Hoppa yfir valmynd

1245/2025. Úrskurður frá 28. janúar 2025

Hinn 28. janúar 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1245/2025 í máli ÚNU 24080019.
 

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Hinn 16. ágúst 2024 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá Hagsmunasamtökum heim­il­anna þess efnis að menningar- og viðskiptaráðuneyti hefði ekki afgreitt beiðni samtakanna um aðgang að gögnum innan 30 virkra daga, sbr. 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
 
Með erindi til ráðuneytisins, dags. 27. júní 2024, óskaði kærandi eftir aðgangi að öllum gögnum máls um vinnu starfshóps sem ráðherra hefði falið greiningarvinnu í tengslum við ákveðna þætti fasteignalána til neytenda og neytendalána, auk lista yfir öll málsgögn.
 
Kæran var kynnt ráðuneytinu með erindi, dags. 23. ágúst 2024. Í erindi ráðuneytisins til nefndar­innar, dags. 17. september 2024, kom fram að starfshópurinn hefði skilað ráðherra uppfærðu upp­lýsingaskjali um ólík lánsform sem stæðu neytendum til boða. Þá hefði starfshópurinn tekið saman greinargerð sem að mati ráðuneytisins teldist vera vinnugagn í skilningi upplýsingalaga. Engu að síður hefði verið ákveðið að greinargerðin yrði birt ásamt upplýsingaskjalinu á vef ráðuneytisins ásamt tilkynningu frá ráðuneytinu. Ráðgert væri að birtingin yrði fyrir vikulok. Beiðni kæranda yrði þá jafnframt svarað.
 
Hinn 2. október 2024 var nefndin upplýst um að ráðuneytið hefði birt gögnin á vef sínum og jafn­framt afgreitt beiðni samtakanna um aðgang að gögnunum. Í framhaldi af því bar úrskurðarnefnd­in undir kæranda hvort hann teldi afgreiðslu ráðuneytisins fullnægjandi. Í svari kæranda, dags. 15. ok­tóber 2024, kom fram að beiðni kæranda hefði verið um öll gögn málsins, þ.m.t. lista yfir málsgögn, en ekki aðeins um gögnin sem voru birt á vef ráðuneytisins 2. október 2024. Til dæmis hefði ekki verið veittur aðgangur að fundargerðum starfshópsins, sem þó hefði hist 13 sinnum og að auki átt fundi með fulltrúum eftirlitssviða Seðlabanka Íslands og yfirlögfræðingi Neytendastofu.
 
Með erindi, dags. 21. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir að fá afhent í trúnaði þau gögn sem heyrðu undir beiðni kæranda, þ.m.t. lista yfir málsgögn, til að úrskurða um rétt til aðgangs að þeim. Þá óskaði nefndin eftir því að gögnunum fylgdi umsögn ráðuneytisins þar sem m.a. væri tekin afstaða til þess hvort og þá hvaða takmarkanir stæðu í vegi fyrir aðgangi kæranda að gögnunum.
 
Með erindi, dags. 1. nóvember 2024, voru úrskurðarnefndinni afhent öll gögn málsins sem lægju fyrir hjá ráðuneytinu. Þá kom fram í erindinu að ráðuneytið hygðist afhenda kæranda gögnin að undanskildum drögum að greinargerð starfshópsins og drögum að uppfærðu leiðbeiningarskjali Neytendastofu þar sem um vinnugögn væri að ræða. Var það gert sama dag.
 
Úrskurðarnefndin bar undir kæranda með erindi, dags. 12. nóvember 2024, hvort hann teldi af­hendingu ráðuneytisins vera fullnægjandi. Í erindi kæranda, dags. 22. nóvember 2024, kom fram að kærandi gerði ekki athugasemd við þá afstöðu ráðuneytisins að framangreind drög teldust vera vinnugögn. Hins vegar vekti kærandi athygli á því að hvorki á lista yfir gögn málsins né á meðal gagna sem afhent voru kæranda væri að finna fundargerðir af 13 fundum starfshópsins eða fundum með fulltrúum eftirlitssviða Seðlabanka Íslands og yfirlögfræðingi Neytendastofu. Engar skýringar á því hefðu borist frá ráðuneytinu, þrátt fyrir að athugasemdir kæranda til úrskurðarnefndarinnar frá 15. október 2024 hefðu átt að gefa tilefni til þess.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum máls sem varðar vinnu starfshóps sem menningar- og viðskiptaráðherra skipaði til að fara í greiningarvinnu í tengslum við ákveðna þætti fasteignalána til neytenda og neytendalána, með það að markmiði að efla neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu og auka fjármálalæsi.
 
Kæra í málinu barst nefndinni á þeim grundvelli að beiðni kæranda til ráðuneytisins hefði ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga, sbr. 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt ákvæðinu úr­skurðar nefndin í slíkum tilvikum um rétt til aðgangs að gögnunum. Við meðferð málsins hjá nefnd­inni afgreiddi ráðuneytið hins vegar beiðni kæranda og afhenti honum gögn málsins ásamt lista yfir málsgögn, að undanskildum drögum að greinargerð starfshópsins og uppfærðu leiðbein­ing­arskjali Neytenda­stofu þar sem um vinnugögn væri að ræða í skilningi upplýsingalaga. Kærandi gerir ekki athuga­semd við þá afstöðu ráðuneytisins og telur úrskurðarnefndin því ekki ástæðu til að skera úr um rétt kæranda til aðgangs að þeim gögnum.
 
Á hinn bóginn liggur fyrir að í athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar við meðferð máls­ins, dags. 15. október 2024, tiltók kærandi að starfshópurinn hefði hist 13 sinnum og að auki fundað með Seðlabanka Íslands og Neytendastofu. Þá óskaði úrskurðarnefndin eftir því 21. ok­tó­ber 2024 að nefnd­inni yrðu afhent þau gögn sem heyrðu undir beiðni kæranda. Þrátt fyrir þetta kemur hvorki fram í erindi ráðu­neytisins til úrskurðarnefndarinnar né í erindi til kæranda, bæði dags. 1. nóvember 2024, hvort fundargerðir af þessum fundum liggi fyrir í vörslu ráðuneytisins og ef svo er, hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að þeim. Þannig hefur beiðni kæranda ekki hlotið fullnægjandi efnislega meðferð hjá ráðuneytinu að þessu leyti. Til að tryggja að málið fái efnislega meðferð á tveimur stjórnsýslustigum þykir úrskurðarnefndinni því rétt að beiðni kæranda verði að þessu leyti vísað aftur til ráðuneytisins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
 

Úrskurðarorð

Beiðni Hagsmunasamtaka heimilanna til menningar- og viðskiptaráðuneytis, dags. 27. júní 2024, um aðgang að gögnum starfshóps um fasteignalán til neytenda og neytendalán er vísað til ráðu­neyt­isins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta