Hoppa yfir valmynd

1255/2025. Úrskurður frá 28. febrúar 2025

Hinn 28. febrúar 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1255/2025 í máli ÚNU 24110013.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 18. nóvember 2024, kærði […] ákvörðun skólastjóra […]skóla að synja beiðni hans um gögn, en […]skóli er grunnskóli á vegum Reykja­vík­ur­borgar.
 
Atvik málsins eru þau að 30. ágúst 2024 óskaði kærandi eftir því að fá aðgang að upp­lýsinga- og skráningarkerfinu Mentor hjá barni sínu. Með tölvupósti, dags. 5. september 2024, upplýsti skól­inn kæranda um að móður barnsins yrði gefinn kostur á að koma athuga­semdum á fram­færi áður en ákvörðun yrði tekin um hvort honum yrði veittur aðgangur að kerf­inu. Þær bárust 9. september 2024. Með tölvupósti, dags. 20. september 2024, kom móðir barnsins því á framfæri við skólann að hún gerði ekki athugasemd við að kær­andi fengi aðgang að Mentor hjá barni þeirra. Í kjölfar þess að […]skóli upplýsti kær­anda um að hann hefði nú aðgang að Mentor fyrir barn sitt óskaði kærandi eftir því við skólann með erindi, dags. 23. september 2024 að fá aðgang að öllum gögn­um sem vörðuðu ákvörðun skól­ans um aðgang kæranda að kerfinu. Við meðferð þeirrar beiðnin lét móðir barnsins í ljós þá afstöðu að hún legðist gegn afhendingu tölvu­pósts hennar frá 9. september 2024. Með bréfi, dags. 1. nóvember 2024, afhenti […]­skóli kæranda umbeðin gögn að hluta, en takmarkaði aðgang að tölvupóstinum frá 9. september 2024 með vísan til þess að hann hefði að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra og að hags­munir viðkomandi af að þær færu leynt vægju þyngra en hagsmunir kæranda af að fá aðgang að þeim.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt […]skóla, sem er grunnskóli á vegum Reykjavíkurborgar, með erindi, dags. 27. nóvember 2024. Í erindinu var óskað eftir umsögn um fram komna kæru og þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrðu afhent þau gögn sem kæran varðar.
 
Umsögn Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 11. desember 2024 og henni fylgdu þau gögn sem kæran varðar. Þá fylgdi umsögninni meðal annars forsjárskráning frá Þjóðskrá Íslands, sem skól­inn hafði unnið eftir við meðferð málsins. Í skráningunni kom fram að kærandi hefði ekki for­sjá með barni sínu. Umsögnin var kynnt kæranda með erindi, dags. 17. de­sember 2024, og honum gef­inn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Kærandi gerði ekki athuga­semd­ir við um­sögnina.
 
Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórn­sýslu­laga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við meðferð þess.
 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um ákvörðun skólastjóra […]skóla að synja beiðni kæranda um að­gang að tölvu­pósti frá móður barns kæranda. Tölvupósturinn varð til við meðferð máls sem lauk með ákvörðun um að veita kæranda aðgang að upplýsinga- og skráningarkerfinu Mentor fyrir barn­ið.
 
Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. barnalaga, nr. 76/2003, á það foreldri, sem ekki hefur forsjá barns, rétt á að fá aðgang að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Í 3. mgr. sama ákvæðis kemur fram að stofnunum sem nefndar eru í 2. mgr. sé þó heimilt að synja um upplýsingar ef hags­munir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn. Og þá kemur fram í 4. mgr. ákvæðisins að skjóta megi synjun um upplýsingar um barn skv. 3. mgr. til sýslu­manns innan tveggja mánaða frá því að foreldri var tilkynnt um ákvörðunina. Af framangreindu leiðir að ákvörðun skólastofnunar um að veita foreldri, sem ekki hefur forsjá barns, aðgang að skrif­legum gögnum um barn þess, eða að synja um slíkan aðgang, telst ákvörðun um rétt eða skyldu við­komandi foreldris í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
 
Í stjórnsýslulögum er mælt fyrir um upplýsingarétt þeirra sem eiga aðild að máli sem til greina kem­ur að ljúka með ákvörðun um rétt eða skyldu, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Kemur fram í 1. mgr. 15. gr. laganna að aðili máls eigi rétt á að­gangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Mælt er fyrir um takmarkanir á þeim rétti í 15.–17. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. lag­anna má kæra synjun eða takmörkun til þess stjórn­valds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.
 
Eins og fyrr greinir varð tölvupósturinn sem deilt er um aðgang að í þessu kærumáli til við meðferð máls sem lauk með því að kæranda var veittur aðgangur að upplýsinga- og skráningarkerfinu Ment­or vegna barns síns. Umræddur tölvupóstur er því hluti af gagni í máli sem rekið var á grund­velli 52. gr. barnalaga, og lauk með ákvörðun um rétt eða skyldu kæranda í skilningi stjórnsýslu­laga. Synjun um aðgang að gögnum í stjórnsýslumáli verður, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulag­anna, kærð til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, sem í þessu tilviki er sýslu­maður sbr. 4. mgr. 52. gr. barnalaga.
 
Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda þau ekki um aðgang að upplýsingum sam­kvæmt stjórnsýslulögum. Kæruheimild til nefndarinnar, sbr. 20. gr. sömu laga, er afmörkuð við synj­anir samkvæmt upplýsingalögunum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál er í ljósi fram­an­greinds ekki bær til að leggja mat á rétt kær­anda til aðgangs að því gagni sem deilt er um að­gang að. Verður kærunni því vísað frá úr­skurð­ar­nefndinni.
 

Úrskurðarorð

Kæru […], dags. 18. nóvember 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta