Hoppa yfir valmynd

1256/2025. Úrskurður frá 28. febrúar 2025

Hinn 28. febrúar 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1256/2025 í máli ÚNU 25020011.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 17. febrúar 2024, framsendi fjármála- og efnahagsráðuneyti til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kæru Verðlags­stofu skiptaverðs vegna ákvörðunar Skattsins að synja beiðni stofn­unarinnar um aðgang að gögnum.
 
Með erindi til Skattsins, dags. 8. nóvember 2024, óskaði Verðlagsstofa skiptaverðs eftir tilteknum gögn­um um útflutning á makríl í tengslum við athugun stofnunarinnar á uppgjöri á makríl­ver­tíð 2024. Nánar tiltekið var óskað eftir upplýsingum um tiltekin tollanúmer fyrir tímabilið frá nó­vem­ber 2023 fram að því sem af var ári. Vísaði stofnunin til 5. og 6. gr. laga um Verðlagsstofu skipta­verðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, nr. 13/1998, sbr. 1. gr. lag­anna, og fisk­verðs­samn­inga á milli hlutaðeigandi áhafna og útgerða.
 
Skatturinn afgreiddi beiðni Verðlagsstofu skiptaverðs að hluta með afhendingu gagna um makríl­út­flutning þeirra aðila sem Verðlagsstofa tilgreindi með kennitölu. Kærandi ítrekaði beiðni sína með bréfi, dags. 28. nóvember 2024. Skatturinn svaraði með bréfi, dags. 9. desember 2024, þar sem fram kom að embættið teldi sig þegar hafa afhent stofnuninni upplýsingar um útflutning á makríl að því leyti sem heimild 2. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1998 kvæði á um og hafnaði frekari afhend­ingu gagna. Skatturinn tók fram að ákvörðunin væri kæranleg til fjármála- og efnahags­ráðu­neyt­isins, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
 
Verðlagsstofa skiptaverðs kærði ákvörðunina til fjármála- og efnahagsráðuneytis með bréfi, dags. 14. febrúar 2024, sem framsendi kæruna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, með þeim rök­um að Verðlagsstofa skiptaverðs væri ekki beinn aðili að stjórnsýslumáli og ætti kæran og úr­lausn hennar því undir verksvið úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt Verðlagsstofu skiptaverðs til aðgangs að gögnum í vörslu Skattsins. Skatt­urinn synjaði beiðni stofnunarinnar á grundvelli þess að ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1998, sem stofnunin byggði beiðni sína á, veitti henni ekki heimild til aðgangs að öllum þeim upp­lýsingum sem hún óskaði eftir.
 
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrir­liggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna. Skylda til afhend­ing­ar gagna á grundvelli upplýsingalaga hvílir að þessu leyti á stjórnvöldum, sbr. 1. mgr. 2. gr. upp­lýsingalaga, og eftir atvikum öðrum aðilum sem felldir hafa verið undir gildissvið þeirra sam­kvæmt 2. og 3. gr. laganna. Upplýsingalög taka hins vegar, samkvæmt orðalagi sínu og mark­mið­um, ekki til þeirrar aðstöðu þegar stjórnvöld óska eftir upplýsingum hjá öðrum stjórnvöldum, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1223/2024 og 473/2013.
 
Verðlagsstofa skiptaverðs, sem er sá aðili sem óskaði afhendingar gagna hjá Skattinum og hefur sett fram þá kæru sem hér er til umfjöllunar, starfar á grundvelli laga nr. 13/1998. Í 1. gr. þeirra laga kemur fram að hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs sé að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á afla­hlut sjónamanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri a aflahlut sjómanna eins og nánar sé kveð­ið á um í lögunum. Samkvæmt þessu, og með vísan til ákvæða laga nr. 13/1998 að öðru leyti, telst Verðlagsstofa skiptaverðs vera stofnun sem sett er á fót með lögum og með lögbundið hlutverk. Hún telst því til stjórnvalda í framangreindri merkingu. Af því leiðir að Skatturinn telst í því máli sem hér er til umfjöllunar ekki hafa tekið ákvörðun um synjun um aðgang að gögnum sem Verð­lags­stofa skiptaverðs gæti sem stjórnvald kært til úr­skurð­arnefndar um upplýsingamál á grundvelli upp­lýsingalaga. Verður kæru Verðlagsstofu skipta­verðs því vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

Úrskurðarorð

Kæru Verðlagsstofu skiptaverðs dags, 17. febrúar 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýs­inga­mál.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta