fram að Landspítalinn teldi sér hvorki heimilt að veita nánari upplýsingar um ætluð brot starfsmanna spítalans né að afhenda umbeðnar log-skrár eða önnur umbeðin gögn enda innihéldu gögnin persónugreinanlegar upplýsingar sjúklinga spítalans.
Með tölvupósti 6. nóvember 2023 til Landspítalans óskaði kærandi eftir eintökum af öllum smáskilaboðum sem hefðu verið send úr skilaboðakerfi spítalans án persónuupplýsinga. Landspítalinn hafnaði beiðninni með tölvupósti 13. sama mánaðar með vísan til fyrra svars spítalans.
[…]
Málsmeðferð
1.
Kæran var kynnt Landspítalanum með erindi 19. nóvember 2023 og var spítalanum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að Landspítalinn léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. Umsögn Landspítalans barst úrskurðarnefndinni 6. desember 2023. Henni fylgdi eitt skjal sem spítalinn taldi að kæran lyti að, en þar var nánar tiltekið um að ræða excel skjal með samanteknum upplýsingum […].
Í umsögninni kemur fram að upplýsingamiðlun um málefni sjúklinga til þriðja aðila sé óheimil nema á grundvelli samþykkis sjúklinga eða lagaheimildar. Sé það í samræmi við þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna sem kveðið sé á um í lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997 og lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009. Umbeðin gögn tilheyri sjúkraskrám og innihaldi persónugreinanlegar upplýsingar um sjúklinga spítalans. Slíkar upplýsingar falli ekki undir upplýsingalög og sé því rétt að nefndin vísi kærunni frá, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 1131/2023. Jafnframt sé áréttað að til þess að unnt sé að afhenda afrit af öllum smáskilaboðum, sem send hafi verið á tilteknu tímabili, þurfi að afmá allar persónugreinanlegar upplýsingar sem þar komi fram og myndi það fela í sér vinnu við að útbúa nýtt skjal í skilningi upplýsingalaga en í 1. mgr. 5. gr. laganna komi fram að ekki sé skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn til að veita aðgang að.
Umsögn Landspítalans var kynnt kæranda 7. desember 2023 og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum sem og hann gerði 20. sama mánaðar. Í athugasemdum kæranda var sjónarmiðum Landspítalans mótmælt og þess einnig óskað að úrskurðarnefndin beindi fyrirspurn til Landspítalans um hvort til staðar væru önnur gögn um uppflettingar hjá spítalanum og hver væri afstaða hans til afhendingar slíkra gagna.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kynnti athugasemdir kæranda fyrir Landspítalanum með tölvupósti 3. janúar 2024 og fór þess á leit að spítalinn tæki afstöðu til athugasemdanna og sérstaklega þess hluta þeirra sem varðaði önnur gögn sem kynnu að liggja fyrir hjá spítalanum og heyrðu undir beiðni kæranda. Landspítalinn kom á framfæri frekari athugasemdum 9. sama mánaðar og kom þar meðal annars fram að engin önnur gögn væru til staðar en þau sem Landspítalinn hefði afhent úrskurðarnefndinni með umsögn sinni.
2.
Í tölvupósti kæranda til úrskurðarnefndarinnar 11. janúar 2024 tók hann fram að samkvæmt upplýsingum frá Persónuvernd hefðu umbeðnar upplýsingar, um fjölda uppflettinga í sjúkraskrá og smáskilaboða, komið fram í bréfi 2. september 2023 frá Landspítalanum til Persónuverndar. Óskaði kærandi eftir aðgangi að bréfinu.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi samdægurs fyrirspurn til Landspítalans og óskaði eftir upplýsingum um hvort umrætt gagn lægi fyrir hjá spítalanum og hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að afhenda kæranda gagnið. Landspítalinn svaraði fyrirspurninni 17. janúar 2024. Í svarinu kom meðal annars fram að Landspítalinn teldi ekkert því til fyrirstöðu að veita aðgang að svari spítalans til Persónuverndar. Á hinn bóginn teldi spítalinn rétt að takmarka aðgang að hluta gagnsins á grundvelli 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga þar sem um væri að ræða upplýsingar sem lytu að agamálum innan spítalans og málefnum starfsmanna.
Landspítalinn afhenti kæranda fyrrgreint bréf og fylgiskjöl þess með tölvupósti 19. janúar 2024 þó með þeim hætti að tilteknar upplýsingar höfðu þar verið afmáðar. Tveimur dögum síðar sendi kærandi tölvupóst til úrskurðarnefndarinnar og krafðist þess að trúnaði yrði aflétt af umræddu gagni enda hefðu allar upplýsingar sem gætu haft þýðingu fyrir hann verið afmáðar. Þá kom fram í tölvupóstinum að kærandi teldi að umbeðnar upplýsingar kæmu fram í áliti eftirlitsnefndar um rafræna sjúkraskrá sem nefndin hefði skilað til Landspítalans.
3.
Með tölvupósti 11. janúar 2024 til úrskurðarnefndar um upplýsingamál tók kærandi fram að Landspítalinn hefði að öllum líkindum einnig sent bréf til embætti landlæknis þar sem umkrafðar upplýsingar kæmu fram. Með tölvupósti 17. sama mánaðar óskaði úrskurðarnefndin eftir að Landspítalinn tæki afstöðu til þessa atriðis sem og spítalinn gerði með tölvupósti 9. febrúar 2024.
Í tölvupóstinum hafnaði Landspítalinn beiðni um afhendingu gagna sem spítalinn hefði sent til embættis landlæknis og rakti að gögnin hefðu verið afhent á grundvelli lögbundins eftirlitshlutverks embættisins, sbr. 1. mgr. 7. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Gögnin teldust vinnugögn í skilningi upplýsingalaga og hefðu verið afhent á grundvelli lagaskyldu samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 41/2007. Einnig tók Landspítalinn fram að umrædd gögn vörðuðu málefni starfsmanna Landspítalans sem almenningur hefði ekki rétt til aðgangs að samkvæmt 1. málsl. 1 mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Með tölvupósti 15. febrúar 2024 afhenti Landspítalinn úrskurðarnefnd um upplýsingamál bréf eftirlitsnefndar um rafræna sjúkraskrá til embættis landlæknis, dags. 31. ágúst 2023.
Framangreind afstaða Landspítala var kynnt kæranda með tölvupósti 12. febrúar 2024 og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sem og hann gerði 20. sama mánaðar. Í athugasemdum kæranda kom fram að bréfið gæti ekki fallið undir 7. gr. upplýsingalaga enda varðaði það ekki starfssamband Landspítalans og læknanna heldur stjórnsýslumál embættis landlæknis. Af sömu ástæðum gæti bréfið ekki fallið undir 8. gr. upplýsingalaga enda væri það hvorki ætlað til eigin nota Landspítalans né til undirbúnings eigin ákvörðunar hans. Þá hefði bréfið ekki verið útbúið vegna annarra lykta máls í skilningi 8. gr. og jafnframt verið afhent embætti landlæknis sem þriðja aðila.
Með erindi 28. febrúar 2024 til Landspítala óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir upplýsingum um hvaða gögn hefðu verið afhent embætti landlæknis. Þá óskaði nefndin eftir upplýsingum um hvort að tiltekið skjal, þ.e. álitsgerð eftirlitsnefndar um rafræna sjúkraskrá, væri til og ef svo væri óskaði nefndin eftir afriti af skjalinu. Landspítalinn svaraði erindinu 11. mars 2024 og tók fram að eina skjalið sem hefði verið afhent embætti landlæknis hefði verið niðurstaða eftirlitsnefndar um rafræna sjúkraskrá. Þá tók Landspítalinn fram að niðurstaðan hefði alfarið snúið að starfsmannamáli þar sem nefndin sinnti innri endurskoðun fyrir spítalann í samræmi við 1. mgr. 22. gr. laga nr. 55/2009. Loks áréttaði Landspítalinn afstöðu sína um að bréfið félli undir 7. og 8. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðarnefndin kynnti kæranda svar Landspítalans og kom kærandi á framfæri athugasemdum með tölvupósti 12. mars 2024. Í athugasemdum kæranda var rakið og rökstutt að álitsgerð eftirlitsnefndarinnar gæti hvorki fallið undir 7. né 8. gr. upplýsingalaga. Í samhengi við 7. gr. tiltók kærandi meðal annars að eftirlitsnefndin kæmi ekki sjálf að áminningu eða uppsögn starfsmanns. Þá mætti ráða af umsögn Landspítalans að álitsgerðin hefði verið nýtt í öðrum tilgangi en bara til að ráða úr málefnum tengdum vinnuréttasambandi starfsmanns og Landspítala. Jafnframt hefði kærandi engan áhuga á upplýsingum um vinnuréttarsamband Landspítalans og starfsmanns og það mætti því afmá slíkar upplýsingar úr bréfinu, svo lengi sem umkrafðar upplýsingar kæmu þar fram. Að því gefnu að fallist væri á að skjalið varðaði starfsmannamál Landspítalans krefðist kærandi þess til vara að álitsgerðin yrði einungis afhent að því leyti sem hún varpaði ljósi á umfang brota málsins, þ.e. fjölda skoðana á sjúkraskrám utan meðferðarferðarsambands og fjölda smáskilaboða úr skilaboðakerfi Landspítala á því tímabili sem tilgreint væri í kröfugerð en afmáð yrði út öll umfjöllun um starfsmannamál úr bréfinu.
Með erindi 21. október 2024 til Landspítalans óskaði úrskurðarnefndin eftir afriti af erindisbréfi eftirlitsnefndar um rafræna sjúkraskrá sem og hugsanlegum öðrum gögnum sem kynnu að varpa nánara ljósi á störf nefndarinnar. Landspítalinn svaraði erindinu 1. nóvember 2024 og afhenti nefndinni meðal annars afrit af erindisbréfi nefndarinnar og verklagsreglum hennar.
Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við meðferð þess.
Niðurstaða
1.
Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að gögnum um uppflettingar tiltekinna starfsmanna Landspítalans í sjúkraskrám sjúklinga og smáskilaboðum sem send voru til sjúklinga í kjölfar umræddra uppflettinga.
Rannsókn málsins og samskipti úrskurðarnefndarinnar við Landspítalann hafa leitt í ljós að þrjú tilgreind gögn spítalans falla undir beiðni kæranda, sem honum hefur verið hafnað um aðgang að í heild eða að hluta. Í fyrsta lagi excel skjal með upplýsingum […]. Skjalið er ódagsett en var afhent úrskurðarnefndinni um leið og hún fékk í hendur upphaflega umsögn spítalans í kærumáli þessu þann 6. desember 2023. Í öðru lagi bréf Landspítalans til Persónuverndar, dags. 2. september 2023 vegna ábendinga um ætlaðan óheimilan aðgang að sjúkraskrám. Afrit bréfsins fylgdi tölvupósti Landspítalans til úrskurðarnefndarinnar þann 17. janúar 2024. Fyrir liggur að kæranda hefur verið synjað um hluta af þessu skjali. Í þriðja lagi bréf Landspítala til embættis landlæknis, dags. 31. ágúst 2023, um meintar óheimilar uppflettingar í sjúkraskrá. Nánar tiltekið er það bréf sent embætti landlæknis af formanni eftirlitsnefndar um rafræna sjúkraskrá, fyrir hönd nefndarinnar, en um er að ræða nefnd sem starfar innan Landspítala. Afrit af þessu bréfi fylgdi tölvupósti Landspítala til úrskurðarnefndarinnar þann 15. febrúar 2024. Öll umrædd gögn hafa að geyma upplýsingar sem falla undir beiðni kæranda. Af þeim má ráða að þau hafi verið orðin til áður en kærandi lagði fram beiðnir um aðgang að gögnum hjá Landspítala 17. október og 6. nóvember 2023.
Að þessu og öðru framangreindu gættu lýtur ágreiningur málsins að því hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að (1) excel skjali sem Landspítalinn afhenti nefndinni með umsögn sinni 6. desember 2023, (2) bréfi sem Landspítali sendi Persónuvernd, dags. 2. september 2023, án yfirstrikana og (3) bréfi sem Landspítali sendi embætti landlæknis, dags. 31. ágúst 2023.
2.
Kærandi reisir rétt til aðgangs að umbeðnum gögnum á 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga en þar segir að sé þess óskað sé skylt að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan.
[…] Þá hafa gögnin hvorki að geyma upplýsingar um kæranda sjálfan í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga né verður af öðrum ástæðum talið að þær varði beina og fyrirliggjandi lögvarða hagsmuni hans með þeim hætti að þær verði felldar undir það lagaákvæði. Af því leiðir að hér verður lagt til grundvallar að aðeins komi til álita hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að gögnum með þeim upplýsingum sem hann hefur óskað aðgangs að á grundvelli 5. gr. laganna, sem kveður á um rétt almennings til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum.
3.
Fyrst verður leyst úr rétti kæranda til aðgangs að því skjali sem Landspítalinn afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál með umsögn sinni, 6. desember 2023. Umrætt skjal, sem er á excel-formi, er þrískipt (skjalið skiptist í þrjá svonefnda flipa). […]
Í umsögn Landspítalans kemur fram að upplýsingar sem skjalið hefur að geyma tilheyri sjúkraskrám og innihaldi persónugreinanlegar upplýsingar um sjúklinga spítalans. Að mati Landspítalans falli slíkar upplýsingar úr sjúkraskrá ekki undir upplýsingalög og telji spítalinn því rétt að vísa kærunni frá.
Af þessu tilefni skal tekið fram að lög nr. 55/2009 um sjúkraskrár ber almennt að skoða sem sérlög gagnvart almennari ákvæðum upplýsingalaga að því leyti sem þar eru lögfest ákvæði um rétt tiltekinna aðila til aðgangs að sjúkraskrám. Á hinn bóginn verður almennt að leggja til grundvallar að um rétt annarra aðgangs að upplýsingum úr sjúkraskrá fari samkvæmt almennum ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012 og laga um opinber skjalasöfn, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 960/2020. Í samræmi við þetta verður að leggja til grundvallar að kæru málsins, hvað varðar aðgang að umræddu skjali, sé réttilega beint til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og þarf í þeim efnum ekki að taka afstöðu til þess hvort umbeðnar upplýsingar teljist til sjúkraskrárupplýsinga í skilningi 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 55/2009.
Synjun Landspítalans á að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum hefur spítalinn ekki aðeins byggt á því að um sé að ræða aðgang að sjúkraskrá sem ekki heyri undir úrskurðarnefndina, heldur einnig á því að um sé að ræða „persónugreinanlegar upplýsingar sjúklinga spítalans“, sbr. svör spítalans við erindi kæranda dags. 25. október 2023, og að þær falli undir ákvæði laga um þagnarskyldu, sbr. umsögn spítalans til úrskurðarnefndarinnar í málinu dags. 6. desember 2023.
Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að í öðrum og þriðja flipa skjalsins („samantekt í pivot“ og „Export Worksheet“) eru tilgreind nöfn og kennitölur sjúklinga […] Upplýsingar í þessum tveimur flipum eru að umtalsverðu leyti upplýsingar sem almennt teljast háðar takmörkun 9. gr. upplýsingalaga, en samkvæmt 1. málsl. ákvæðisins er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Undir slíkar upplýsingar falla m.a. upplýsingar um heilsuhagi einstaklinga, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 1131/2023. Aðrar upplýsingar í excel skjalinu tengjast hins vegar ekki einstökum sjúklingum. […] Af því leiðir að synjun um aðgang að umræddu excel skjali varð hvorki með réttu byggð á því að um væri að ræða upplýsingar úr sjúkraskrám sjúklinga við spítalann sem falli undir lög nr. 55/2009 né því einvörðungu að um væri að ræða upplýsingar um málefni sjúklinga sem lúti þagnarskyldu vegna hagsmuna þeirra. Landspítalinn hefur samt sem áður einvörðungu byggt synjun sína um aðgang að umræddu skjali á slíkum röksemdum. Verður samkvæmt því að telja að synjun Landspítalans á aðgangi að excel skjalinu hafi ekki verið reist á réttum lagagrundvelli.
Á grundvelli upplýsingalaga bar Landspítalanum að taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að umbeðnu skjali með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna. Í þessu samhengi þykir rétt að benda á að ekki verður fallist á með Landspítalanum að lokamálsliður 1. mgr. 5. gr. standi því í vegi að spítalinn afmái persónuupplýsingar í skjalinu enda segir í ákvæðinu að ekki sé skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkara mæli en leiðir af 3. mgr. ákvæðisins. Ákvæði 1. mgr. 5. gr. hefur þannig ekki áhrif á skyldu aðila sem fellur undir upplýsingalög til að veita aðgang að hluta gagns samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins, svo sem með því að strika yfir þær upplýsingar í gagni sem falla undir takmörkunarákvæði 6.-10. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál bendir á að meginmarkmiðið með kæruheimild til nefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða sé það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að vísa málinu heim til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild.
Samkvæmt framangreindu telur nefndin rétt að fella úr gildi synjun Landspítalans um aðgang að umræddu excel skjali og leggja fyrir spítalann að taka beiðnir kæranda um aðgang að því til nýrrar meðferðar, þar sem tekið verði tillit til framangreindra sjónarmiða.
4.
Kemur næst til skoðunar hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að bréfi Landspítalans til Persónuverndar 2. september 2023. Svo sem fyrr greinir afhenti Landspítalinn kæranda bréfið með yfirstrikunum.
Synjun Landspítalans á aðgangi að hinum yfirstrikuðu upplýsingum byggist á 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga en þar segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til samkvæmt 2. gr. taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Landspítalinn hefur nánar tiltekið byggt á því að umrædd gögn geymi upplýsingar sem lúti að eða tengist agamálum innan spítalans, sem ætla verður að tengist þeim tilteknu starfsmönnum sem fjallað er um í gögnunum.
Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum segir:
Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti […] er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar að gögn í málum sem varða beitingu stjórnsýsluviðurlaga að starfsmannarétti, svo sem ákvörðun um áminningu, varði starfssambandið að öðru leyti í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 1175/2024. Rétt þykir að nefna að hlutaðeigandi starfsmenn teljast ekki til æðstu stjórnenda og kemur 3. mgr. 7. gr. upplýsingalaga því ekki til skoðunar í málinu.
Bréf Landspítala til Persónuverndar, dags. 2. september 2023, er ritað af hálfu Landspítalans vegna athugunar Persónuverndar á notkun upplýsinga úr sjúkraskrá á Landspítala. Um athugun Persónuverndar fer eftir lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. einnig 4. mgr. 22. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrá. Bréf Landspítalans til Persónuverndar er þar með ritað vegna máls sem er til meðferðar hjá Persónuvernd að lögum en ekki sem þáttur í meðferð tiltekins máls sem lýtur að stöðu starfsmanns hjá spítalanum eða tengist starfssambandi spítalans og starfsmannsins. Af þeirri ástæðu verður ekki talið að umrætt bréf sé gagn í tilteknu máli sem varðar starfssamband spítalans og tiltekins eða tiltekinna starfsmanna, í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsinglaga þótt í því komi að hluta fram upplýsingar sem mögulega séu eða hafi einnig verið til skoðunar í slíku máli eða komi úr gögnum slíks máls.
Af þessu leiðir að synjun um aðgang að þeim upplýsingum sem strikað var yfir í bréfi Landspítala til Persónuverndar varð ekki með réttu byggð á 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Synjun spítalans á að veita kæranda aðgang að þeim upplýsingum var því ekki reist á réttum lagagrundvelli. Telur úrskurðarnefndin með vísan til þessa rétt að fella úr gildi synjun Landspítalans um aðgang að þeim upplýsingum og leggja fyrir spítalann að taka beiðnir kæranda um aðgang að þeim til nýrrar meðferðar þar sem tekið verði tillit til framangreindra sjónarmiða.
5.
Að lokum þarf í úrskurði þessum að taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að bréfi Landspítalans til embættis landlæknis, dags. 31. ágúst 2023, en sem fyrr greinir stafaði umrætt bréf frá nefnd innan spítalans um eftirlit með rafrænni sjúkraskrá.
Synjun Landspítalans á að veita kæranda aðgang að þessu gagni byggðist á 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga líkt og við á um gagnið sem fjallað var um næst að framan. Nánar tiltekið hefur Landspítalinn vísað til þess að bréfið geymi upplýsingar sem lúti að eða tengist agamálum innan spítalans.
Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár skulu ábyrgðar- og umsjónaraðilar sjúkraskráa hafa virkt eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Í reglugerð 505/2015 segir einnig að af hálfu umsjónaraðila sjúkraskráa skuli hafa reglubundið eftirlit með því að aðgangur að sjúkraskrá sé lögum samkvæmt og þá skuli settar verklagsreglur í því skyni sem að lágmarki uppfylli fyrirmæli landlæknis um öryggi og gæði sjúkraskráa.
Við meðferð þessa máls afhenti Landspítalinn úrskurðarnefndinni afrit af erindisbréfi og verklagsreglum eftirlitsnefndar spítalans um rafræna sjúkraskrá. Í erindisbréfi nefndarinnar kemur meðal annars fram að hún sé skipuð af framkvæmdastjóra lækninga og starfi í umboði hans. Landspítali sé ábyrgðar- og umsjónaraðili þess sjúkraskrárkerfis sem starfsmenn stofnunarinnar færi sjúkraskrárupplýsingar og beri að hafa virkt eftirlit með því að ákvæðum sjúkraskrárlaga sé framfylgt, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 55/2009. Framkvæmdastjóri lækninga feli nefndinni að rannsaka mál og komast í niðurstöðu í þeim. Telji nefndin að starfsmaður hafi gerst brotlegur gegn ákvæðum sjúkraskrárlaga skuli hún vísa málinu til framkvæmdastjóra lækninga til endanlegrar ákvörðunar sem þá tryggir málsmeðferð í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2009, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og starfsreglur nefndarinnar. Í verklagsreglum eftirlitsnefndarinnar er meðal annars mælt fyrir um málsmeðferð komist nefndin að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn ákvæðum sjúkraskrárlaga og framkvæmdastjóri lækninga staðfestir þá niðurstöðu. Í þeim tilvikum ber starfsmanni nefndarinnar meðal annars að senda erindi, þar sem tilkynnt er um niðurstöðu, til embættis landlæknis auk forstöðumanns framkvæmdastjóra og næsta yfirmanns starfsmanns til stjórnsýslulegrar úrvinnslu þar sem um alvarlegt brot gegn trúnaðarskyldu geti verið að ræða sem geti orðið tilefni til áminningar.
Af framangreindu verður ráðið að eftirlitsnefnd um rafræna sjúkraskrá sé hluti af fyrirkomulagi sem Landspítalinn hefur komið á fót til að tryggja virkt eftirlit í tengslum við aðgengi starfsmanna að sjúkraskrám. Þá verður jafnframt ráðið að rannsókn og niðurstaða eftirlitsnefndarinnar geti verið undanfari þess að starfsmaður sé áminntur eftir fyrirmælum 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Það bréf sem hér um ræðir, dags. 31. ágúst 2023, um meintar óheimilar uppflettingar í sjúkraskrár, sem var sent embætti landlæknis af formanni eftirlitsnefndar um rafræna sjúkraskrá, […]. Til þess er hins vegar einnig að líta að efni bréfsins ber með sér að framkvæmdastjóri lækninga við Landspítalann hafði líka vísað málinu til rannsóknar og efnislegrar meðferðar hjá nefndinni. Skýringar Landspítala til úrskurðarnefndarinnar undir meðferð þessa máls ber síðan að skilja þannig að umrætt bréf, 31. ágúst 2023, hafi bæði falið í sér þær niðurstöður sem eftirlitsnefnd um rafræna sjúkraskrá við Landspítalann hafi látið stjórnendum við þá stofnun í té, […], og svör spítalans til landlæknis vegna athugunar hans. Þetta fær út af fyrir sig ágætlega samræmst því erindisbréfi og verklagsreglum Landspítalans sem vísað var til hér að ofan.
Í umræddu bréfi er m.a. að finna almennar upplýsingar um hlutverk og verklag nefndarinnar auk þess sem þar er gerð ítarleg grein fyrir forsögu málsins og rannsókn, málsmeðferð og niðurstöðu nefndarinnar […]. Loks er í niðurlagi bréfsins að finna samandregin svör við tilteknum spurningum frá embætti landlæknis. Þótt bréfið sé sent Landlækni samkvæmt framangreindu telur úrskurðarnefndin einnig að nægjanlega sé leitt í ljós að bréfið telst einnig tilgreindur hluti máls sem varðar rannsókn Landspítalans sjálfs á ætluðum brotum […]. Að þessu og öðru framangreindu gættu verður að leggja til grundvallar að um sé að ræða gagn í máli sem varða starfssamband umræddra starfsmanna við Landspítalann að öðru leyti í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Verður því að staðfest ákvörðun Landspítalans hvað varðar synjun á aðgangi kæranda að umræddu bréfi eftirlitsnefndarinnar til embættis landlæknis, dags. 31. ágúst 2023.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál þykir rétt að benda á að með framangreindu er ekki tekin afstaða til þess hvort kærandi kunni að eiga rétt til aðgangs að þeim upplýsingum sem fram koma í því skjali sem Landspítalinn afhenti úrskurðarnefndinni með umsögn sinni.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Landspítalans, dags. 25. október 2023 og 13. nóvember 2023, um að synja beiðnum kæranda, […], um aðgang að gögnum eru felldar úr gildi og lagt fyrir spítalann að taka beiðnirnar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu, að því undanskildu að staðfest er ákvörðun Landspítalans að synja kæranda um aðgang að bréfi eftirlitsnefndar um rafræna sjúkraskrá til embættis landlæknis, dags. 31. ágúst 2023.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir