1248/2025. Úrskurður frá 18. febrúar 2025
Hinn 18. febrúar 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1248/2025 í máli ÚNU 24080023.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 26. ágúst 2024, kærði […] ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. (hér eftir einnig Herjólfur) að synja beiðnum hans um aðgang að upplýsingum.
Með tveimur erindum, dags. 24. júní 2024, óskaði kærandi eftir upplýsingum um annars vegar hver hefði verið kostnaður Herjólfs vegna sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn félagsins á árinu 2023 og hins vegar hvort og þá hversu mörg skrifleg leyfi Herjólfur hefði gefið út til undirmanna félagsins til að stunda önnur launuð eða ólaunuð störf á sama ári. Herjólfur synjaði beiðnunum með bréfi 7. ágúst 2024.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Herjólfi með erindi, dags. 20. september 2024, og félaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að félagið léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.
Auk framangreinds óskaði nefndin eftir skýringum hvort hjá Herjólfi lægju fyrir gögn sem innihéldu upplýsingar um kostnað vegna sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn félagsins á árinu 2023, til dæmis reikningar, kvittanir eða einhvers konar skrifleg samskipti, og ef svo væri, hvernig vörslu gagnanna væri háttað hjá félaginu, svo sem hvort þau væru geymd í málaskrá eða bókhaldskerfi. Jafnframt óskaði nefndin eftir sambærilegum skýringum um upplýsingar um skrifleg leyfi til undirmanna á Herjólfi til að stunda önnur launuð eða ólaunuð störf, það er hvort gögn sem innihéldu slíkar upplýsingar lægju fyrir og ef svo væri hvernig vörslu þeirra væri háttað.
Umsögn Herjólfs barst úrskurðarnefndinni 2. október 2024. Í umsögninni er rakið að samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, taki réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna, sem starfi hjá aðilum sem falli undir upplýsingalög, ekki til gagna í málum sem varði umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ítrekað tekið afstöðu með því að upplýsingar um starfssamband aðila eigi ekki erindi við almenning og því hafi Herjólfur ítrekað hafnað öllum fyrirspurnum um starfssamband sitt við starfsfólk. Þá rekur Herjólfur, í tilefni af fyrirspurn nefndarinnar, að umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi hjá félaginu þar sem þær séu einfaldlega ekki til.
Umsögn Herjólfs var kynnt kæranda og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 21. október 2024.
Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við meðferð þess.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um synjun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. á beiðnum kæranda um aðgang að upplýsingum um annars vegar hver hafi verið kostnaður félagsins vegna sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn þess á árinu 2023 og hins vegar hvort og þá hversu mörg skrifleg leyfi Herjólfur hefði gefið út til undirmanna félagsins til að stunda önnur launuð eða ólaunuð störf á sama ári. Herjólfur segir slíkar upplýsingar ekki vera fyrirliggjandi, auk þess sem þær séu undanþegnar upplýsingarétti samkvæmt 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga til fyrirliggjandi gagna sem varða tiltekið mál og tiltekinna fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt 20. gr. sömu laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun beiðni um að veita aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.
Herjólfur hefur fullyrt að þær upplýsingar sem kærandi óskar eftir séu ekki fyrirliggjandi hjá félaginu. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga í efa þessa fullyrðingu Herjólfs. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Verður ákvörðun Herjólfs því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf., dags. 7. ágúst 2024, í tilefni af beiðnum kæranda, […], dags. 24. júní 2024, er staðfest.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir