Hoppa yfir valmynd

1251/2025. Úrskurður frá 18. febrúar 2025

Hinn 18. febrúar 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1251/2025 í máli ÚNU 24110006.
 

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 7. nóvember 2024, kærði […] til úrskurðarnefndar um upplýsinga­mál afgreiðslu Skattsins á beiðni hans um upplýsingar. Með erindi til Skattsins, dags. 30. ágúst 2024, óskaði kærandi eftir upplýsingum um hverju mótshaldarar Þjóðhátíðarinnar í Vestmanna­eyjum 2024 hefðu skilað í opinber gjöld. Þá óskaði hann upplýsinga um hvað þau gjöld hétu sem innheimt væru og hvernig þau sköruðust.
 
Í erindi Skattsins, dags. 24. október 2024, kom fram að á yfirstandandi rekstrarári bæri þeim sem stunduðu atvinnurekstur að standa skil á ýmsum sköttum og gjöldum. Misjafnt væri eftir tegund og umfangi starfsemi hverju ætti að skila og hversu oft. Að liðnu rekstrarári bæri að skila inn til­teknum gögnum vegna framtalsgerðar. Gerð væri grein fyrir atvinnurekstri annars vegar með skilum á sérstakri rekstrarskýrslu með persónuframtali og hins vegar á skattframtali lögaðila. Upp­lýsingar um hverju mótshaldarar Þjóðhátíðarinnar í Vestmannaeyjum 2024 hefðu skilað í opinber­um gjöldum væru ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga. Þá teldi Skatturinn að sér væri hvorki rétt né skylt að ráðast í samantekt á umbeðnum upplýsingum.
 
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að það sé ekki trúverðugt að þriggja mánaða upplýs­ingar þurfi að taka saman sérstaklega. Til vara sé kæra kæranda sú að honum verði gert kleift að taka upplýsingarnar sjálfur saman.
 
Kæran var kynnt Skattinum með erindi, dags. 27. nóvember 2024, og stofnuninni gefinn kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að Skatturinn afhenti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál þau gögn sem kær­an varðar.
 
Umsögn Skattsins barst úrskurðarnefndinni 3. desember 2024. Í henni kom ekki annað fram en að ítrekaðar væru þær forsendur sem fram kæmu í hinni kærðu ákvörðun, en þar kæmi m.a. fram að þau gögn sem kæran lyti að væru ekki fyrirliggjandi. Umsögn Skattsins var samdægurs kynnt kær­anda og honum gefinn kostur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Frekari athuga­semdir bárust ekki.
 
Með erindi, dags. 22. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá Skattinum meðal annars um hvort stofnunin byggi yfir þeim upplýsingum sem kærandi óskaði eftir. Ef svo væri, óskaði nefndin upplýsinga um hvernig þær væru vistaðar hjá Skattinum og hversu mikla vinnu það myndi útheimta að taka þær saman samkvæmt beiðni kæranda.
 
Viðbrögð Skattsins bárust nefndinni með erindi, dags. 29. janúar 2025. Í erindinu kemur fram að upp­lýsingar sem Skatturinn búi yfir um einstaka skattaðila hafi borist stofnuninni með ýmsum hætti, svo sem með almennri innköllun upplýsinga, fyrirspurnum og fjölþættri skýrslugerð skatt­aðila. Almennt taki skýrsluskil skattaðila og upplýsingar um þá ekki beinlínis mið af einstökum verk­efnum, tilefnum eða viðburðum. Þegar gerð sé grein fyrir tekjum eða veltu eftir tímabilum eða heild­stætt sé gerð grein fyrir tekjum og gjöldum á ársgrundvelli á skattframtali. Þrátt fyrir að kallað hafi verið eftir upplýsingum sérstaklega af ákveðnu tilefni, þá hafi sérgreindar upplýsingar ekki verið vistaðar í gagnagrunnum tengdar einstökum viðburðum, þar sem gögn séu almennt vistuð á ein­staka skattaðila. Afmarkaðar upplýsingar verði þannig ekki kallaðar fram undirbúningslaust með einföldum skipunum um einstaka viðburði og ótilgreindan hóp skattaðila í því sambandi eða mögu­legar skattgreiðslur miðað við hagnað einhvers á ákveðnu tímabili innan ársins. Að því virtu sé ekki hægt að afla umbeðinna upplýsinga án verulegrar fyrirhafnar.
 
Upplýsingar um einstaka viðburði séu ekki sérgreindar í gagnagrunnum Skattsins. Telji Skatturinn ástæðu til að fara í sértækar eftirlitsaðgerðir eða ígildi þeirra vegna einstakra viðburða kalli það á sér­staka gagnaöflun og undirbúning við afmörkun þeirra aðila, sem stóðu fyrir eða höfðu mögulega með einum eða öðrum hætti tekjur af sölu á vörum, þjónustu eða annarri starfsemi, sem rekja mætti til tiltekins viðburðar. Almennt séu skattskil rekstraraðila fremur miðuð við að leiða fram hagnað eða tap af rekstri á ársgrundvelli en að sýndur sé hagnaður af einstökum verkefnum innan ársins. Eftir­liti með skattaðilum sé auk þess hagað með ýmsum hætti og byggi almennt á greiningum og áhættu­mati einstakra atvinnugreina, hvort heldur um ræðir t.d. frávik í veltu innan atvinnugreinar innan ársins eða á ákveðnum tímabilum ársins. Eftirlitið beinist þannig að könnun með hlutlægum hætti á skattskilum þeirra sem greiningar gefa vísbendingar um að séu skoðunarverð, allt eftir gefn­um forsendum, og beinist þannig almennt ekki að einstökum viðburðum.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda til Skattsins um upplýsingar um hverju mótshaldarar Þjóðhátíð­ar­innar í Vestmannaeyjum 2024 hafi skilað í opinber gjöld. Skatturinn kveður að ekki liggi fyrir gagn með þessum upp­lýsingum og að ekki sé hægt að kalla það fram með einföldum skipunum í gagna­grunnum emb­ættisins.
 
Í kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál tilgreinir kærandi að til vara verði honum gert kleift að taka umbeðnar upplýsingar saman sjálfur. Nefndin telur af þessu tilefni að Skattinum hafi verið rétt að túlka beiðni kæranda til stofnunarinnar á þann veg að óskað væri eftir gagni með umbeðnum upplýsingum, frekar en að óskað væri aðgangs að ótilgreindum fjölda gagna sem kynni að vera hægt að vinna upplýsingarnar úr. Eftirfarandi niðurstaða nefndarinnar tekur mið af þessu.
 
Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er mælt fyrir um að upplýsingaréttur almennings nái til fyrirliggjandi gagna sem varða tiltekið mál og tiltekinna fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að ef ákvæði 6.–10. gr. laganna eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Í athugasemdum við 5. gr. í greinargerð með frum­varpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að skilyrði þess að gagn sé undirorpið upplýsingarétti sé að það liggi fyrir hjá þeim sem fær beiðni um aðgang til afgreiðslu. Þá segir enn fremur að réttur til aðgangs að gögnum nái þannig aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma.
 
Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga í efa þá fullyrðingu Skattsins að gagn með um­beðnum upplýsingum sé ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni. Þá er ljóst að ekki væri unnt að kalla fram gagn með þeim upplýsingum sem óskað er eftir með tiltölulega einföldum hætti, svo sem með nokkr­um einföldum skip­unum í gagnagrunni, heldur þyrfti að ráðast í vinnu sem væri nokkuð mikil að umfangi. Að framan­greindu virtu og með vísan til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga verður lagt til grundvallar að gagn með umbeðnum upplýsingum liggi ekki fyrir hjá Skattinum.
 
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýs­inga­laga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum sam­kvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þar sem gagn með umbeðnum upplýsingum liggur ekki fyrir hjá Skattinum er ljóst að ekki er um að ræða synjun beiðni um afhendingu gagna í skiln­ingi 1. mgr. 20. gr. upplýs­inga­laga. Verður því staðfest hin kærða ákvörðun Skatts­ins.
 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Skattsins, dags. 24. október 2024, að synja beiðni kæranda, […], dags. 30. ágúst 2024, er staðfest.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta