Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd húsamála

Mál nr. 143/2023-Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 143/2023

 

Eigendaskipti: Greiðandi kröfu vegna sameiginlegra framkvæmda.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 20. desember 2023, beindi A hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við Húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 3. janúar 2024, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 9. janúar 2024, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 1. júlí 2024.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C í D, alls níu eignarhluta. Álitsbeiðandi er fyrri eigandi eignarhluta í kjallara, en gagnaðili er húsfélagið.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

Að viðurkennt verði að kostnaður vegna framkvæmda við bílastæði hússins skuli greiddur úr framkvæmdasjóði. Til vara krefst álitsbeiðandi viðurkenningar þess að gagnaðila beri að beina kröfu sinni hér um til nýs eiganda íbúðar álitsbeiðanda.

Álitsbeiðandi kveður að rætt hafi verið um á húsfundi í mars 2022 að skoða þrjú tilboð vegna uppsetningar rafhleðslustöðva. Rætt hafi verið um að skoða eitt tilboð og fá endanlegar tölur. Aldrei hafi verið rætt um að eigendur yrði krafðir beint um greiðslu vegna þessa, en að sjálfgefnu hafi verið um að ræða um ráðstöfun úr framkvæmdasjóði. Álitsbeiðandi hafi selt eignarhlut sinn árið 2023 og nýr eigandi flutt inn 15. júlí sama ár. Á húsfundi í ágúst 2023 hafi verið ákveðið að fara í aðrar utanhússframkvæmdir og hússjóðurinn þá verið kláraður, samkvæmt upplýsingum fasteignasala. Á þessum fundi hafi verið tekin ákvörðun um að eigendur yrðu krafðir beint um kostnað vegna hleðslustöðvanna en að hann yrði ekki greiddur úr framkvæmdasjóði. Á þessum tíma hafi álitsbeiðandi verið búinn að selja eignarhlut sinn.

Gagnaðili kveður að á húfundi 31. mars 2022 hafi verið samþykkt að ganga að tilteknu tilboði vegna rafhleðslustöðva. Hvergi hafi komið fram í fundargerðinni hvernig hafi átt að fjármagna framkvæmdina. Ekki hafi verið tekið fram að kostnaður yrði greiddur úr framkvæmdasjóði frekar en að tekið hafi verið fram að kostnaði yrði skipt jafnt á eignarhluta, sem hafi orðið raunin. Þetta skrifist á reynsluleysi þess sem hafi ritað fundargerðina. Alltaf hafi þó verið gengið út frá því að eigendur tækju á sig þennan kostnað.

Haustið 2023 hafi síðan verið samþykkt að leita eftir tilboðum í endurnýjun á stétt og tröppum. Í gegnum tölvupóstsamskipti formanna þeirra húsfélaga sem aðild eiga að sameiginlegri lóð hafi verið ákveðið að láta til skarar skríða með uppsetningu hleðslustöðvanna á sama tíma. Ekki hafi verið leitað eftir samþykki á húsfundi, enda samþykkt legið fyrir frá 31. mars 2022.

III. Forsendur

Í 1. mgr. 47. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er kveðið á um að skylda til að greiða hlutdeild séreignar í sameiginlegum kostnaði hvílir á þeim sem er eigandi hennar á hverjum tíma.

Gagnaðili krefur álitsbeiðanda um greiðslu vegna framkvæmdar sem átti sér stað eftir að eigendaskipti urðu að íbúð álitsbeiðanda. Á grundvelli 1. mgr. 47. gr. laga um fjöleignarhús er ljóst að nýr eigandi eignarhlutans ber greiðsluskyldu, enda tók hann við þeim réttindum og skyldum sem fylgja eignarhlutanum við eigendaskiptin, þar á meðal greiðsluþátttöku í sameiginlegum kostnaði. Breytir engu í þessu tilliti þótt ákvörðun um framkvæmdina hafi verið tekin á húsfundi fyrir eigendaskiptin. Fellst nefndin því á varakröfu álitsbeiðanda. Í ljósi niðurstöðu málsins er ekki þörf á að taka afstöðu til aðalkröfunnar. Þá er ekki tekin afstaða til þess hvaða áhrif þetta kunni að hafa á réttarsamband álitsbeiðanda og hins nýja eiganda á grundvelli laga nr. 40/2002 um fasteignakaup.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda beri ekki að greiða kostnað vegna uppsetninga hleðslustöðva.

 

Reykjavík, 1. júlí 2024

 

Auður Björg Jónsdóttir

Víðir Smári Petersen                                     Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum