Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

1192/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024

Hinn 5. júní 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1192/2024 í máli ÚNU 24040007.
 

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Þann 10. apríl 2024 sendi félagið Vinnuverndarnámskeið ehf. erindi til úrskurðarnefndar um upplýs­inga­mál þar sem farið var fram á aðstoð nefndarinnar við að fá svar frá Vinnueftirlitinu við erindi félagsins. Liðnir væru fleiri en 30 virkir dagar frá því erindið var sent.
 
Með hliðsjón af 17. gr. og 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga ber úrskurðarnefndinni að taka erindi félagsins Vinnuverndarnámskeið ehf. fyrir sem stjórnsýslukæru.
 
Aðdragandi málsins er sá að með erindi kæranda til Vinnueftirlitsins, dags. 26. febrúar 2024, lýsti fél­ag­ið áhuga á að kaupa vinnu­véla­herma Vinnu­eftir­litsins. Þá spurði kærandi hvort hermarnir hefðu verið mikið notaðir undanfarið. Kæran var kynnt Vinnueftirlitinu með erindi, dags. 11. apríl 2024. Umsögn stofn­unarinnar barst úr­skurð­arnefndinni 18. apríl 2024. Í henni kemur fram að það sé mat stofn­un­ar­inn­ar að erindi kæranda rúm­ist ekki innan gildissviðs upplýsingalaga, þar sem ekki sé óskað að­gangs að fyrirliggjandi gögnum heldur eftir afstöðu stofnunarinnar til nánar tilgreindra atriða. Um­sögn Vinnu­eftirlitsins var kynnt kæranda með erindi, dags. 24. apríl 2024. Ekki bárust athuga­semdir frá kær­anda.
 

Niðurstaða

Upplýsingaréttur almennings tekur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, til aðgangs að fyrir­liggj­andi gögnum sem varða tiltekið mál og aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Þegar aðili sem heyrir undir gildis­svið laganna tekur á móti erindi sem ber með sér að vera beiðni um aðgang að gögn­um á hann að athuga hvort fyrir liggi annaðhvort þau gögn sem beinlínis er óskað eftir eða gögn sem innihalda þær upplýsingar sem tilgreindar eru í beiðninni, og taka ákvörðun um hvort aðgangur að gögn­un­um á grundvelli upplýsingalaga verði veittur.
 
Af upplýsingalögum verður ekki leidd sambærileg skylda til að svara erindum sem bera ekki með sér að vera beiðnir um að­gang að gögnum. Ekki er útilokað að skylt kunni að vera að bregðast við slíkum erind­um, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og óskráða leið­beiningar­reglu þess efnis að stjórn­völd­um sé skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauð­synlega aðstoð og leið­beiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Hins vegar er það ekki hlutverk úrskurðarnefndar um upp­lýs­inga­­mál að skera úr um rétt beiðanda til að fá svar við slíku erindi, sbr. 3. mgr. 17. gr. upp­lýs­inga­laga, sbr. og 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, eða ágrein­ing um það hvort erindinu hafi verið svarað með full­nægjandi hætti, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, enda byggja framangreindar kæruheimildir á því að beð­ið hafi verið um aðgang að gögnum.
 
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir erindi kæranda til Vinnueftirlitsins og telur erindið ekki bera með sér að vera beiðni um gögn í skilningi upplýsingalaga, heldur beiðni um viðbrögð stofnunarinnar við ósk kær­anda um að kaupa vinnuvélaherma Vinnueftirlitsins. Kærunni verður því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. 
 

Úrskurðarorð

Kæru Vinnuverndarnámskeiða ehf., dags. 10. apríl 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsinga­mál.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum