Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

1198/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024

Hinn 5. júní 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1198/2024 í máli ÚNU 24050009.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 2. maí 2024, kærði […] ákvörðun Útlendingastofnunar að synja honum um aðgang að gögnum. Kærandi óskaði 19. apríl 2024 eftir aðgangi að:
 

  1. Öllum gögnum sem sýna hugsanleg tengsl þeirra, sem hafa fengið leyfi til komu til Íslands vegna fjölskyldusameiningar, við Hamas-samtökin.
  2. Öllum gögnum sem sýna að lagt hafi verið mat á að þeir sem koma til Íslands frá Gaza-svæðinu uppfylli skilyrði reglugerðar um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi og ákvæða um heimild til að koma inn á Schengen-svæðið.

 
Útlendingastofnun svaraði kæranda 30. apríl 2024. Í svarinu var umfjöllun um reglugerð um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi og skilyrði þess að dvalarleyfi væri veitt. Þá kom fram að ekki væru veittar upp­lýsingar um einstök mál eða gögn afhent vegna þeirra.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Útlendingastofnun með erindi, dags. 13. maí 2024, og stofnuninni veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafn­framt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kær­an lýtur að.
 
Meðfylgjandi erindi Útlendingastofnunar, dags. 28. maí 2024, var umsögn stofnunarinnar um kæru máls­ins. Í svörum Útlendingastofnunar kemur fram að gögn sem kæran lúti að verði ekki afhent þar sem um­fang beiðni kæranda sé óljóst, þ.e. ekki liggi fyrir til hvaða tímabils beiðnin nái, auk þess sem send­ingin verði líklega umfangsmikil. Í um­sögn stofnunarinnar kemur fram að ekki séu veittar upp­lýsingar um einstök mál, þar sem í gögnum þeirra séu persónuupplýsingar um hvern og einn ein­stak­ling, bæði almennar og viðkvæmar. Ekki sé unnt að kalla fram upplýsingarnar í formi ópersónu­grein­anlegrar tölfræði. Því þurfi að fara í gegnum hvert mál, taka út þær upplýsingar sem óskað er eftir og útbúa ný skjöl til að afhenda þær.
 
Umsögn Útlendingastofnunar var kynnt kæranda með erindi, dags. 28. maí 2024, og honum veittur kost­ur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Þær bárust daginn eftir. Í þeim kemur fram að kær­andi telji fjarri lagi að fjöldi þeirra einstaklinga sem gagnabeiðni hans kunni að ná til sé svo mikill að það kosti mikla vinnu að gera umsóknir þeirra ópersónugreinanlegar, hvað þá að útbúa þurfi ný skjöl.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að gögnum í vörslum Útlendingastofnunar. Stofnunin varð ekki við beiðninni en telur þó að hún hafi verið afgreidd með fullnægjandi hætti þar sem kæranda hafi verið veitt efnisleg svör við þeim atriðum sem gagnabeiðni hans náði til.
 
Upplýsingaréttur kæranda bygg­ist á 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, um rétt almennings til að­gangs að gögnum. Út­lendinga­stofn­un heyrir undir gildissvið laganna samkvæmt 1. mgr. 2. gr. þeirra.
 
Þegar aðila sem heyrir undir gildissvið upplýsingalaga berst beiðni um gögn skal hann athuga hvort í vörsl­um hans liggi fyrir gögn sem heyra undir beiðnina. Ef talið er ómögulegt að afmarka beiðnina við til­tekin gögn eða tiltekið mál á samkvæmt 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga að leiðbeina beiðanda og gefa honum færi á að afmarka beiðnina með skýrari hætti. Þegar aðila hefur tekist að afmarka beiðnina við gögn í sínum vörslum skal hann að því búnu leggja mat á það hvort beiðandi eigi rétt til aðgangs að þeim með hliðsjón af takmörkunarákvæðum í 6. til 10. gr. upplýsingalaga. Eigi takmarkanir aðeins við um hluta gagns skal aðilinn veita beiðanda aðgang að öðr­um hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.
 
Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að afgreiðsla Útlendingastofnunar á beiðni kæranda hafi ekki uppfyllt framangreindar kröfur sem leiða má af upplýsingalögum. Af gögnum málsins verður ekki séð að Út­lendingastofnun hafi gert tilraun til að afmarka beiðni kæranda við tiltekin gögn eða mál í vörslum stofn­unarinnar. Teldist beiðni kæranda vera of óljós var stofnuninni rétt að setja sig í sam­band við kæranda til að átta sig betur á umfangi beiðninnar.
 
Þá tekur úrskurðarnefndin fram að um þagnarskyldu starfsmanna Útlendingastofnunar fer samkvæmt ákvæð­um X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en þau ákvæði takmarka ekki rétt til aðgangs að gögn­um samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. laganna. Þá er í lögum ekki að finna ákvæði sem heimila Útlendingastofnun að takmarka aðgang að gögnum mála stofnunarinnar í heild sinni, held­ur þarf að meta það hverju sinni hvort þau gögn sem óskað er eftir séu háð aðgangstakmörkunum í heild eða að hluta samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga.
 
Loks skal tekið fram að þótt Útlendingastofn­un sé ekki skylt á grundvelli upplýsingalaga að útbúa ný skjöl til afhendingar, líkt og fram kemur í umsögn stofn­unarinnar, gera upplýsingalög ráð fyrir því sem fyrr segir að ef takmarkanir á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita að­gang að öðrum hlut­um þess.
 
Að öllu framangreindu virtu telur úr­skurð­ar­nefnd um upplýsingamál óhjákvæmi­legt að vísa beiðni kær­anda til Útlendingastofnunar til nýrr­ar með­ferð­ar og afgreiðslu.
 

Úrskurðarorð

Beiðni […], dags. 19. apríl 2024, er vísað til Útlendingastofnunar til nýrrar með­ferðar og afgreiðslu.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum