Hoppa yfir valmynd

1240/2025. Úrskurður frá 28. janúar 2025

Hinn 28. janúar 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1240/2025 í máli ÚNU 23120017.
 

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Hinn 22. desember 2023 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá félaginu Reykjaprent ehf. Í kær­unni segir að kærandi hafi beint fjórum gagnabeiðnum til Sveitarfélagsins Voga sem ekki hafi verið afgreiddar innan 30 virkra daga, sbr. 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
 
Kæran var kynnt Sveitarfélaginu Vogum með erindi, dags. 22. desember 2023. Með erindi, dags. 9. janúar 2024, var erindum kæranda svarað og úrskurðarnefndinni sent afrit af svari sveitarfélags­ins. Úrskurðarnefndin bar undir kæranda í framhaldinu með erindi, dags. 11. janúar 2024, hvort honum hugnaðist að málið yrði fellt niður, þar sem erindum hans hefði nú verið svarað. Með erindi kær­anda, dags. 24. janúar 2024, mótmælti hann því að málið yrði fellt niður af þeirri ástæðu að svör sveitarfélagsins hefðu verið ófullnægjandi.
 
Úrskurðarnefndin sendi sveitarfélaginu afrit af erindi kæranda og bauð sveitarfélaginu að koma á fram­færi frekari athugasemdum vegna erindis­ins. Viðbrögð sveitarfélagsins bárust 9. febrúar 2024. Þeim fylgdu frekari gögn sem sveitarfélagið teldi að heyrðu undir beiðni kæranda og hann ætti rétt til aðgangs að. Úrskurðarnefndin bar niðurfellingu málsins enn undir kæranda með erindi, dags. 12. febrúar 2024. Kærandi mótmælti því að málið skyldi fellt niður og sendi nefndinni við­bót­ar­athugasemdir 19. febrúar 2024. Í þeim kom fram að kærandi teldi að tveimur af fjórum beiðn­um hefði nú verið svarað með fullnægjandi hætti og því væri fallið frá þeim hluta kærunnar. Eftir stæðu tvær beiðnir sem kærandi teldi að sveitarfélagið hefði ekki enn svarað með fullnægjandi hætti:
 

  1. Beiðni um hvers konar gögn varðandi mál um leyfi til handa Stofnfiski hf. til borunar eftir grunnvatni 2005–2014, og til félagsins Benchmark Genetics Iceland hf. eftir þann tíma, þar á meðal leyfisumsóknir, fylgigögn með þeim, minnisblöð, fundargerðir, við­töl eða tölvu­pósts­samskipti við bæjarfulltrúa og aðra fulltrúa sveitarfélags­ins auk sjálfra leyfis­veit­ing­anna með greinargerðum eða rökstuðningi.
  2. Beiðni um öll gögn varðandi samskipti sveitarfélagsins við fulltrúa fjármálastofnana um Grænuborg eða Grænuborgarsvæði/Grænuborgarhverfi/ÍB-3-1 á aðalskipulagi.

 
Úrskurðarnefndin gaf sveitarfélaginu tækifæri til að bregðast við athugasemdum kæranda með erindi, dags. 23. febrúar 2024. Viðbrögð sveitarfélagsins bárust nefndinni fjórum dögum síðar, þar sem fram kom að sveitarfélagið teldi sig hafa svarað beiðni kæranda með fullnægjandi og tæmandi hætti. Úrskurðarnefndin gaf kæranda kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum með erindi, dags. 28. febrúar 2024. Þær bárust 6. mars 2024. Í athugasemdunum var vakin athygli á því að árið 2010 hefði Stofnfiskur hf. sótt um framkvæmdaleyfi til borunar eftir sjóvatni í landi eldisstöðvar sinnar við Vogavík, sem sveitarfélagið hefði samþykkt. Kæranda væri kunnugt um að leyfis­veit­ing­ar sveitarfélagsins vegna þessa væru fleiri. Upplýsingagjöf sveitarfélagsins væri því ekki tæmandi.
 
Sveitarfélagið afhenti kæranda gögn varðandi umsókn Stofnfisks hf. um framkvæmdarleyfi frá árinu 2010 með erindi, dags. 2. apríl 2024. Hinn 15. apríl 2024 bað kærandi um afrit af sjálfu fram­kvæmdarleyfinu, sem ekki hefði verið meðal afhentra gagna. Þá kvað kærandi að ekki hefði komið fram í svari sveitarfélagsins hvort fleiri framkvæmdarleyfi til handa Stofnfiski hf. vegna bor­unar hefðu verið gefin út. Kærandi teldi að fleiri slík leyfi hefðu verið gefin út.
 
Varðandi síðari beiðni kæranda um aðgang að samskiptum sveitarfélagsins við fulltrúa fjármála­stofn­ana skyldi upplýsingabeiðnin nú orðuð þannig:
 

Óskað er eftir afriti allra gagna um samskipti Sveitarfélagsins Voga og fulltrúa þess við við­skipta­banka sveitarfélagsins, Íslandsbanka og forvera þess banka, sem og við félagið VBS eigna­safn hf., þrotabú þess og hvers konar fulltrúa allra þessara aðila, saman eða hvers í sínu lagi, um Grænuborg eða Grænuborgarsvæði/Grænuborgarhverfi/ÍB-3-1 á aðal­skipulagi Sveitarfélags­ins Voga.

 
Kærandi tók fram að VBS eignasafn hf. og þrotabú félagsins hefði áður verið eigandi Grænu­borg­ar­lands. Viðskiptabanki sveitarfélagsins hefði verið aðalkröfuhafi VBS eigna­safns hf. og síðar þrota­bús þess, þar á meðal aðalveðhafi í því byggingarsvæði í Sveitarfélag­inu Vogum sem um ræddi. Hags­munir viðskiptabankans af verðmæti/verðmætisaukningu félags­ins og svo þrotabús þess væru mjög ríkir.
 
Með erindi til kæranda, dags. 22. apríl 2024, kom fram af hálfu Sveitarfélagsins Voga að fram­kvæmd­arleyfið fyndist ekki. Varðandi síðari beiðni kæranda væri það svo að án skírskotunar til til­tekinnar ákvörðunar, máls eða tímabils væri ekki hægt að verða við beiðni kæranda án verulegrar fyrir­hafnar, og tilraunir sveit­arfélagsins til að fá kæranda til að afmarka beiðnina nánar hefðu ekki borið árangur. Hugleiðingar kæranda um að eitthvað hefði mögulega haft einhver áhrif á verðmæti ein­hvers sem sennilega hefði verið í eigu einhvers, gætu að mati sveitarfélagsins ekki talist vera til­raun til að afmarka beiðnina. Í gögn­um máls­ins væru þó engin samskipti eða gögn sem bentu til þess að samskipti hefðu átt sér stað milli full­trúa sveitarfélagsins og fulltrúa umrædds þrotabús eða við­skiptabanka sveitarfélagsins um skipu­lagsmál svæðisins.
 
Í árslok 2017 hefði félagið J21 ehf. keypt Grænuborgarsvæðið og í framhaldinu hefði verið gert sam­komulag milli félagsins og sveitarfélagsins um uppbyggingu og deiliskipulag svæðisins. Drög að því samkomulagi hefðu verið til umfjöllunar á fundi bæjarráðs 20. desember 2017. Í gögnum máls­ins væri að finna upplýsingabeiðni frá kæranda frá því í janúar 2018, þar sem vísað væri til fyrr­nefnds samkomulags og óskað eftir öllum gögnum málsins. Í gögnum málsins væru einnig fjöl­margar fleiri upplýsingabeiðnir frá viðkomandi sem svarað hefði verið með viðeigandi hætti og honum send umbeðin gögn og eftir atvikum svör við spurningum sínum.
 
Kærandi brást við erindi sveitarfélagsins 13. maí 2024. Þar kom fram að í svari sveitarfélagsins um síðari beiðni kæranda væri ekki neitt tekið fram um samskipti við VBS eignasafn hf. og við­skipta­bankann. Þegar rætt væri um viðskiptabankann væri að sjálfsögðu þar á meðal átt við allar ein­ingar bankans, sjóði í rekstri hans, dótturfélög o.s.frv.
 
Úrskurðarnefndin bar viðbrögð kæranda undir sveitarfélagið með erindi, dags. 13. maí 2024. Sveit­arfélagið svaraði erindinu 17. maí 2024. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hlið­sjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
 

Niðurstaða

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál á grundvelli 3. mgr. 17. gr. upplýsinga­laga, nr. 140/2012, þar sem mælt er fyrir um heimild til að vísa máli til nefndarinnar hafi beiðni um aðgang að gögnum ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga. Við meðferð málsins hjá nefnd­inni afgreiddi Sveitarfélagið Vogar þær fjórar beiðnir sem kæran laut að. Kærandi álítur að af­greiðslu tveggja þeirra sé ábótavant.
 
Fyrri beiðnin lýtur að gögnum varðandi mál um leyfi til handa Stofnfiski hf. til borunar eftir grunn­vatni árin 2005–2014, og til félagsins Benchmark Genetics Iceland hf. eftir þann tíma og fram til þess dags sem beiðnin var lögð fram. Sveitarfélagið Vogar hefur afhent kæranda gögn varðandi um­sókn Stofn­fisks um framkvæmdarleyfi frá árinu 2010, en kveður að sjálft leyfið finnist ekki í vörslu sveitar­félagsins. Kærandi fullyrðir að honum sé kunnugt um að leyfisveitingar sveitar­félags­ins vegna þessa séu fleiri. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að Sveitarfélagið Vog­ar hafi gert tilraun til að hafa uppi á frekari gögnum sem heyrðu undir beiðni kæranda, en svo sem að framan greinir nær beiðnin yfir margra ára tímabil. Þykir úrskurðarnefndinni því rétt að vísa þessum hluta beiðni kæranda aftur til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu, þar sem kannað verði hvort í vörslu sveitarfélagsins liggi fyrir frekari gögn og ef svo er, að tekin sé af­staða til réttar kær­anda til aðgangs að þeim.
 
Síðari beiðnin lýtur að öllum gögnum varðandi samskipti sveitarfélagsins við fulltrúa fjármála­stofnana um Grænuborg eða Grænuborgarsvæði/Grænuborgarhverfi/ÍB-3-1 á aðalskipulagi. Sveit­arfélagið telur að beiðnin sé ekki nægilega vel afmörkuð til að unnt sé að verða við henni án veru­legrar fyrirhafnar. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Í athugasemdum við 15. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur fram að til að hægt sé að afgreiða beiðni verði hún að vera fram sett með nægilega nákvæmum hætti til að stjórnvald geti, t.d. með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá sinni, fundið þau mál sem lúta að því málefni sem aðili óskar að fá upplýsingar um.
 
Beiðni kæranda er um samskipti tilgreindra aðila um ákveðið svæði á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að telja að beiðnin sé nægjanlega vel afmörkuð til að hún uppfylli þær skýrleikakröfur sem leiða má af 15. gr. upplýsingalaga. Þá ber að horfa til þess að við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni hefur kærandi skýrt nánar út ákveðin atriði beiðn­innar. Telur nefndin samkvæmt þessu rétt að vísa beiðninni aftur til sveitarfélagsins til nýrrar með­ferð­ar og afgreiðslu. Úrskurðarnefndin tekur fram að telji sveitarfélagið enn að ekki sé mögu­legt að afmarka beiðnina við tiltekin gögn eða tiltekið mál ber því að veita kæranda leiðbeiningar og gefa honum færi á að afmarka beiðni sína nánar, eftir atvikum með því að afhenda honum lista yfir mál sem ætla má að beiðni hans geti beinst að í þeim tilgangi að hann geti tilgreint það mál þar sem hann óskar eftir aðgangi að gögnum, sbr. 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.
 

Úrskurðarorð

Eftirfarandi beiðnum kæranda, Reykjaprents ehf., er vísað til Sveitarfélagsins Voga til nýrrar með­ferðar og afgreiðslu:
 

  1. Beiðni, dags. 31. maí 2023, um gögn varðandi leyfi til borunar eftir grunnvatni.
  2. Beiðni, dags. 29. júní 2023, um gögn varðandi samskipti um Grænuborg eða Grænuborg­ar­svæði/Grænuborgarhverfi/ÍB-3-1 á aðalskipulagi.

 
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta