Hoppa yfir valmynd

1230/2024. Úrskurður frá 3. desember 2024

Hinn 3. desember 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1230/2024 í máli ÚNU 24080011.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 7. ágúst 2024, kærði […] til úrskurðarnefndar um upp­lýs­ingamál töf sem orðið hefði á afgreiðslu erindis hans til Sýslumannsins á Vestfjörðum. Kærandi beindi erindi til embættisins 4. ágúst 2022 og ítrekaði það 21. júní árið eftir. Erindið hljóðaði svo:
 

Ég óska eftir að fá skriflega og ítarlega útskýringu á því hvers vegna afsali (sic.) frá 1920 […] er skráð sem eignayfirlýsing í þinglýsingarhluta fasteignaskrár á fasteign mína […]. Til hverra er þessi yfirlýsing o.s.frv. skv. lögum nr. 39/1978 og reglu­gerð 405/2008.

 
Í kæru er rakið að í lok júlí 2022 hafi rúmlega 100 ára gömlu afriti úr afsals- og veðmálabók Sýslu­mannsins á Ísafirði verið þinglýst á fasteign kæranda sem eignarheimild manns sem þá hafi verið látinn í hartnær 70 ár. Kærandi hefði frétt af þessari ákvörðun embættisins fyrir tilviljun og í kjölfarið óskað upplýsinga um hana. Kærandi hefði enn ekki fengið fullnægjandi svör við erindi sínu frá 4. ágúst 2022.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Sýslumanninum á Vestfjörðum með erindi, dags. 13. ágúst 2024. Í erindi úrskurð­arnefndarinnar var skorað á embættið að afgreiða erindi kæranda, en ellegar afhenda nefndinni þau gögn sem kæran lýtur að ásamt umsögn embættisins um málið.
 
Viðbrögð Sýslumannsins á Vestfjörðum bárust úrskurðarnefndinni 22. ágúst 2024. Í erindi emb­ætt­isins kemur fram að kærandi hafi átt í töluverðum samskiptum við embættið. Vilji kæranda standi til að það skjal sem óskað er upplýsinga um í málinu verði afmáð úr þinglýsingabók. Á tveim­ur fund­um kæranda með embættinu hafi þeirri spurningu sem birtist í tölvupósti kæranda 4. ágúst 2022 verið svarað.
 
Erindi Sýslumannsins á Vestfjörðum til úrskurðarnefndarinnar fylgdu ýmis gögn. Meðal þeirra eru í fyrsta lagi erindi embætt­isins til kæranda, dags. 29. júlí 2022, þar sem kröfu um afmáningu skjals úr þinglýsingabók er hafnað. Í öðru lagi eru samskipti frá lokum desember 2023 varðandi fyrir­spurn kæranda frá 4. ágúst 2022, þar sem kæranda er bent á að embættið geti ekki úrskurðað um eign­arhald á fasteignum og að hann geti höfðað eignardómsmál til að fá skorið úr því. Í þriðja lagi eru samskipti kæranda við embættið frá maí 2024, þar sem óskað er eftir upplýsingum úr dagbók þing­lýsinga. Í fjórða lagi er beiðni kæranda um nýja ákvörðun embættisins um kröfu kær­anda um afmáningu skjals úr þinglýsingabók.
 

Niðurstaða

Í málinu hefur kærandi óskað eftir upplýsingum frá Sýslumanninum á Vestfjörðum um hvers vegna tiltekið afsal sé skráð sem eignayfirlýsing í þinglýsingarhluta fasteignaskrár á fasteign hans. Af hálfu sýslumannsembættisins hefur komið fram að vilji kæranda standi til að afsalið verði af­máð úr þinglýsingabók. Þau gögn sem liggja fyrir í málinu benda ekki til annars en að sú staðhæf­ing sé rétt.
 
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, gilda lögin ekki um þinglýsingu, aðfarar­gerð­ir, kyrrsetningu, löggeymslu, lögbann, nauðungarsölu, greiðslustöðvun, nauðasamn­inga, gjald­þrotaskipti, skipti á dánarbúum eða önnur opinber skipti, né heldur um rannsókn saka­máls eða saksókn. Í athugasemdum við 4. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsinga­lög­um, nr. 140/2012, kemur fram að ákvæðið vísi til þeirra starfa sýslumanna og sérstakra sýslunar­manna, þar á meðal skiptastjóra, sem töldust til dómstarfa fram til 1. júlí 1992. Í réttar­fars­lög­gjöf­inni sé ráð fyrir því gert að ágreiningsefni um þessi málefni verði borin beint undir dómstóla og sé því eðlilegt að umrædd störf falli utan við gildissvið laganna.
 
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir gögn málsins og er það mat nefndarinnar að samskipti kæranda við sýslumannsembættið séu hluti af máli sem varðar þinglýsingu. Með vísan til þess hvernig gild­issvið upplýsingalaga er afmarkað samkvæmt framangreindu telur úrskurðarnefndin því að rétt sé að vísa kæru í máli þessu frá nefndinni.
 

Úrskurðarorð

Kæru […], dags. 7. ágúst 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta