Hoppa yfir valmynd

1249/2025. Úrskurður frá 18. febrúar 2025

Hinn 18. febrúar 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1249/2025 í máli ÚNU 24100017.
 

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Hinn 11. október 2024 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá […] þess efnis að Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. hefði ekki afgreitt upplýsingabeiðni hans. Með erindi, dags. 25. september 2024, sótti kærandi um starf framkvæmdastjóra félagsins. Í kjöl­far þess að annar var ráðinn í starfið sendi kærandi félaginu beiðni um upplýsingar. Með erindi, dags. 3. október 2024, lagði kærandi fram svohljóðandi beiðni:
 

  1. Hvaða menntun og færni hafði nýráðinn framkvæmdastjóri fram yfir hina 38 um­sækjendurna? […]
  2. Hvernig komst stjórn Herjólfs að því hvort aðrir umsækjendur með menntun og reynslu einmitt til þess að starfa sem framkvæmdastjórar, hefðu EKKI einhvern kost sem stjórn Herjólfs fannst réttlæta ráðningu prests í flýti?
  3. Ef skoðuð er reynsla og menntun núverandi framkvæmdarstjóra, þá er skrítið að hunsa viðtal við umsækjendur með svipaða menntun og reynslu er það ekki?
  4. Undirritaður óskar eftir lista yfir þá sem sóttu um starfið með tilliti til menntunar og reynslu.
  5. Ber stjórn Herjólfs ekki skylda til að ráða til starfsins aðila með reynslu og mennt­un sem hæfir starfinu best?
  6. Ég er einn af 39 umsækjendum […]. Þá spyr ég hvað voru margir teknir í viðtal og hver var menntun þeirra og reynsla?

 
Beiðnin var ítrekuð með erindum, dags. 7. og 10. október 2024.
 
Kæran var kynnt Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. með erindi, dags. 15. október 2024. Í erindi nefndarinnar var skorað á félagið að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda. Með erindi, dags. 28. október 2024, var nefndin upplýst um að erindinu hefði verið svarað tveimur dögum fyrr með svohljóðandi hætti:
 

  1. Nýráðinn framkvæmdarstjóri hefur menntun og færni sem nýtist vel í starfi fram­kvæmdastjóra Herjólfs og var að lokum valinn hæfastur umsækjenda í starf fram­kvæmdastjóra.
  2. Metnar voru þær 39 umsóknir sem bárust, að loknu hæfnismati voru aðilar boð­að­ir í viðtöl sem endaði með ráðningu.
  3. Einstaklingar með svipaða menntun og reynslu og núverandi fram­kvæmda­stjóra voru boðaðir í viðtal.
  4. Samkvæmt úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál er opinberum hluta­félögum ekki skylt að veita aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda um auglýst störf, sjá t.d. úrskurð 856/2019. Það er mat stjórnar Herjólfs ohf. að óskir umsækjenda um nafnleynd og persónuverndarsjónarmið vegi þyngra en upp­lýsingagjöf til almennings um hverjir voru meðal umsækjenda.
  5. Stjórn réð í starfið þann einstakling sem metinn var hæfastur af þeim sem sóttu um.
  6. 5 einstaklingar voru teknir í viðtal.

 
Úrskurðarnefndin upplýsti kæranda með erindi, dags. 30. október 2024, að þar sem kæra í málinu hefði lotið að töfum á afgreiðslu beiðni sem nú hefði verið svarað teldi nefndin ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu. Ef kærandi liti svo á að afgreiðsla Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. hefði verið ófullnægjandi gæti hann beint nýrri kæru til nefndarinnar þess efnis.
 
Nefndinni barst ný kæra frá kæranda samdægurs. Í henni er farið yfir að hvaða leyti svar félagsins sé ófullnægjandi. Varðandi svar nr. 1 vísar kærandi til þess að menntun þess sem ráðinn var sé ekki á sviði reksturs, viðskipta eða rekstrarhagfræði. Því sé ítrekuð sú spurning hvaða menntun og færni hann hafi fram yfir aðra umsækjendur. Varðandi svar nr. 2 veltir kærandi því upp að hverju félagið hafi verið að leita við ráðninguna. Varðandi svar nr. 3 veltir kærandi því m.a. upp hvers vegna nýráðinn framkvæmdastjóri […] hafi verið boðaður í viðtal fyrst menntun og reynsla fráfarandi framkvæmdastjóra félagsins réði því hverjir fengu boð. Varðandi svar nr. 4 nefnir kærandi að í stað þess að nafngreina umsækjendur mætti upplýsa um menntun og reynslu þeirra 5 sem tekið var viðtal við.
 
Úrskurðarnefndin kynnti nýju kæruna fyrir Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. með erindi, dags. 4. nóvember 2024, og veitti félaginu frest til að koma á framfæri umsögn um kæruna ásamt frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun félagsins. Þá óskaði nefndin eftir að fá afhent í trúnaði þau gögn sem kæran lyti að.
 
Með erindi, dags. 29. nóvember 2024, upplýsti Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. nefndina um að félagið hefði sent kæranda viðbrögð við kærunni. Í erindi til kæranda, dags. 26. nóvember 2024, kom fram að í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, væri að finna undantekningu frá megin­reglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings þess efnis að almenningur ætti að jafnaði ekki rétt til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna þeirra aðila sem heyrðu undir ákvæði lag­anna, þ.m.t. í málum um umsóknir um starf. Stjórn félagsins myndi ekki tjá sig frekar um ráðn­ingu í starf framkvæmdastjóra félagsins.
 
Með erindi til Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf., dags. 3. desember 2024, ítrekaði úrskurðar­nefnd­in ósk um afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. Svar félagsins barst samdægurs. Í því kom fram að kærandi væri ekki að biðja um nein gögn heldur óskaði hann eftir svörum við spurn­ingum, sem búið væri að svara.
 

Niðurstaða

1.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi fellir sig ekki við svör Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. við spurningum sem hann beindi til félagsins vegna ráðningar framkvæmdastjóra. Stjórn félagsins kveðst ekki munu tjá sig frekar um ráðninguna og vísar til 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, þess efnis að upplýsingaréttur almennings taki ekki til gagna í málum sem varða um­sóknir um starf. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur mega ráða af kæru til nefndarinnar að kæru­efnið lúti að afgreiðslu Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. á fyrstu fjórum liðum fyrir­spurn­ar kæranda frá 3. október 2024.
 
Upplýsingaréttur almennings tekur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, til að­gangs að fyrir­liggj­andi gögnum sem varða tiltekið mál og aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögn­um. Þegar aðili sem heyrir undir gildis­svið laganna tekur á móti fyrirspurn sem ber með sér út frá efni hennar og málsatvikum að öðru leyti að vera beiðni um aðgang að gögn­um samkvæmt upplýsingalögum á hann að athuga hvort fyrir liggi annaðhvort þau gögn sem bein­línis er óskað eftir eða gögn sem innihalda þær upplýsingar sem tilgreindar eru í beiðninni, og taka ákvörðun um hvort aðgangur að gögn­un­um skuli veittur.
 
Af upplýsingalögum verður ekki leidd sambærileg skylda til að svara erindum sem bera ekki með sér að vera beiðnir um að­gang að gögnum. Ekki er útilokað að skylt kunni að vera að bregðast við slík­um erind­um, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og óskráða leið­beiningar­reglu þess efnis að stjórn­völd­um sé skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauð­synlega aðstoð og leið­beiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Hins vegar er það ekki hlutverk úrskurðar­nefnd­ar um upp­lýs­inga­mál að skera úr um rétt beiðanda til að fá svar við slíku erindi eða ágrein­ing um það hvort erindinu hafi verið svarað með full­nægjandi hætti, enda byggja kæruheimildir til nefnd­arinnar í upplýsingalögum á því að beðið hafi verið um aðgang að gögnum, sbr. 3. mgr. 17. gr. og 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Þá þarf og að liggja fyrir beiðni um aðgang að gögnum sam­kvæmt upplýsingalögum til að kæru vegna óhóflegs dráttar á afgreiðslu máls samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga teljist réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.
 

2.

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. vísar til þess að 1. mgr. 7. gr. upplýsinga­laga takmarki rétt til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna þeirra aðila sem heyra undir gild­issvið laganna. Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna mælir fyrir um að réttur almennings til að­gangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til samkvæmt 2. gr. laganna taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfs­sambandið að öðru leyti.
 
Í athugasemdum við 7. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir um þann hluta ákvæðisins sem snýr að málum sem varða umsóknir um starf:
 

[Í] fyrsta lagi [er] lagt til að áfram verði fylgt þeirri stefnu […] að öll gögn máls um ráðn­ingu, skipun eða setningu í opinbert starf verði undanþegin aðgangi almennings. Meðal gagna í slíkum málum eru umsóknir, einkunnir, meðmæli og umsagnir um um­sækj­endur […]. Hér búa einkum að baki þeir hagsmunir hins opinbera að geta átt kost á hæf­um umsækjendum um opinbert starf. Óheftur aðgangur almennings að gögn­um um um­sækjendur geti hamlað því að hæfir einstaklingar sæki um opinber störf ef hætta væri á að upplýsingar um persónuleg málefni þeirra yrðu gerð opinber. […]

 
Þar sem 7. gr. upplýsingalaga hefur að geyma takmörkun á upplýsinga­rétti almennings samkvæmt megin­reglu laganna í 5. gr. þeirra ber að mati nefndarinnar að beita þrengjandi lögskýringu við túlk­un ákvæðisins. Í samræmi við það er ekki hægt að leggja til grundvallar að undir gögn mála, sem varða um­sókn­ir um starf, falli hvers konar gögn sem teljast hluti af slíkum málum, heldur fyrst og fremst gögn sem tengjast með bein­um hætti þeim verndarhagsmunum sem leiða má af framan­greind­um athuga­semdum við 7. gr. á borð við þau sem þar eru nefnd í dæmaskyni og tengjast ein­stökum um­sækj­endum. Málsgögn sem eru almenns eðlis og ekki hafa að geyma persónu­grein­an­legar upp­lýs­ingar um um­sækj­endur falla að mati nefndarinnar utan gildissviðs 7. gr. upp­lýs­inga­laga. Slík gögn eru til að mynda gögn sem varða ráðningarferlið sem slíkt, viðmiðanir sem notaðar eru til að leggja mat á hæfni umsækjenda, við­talsspurningar og fundargerðir þar sem ráðningar­ferl­ið kom til um­fjöllunar. Samræmist þessi túlkun einnig þeim hagsmunum sem almenningur hefur af að fá upp­lýs­ingar um hvernig staðið er að ráðn­ingum hjá hinu opinbera, þ.m.t. lögaðilum sem alfarið eru í opinberri eigu, og hvort það sé forsvaranlega gert.
 

3.

Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á fyrirspurn kæranda til Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. frá 3. október 2024. Það er mat nefndarinnar að ekki sé hægt að líta svo á að fyrstu þrír liðir fyrirspurn­arinnar feli í sér beiðni um gögn samkvæmt upplýsingalögum, heldur fremur að kærandi óski eftir tilteknum útskýringum á ráðningarferlinu og mati á hæfni umsækjenda. Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. var því rétt að líta svo á að kærandi óskaði ekki aðgangs að gögnum að þessu leyti.
 
Beiðni kæranda um aðgang að lista yfir umsækjendur um starfið var hafnað með vísan til þess að opinberum hlutafélögum væri ekki skylt að afhenda slíkan lista. Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. heyrir undir gildissvið upplýsingalaga á grundvelli 2. mgr. 2. gr. laganna, en í ákvæðinu er mælt fyrir um að lögin taki til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Í 4. mgr. 7. gr. laganna er sérregla um upplýsingar um ákveðin atriði sem varða starfs­menn slíkra lögaðila sem skylt að veita aðgang að. Upplýsingar um nöfn umsækjenda um starf eru ekki þar á meðal, öfugt við það sem gildir um umsækjendur um störf hjá stjórnvöldum, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Úrskurðarnefndin telur því að Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. sé ekki skylt að afhenda kæranda upplýsingar um hverjir sóttu um starf framkvæmdastjóra félagsins.
 
Framangreind niðurstaða úrskurðarnefndarinnar girðir ekki fyrir að kærandi beini erindi að nýju til Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. með beiðni um aðgang að gögnum sem tengjast ráðningu framkvæmdastjóra félagsins, sbr. eftir atvikum 2., 5. og 14. gr. upplýsingalaga. Berist félaginu slík beiðni um gögn er rétt að hafa í huga að 7. gr. upplýsingalaga veitir ekki heimild til að hafna því fortakslaust að afhenda hvers kyns gögn sem tengjast starfsmannamálum. Þá telur nefndin rétt að við afgreiðslu slíkrar beiðni sé tekið mið af þeim sjónarmiðum um 7. gr. laganna sem að framan eru rakin. Að framangreindu virtu verður af­greiðsla Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. á erindi kæranda staðfest.
 

Úrskurðarorð

Staðfest er afgreiðsla Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf., dags. 26. október 2024, á erindi kær­anda, […], dags. 3. október 2024, vegna ráðningar framkvæmdastjóra félagsins.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta