Hoppa yfir valmynd

1231/2024. Úrskurður frá 3. desember 2024

Hinn 3. desember 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1231/2024 í máli ÚNU 24100007.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 8. október 2024, kærði […] synjun ríkissaksóknara á beiðni um aðgang að gögnum.
 
Í erindi sínu til ríkissaksóknara, dags. 22. júlí 2024, vísaði kærandi til þess að samkvæmt tölfræði á vef lögreglunnar hefðu árlega að meðaltali borist 175 kærur vegna nauðg­un­ar árin 2011 til 2021. Frá lögreglunni hefði kærandi fengið þær upplýsingar að um 100 þeirra hefðu verið sendar ríkissaksóknara til ákvörðunar um ákæru. Kærandi óskaði eftir svörum við því hve margar kærur hefðu leitt til málshöfðunar, hve margar hefðu leitt til dómsuppkvaðning­ar, hve marg­ar hefðu leitt til jákvæðrar niðurstöðu fyrir viðkomandi kæranda og hvort merki sæjust um breytingar allra síðustu ár.
 
Ríkissaksóknari svaraði erindi kæranda 5. september 2024. Í svarinu kom fram að þar sem það væri mjög mikil vinna að taka saman þær upplýsingar sem kærandi hefði óskað eftir væri ekki hægt að svara fyrir­spurn hans.
 
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kom fram að kærandi ætlaði að nota þær upplýsingar sem hann óskaði eftir í grein eða umfjöllun um þær. Upplýsingarnar ættu erindi við alla landsmenn sem og starfsmenn ríkissaksóknara. Þar sem dómsmál næðu oft yfir einhver ár áður en þeim lyki endanlega væri best að fá yfirlit yfir allmörg ár til þess að fá góða heildarmynd af málefninu.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt ríkissaksóknara með erindi, dags. 14. október 2024, og embættinu gefinn kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að ríkissaksóknari afhenti úrskurðar­nefnd um upp­lýs­inga­mál þau gögn sem kær­an varðar.
 
Umsögn ríkissaksóknara barst úrskurðarnefndinni 8. nóvember 2024. Í umsögn­inni kom fram að hjá ríkissaksóknara lægju ekki fyrir gagn eða gögn þar sem teknar væru saman upplýsingar um hve marg­ar kærur í nauðgunarmálum, þ.e. vegna brota gegn ákvæðum 194. gr. almennra hegningar­laga, nr. 19/1940, á árunum 2011–2021, hefðu leitt til útgáfu ákæru eða um hverjar dómsniðurstöður hefðu verið í þeim málum þar sem ákæra var gefin út.
 
Ríkissaksóknari hefði aðgang að málaskrárkerfi lögreglu og ákæruvalds og gæti tekið saman um­beðn­ar upplýsingar með skoðun á upplýsingum og gögnum sem vistuð væru í því kerfi. Þær upp­lýs­ing­ar væri hins vegar ekki hægt að kalla fram í kerfinu með einfaldri leit heldur krefðist það yfirferðar og vinnslu á gögnum í kerfinu, þar á meðal uppflettinga og greininga á skjölum þeirra mála sem beiðni kæranda lyti að, sem skiptu tugum hvert ár.
 
Ríkissaksóknari liti svo á að upplýsingar og gögn vistuð í málaskrárkerfinu vegna rannsókna á brot­um gegn 194. gr. almennra hegningarlaga vörðuðu rannsókn sakamáls eða saksókn í skilningi 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Ákvæði upplýsingalaga ættu því ekki við um slíkar upp­lýsingar og gögn. Samandregið teldi ríkissaksóknari hvorki að fyrir væri að fara rétti kæranda til af­hend­ingar á umbeðnum upplýsingum né að embættinu skyldi gert að útbúa gagn með þeim.
 
Umsögn ríkissaksóknara var kynnt kæranda með erindi, dags. 12. nóvember 2024, og honum gefinn kostur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda til ríkissaksóknara um tölfræðiupplýsingar um kærur til lögreglu. Ríkis­saksóknari kveður að hjá embættinu liggi ekki fyrir gagn eða gögn með þeim upplýsingum sem kærandi óskaði eftir og að embættinu sé ekki skylt að útbúa slíkt gagn.
 
Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er mælt fyrir um að upplýsingaréttur almennings nái til fyrirliggjandi gagna sem varða tiltekið mál og tiltekinna fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að ef ákvæði 6.–10. gr. laganna eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Í athugasemdum við 5. gr. í greinargerð með frum­varpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að skilyrði þess að gagn sé undirorpið upplýsingarétti sé að það liggi fyrir hjá þeim sem fær beiðni um aðgang til afgreiðslu. Þá segir enn fremur að réttur til aðgangs að gögnum nái þannig aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma.
 
Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga í efa fullyrðingu ríkissaksóknara að gagn með þeim upplýsingum sem kærandi óskaði eftir liggi ekki fyrir í vörslu embættisins. Þá telur nefndin að með hliðsjón af kæru til úrskurðarnefndarinnar, þar sem kærandi kvaðst vilja fá afhent yfirlit til að fá heildarmynd af málefninu, hafi beiðni kæranda til ríkissaksóknara ekki falið í sér ósk um að­gang að gögnum sem innihalda umbeðnar upplýsing­ar til að hann gæti sjálfur tekið saman svör við spurningum sínum. Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara er ekki hægt að kalla fram svör við spurningum kæranda með einföldum aðgerðum í málaskrárkerfi lögreglu og ákæruvalds, heldur þyrfti að fara ítarlega yfir og greina fjölda mála yfir mörg ár. Að framangreindu virtu og með vísan til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga telur úrskurðarnefndin að ríkissaksóknara sé ekki skylt að verða við beiðni kæranda.
 
Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að umbeðið gagn eða gögn séu ekki fyrir­liggj­andi hjá ríkis­saksóknara í skilningi upplýsingalaga. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýs­inga­laga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Því ligg­ur ekki fyrir synjun beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýs­inga­laga og verður því staðfest hin kærða ákvörðun ríkissaksóknara.
 
 

Úrskurðarorð

Ákvörðun ríkissaksóknara, dags. 5. september 2024, að synja beiðni […], er staðfest.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta