1234/2024. Úrskurður frá 19. desember 2024
Hinn 19. desember 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1234/2024 í máli ÚNU 24060006.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 11. júní 2024, kærði Ferðaskrifstofa Icelandia ehf., þá undir heitinu Ferðaskrifstofa Kynnisferða ehf., ákvörðun Isavia ohf. að synja beiðni um aðgang að dómsátt milli Isavia og Hópbíla ehf.
Í kæru kemur fram að kærandi sé hópbifreiðafyrirtæki sem bjóði áætlunarferðir milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins. Á grundvelli úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1078/2022 hafi kærandi fengið afhenta reikninga sem Isavia hafi gert Hópbílum vegna notkunar á tilteknum stæðum við flugstöðina. Þeir reikningar hafi sýnt að Hópbílar hafi greitt töluvert minna fyrir notkun á stæðunum en kveðið hafði verið á um í skilmálum sem átt hafi að gilda um þessa notkun. Kæranda hafi verið hafnað um sambærilegan afslátt af aðstöðugjöldum. Þess í stað hafi Isavia valið að krefja Hópbíla um mismun á greiddum gjöldum og lágmarksþóknun samkvæmt nefndum skilmálum og í framhaldi af því hafi Isavia og Hópbílar gert dómsátt.
Í ljósi þessa hafi kærandi átt fund með forsvarsmönnum Isavia í október 2022 og óskað eftir afslætti af aðstöðugjöldum með hliðsjón af þeirri fjárhæð sem Hópbílar hefðu vangreitt Isavia. Isavia hafi ekki orðið við þeirri ósk en hafi síðar afhent kæranda reikning Isavia til Hópbíla, dags. 21. nóvember 2022, þar sem Hópbílar væri krafið um mismun greiddra aðstöðugjalda og lágmarksþóknunar í skilmálum útboðsins fyrir tímabilið mars 2018 til febrúar 2019. Á öðrum fundi kæranda með forsvarsmönnum Isavia, dags. 14. febrúar 2024, hafi Isavia upplýst kæranda um að gerð hafi verið dómsátt við Hópbíla.
Beiðni kæranda um aðgang að dómsátt Isavia og Hópbíla var lögð fram 8. mars 2024 og henni synjað 13. maí 2024. Í ákvörðun Isavia er tilgreint að unnt sé að staðfesta að gerð hafi verið réttarsátt milli félaganna en hún feli ekki í sér niðurfellingu kröfu Isavia á hendur Hópbílum. Beiðni kæranda hafi verið borin undir Hópbíla, sem telji að Isavia sé óheimilt að afhenda dómsáttina því hún varði mikilvæga og virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækisins. Sáttin sé merkt sem trúnaðarmál og innihaldi upplýsingar sem eru nýjar og varði viðskiptasamband sem enn sé í fullu gildi. Verði hún afhent muni það valda Hópbílum tjóni. Að teknu tilliti til afstöðu félagsins og í ljósi efnis sáttarinnar að öðru leyti sé það afstaða Isavia að óheimilt sé að afhenda kæranda afrit af dómsáttinni, sbr. 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Isavia ohf. með erindi, dags. 13. júní 2024, og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að Isavia afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál þau gögn sem kæran varðar.
Umsögn Isavia barst úrskurðarnefndinni 28. júní 2024. Umsögninni fylgdu þau gögn sem kæran varðar. Í umsögninni eru færð rök fyrir því að þeir fjárhags- og viðskiptahagsmunir Hópbíla sem gögnin varða séu virkir þar sem efni dómsáttarinnar varði uppgjör á kröfum vegna samnings milli Isavia og Hópbíla sem sé í gildi fram til febrúar 2025. Þá telji Hópbílar að upplýsingar í sáttinni geti skipt máli í ákvarðanatöku um daglegan rekstur og viðskipti. Isavia telji mikilvægt að gefa afstöðu Hópbíla mikið vægi við mat á því hvort upplýsingarnar séu mikilvægar í samkeppnisrekstri félagsins enda sé ekkert sem bendi til þess að mat félagsins sé rangt.
Þá bendir Isavia á að nákvæmar upplýsingar um uppgjör og greiðslufyrirkomulag skulda fyrirtækja séu ekki upplýsingar sem almennt séu aðgengilegar. Eigi það jafnt við um skuldir fyrirtækja við einkaaðila og opinbera aðila.
Isavia vísar til þess að í úrskurðarframkvæmd úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafi nefndin talið nauðsynlegt að vega hagsmuni lögaðila af því að halda upplýsingum sem hann varðar leyndum á móti hagsmunum almennings af að upplýsingar séu birtar. Isavia telji vandséð að slík túlkun fái stoð í skýrum texta bannákvæðis 9. gr. upplýsingalaga sem sé án undanþágu séu hagsmunir taldir virkir og mikilvægir. Engu að síður telji Isavia rétt að nefna að komið hafi verið til móts við hagsmuni kæranda af að fá dómsáttina afhenta með afhendingu reikninga, samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 1078/2022, afhendingu reiknings Isavia til Hópbíla, dags. 21. nóvember 2022, og staðfestingu til kæranda þess efnis að í dómsáttinni felist ekki niðurfelling á skuld Hópbíla við Isavia. Loks sé rétt að nefna að í dómsáttinni er tiltekið að hún sé trúnaðarmál.
Umsögn Isavia var kynnt kæranda með erindi, dags. 28. júní 2024, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Kærandi taldi ekki þörf á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna umsagnarinnar.
Niðurstaða
1.
Í máli þessu hefur kæranda verið synjað um aðgang að dómsátt milli Isavia ohf. og Hópbíla hf. Nánar tiltekið er um að ræða réttarsátt í héraðsdómsmálinu nr. E-1209/2023, dags. 8. maí 2023. Í sáttinni kemur fram að Hópbílar hf. viðurkenni að skulda Isavia ohf. tiltekna fjárhæð „sem leiðir af lágmarksgreiðslu rekstrarárið 1. mars 2018 til 28. febrúar 2019 samkvæmt rekstrarsamningi aðila…“
Um aðgang kæranda að þessu gagni fer samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga, en í 1. mgr. segir að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna.
Í 2. málsl. 9. gr. kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og ber því að túlka þröngt.
Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir meðal annars:
Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.
Í athugasemdunum segir jafnframt um 2. málsl. greinarinnar:
Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.
Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.
Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja. Við mat á hagsmunum almennings skiptir almennt verulegu máli hvort og þá að hvaða leyti þær upplýsingar sem um ræðir tengjast ákvörðunum um ráðstöfun opinbers fjár og eigna.
2.
Isavia er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins sem annast rekstur og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Hluti af starfsemi félagsins er rekstur bílastæðaþjónustu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hópferðabílar sem stunda áætlunarakstur milli flugstöðvarinnar og höfuðborgarsvæðisins aka frá nærstæðum, sem eru fyrir utan flugstöðina, og fjarstæðum, sem eru 200 til 300 metra frá flugstöðinni. Kærandi og Hópbílar hf. voru hlutskörpust í útboði sem Isavia stóð fyrir árið 2017, þar sem þeim tveimur var veitt aðstaða fyrir áætlunarakstur til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, bæði við flugstöðina á nærstæðum og innan hennar í formi aðstöðu til farmiðasölu. Félögin tvö greiða Isavia þóknun sem nemur tilteknu hlutfalli af andvirði seldra miða.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir efni þeirrar dómsáttar sem nefnd er að framan. Í úrskurði nefndarinnar nr. 1078/2022 frá 1. júní 2022 taldi nefndin að Isavia ohf. bæri, á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga, að afhenda reikninga vegna aðgangs að framangreindri aðstöðu fyrir áætlunarakstur. Verður af gögnum málsins sem hér er til úrlausnar, þ.m.t. skýringum Isavia ohf., ekki annað ráðið en að í dómsáttinni felist niðurstaða aðila um greiðslur sem komi til viðbótar við greiðslur samkvæmt reikningum sem fjallað var um í úrskurði nr. 1078/2022 fyrir sömu aðstöðu. Í dómsáttinni er í engu vikið að fjárhagslegri stöðu Hópbíla, þar á meðal hvorki að lánum, lánasamningum, eignum eða rekstri þess félags. Í þessu ljósi er vandséð að hvaða leyti afhending upplýsinganna kynni að valda Hópbílum tjóni. Þar sem dómsáttin geymir efnislega ekki aðrar upplýsingar en samkomulag aðila um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar sem Hópbílar muni standa Isavia skil á verður heldur ekki séð hvernig afhending gagnsins gæti skaðað hagsmuni Isavia sjálfs eða aðra opinbera hagsmuni í skilningi upplýsingalaga.
Undir meðferð málsins hefur Isavia vísað til þess að í dómsáttinni komi fram að hún sé trúnaðarmál. Úrskurðarnefndin tekur af því tilefni fram að stjórnvald getur ekki heitið þeim trúnaði sem veitir því upplýsingar og takmarkað með því aðgang almennings að gögnum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga í víðtækari mæli en leiðir af 6.–10. gr. upplýsingalaga. Kærandi hefur óskað aðgangs að gagninu sem fyrir liggur hjá Isavia en það félag fellur undir gildissvið upplýsingalaga samkvæmt 2. gr. laganna. Fer því um rétt kæranda til aðgangs að gagninu eftir þeim lögum eins og að framan greinir. Fyrir úrlausn á kröfu kæranda, á grundvelli upplýsingalaga, er því þýðingarlaust að í gagninu sem deilt er um sé tekið fram að það sé trúnaðarmál.
Verður Isavia því gert að afhenda kæranda þau gögn sem honum var synjað um aðgang að.
Úrskurðarorð
Isavia ohf. er skylt að veita Ferðaskrifstofu Icelandia ehf. aðgang að dómsátt Isavia ohf. við Hópbíla hf., dags. 8. maí 2023.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir