1259/2025. Úrskurður frá 18. mars 2025
Hinn 18. mars 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1259/2025 í máli ÚNU 25030004.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 4. mars 2025, kærði […] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. að synja upplýsingabeiðni hans. Með erindi, dags. 8. febrúar 2025, óskaði kærandi upplýsinga um hvar skórinn kreppti helst í starfsmannamálum hjá félaginu. Í svari félagsins, dags. 24. febrúar 2025, kom fram að trúnaður ríkti um einstök starfsmannamál. Almennt mætti þó segja að stjórnendur félagsins væru meðvitaðir um að mannauðurinn væri dýrmætur og mikilvægt væri að búa þannig um hnúta að fólki liði vel í vinnunni og að aðbúnaður, hvort sem er til sjós eða lands, væri eins góður og mögulegt væri.
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að fyrirspurn kæranda sé mjög opin og almenns eðlis. Henni sé mjög auðvelt að svara án persónugreinanlegra upplýsinga, auk þess sem vitað sé að félagið hafi ekki farið varhluta af því að skórinn kreppir í starfsmannamálum.
Niðurstaða
Upplýsingaréttur almennings tekur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál og aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Þegar aðili sem heyrir undir gildissvið laganna tekur á móti erindi sem ber með sér að vera beiðni um aðgang að gögnum á hann að athuga hvort fyrir liggi annaðhvort þau gögn sem beinlínis er óskað eftir eða gögn sem innihalda þær upplýsingar sem tilgreindar eru í beiðninni og taka ákvörðun um hvort aðgangur að gögnunum á grundvelli upplýsingalaga verði veittur.
Af upplýsingalögum verður ekki leidd sambærileg skylda til að svara erindum sem bera ekki með sér að vera beiðnir um aðgang að gögnum. Ekki er útilokað að skylt kunni að vera að bregðast við slíkum erindum, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og óskráða leiðbeiningarreglu þess efnis að stjórnvöldum sé skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Hins vegar er það ekki hlutverk úrskurðarnefndar um upplýsingamál að skera úr um rétt beiðanda til að fá svar við slíku erindi eða ágreining um það hvort erindinu hafi verið svarað með fullnægjandi hætti, enda byggja kæruheimildir til nefndarinnar í upplýsingalögum á því að beðið hafi verið um aðgang að gögnum, sbr. 3. mgr. 17. gr. og 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Þá þarf og að liggja fyrir beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum til að kæru, vegna óhóflegs dráttar á afgreiðslu máls samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, teljist réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir erindi kæranda til Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. og telur erindið ekki bera með sér að vera beiðni um gögn í skilningi upplýsingalaga heldur almenn fyrirspurn til félagsins um starfsmannamál. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð
Kæru […], dags. 4. mars 2025, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir