1232/2024. Úrskurður frá 3. desember 2024
Hinn 3. desember 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1232/2024 í máli ÚNU 24100018.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindi, dags. 29. október 2024, kærði […], fréttamaður á Ríkisútvarpinu, ófullnægjandi afgreiðslu dómsmálaráðuneytis á beiðni hans um gögn. Með erindi, dags. 24. september 2024, lagði kærandi fram eftirfarandi beiðni:
Fréttastofa óskar eftir að fá afhent öll gögn; samskipti, álitsgerðir og minnisblöð, sem lágu til grundvallar þeirri ákvörðun dómsmálaráðherra að fresta brottvísun […] fyrr í þessum mánuði.
Kæranda barst svar frá ráðuneytinu 8. október 2024. Í svarinu kom fram að ekki lægju fyrir álitsgerðir eða minnisblöð í málinu. Meðfylgjandi svarinu væru hins vegar skráð samskipti milli dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra, sem legið hefðu til grundvallar ákvörðun um að fresta framkvæmd brottflutnings 16. september 2024.
Með erindi til ráðuneytisins, dags. 18. október 2024, vísaði kærandi til þess að í Heimildinni, sem kom út þann sama dag, væri fjallað um tölvupóst sem ríkislögreglustjóri hefði sent 16. september 2024. Sá tölvupóstur hefði ekki verið á meðal þeirra gagna sem kæranda voru afhent 8. október 2024. Kærandi óskaði eftir skýringum á því sem og aðgangi að tölvupóstinum. Svari ráðuneytisins, dags. 18. október 2024, fylgdi afrit af tölvupóstinum. Í svarinu kom fram að tölvupósturinn hefði ekki legið fyrir við ákvörðun um að fresta framkvæmd brottflutningsins. Þar sem í beiðni kæranda hefði verið óskað eftir gögnum sem lágu til grundvallar ákvörðuninni hefði ráðuneytið ekki afmarkað beiðni kæranda við tölvupóstinn, þar sem hann hafði ekki verið sendur þegar ákvörðunin var tekin.
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kveður kærandi að ráðuneytið hafi mátt vita hvaða gögnum óskað væri eftir og að beiðni kæranda hafi verið túlkuð þröngt og að með afgreiðslu sinni hafi ráðuneytið ekki sinnt þeirri leiðbeiningarskyldu sem mælt er fyrir um í 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þá telur kærandi að uppi sé álitamál um hvort ekki megi fella tölvupóst ríkislögreglustjóra undir fyrirspurn kæranda frá 24. september 2024 þar sem í honum séu upplýsingar um aðdraganda þess að brottflutningi var frestað, m.a. um símtöl þingmanns og ráðherra sem ekki höfðu áður komið fram.
Kæran var kynnt dómsmálaráðuneyti með erindi, dags. 4. nóvember 2024, og ráðuneytinu gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Umsögn ráðuneytisins barst úrskurðarnefndinni 15. nóvember 2024. Umsögnin var kynnt kæranda með erindi, dags. 18. nóvember 2024, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Kærandi brást við erindinu samdægurs og kvaðst ekki hafa frekari athugasemdir.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um afgreiðslu dómsmálaráðuneytis á beiðni kæranda um gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun dómsmálaráðherra að fresta framkvæmd brottflutnings […] og fjölskyldu hans.
Ágreiningur í málinu lýtur að því hvort ráðuneytinu hefði verið rétt að afmarka beiðni kæranda um gögn sem urðu til eftir að ákvörðun um frestunina hafði verið tekin. Úrskurðarnefndin telur að beiðni kæranda hafi verið skýr og að ráðuneytinu hafi verið rétt að ætla að óskað væri eftir gögnum sem fyrir lágu hjá ráðuneytinu þegar ákvörðun um brottvísun var tekin. Því er ekki ástæða til að gera athugasemd við þá afmörkun gagna sem ráðuneytið lagði til grundvallar í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er heimilt að bera undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum og synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Úrskurðarnefndin telur ljóst að afgreiðsla dómsmálaráðuneytis á beiðni kæranda hafi ekki falið í sér synjun beiðninnar. Þannig liggur ekki fyrir ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt framangreindu lagaákvæði. Verður kæru í málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð
Kæru […], dags. 29. október 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir