Hoppa yfir valmynd

1241/2025. Úrskurður frá 28. janúar 2025

Hinn 28. janúar 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1241/2025 í máli ÚNU 24010018.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 19. janúar 2024, kærði […] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál ófullnægjandi afgreiðslu Skattsins á beiðni hans um gögn. Með erindi, dags. 10. janúar 2024, lagði kærandi fram eftirfarandi beiðni:
 

Á grundvelli upplýsingalaga er hér með óskað eftir árlegum innflutningstölum sem og fram­leiðslutölum frá innlendum framleiðendum í lítrum, verðmæti og áfengisprósentu af öllum tollflokkum sem ná yfir bjór, léttbjór, léttvín, styrkt vín, sterk vín, ávaxtabætt vín og aðra þá tollflokka sem kunna að koma til greina. Óskað er eftir heildartölum fyrir hvert ár 5 ár aftur í tímann.

 
Skatturinn svaraði kæranda samdægurs og leiðbeindi honum að beina fyrirspurninni til Hagstofu Íslands, þar sem tollurinn héldi ekki utan um þær upplýsingar sem óskað væri eftir. Kærandi svar­aði Skattinum samdægurs og kvað að Hagstofan gæti ekki nálgast upplýsingarnar nema frá Skatt­inum. Gögn fyrir árið 2023 væru ekki tiltæk og ástæða væri til að ætla að eldri gögn væru röng. Augljóslega héldi tollurinn utan um gögnin, enda væri annars ekki hægt t.d. að enduráætla ef upp kæmist um ranga tollflokkun aftur í tímann.
 
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kærandi óski eftir ópersónugreinanlegum upplýs­ing­um úr gagnagrunnum Skattsins um tollafgreiðslur í einstökum tollflokkum á árinu 2023, nánar tiltekið um alla flokka sem nái yfir áfengi. Skatturinn neiti að afhenda þessi frumgögn sem þó séu augljóslega til staðar hjá stofnuninni.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Skattinum með erindi, dags. 29. janúar 2024, og stofnuninni gefinn kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að Skatturinn afhenti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál þau gögn sem kær­an varðar.
 
Umsögn Skattsins barst úrskurðarnefndinni 8. febrúar 2024. Í umsögn­inni kemur fram að sam­kvæmt tollalögum skuli innflytjandi láta tollyfirvöldum í té aðflutningsskýrslu og önnur tollskjöl vegna innfluttrar vöru áður en vara er afhent til notkunar innanlands eða sett í tollfrjálsa verslun eða tollfrjálsa forðageymslu. Aðflutningsskýrslur séu bókaðar í tollakerfi embættisins, niður á ein­staka viðskiptamenn. Skýrslur síðustu fimm ára séu bæði rafrænar og á pappírsformi. Engin sjálf­virk samantekt eigi sér stað í tollakerfinu yfir þær vörur sem verið sé að flytja inn til landsins hverju sinni, enda sé það ekki hlutverk tollyfirvalda.
 
Tollyfirvöld haldi ekki utan um heildarfjárhæð af árlegum innflutningstölum og framleiðslutölum í lítrum, verðmæti og áfengisprósentu af öllum tollflokkum sem ná yfir bjór, léttbjór, léttvín, sterk vín, ávaxtabætt vín og aðra þá tollflokka sem kunni að koma til greina. Heildartölur fyrir hvert ár síð­ustu fimm ár séu því ekki fyrirliggjandi gögn hjá Skattinum sem hægt sé að kalla fram með fáum og einföldum skipunum í gagnagrunnum stofnunarinnar. Til að ná fram slíkri samantekt þyrfti að smíða sérstakar fyrirspurnir sem keyrðar væru á gagnagrunna tollakerfanna. Þar sem gagna­beiðnin sé umfangsmikil þyrfti Skatturinn að leita aðstoðar utanaðkomandi sérfræðinga hjá hýs­ingaraðila tollakerfanna við keyrslu á slíkum fyrirspurnum, með tilheyrandi kostnaði. Því sé ekki hægt að afla umbeðinna gagna án verulegrar fyrirhafnar. Þá nái lögboðið hlutverk Skattsins hvorki til að taka saman þau gögn sem kæran lýtur að né að gera útreikninga á grundvelli þeirra upp­lýsinga sem vistaðar séu í gagnagrunnunum. Vinna við að kalla þau fram væri því verulega frá­brugðin og eðlisólík þeirri vinnu sem upplýsingalögin krefjast almennt af stjórnvöldum við af­greiðslu beiðna um upplýsingar. Skatturinn telji sér því ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upp­lýsingalaga til að geta orðið við beiðni kæranda með vísan til 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsinga­laga, nr. 140/2012.
 
Þar sem réttur almennings til aðgangs að upplýsingum gildi aðeins um fyrirliggjandi gögn telji Skatt­urinn að aðgangur að upplýsingum um árlegar heildarfjárhæðir síðustu fimm ára eigi aðeins við ef unnt sé að kalla fram með einföldum skipunum í gagnagrunni embættisins heildartölur, svo sem um tilteknar vörur úr safni aðflutningsskýrslna. Samkvæmt framangreindri umfjöllun sé um veru­legt umstang að ræða og því verði að telja að þau gögn sem kæran lýtur að séu ekki fyrir­liggj­andi hjá stofnuninni.
 
Umsögn Skattsins var kynnt kæranda með erindi, dags. 12. febrúar 2024, og honum gefinn kostur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Frekari athugasemdir frá kæranda bárust ekki.
 
Með erindi, dags. 26. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir nánari upplýsingum frá Skatt­inum um þá vinnu sem það myndi útheimta að kalla fram þær upplýsingar sem kærandi óskaði eftir. Svar frá Skattinum barst 3. desember 2024. Í svarinu kom fram að upplýsingar um umbeðn­ar innflutningstölur lægju ekki fyrir samandregnar í neinum gagnagrunni. Upplýsingar um umræddan innflutning lægju aðeins fyrir í einstökum aðflutningsskýrslum. Aðflutningsskýrslur bærust Skatt­inum í gegnum svonefnd EDI-skeyti og væru vistaðar í gagnagrunnum. EDI stæði fyrir electronic data interchange.
 
Varðandi umbeðnar framleiðslutölur frá innlendum framleiðendum lægju ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um það hjá Skattinum til að svara fyrirspurninni án verulegra áætlana. Það gæti ekki talist hlutverk Skattsins að gera slíkar áætlanir. Í áfengisgjaldsskýrslum, sem bærust Skattinum á pappírsformi, væri að finna ákveðnar upplýsingar sem skráðar væru í tölvukerfi vegna álagningar gjaldsins. Verðmæti áfengis sem framleitt væri innanlands kæmi ekki fram í áfengisgjaldsskýrslu en þyrfti að vera leitt út úr framtölum eða virðisaukaskattsskýrslum, án umbeðinnar sundurliðunar. Áætla mætti að fjöldi áfengisskýrslna á pappírsformi sem vinna þyrfti upplýsingar úr væri á bilinu 2.000–4.000. Úrvinnslan gæti samkvæmt því tekið 70–120 klukkustundir.
 
Í mars 2023 hefði lokið innleiðingu á samræmdu eyðublaði sem notað væri við tollafgreiðslu vegna út­flutnings, umflutnings og innflutnings á vörum innan EES og fleiri ríkja. Það væri vistað í gagna­grunni Oracle. Eldri tollskýrslur væru vistaðar í gagnagrunni Adabas. Fyrstu samræmdu eyðublöð­in hefðu byrjað að berast Skattinum á árinu 2021. Smíða þyrfti tvær ólíkar fyrirspurnir til að nálgast um­beðnar upplýsingar. Svo þyrfti að keyra saman þau ár sem bæði nýju og gömlu toll­skýrslurnar væri að finna, þ.e. fyrir árin 2021, 2022 og 2023. Það tæki hýsingaraðila Skattsins um 10–15 klukku­stundir að keyra fyrirspurnirnar. Svo þyrfti Skatturinn að vinna úr niðurstöðunum, sem tæki 10–15 klukkustundir. Hvað varðar framleiðslutölur innlendra framleiðenda tæki það 70–120 klukku­stundir, sbr. framangreinda umfjöllun.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda til Skattsins um tölfræðiupplýsingar um árlegar heildartölur um inn­flutning annars vegar og framleiðslu frá innlendum framleiðendum hins vegar fyrir ýmsa flokka áfengra drykkja, fimm ár aftur í tímann. Skatturinn kveður að ekki liggi fyrir gagn með þessum upp­lýsingum og að ekki sé hægt að kalla það fram með einföldum skipunum í gagnagrunnum emb­ættisins. Úrskurðarnefndin tekur fram að í kæru til nefndarinnar var kæruefnið afmarkað með aðeins öðrum hætti en í upphaflegri beiðni kæranda til Skattsins. Eftirfarandi niðurstaða tekur mið af því hvernig beiðni kæranda til Skattsins, dags. 10. janúar 2024, var orðuð.
 
Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er mælt fyrir um að upplýsingaréttur almennings nái til fyrirliggjandi gagna sem varða tiltekið mál og tiltekinna fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að ef ákvæði 6.–10. gr. laganna eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Í athugasemdum við 5. gr. í greinargerð með frum­varpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að skilyrði þess að gagn sé undirorpið upplýsingarétti sé að það liggi fyrir hjá þeim sem fær beiðni um aðgang til afgreiðslu. Þá segir enn fremur að réttur til aðgangs að gögnum nái þannig aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma.
 
Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga í efa þá fullyrðingu Skattsins að gagn með um­beðnum upplýsingum sé ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni. Þá kemur fram í skýringum Skatts­ins að innflutningstölur liggi ekki fyrir samandregnar í gagnagrunni heldur einungis í einstökum að­flutningsskýrslum, og að ekki liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar um fram­leiðslu­tölur frá inn­lend­um framleiðendum til að svara fyrirspurninni án verulegra áætlana. Jafnvel þótt hjá Skattinum lægju fyrir allar nauðsynlegar upplýsingar til að kalla fram það gagn sem óskað var eftir er ljóst að ekki væri unnt að gera það með tiltölulega einföldum hætti, svo sem með nokkr­um einföldum skip­unum í gagnagrunni, heldur þyrfti að ráðast í nokkuð umfangsmikla vinnu sem m.a. fæli í sér sam­keyrslu gagnagrunna og handvirka úrvinnslu sérfræðinga á vegum Skatts­ins. Að framan­greindu virtu og með vísan til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga telur úrskurðarnefndin að Skattinum sé ekki skylt að verða við beiðni kæranda.
 
Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að umbeðið gagn sé ekki fyrir­liggj­andi hjá Skattinum í skilningi upplýsingalaga. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýs­inga­laga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Því ligg­ur ekki fyrir synjun beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýs­inga­laga og verður því staðfest hin kærða afgreiðsla Skattsins.
 

Úrskurðarorð

Staðfest er afgreiðsla Skattsins, dags. 10. janúar 2024, á beiðni kæranda, […], um að­gang að árlegum heildartölum um inn­flutning annars vegar og framleiðslu frá innlendum fram­leið­endum hins vegar fyrir ýmsa flokka áfengra drykkja, fimm ár aftur í tímann.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta