Hoppa yfir valmynd

1258/2025. Úrskurður frá 18. mars 2025

Hinn 18. mars 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1258/2025 í máli ÚNU 24110020.
 

Kæra og málsatvik

[…], fréttamaður á Ríkisútvarpinu, beindi svohljóðandi erindi til forsætis­ráðu­neyt­is þann 15. nóvember 2024:
 

Fram hefur komið í fjölmiðlum að forsætisráðherra hafi látið kanna hæfi sitt varðandi um­sókn Hvals um  hvalveiðar. Fréttastofa RÚV óskar eftir að fá afhent öll gögn, sam­skipti, álitsgerðir og minnisblöð í tengslum við það hæfismat.

 
Sama dag framsendi forsætisráðuneytið beiðnina til matvælaráðuneytis til afgreiðslu, með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þann 22. nóvember 2024 synjaði síðarnefnda ráðu­neyt­ið beiðninni með svohljóðandi rökstuðningi:
 

Líkt og fram hefur komið lagði ráðherra mat á hæfi sitt vegna meðferðar umsókna um leyfi til hvalveiða. Mat ráðherra er að ekki séu til staðar nein slík tengsl eða hagsmunir í málinu að valdi vanhæfi. Fyrirliggjandi gögn í ráðuneytinu sem varða framangreint eru undanþegin upplýsingarétti, sbr. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

 
Sama dag, þ.e. 22. nóvember 2024, kærði […] þessa ákvörðun ráðuneytisins til úrskurðarnefndar­innar.
 

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 25. nóvember 2024, var kæran kynnt matvælaráðuneyti, og því veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir afritum af gögnum sem kæran lyti að. Umsögn ráðuneytisins barst með bréfi, dags. 16. desember 2024.
 
Í umsögninni kemur fram að það sé afstaða ráðuneytisins að þau gögn sem falli undir beiðni kær­anda uppfylli öll skilyrði vinnugagnahugtaksins samkvæmt upplýsingalögum enda hafi þau verið tekin saman og útbúin af starfsfólki ráðuneytisins til eigin nota og hafi ekki verið afhent öðrum. Þá sé ljóst, bæði af efni gagnanna og formi þeirra, að þau séu í reynd undirbúningsgögn sem til hafi orðið undir meðferð máls sem lokið hafi með veitingu leyfis á grundvelli 1. gr. laga um hval­veið­ar, nr. 26/1949. Þá tekur ráðuneytið fram að gögnin hafi verið tekin saman, m.a. á grund­velli 20. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, sem áskilji að ráðherra leiti álits ráðuneytis til að tryggja að ákvarðanir og athafnir hans séu lögum samkvæmt. Í umræddum gögnum sé þannig m.a. lýsing á þeim reglum sem gildi um sérstakt hæfi og reifun á ýmsum sjónarmiðum sem geti haft áhrif á hæfismat á grundvelli þeirra reglna. Gögnin beri því öll merki þess að vera vinnugögn. Þá rekur ráðuneytið að afhending gagnanna verði ekki studd 1.–4. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýs­inga­laga.
 
Umsögn ráðuneytisins, þar sem framangreind sjónarmið þess koma fram, var send kæranda þann 17. desember 2024. Í svari kæranda, dags. sama dag, kom fram að til að flýta fyrir málsmeðferð gerði hann engar athugasemdir.
 
Með framangreindri umsögn ráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar fylgdu gögn máls­ins. Að auki fylgdu þær skýringar ráðuneytisins, sem ekki komu fram í umsögninni, að til viðbótar við þau gögn um mat á hæfi ráðherra, sem ráðuneytið teldi að féllu undir beiðni kæranda, væru einnig til í ráðuneytinu önnur gögn um samskipti við forsætisráðuneyti sem lytu að því hvort setja ætti stað­gengil fyrir matvælaráðherra vegna mögulegs vanhæfis í umræddu máli. Teldi ráðuneytið að þau gögn lýstu ekki könnun á hæfi ráðherrans og féllu þar með ekki undir beiðni kærandans og hefði ráðuneytið því ekki tekið afstöðu til réttar hans til aðgangs að þeim. Ráðuneytið upplýsti kær­anda heldur ekki um tilvist þessara gagna.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni um aðgang að gögnum í tengslum við mat á sérstöku hæfi ráðherra til af­greiðslu hans á umsókn Hvals hf. um hvalveiðar.
 
Af atvikum málsins og beiðni kæranda um aðgang að gögnum fellst úrskurðarnefndin á að rétt hafi verið af hálfu forsætisráðuneytis sem og matvælaráðuneytis að líta svo á að beiðnin hafi lotið að gögn­um sem tengist mati á hæfi matvælaráðherra en ekki forsætisráðherra en það var fyrrnefndi ráð­herrann sem fór með valdheimildir til afgreiðslu umræddrar umsóknar Hvals hf. Var beiðnin því réttilega framsend frá forsætisráðuneyti til afgreiðslu í matvælaráðuneyti. Tekið skal fram að á þeim tíma sem beiðnin kom fram fór sami einstaklingur með embætti forsætis- og matvæla­ráð­herra, en hér ræður að matið sem fram fór á hæfi ráðherrans laut að stöðu hans sem matvæla­ráð­herra og við það mat naut hann ráðgjafar starfsmanna í því ráðuneyti.
 
Af atvikum málsins telur úrskurðarnefndin einnig ljóst að beiðnin hafi lotið að gögnum sem tengd­ust mati á hæfi ráðherra í tengslum við umsókn Hvals hf. um leyfi til veiða á langreyðum sem fyrir­tækið lagði fram í október 2023. Var kæruefnið því, að þessu leyti, réttilega afmarkað af hálfu mat­vælaráðuneytis.
 
Á hinn bóginn fellst úrskurðarnefndin ekki á afstöðu matvælaráðuneytis, sem gerð er grein fyrir í niðurlagi í lýsingu á málsmeðferð hér að framan, að gögn sem það sendi til forsætisráðuneytis og gögn sem bárust þaðan til baka, og varða ráðstafanir vegna mögulegs vanhæfis matvælaráðherrans, eigi ekki að falla undir beiðni kæranda. Bendir úrskurðarnefndin á að í beiðninni var óskað eftir að fá afhent öll gögn og samskipti í tengslum við hæfismatið. Beiðnin var ekki afmörkuð við það að fá einvörðungu í hendur ráðgjöf um mat á sérstöku hæfi ráðherrans heldur bað kærandi einnig um gögn, þar á meðal samskipti, sem tengdust mati á hæfinu. Úrskurðarnefndin telur að undir þetta falli samskipti um ráðstafanir vegna mögulegs vanhæfis, svo sem undirbúning á mögulegri skipun stað­gengils.
 
Í þessu felst að matvælaráðuneyti lagði til grundvallar ranga afmörkun á beiðni kæranda um að­gang að gögnum. Afleiðing þess var sú að ráðuneytið fjallaði ekki um rétt hans til þeirra gagna sem tengdust mati á hæfi ráðherrans og fóru á milli forsætis- og matvælaráðuneyta og hefur því ekki leyst á fullnægjandi hátt úr beiðni kæranda.
 
Eins og fyrr greinir upplýsti matvælaráðuneyti kæranda ekki um tilvist þeirra gagna sem farið höfðu á milli forsætis- og matvælaráðuneyta. Úrskurðarnefndin skilur skýringar matvælaráðu­neyt­is, sem það hefur látið nefndinni í té, þannig að ástæðan fyrir því að ekki var gerð grein fyrir um­ræddum gögnum sé að ef ráðuneytið afhenti kæranda þær upplýsingar væri um leið búið að upp­lýsa kæranda um efni hinna gagnanna, þ.e. að þá væri jafnframt búið að upplýsa kæranda um efni þeirra vinnugagna sem ráðuneytið hefur tekið afstöðu um að kærandi eigi ekki rétt á aðgangi að.
 
Úrskurðarnefndin fellst á það mat ráðuneytisins að efni umræddra gagna geti verið verulega tengt. Niðurstaða um aðgang kæranda um aðgang að gögnum um samskipti ráðuneytanna geti þannig að lögum haft áhrif á efnislega niðurstöðu matvælaráðuneytisins um aðgang að þeim gögnum sem ráðu­neytið tók afstöðu til þann 22. nóvember 2024 þegar það hafnaði beiðni kæranda. Þá verður hér einnig að líta til þess, hvað varðar þau gögn sem ráðuneytið synjaði um aðgang að, að ekki verð­ur séð að ráðuneytið hafi lagt á það mat, sbr. 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga, hvort rétt væri að veita kæranda aðgang að þeim umfram skyldu, sbr. 1. mgr. 11. gr. Þegar þetta tvennt er haft í huga telur nefndin óhjákvæmilegt annað en að fella synjun matvælaráðuneytis, dags. 22. nóvember 2024, úr gildi í heild og leggja fyrir ráðuneytið að taka beiðni kæranda, dags. 15. nóvember 2024, til nýrrar meðferðar og afgreiðslu á grundvelli upplýsingalaga í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hafa verið í úrskurði þessum.
 

Úrskurðarorð

Synjun matvælaráðuneytis, dags. 22. nóvember 2024, á beiðni kæranda, […], um afhendingu gagna í tengslum við mat á hæfi ráðherra við afgreiðslu á umsókn um hval­veið­ar er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar og afgreiðslu í ráðuneytinu.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta