Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd kosningamála

Úrskurður nr. 2/2024 - Kæra vegna synjunar Þjóðskrár Íslands um leiðréttingu á skráningu á kjörskrá

Úrskurðarnefnd kosningamála

 

Ár 2024, föstudaginn 31. maí, kom úrskurðarnefnd kosningamála saman til að úrskurða um kæru A vegna synjunar Þjóðskrár Íslands um leiðréttingu á skráningu á kjörskrá og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

mál nr. 2/2024

Mál þetta úrskurða Berglind Svavarsdóttir, Anna Tryggvadóttir og Unnar Steinn Bjarndal.

I.

Með tölvupósti dags. 29. maí 2024 kærði kærandi, A synjun Þjóðskrár Íslands þann sama dag um að leiðrétta skráningu hans á kjörskrá, til úrskurðarnefndar kosningamála. Kæruheimild er í 1. tl. 2. mgr. 22. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og barst kæran innan kærufrests skv. 33. gr. s.l.

 

II.

Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt frá Æ í Reykjavík að V í Kópavogi þann 20. maí 2024. Í synjun Þjóðskrár Íslands á beiðni kæranda um að færa hann á kjörskrá að V í Kópavogi er vísað til 1. og 2. mgr. 27. gr. kosningalaga en þar komi fram að viðmiðunardagur kjörskrár skuli vera kl. 12 á hádegi 38 dögum fyrir kjördag. Viðmiðunardagur kjörskrárinnar hafi þannig verið 24. apríl 2024. Flutningstilkynning kæranda hafi borist Þjóðskrá 26. maí 2024 og hafi verið skráð samdægurs með gildisdagsetninguna 20. maí 2024. Í ljósi framangreinds sé beiðni um leiðréttingu á kjörskrá hafnað.

III.

Kærandi vísar til þess að hann hafi átt lögheimili að V í rúmt ár. Hann hafi einungis flutt lögheimili sitt um stundarsakir til að geta fengið í gegn endurfjármögnun á íbúðaláni skv. skilmálum viðskiptabanka hans. Að því loknu hafi hann flutt lögheimili sitt til baka.  Kærandi kveðst hafa talið að miðað væri við búsetu um áramót.

 

IV.

Skv. 1. mgr. 3. gr. kosningalaga nr. 112/2021 á hver íslenskur ríkisborgari kosningarétt við forsetakjör sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili hér á landi. Samkvæmt 28. gr. s.l. skal taka þá á kjörskrá sem uppfylla ofannefnt skilyrði 1. mgr. 3. gr. og skráðir voru með lögheimili samkvæmt þjóðskrá á viðmiðunardegi. Viðmiðunardagur kjörskrár skal vera kl. 12. á hádegi 38 dögum fyrir kjördag sbr. 2. mgr. 27. gr. kosningalaga.

 

Samkvæmt ofangreindu er viðmiðunardagur kjörskrár vegna forsetakosninga árið 2024 24. apríl 2024. Þann dag var kærandi með skráð lögheimili að Æ í Reykjavík.

 

 

 

Flutningstilkynning kæranda frá Æ í Reykjavík að V í Kópavogi dagsett 20. maí 2024 og móttekin 26. maí 2024 er þannig of seint fram komin til þess að Þjóðskrá sé heimilt að leiðrétta kjörskrá skv. 32. gr. kosningalaga og er synjun Þjóðskrár Íslands því staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að synja A um leiðréttingu á skráningu á kjörskrá er staðfest.

 

Reykjavík, 31. maí 2024.

 

Berglind Svavarsdóttir

 

Anna Tryggvadóttir                                                                            Unnar Steinn Bjarndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum