Hoppa yfir valmynd

1247/2025. Úrskurður frá 18. febrúar 2025

Hinn 18. febrúar 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1247/2025 í máli ÚNU 24050003.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 29. apríl 2024, kærði […] synjun Happdrættis Háskóla Íslands á beiðni hans um aðgang að gögnum.
 
Með bréfi 19. mars 2024 til Happdrættis Háskóla Íslands óskaði kærandi eftir aðgangi að öllum samn­ingnum sem stofnunin hefði gert við tvö nánar tiltekin fyrirtæki varðandi kaup á happ­drættis­vél­um auk samninga við félögin um tölvukerfi. Þá kom fram að kærandi gerði ekki athugasemdir við að strikað yrði yfir nöfn rekstraraðilanna eða kaupverð samkvæmt samningunum. Happdrætti Há­skóla Íslands synjaði beiðni kæranda með bréfi 2. apríl 2024 með vísan til 2. málsl. 9. gr. og 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
 
Í kæru er rakið og rökstutt að um rétt kæranda til aðgangs að gögnunum fari eftir 5. gr. upplýsinga­laga og hvorki 2. málsl. 9. gr. né 10. gr. laganna geti staðið í vegi fyrir afhendingu gagn­anna. Þá kemur fram að ekki sé gerð krafa um aðgang að upplýsingum um nöfn viðsemjanda Happ­drættis Háskóla Íslands og því sé rétt að strika yfir þann hluta samninganna.
 
Í samhengi við 9. gr. upplýsingalaga vísar kærandi meðal annars til þess að hagsmunir almennings af því að fá aðgang að samningunum vegi þyngra en hagsmunir viðkomandi lögaðila. Samn­ing­ar­nir varði mjög umdeilda starfsemi sem að hluta lúti ákvörðunum um ráðstöfun opinbers fjár og séu ýmsar upplýsingar um rekstur Happdrætti Háskóla Íslands þegar aðgengilegar almenningi. Þrátt fyrir að samningarnir innihaldi upplýsingar um greiðslur þá feli það ekki sjálfkrafa í sér að halda skuli upplýsingunum leyndum, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 1162/2023. Þá geti 4. tölul. 10. gr. upp­lýsingalaga ekki átt við með vísan til þess að Happdrætti Háskóla Íslands eigi í samkeppni við Íslands­spil sf. Munur sé á happdrættisvélum Happdrættis Háskóla Íslands og söfnunarkössum Íslands­spila auk þess sem starfsheimildir þessara aðila séu ólíkar. Með hliðsjón af forsendum nefnd­arinnar í úrskurði nr. 1162/2023 sé mjög ólíklegt að samkeppnishagsmunir Happdrættis Há­skóla Ís­lands eða viðsemjenda stofnunarinnar skaðist verði almenningi veittur aðgangur að um­beðn­um gögn­um.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Happdrætti Háskóla Íslands með erindi, dags. 8. maí 2024, og stofnuninni veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að stofnunin léti úrskurð­ar­nefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.
 
Með tölvupósti 3. júní 2024 afhenti Happdrætti Háskóla Íslands nefndinni afrit af þeim gögnum sem stofnunin taldi að kæran lyti að en umsögn stofnunarinnar barst nefndinni 14. sama mánaðar. Með tölvupósti 26. júní 2024 lagði Happdrætti Háskóla Íslands fram eitt skjal til viðbótar sem stofn­unin taldi að kæran lyti að. Þá hefur Happdrætti Háskóla Íslands afhent nefndinni afrit af athuga­semdum hlutaðeigandi félaga, dags. 11. og 24. júní 2024.
 
Í umsögn Happdrættis Háskóla Íslands kemur meðal annars fram að umbeðnir samningar falli undir 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Horfa þurfi til þess að umbeðnir samningar séu við birgja sem standi í virkri samkeppni við aðra aðila á alþjóðlegum markaði um sölu á afar þróuðum og sér­hæfð­um tæknibúnaði, þar sem bæði verð, greiðslukjör og framboð á búnaði og þjónustu skipti máli. Um­ræddir birgjar birti ekki opinberlega samninga um sölu á búnaði sínum enda innihaldi ákvæði í þeim viðskiptaupplýsingar sem geti nýst samkeppnisaðilum til að öðlast innsýn í rekstur félag­anna og viðskiptahætti með tilheyrandi samkeppnisforskoti, svo sem um gerð búnaðarins, verð og af­hendingar- og greiðslukjör. Að mati stofnunarinnar sé ekki sjálfgefið að sömu sjónarmið eigi við um umbeðna samninga og þá sem fjallað var um í úrskurði nefndarinnar nr. 1162/2023.
 
Happdrætti Háskóla Íslands hafi ítrekað orðið við beiðnum um upplýsingar í tilefni af fyrirspurnum frá Alþingi um tiltekin atriði, meðal annars um þær fjárhæðir sem varið sé til kaupa á happdrættis­vél­um. Sú upplýsingagjöf liggi því þegar fyrir og verði ekki séð að af henni leiði að til staðar séu brýn­ir hagsmunir almennings til að efnisatriði umræddra samninga verði einnig gerð opinber eða að þeir vegi þyngra en hagsmunir umræddra birgja af því að samkeppnishagsmunum þeirra verði ekki raskað með opinberri birtingu viðskiptaupplýsinga.
 
Í kæru málsins komi fram að ekki sé gerð krafa um að veittur verði aðgangur að upplýsingum um nöfn viðsemjanda Happdrættis Háskóla Íslands og því sé rétt að strika yfir þann hluta samning­anna. Af því tilefni sé bent á að beiðni kæranda afmarkist við tvö félög sem selji að ýmsu leyti ólík­ar vörur. Því sé viðbúið að afhjúpað verði með lítilli fyrirhöfn hverjir séu viðsemjendur stofn­un­ar­inn­ar í hverju tilviki fyrir sig þótt strikað verði yfir hluta umbeðinna gagna.
 
Í samhengi við 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga sé á það bent að birting umbeðinna samninga kunni að hafa þau áhrif að samkeppnisaðili Happdrættis Háskóla Íslands fái ítarlegar upplýsingar um hver ein­ustu kaup stofnunarinnar á happdrættisvélum. Samkeppnisaðilinn geti nýtt þær upplýs­ing­ar í sam­keppni sinni, svo sem til að haga innkaupum sínum með öðrum hætti eða knýja á um breytt kjör hjá sínum birgjum, án þess að þurfa með sama hætti að gera samninga við sína birgja opinbera. Sé þannig óumdeilanlega komið í veg fyrir að yfirlýst meginsjónarmið að baki 4. tölul. 10. gr. upp­lýsingalaga verði náð, það er að opinber aðili eigi að standa jafnfætis öðrum samkeppnisaðilum í viðskiptum hvorki betur né verr.
 
Svo sem fyrr segir afhenti Happdrætti Háskóla Íslands nefndinni afrit af athugasemdum tveggja fél­aga sem umbeðin gögn varða en bæði félögin lögðust gegn því að gögnin yrðu afhent til kær­anda.
 
Í athugasemdum annars félagsins, dags. 11. júní 2024, kemur meðal annars fram að afhending um­beð­inna samninga muni skaða hagsmuni þess þar sem vitneskja þriðju aðila á verðupplýsingum, upp­lýs­ingum um samsetningu þjónustu sem og samningsskilmála sé til þess fallin að valda félag­inu tjóni. Auk þess sé opinberun upplýsinga um sérstök afsláttarkjör í samningssambandi félagsins við Happ­drætti Háskóla Íslands til þess fallin að grafa undan viðskiptasambandi félagsins við aðra við­skiptavini sína og hafa áhrif á framtíðarviðskipti. Þrátt fyrir að samningarnir sem um ræði séu frá árunum 2018-2019 séu upplýsingarnar sem þeir hafi að geyma enn viðeigandi í dag enda séu samn­ingarnir enn í fullu gildi auk þess sem núverandi samningar félagsins séu byggðir upp á grund­velli sömu skilmála og kjara og umbeðnir samningar.
 
Í athugasemdum hins félagsins, dags. 24. júní 2024, kemur fram að þeir almennu skilmálar sem komi fram í samningum félagsins séu aðgengilegir almenningi. Aðrar upplýsingar séu trúnaðar­upp­lýsingar sem ekki séu aðgengilegar almenningi. Á fyrstu blaðsíðu samninganna komi fram upplýs­ingar um einingaverð, magn og samsetningu einstakra kaupa auk upplýsinga um sértilboðs­pakka sem boðnir séu einstökum viðskiptavinum. Þá komi fram upplýsingar um greiðslukjör til til­tekins viðskiptavinar og upplýsingar um samningssambandið. Á annarri blaðsíðu samninganna komi fram upplýsingar um aukaþjónustu, sérstaka skilmála og skilyrði sem gildi um viðskipta­sam­band­ið og sé um að ræða frávik frá almennum skilmálum félagsins. Um sé að ræða viðskipta­leynd­ar­mál og myndi opinberun þeirra veita samkeppnisaðilum félagsins ósanngjarnt forskot með til­heyr­andi tjóni. Sé sérstaklega á það bent að opinberun upplýsinga um sérstaka tilboðspakka félags­ins myndi gera samkeppnisaðilum kleift að draga ályktanir um sölu- og verðlagningaraðferðir félags­ins.
 
Kæranda var kynnt umsögn Happdrættis Háskóla Íslands með tölvupósti 26. júní 2024 og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum sem og hann gerði með athugasemdum 9. júlí sama ár.
 
Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslu­laga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
 

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í tengslum við innkaup Happdrættis Há­skóla Íslands á happdrættisvélum og öðrum tengdum vörum. Happdrætti Háskóla Íslands hefur afhent úrskurðarnefndinni afrit af þeim gögnum sem stofnunin telur að kæran lúti að. Um er að ræða eftirfarandi gögn:
 

  1. Samningur, undirritaður 9. og 13. júní 2018, og reikningur, dags. 13. júní 2018.
  2. Samningur, undirritaður 26. júní 2018, og reikningur dagsettur sama dag.
  3. Samningur, undirritaður 21. desember 2018.
  4. Samningur, undirritaður 26. desember 2018.
  5. Samningur, undirritaður 27. ágúst 2019.
  6. Samningur, dags. 15. febrúar 2017, nr. 17-02-15/A (óundirritaður).
  7. Samningur, dags. 15. febrúar 2017, nr. 17-02-15/A (undirritaður).
  8. Samningur, dags. 9. mars 2018, nr. 18-03-09/A.
  9. Samningur, dags. 21. mars 2024, nr. 24-03-21/A.
  10. Samningur, dags. 21. mars 2024, nr. 24-03-21/B.

 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar að starfsemi Happdrættis Háskóla Ís­lands falli undir gildissvið upplýsingalaga, nr. 140/2012, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 1162/2023. Um rétt kæranda til aðgangs að gögn­unum fer eftir 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga en sam­kvæmt ákvæðinu er þeim sem falla undir lögin skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál þykir rétt að benda á að þeir samningar sem eru tilgreindir undir liðum 9 og 10 hér að framan voru gerðir 21. mars 2024 en beiðni kæranda til Happdrættis Há­skóla Íslands er dagsett tveimur dögum fyrr. Umrædd gögn hafa að geyma upplýsingar sem falla undir beiðni kæranda og lágu þau fyrir þegar Happdrætti Háskóla Íslands tók afstöðu til og synj­aði beiðninni með bréfi 2. apríl 2024. Samkvæmt þessu verður litið svo á að umrædd gögn falli undir kæruefni málsins og verður leyst úr rétti kæranda til aðgangs að þeim.
 
Eins og kæruefnið horfir við úrskurðarnefnd um upplýsingamál verður ekki talið að kærandi óski eftir aðgangi að upplýsingum um nöfn viðsemjenda Happdrættis Háskóla Íslands. Tekur nefndin því í úrskurðinum ekki afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að þeim upplýsingum eða öðrum atriðum í umbeðnum gögnum sem gætu gefið til kynna hver viðsemjandinn er.
 

2.

Synjun Happdrættis Háskóla Íslands er meðal annars byggð á 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga en þar kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða mikilvæga virka fjár­hags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem eðlilegt og sanngjarnt er að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Fyrir liggur í málinu að félögin sem gögnin varða leggjast gegn afhendingu þeirra. 
 
Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir meðal annars:
 

Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörð­un tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

 
Í athugasemdunum segir jafnframt um 2. málsl. greinarinnar:
 

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða við­skipta­hagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upp­lýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lög­aðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hags­mun­um að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lög­aðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hags­mun­um, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýs­ing­um.

 
Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu til­viki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrir­tækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerð­ar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýs­ing­un­um. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.
 
Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upp­lýs­ingarétt almennings er ætlað að tryggja. Líkt og er rakið í fyrrgreindum athugasemdum skiptir almennt verulegu máli við mat á hagsmunum almennings hvort og þá að hvaða leyti upp­lýs­ingar sem um ræðir lúta að ákvörðunum um ráðstöfun opinbers fjár. Á þetta reynir sérstaklega þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, sem fela í sér að hið opin­bera kaupir af þeim þjón­ustu, verk eða annað. Í ljósi meginreglu upplýsingalaga, sbr. 5. gr. laganna, geta hagsmunir al­mennings af því að fá að­gang að slíkum upplýsingum rutt til hliðar við­skiptalegum hagsmunum enda hafi ekki verið sýnt fram á að það valdi viðkomandi samningsaðila tjóni verði upplýsingarnar gerð­ar opinberar.
 
Hefur úrskurðarnefndin m.a. byggt á því í úrskurðum sínum að það sjónarmið, að upplýsingar um um­samið endurgjald opinberra aðila til einkaaðila fyrir veitta þjónustu eða vörur skuli fara leynt, verði að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upp­lýs­ingalaga um upplýsingarétt almenn­ings, sbr. m.a. úrskurði nefndarinnar nr. 1162/2023 og 1202/2024. Þá er rétt að líta til þess að fyrir­tæki og aðrir lögaðilar, sem gera samninga við stjórnvöld eða lögaðila er falla undir ákvæði upp­lýsingalaga, verða í senn að vera búin undir að mæta samkeppni frá öðrum sem og að borg­ar­arnir láti reyna á rétt sinn til aðgangs að upplýsingum um viðkomandi samninga, meðal annars í því skyni að stuðla að gagnsæi í stjórn­sýsl­unni og veita stjórnvöldum aðhald.
 

3.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér umbeðin gögn. Í þeim samningum sem eru til­greindir undir liðum 6–10 í 1. kafla hér að framan er að finna nokkuð ítarlega almenna skilmála sem giltu um kaupin. Hlutaðeigandi félag hefur komið á framfæri þeim upplýsingum til nefndar­inn­ar að umræddir skilmálar séu aðgengilegir almenningi. Verður því að telja að réttur kæranda til að­gangs að almennum skilmálum viðkomandi samninga verði ekki takmarkaður á grundvelli 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga.
 
Að öðru leyti eiga gögnin það sammerkt að varða innkaup Happdrættis Háskóla Íslands á happ­drættis­vélum og öðrum tengdum vörum. Í gögnunum koma meðal annars fram upplýsingar um hið selda, einingaverð einstakra vara, afsláttarkjör og greiðslufyrirkomulag. Þá er í samningunum að finna sértæka skilmála sem eru þó að mestu leyti almenns eðlis. Þar er meðal annars mælt fyrir um ábyrgð­ir á hinu selda, þjónustu í tengslum við vörurnar, skilmála varðandi afhendingu þeirra o.fl.
 
Við mat á því hvort að aðgangur almennings að umbeðnum gögnum valdi tjóni verður svo sem fyrr segir meðal annars að líta til aldurs upplýsinganna sem þau hafa að geyma, enda takmarkar ákvæði 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga aðeins aðgang að mikilvægum virkum fjárhags- eða við­skipta­hagsmunum. Fyrir liggur að meirihluti umbeðinna gagna varða viðskipti sem fóru fram á ár­unum 2017–2019. Upplýsingar um viðskipti sem áttu sér stað fyrir svo löngum tíma eru alla jafna ekki til þess fallnar að valda tjóni á mikilvægum virkum fjárhags- eða viðskiptahagsmunum verði aðgangur veittur að þeim. Engu að síður þarf að meta hverju sinni hvort upplýsingarnar séu þess eðlis að heimilt sé að undanþiggja þær á grundvelli 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga.
 
Samningurinn sem er tilgreindur undir lið 9 í kafla 1 hér að framan varðar innkaup Happdrættis Há­skóla Íslands á tilteknum happdrættisvélum og öðrum tengdum vörum. Í samningnum koma fram upplýsingar um happdrættisvélarnar, fylgihluti þeirra og lýsing á öðrum vörum sem voru seldar með vélunum. Af samningnum verður ráðið að vörurnar hafi myndað tvo tilboðspakka sem hafi með samningnum verið seldir í einu lagi á tilteknu einingaverði.
 
Að mati nefndarinnar geta framangreindar upplýsingar varðað virka viðskiptahagsmuni hlutað­eig­andi félags enda eru þær nýlegar og varða lýsingu á sérstakri samsetningu tiltekinna vara sem voru verð­lagðar sem ein heild. Að þessu gættu og að virtu eðli upplýsinganna að öðru leyti verður að telja að aðgangur kæranda og almennings að þessum upplýsingum kunni að valda hlutaðeigandi félagi tjóni. Er það því mat nefndarinnar, hvað varðar aðgang að þessum upplýsingum, að hags­munir viðkomandi félags vegi þyngra en hagsmunir almennings af því að fá aðgang að þessum upp­lýsingunum. Verður því fallist á að tilteknar upplýsingar verði afmáðar úr þessum samningi með vísan til 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. nánar það sem greinir í úrskurðarorði.
 
Að öðru leyti en greinir hér að framan telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið sýnt fram á að upplýsingar í umbeðnum gögnum nái til svo mikilvægra virkra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna að aðgangi að þeim verði synjað á þeim grundvelli. Í því sambandi lítur nefndin til þess að um er að ræða upplýsingar sem lúta með beinum hætti að kaupum hins opinbera á vörum og þar með ráð­stöfun opinberra fjármuna auk þess sem meirihluti gagnanna varðar viðskipti sem fóru fram á ár­unum 2017–2019. Þegar vegnir eru saman hagsmunir sem hlutaðeigandi félög hafa af því að synjað sé um aðgang að gögnunum annars vegar og þeir mikilvægu almannahagsmunir sem felast í aðgangi almennings að upplýsingum um ráðstöfun opinber fjármuna hins vegar verður ekki talið að synjað verði um aðgang að umbeðnum gögnum á grundvelli 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga að frá­töldum þeim upplýsingum sem nefndar eru hér að framan.
 

4.

Happdrætti Háskóla Íslands hefur einnig byggt synjun á beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum gögn­um á 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Ákvörðunin er rökstudd með þeim hætti að upp­lýs­ing­ar­nar gætu skaðað samkeppnisstöðu þess gagnvart Íslandsspilum sf. og þar með raskað þeim almanna­hags­munum sem felast í því að opinber aðili fái að standa jafnfætis öðrum samkeppnis­aðil­um í viðskiptum.
 
Samkvæmt 4. tölul. 10. gr. er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum ef mikilvægir al­manna­hagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um viðskipti stofnana og fyrir­tækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir eftirfarandi:
 

Markmiðið með þessu frumvarpi er m.a. að gefa almenningi og fjölmiðlum tækifæri á að fá vitn­eskju um það hvernig opinberum fjármunum er varið. Óheftur réttur til upplýs­inga getur á hinn bóginn skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrir­tækja í þeim tilvikum þegar hið opinbera þarf að keppa á markaði við einkaaðila sem ekki eru skyld­ugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína. Af þessum sökum er lagt til að takmarkaður verði aðgangur að upplýsingum um viðskipti hins opinbera þegar svona háttar til.

 
Þá segir enn fremur í athugasemdunum:
 

Meginsjónarmiðið að baki þessu ákvæði er að opinber aðili eigi að standa jafnfætis öðrum sam­keppnisaðilum í viðskiptum, hvorki betur né verr. Athuga verður þó í þessu sam­bandi að í sumum tilvikum eru fyrir hendi skýrar reglur um skyldu stjórnvalda til þess að veita upp­lýsingar í tengslum við viðskipti, sbr. lög nr. 65/1993, um framkvæmd útboða. Ákvæðið er sem fyrr segir einskorðað við þá stöðu þegar opinberir aðilar eru í sam­keppni við aðra aðila. Ákvæðinu verður því ekki beitt þegar hið opinbera starfar í skjóli einkaréttar eða ef opin­ber aðili er einn um rekstur þótt einkaréttar njóti ekki við.

 
Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum og ber því að skýra með hliðsjón af því. Úrskurðarnefnd um upplýsinga­mál hefur talið að til þess að stjórnvöld geti byggt takmörkun á aðgangsrétti á 4. tölul. 10. gr. upp­lýsingalaga þurfi a.m.k. þremur skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi skal starfsemi þess aðila sem upplýsingabeiðni beinist að, eða upplýsingar tengjast að öðru leyti, í heild eða að hluta, vera í samkeppni við aðra aðila. Í öðru lagi þurfa þær upplýsingar sem beðið er um að tengjast þeirri starfsemi viðkomandi aðila sem telst til samkeppnisrekstrar hans. Í þriðja lagi að sú afstaða hafi verið tekin á grundvelli ígrundaðs mats á því að þeir samkeppnishagsmunir hinnar opinberu stofn­unar eða fyrirtækis sem um ræðir séu það veru­legir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hags­munum og rétti almennings skv. 5. gr. upp­lýs­inga­laga til aðgangs að umbeðnum upplýsingum. Um þetta má vísa til úrskurðar nefndarinnar nr. 1162/2023 og þeirra úrskurða sem þar er vísað til.
 
Í fyrrgreindum úrskurði nefndarinnar nr. 1162/2023 var deilt um aðgang að samningum sem Happ­drætti Háskóla Íslands hafði gert við nokkra einkaaðila um rekstur á happdrættisvélum. Í úrskurð­in­um lagði nefndin til grundvallar að samkeppni væri á milli Íslandsspila sf. og Happdrættis Há­skóla Íslands þótt ekki yrði fullyrt með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum hversu virk sam­keppni sú væri. Verður hið sama lagt til grundvallar við úrlausn þessa máls enda verður ekki séð að breytingar hafi átt sér stað sem eru til þess fallnar að hafa áhrif í þessu samhengi. Þarf því að taka til skoðunar hvort umbeðin gögn tengist samkeppnisrekstri Happdrættis Háskóla Íslands og hvort samkeppnishagsmunir stofnunarinnar séu svo verulegir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar rétti almennings til aðgangs að umbeðnum gögnum.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur, svo sem fyrr segir, yfirfarið þau gögn sem Happdrætti Há­skóla Íslands afhenti nefndinni en þar er meðal annars að finna upplýsingar um einingaverð, afslætti og önnur viðskiptakjör í tengslum við innkaup stofnunarinnar á happdrættisvélum og tengd­um vörum. Jafnvel þótt umbeðin gögn varði að einhverju leyti samkeppnis­rekstur Happ­drætt­is Háskóla Íslands er það mat úrskurðarnefndarinnar að gögnin feli ekki í sér upplýsingar sem eru til þess fallnar að valda stofnuninni tjóni verði almenningi veittur aðgangur að þeim.
 
Í því sambandi verður að leggja áherslu á að hvorki samningarnir sjálfir, einstök ákvæði þeirra né fyrirliggjandi reikningar varða svo verulega samkeppnishagsmuni að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar upplýsingarétti almennings samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Er þá litið þess að Happdrætti Háskóla Íslands hefur ekki fært fyrir því sannfærandi rök að afhending gagn­anna til almennings geti haft neikvæð áhrif á starfsemi stofnunarinnar og valdið henni tjóni. Auk þess hefur almenningur sem fyrr segir töluverða hagsmuni af því að geta kynnt sér upplýsingar sem lúta að ráðstöfun opinbers fjár. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Happ­drætti Háskóla Íslands sé ekki heimilt að undanþiggja upplýsingarnar á grundvelli 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.
 
Samkvæmt öllu framangreindu og þar sem engar aðrar takmarkanir upplýsingalaga eiga við um um­beðin gögn verður Happdrætti Háskóla Íslands gert skylt að veita kæranda aðgang að gögn­un­um þó með hætti að tilteknar upplýsingar skuli afmáðar úr einu skjalinu í samræmi við það sem nánar greinir í úrskurðarorði, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. 
 

Úrskurðarorð

Happdrætti Háskóla Íslands er skylt að veita kæranda, […], aðgang að eftirfarandi gögn­um varðandi innkaup stofnunarinnar á happdrættisvélum og öðrum tengdum vörum:
 

  1. Samningi, undirrituðum 9. og 13. júní 2018, og reikningi, dags. 13. júní 2018.
  2. Samningi, undirrituðum 26. júní 2018, og reikningi, dags. sama dag.
  3. Samningi, undirrituðum 21. desember 2018.
  4. Samningi, undirrituðum 26. desember 2018.
  5. Samningi, undirrituðum 27. ágúst 2019.
  6. Samningi, dags. 15. febrúar 2017, nr. 17-02-15/A (óundirritaður).
  7. Samningi, dags. 15. febrúar 2017, nr. 17-02-15/A (undirritaður).
  8. Samningi, dags. 9. mars 2018, nr. 18-03-09/A.
  9. Samningi, dags. 21. mars 2024, nr. 24-03-21/A, þó með þeim hætti að strikað skal yfir upplýsingar um fjölda, lýsingu og einingarverð varanna á fyrstu blaðsíðu samningsins, sbr. texti undir dálkunum „Qty.“, „Description“ og „Unit Price EUR“.
  10. Samningi, dags. 21. mars 2024, nr. 24-03-21/B.

 
 
 
 
Elín Ósk Helgadóttir
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta