1254/2025. Úrskurður frá 28. febrúar 2025
Hinn 28. febrúar 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1254/2025 í máli ÚNU 23090012.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindi, dags. 25. september 2023, kærði […] ákvörðun Háskólans á Bifröst að synja beiðni hans um aðgang að gögnum.
Kærandi óskaði upphaflega eftir því með erindi, dags. 25. apríl 2022, að Háskólinn á Bifröst upplýsti um nöfn höfunda og ábyrgðarfólks verkefnisins […] sem unnið hefði verið við skólann í námskeiðinu […]. Kærandi hefði fengið verkefnið sent frá stjórnarmanni Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ, en í því eintaki sem hann fékk afhent væru ekki nöfn höfunda. Að mati kæranda væri í verkefninu að finna mikla meingjörð gagnvart honum. Þar sem Háskólinn á Bifröst hefði ekki afgreitt beiðni hans vísaði hann málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í kæru til nefndarinnar, dags. 31. maí 2022, kvaðst hann vilja fá aðgang að verkefninu þannig að nöfn höfunda væru sýnileg. Í kjölfar áskorunar nefndarinnar til skólans var beiðni kæranda afgreidd, dags. 1. júní 2022, með vísan til þess að skólanum væri óheimilt að afhenda kæranda verkefnið. Þar sem afgreiðsla skólans byggðist ekki á ákvæðum upplýsingalaga vísaði nefndin beiðni kæranda til Háskólans á Bifröst til nýrrar meðferðar og afgreiðslu með úrskurði nr. 1144/2023 frá 22. maí 2023.
Háskólinn á Bifröst afgreiddi beiðni kæranda að nýju 14. september 2023. Í erindi skólans til kæranda kom fram að sterkir einkahagsmunir mæltu gegn því að námsúrlausnir nemenda væru öllum aðgengilegar, nema samþykki viðkomandi lægi fyrir. Það hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar ef úrlausnir nema í einstökum námskeiðum í háskólanámi væru aðgengilegar öllum. Það gæti haft hamlandi áhrif á kennslu í háskólum landsins og haft þau áhrif að nemendur veigruðu sér við að skila verkefnum, halda fram skoðunum sem væru í andstöðu við ríkjandi viðhorf eða hefja háskólanám yfir höfuð. Ef slíkur réttur væri viðurkenndur færi það gegn hlutverki háskóla að þjálfa nemendur í viðurkenndum vinnubrögðum og setja fram hugmyndir sínar og röksemdir um tiltekin málefni, umdeild sem óumdeild, í öruggu umhverfi þar sem leyfilegt væri að mistakast án alvarlegra afleiðinga fyrir nemanda.
Verkefnið sem deilt væri um aðgang að væri ekki BA/BS-ritgerð, MA/MS-ritgerð eða ritrýnd fræðigrein sem Háskólinn á Bifröst teldi rétt að væri í opnum aðgangi ef mögulegt væri, heldur verkefni sem væri hluti af námsmati einstaks námskeiðs í námi viðkomandi nema og engin hefð væri fyrir innan íslenskra háskóla að væru aðgengileg utanaðkomandi aðilum. Með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og persónuverndarsjónarmiða væri beiðni kæranda því hafnað.
Kæran var kynnt Háskólanum á Bifröst með erindi, dags. 29. september 2023, og skólanum gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Í kjölfar ítrekana úrskurðarnefndarinnar bárust nefndinni þær upplýsingar frá skólanum 16. nóvember 2023 að Háskólinn á Bifröst hefði engu að bæta við þann rökstuðning sem fram kæmi í hinni kærðu ákvörðun.
Umsögn Háskólans á Bifröst var kynnt kæranda með erindi, dags. 17. nóvember 2023, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Kærandi upplýsti nefndina 20. nóvember 2023 að hann hefði engar athugasemdir.
Niðurstaða
1.
Mál þetta snýr að beiðni kæranda um aðgang að nöfnum höfunda og ábyrgðarfólks verkefnis sem unnið var við Háskólann á Bifröst. Í upphaflegri kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál tiltók kærandi að hann óskaði aðgangs að verkefninu í heild sinni, þannig að nöfn höfunda og ábyrgðarfólks væru sýnileg. Háskólinn á Bifröst afmarkaði beiðni kæranda með þeim hætti við afgreiðslu beiðninnar og mun úrskurðarnefndin því skera úr um rétt kæranda til aðgangs að verkefninu í heild sinni.
Í úrskurði nr. 1144/2023 frá 22. maí 2023 var það niðurstaða nefndarinnar að sá hluti af starfsemi Háskólans á Bifröst sem hann sinnir á grundvelli laga um háskóla, nr. 63/2006, félli undir gildissvið upplýsingalaga, nr. 140/2012, með vísan til 3. gr. laganna og að verkefnið sem kærandi óskaði eftir tengdist þjónustuhlutverki skólans með þeim hætti að það væri undirorpið rétti til aðgangs á grundvelli upplýsingalaga. Þar var sérstaklega vísað til fjármögnunar skólans og þjónustusamnings sem skólinn hefur gert við ríkið á grundvelli laga um háskóla.
Úrskurðarnefndin telur að um rétt kæranda til aðgangs að verkefninu fari samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Þótt vísað sé til kæranda á nokkrum stöðum í verkefninu varðar verkefnið ekki hagsmuni hans sérstaklega með þeim hætti að réttur hans til aðgangs byggist á 14. gr. laganna, sem varðar aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan. Þá liggur fyrir að kærandi hefur þegar undir höndum þann hluta verkefnisins sem hefur að geyma upplýsingar um hann sjálfan.
2.
Ákvörðun Háskólans á Bifröst að hafna beiðni kæranda um aðgang að verkefninu er meðal annars byggð á 9. gr. upplýsingalaga. Fyrri málsliður 9. gr. hljóðar svo:
Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.
Í athugasemdum við ákvæðið segir að í því felist nokkurs konar vísiregla um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Aðila sem tekur ákvörðun á grundvelli upplýsingalaga sé með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verði að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.
Við meðferð kærumálsins sem lauk með úrskurði nefndarinnar nr. 1144/2023 frá 22. maí 2023 aflaði úrskurðarnefndin afstöðu þeirra fjögurra nemenda sem unnu verkefnið til afhendingar þess. Nefndinni barst sameiginlegt svar frá þremur nemendanna. Í svarinu, dags. 5. apríl 2023, kom fram að þeir legðust gegn afhendingunni. Verkefninu hefði verið miðlað til formanns SÁÁ og honum gefið leyfi til að miðla verkefninu með öðrum stjórnarmönnum samtakanna. Nemendurnir hefðu ekki samþykkt dreifingu verkefnisins til annarra. Samkvæmt þessu er ljóst að ekki liggur fyrir samþykki þeirra nemenda sem unnu verkefnið fyrir því að almenningi sé veittur aðgangur að því, sbr. fyrri málslið 9. gr. upplýsingalaga. Þá telur nefndin heldur ekki unnt að leggja til grundvallar að verkefnið sé opinberlega aðgengilegt almenningi og hagsmunir sem 9. gr. upplýsingalaga er ætlað að vernda séu ekki lengur fyrir hendi, þótt því hafi m.a. verið dreift innan samtakanna og til kæranda. Fullyrðing kæranda að verkefnið hafi verið sent stórum hópi fólks, m.a. þingmönnum, fólki í opinberri stjórnsýslu, fjölmiðlafólki og lögreglu, hefur heldur ekki áhrif á þá niðurstöðu.
3.
Í lögum er ekki að finna sérstök lagaákvæði um aðgang að metnum verkefnum og prófúrlausnum nemenda við háskóla eða takmarkanir á aðgangi að þeim.
Í 1. málsl. 3. mgr. 27. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, segir að nemendur og foreldrar þeirra eigi rétt á upplýsingum um niðurstöður mats, matsaðferðir og matstæki, þ.m.t. að skoða metin verkefni og prófúrlausnir. Með hliðsjón af 1. málsl. 2. mgr. sömu greinar, þar sem mælt er fyrir um þagnarskyldu, er eðlilegt að gagnálykta frá ákvæðinu á þann veg að aðrir en nemandi sjálfur eða forráðamaður hans eigi ekki rétt til aðgangs að metnum verkefnum og prófúrlausnum hans.
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir verkefnið sem deilt er um aðgang að. Verkefnið hefur yfirskriftina „Lokaverkefni“ og var unnið í námskeiðinu […] í Háskólanum á Bifröst. Í formála verkefnisins segir að framkvæmdastjórn SÁÁ hafi óskað eftir aðstoð til að taka á áskorunum sem samtökin stæðu frammi fyrir. Í verkefninu er meðal annars lagt mat á vanda samtakanna, hagaðilar greindir og drög lögð að upplýsingastefnu fyrir samtökin. Samkvæmt upplýsingum frá skólanum var verkefnið hið síðasta af þremur og hluti af námsmati í námskeiðinu.
Við mat á því hvort verkefnið sem deilt er um aðgang að í málinu teljist varða einkamálefni viðkomandi nemenda sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt, sbr. 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, telur úrskurðarnefndin rétt að líta til þeirrar meginreglu sem mörkuð hefur verið í lögum um grunnskóla og gerð er grein fyrir hér að framan. Þótt verkefnið hafi ekki að geyma upplýsingar um persónuleg málefni nemendanna er ljóst að verkefnið sem slíkt eru upplýsingar sem endurspegla persónulegt framlag í námi þeirra. Verkefnið var ekki formleg afurð rannsóknarvinnu sem eftir atvikum er háð ytri rýni og ætluð til birtingar, líkt og kann að eiga við um lokaverkefni eða -ritgerðir sem eru undanfari prófgráðu, heldur liður í námsmati í einstöku námskeiði til að prófa þekkingu nemenda á námsefni þess. Úrskurðarnefndin telur þannig að nemendurnir hafi mátt ganga út frá því að verkefnið sem deilt er um aðgang að kæmi ekki fyrir sjónir almennings, og að því teljist það sanngjarnt og eðlilegt að það fari leynt. Takmarkaðir hagsmunir kæranda og almennings af því að fá gagnið afhent styðja enn frekar við þá niðurstöðu.
Eins og kæruefnið var afmarkað í þessu máli telur úrskurðarnefndin að ekki þurfi að taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að verkefninu að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, svo sem með því að afmá upplýsingar um nöfn höfunda, enda eru það beinlínis þær upplýsingar sem hann hefur óskað eftir að fá afhentar. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar verður ákvörðun Háskólans á Bifröst að synja kæranda um aðgang að verkefninu staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Háskólans á Bifröst, dags. 14. september 2023, að synja […] um aðgang að námsverkefni, er staðfest.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir