1242/2025. Úrskurður frá 28. janúar 2025
Hinn 28. janúar 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1242/2025 í máli ÚNU 24050026.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindi, dags. 15. maí 2024, kærði […] ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að synja honum um aðgang að verðtilboðum sem bárust bænum vegna raforkukaupa. Kærandi óskaði eftir gögnunum með erindi, dags. 16. febrúar 2024, og var synjað um aðgang að þeim með erindi, dags. 10. apríl 2024, með þeim rökum að óheimilt væri að afhenda gögnin samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Í kæru til nefndarinnar kemur fram að ákvörðun Vestmannaeyjabæjar hafi ekki borist kæranda fyrr en 14. maí 2024.
Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með erindi, dags. 29. maí 2024, og sveitarfélaginu gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að Vestmannaeyjabær afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál þau gögn sem kæran varðar.
Hinn 21. júní 2024 barst úrskurðarnefndinni önnur kæra frá kæranda vegna sömu beiðni hans til Vestmannaeyjabæjar, dags. 16. febrúar 2024. Kærunni fylgdi erindi frá Vestmannaeyjabæ til kæranda, dags. 6. júní 2024, þar sem vísað var til erindis kæranda frá 16. febrúar 2024 og tiltekið að í verðtilboðinu væru einingarverð sem ekki bæri að gefa upp vegna samkeppnissjónarmiða, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.
Með erindum, dags. 7. ágúst, 27. september og 21. október 2024, var erindi nefndarinnar frá 29. maí ítrekað. Hinn 31. október 2024 bárust viðbrögð frá Vestmannaeyjabæ. Í tveimur erindum sveitarfélagsins kom fram að tilboðsverðin teldust vera viðkvæmar fjárhagsupplýsingar sem óheimilt væri að birta samkvæmt lögum um opinber innkaup.
Niðurstaða
1.
Í máli þessu er deilt um ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að synja beiðni kæranda um aðgang að verðtilboðum sem bárust vegna raforkukaupa Vestmannaeyjabæjar. Sveitarfélagið heldur því fram að óheimilt sé að afhenda gögnin samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, því þau innihaldi m.a. upplýsingar um einingarverð sem ekki beri að gefa upp vegna samkeppnissjónarmiða auk þess sem um sé að ræða viðkvæmar fjárhagsupplýsingar sem óheimilt sé að birta samkvæmt lögum um opinber innkaup.
Samkvæmt 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að óheimilt sé að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Miklu skipti að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þurfi almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar geri samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað sé opinberum hagsmunum, geti þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.
Við beitingu ákvæðisins er gert ráð fyrir að metið sé í hverju tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja.
2.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga skal ákvörðun um að synja beiðni um aðgang að gögnum, í heild eða að hluta, sem borin hefur verið fram skriflega, tilkynnt skriflega og rökstudd stuttlega. Í rökstuðningnum er rétt að fram komi tilvísun til þess lagaákvæðis sem ákvörðun byggist á, meginsjónarmið sem réðu mestu um niðurstöðuna ef ákvörðun byggist á lagaákvæði sem eftirlætur stjórnvöldum mat, og eftir atvikum stutt lýsing á þeim gögnum eða upplýsingum sem aðgangur er takmarkaður að.
Í hinni kærðu ákvörðun Vestmannaeyjabæjar, dags. 10. apríl 2024, var aðeins vísað til þess að óheimilt væri að afhenda gögnin samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin telur að ákvörðunin uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til rökstuðnings ákvörðunar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga. Ákvörðun sveitarfélagsins, dags. 6. júní 2024, og skýringar til úrskurðarnefndarinnar frá 31. október 2024 innihalda vísanir til samkeppnissjónarmiða og laga um opinber innkaup. Úrskurðarnefndin telur að málsmeðferð Vestmannaeyjabæjar í heild sinni í málinu beri þess merki að sveitarfélagið hafi í reynd ekki framkvæmt það mat sem leiða má af 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga að skuli fara fram við mat á því hvort óheimilt sé að afhenda gögn á grundvelli ákvæðisins.
Þá gerir úrskurðarnefndin athugasemd við að þrátt fyrir þrjár ítrekanir nefndarinnar á upphaflegu erindi hennar til sveitarfélagsins hafi Vestmannaeyjabær ekki látið nefndinni í té afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að, svo sem skylt er að gera samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, heldur aðeins upplýsingar úr gögnunum um þau tilboð sem bárust sveitarfélaginu um raforkukaup.
Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að heimvísa málinu til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild. Að mati úrskurðarnefndarinnar samræmdist málsmeðferð Vestmannaeyjabæjar við töku hinnar kærðu ákvörðunar hvorki ákvæði 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga né rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þá var ekki lagt fullnægjandi efnislegt mat á það hvort kærandi ætti rétt á aðgangi að umbeðnum gögnum. Með vísan til framangreinds verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Vestmannaeyjabæjar að taka málið til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Í því felst að beiðni kæranda verði afmörkuð við gögn í vörslu sveitarfélagsins og mat lagt á rétt kæranda til aðgangs að þeim, í heild eða að hluta, á grundvelli upplýsingalaga.
Úrskurðarorð
Beiðni […], dags. 16. febrúar 2024, um aðgang að verðtilboðum sem bárust vegna raforkukaupa Vestmannaeyjabæjar, er vísað til Vestmannaeyjabæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir