Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 1/2023 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Grímsborgum ehf.

 

Uppsögn. Meðganga maka. Þjóðernisuppruni. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun G ehf. um að segja honum upp störfum. Hélt A því fram að uppsögnin tengdist annars vegar aðstæðum tengdum meðgöngu sambýliskonu hans og hins vegar þjóðernisuppruna hans. Samkvæmt uppsagnarbréfinu var ástæða uppsagnarinnar nauðsynlegar skipulagsbreytingar og fyrirsjáanlegur samdráttur en fyrir lá að tveimur öðrum starfsmönnum, íslenskum og erlendum, hafði verið sagt upp störfum, auk þess sem samningar tólf annarra voru ekki endurnýjaðir. Að mati kærunefndar höfðu hvorki verið leiddar líkur að því að uppsögn A hefði grundvallast á aðstæðum tengdum meðgöngu sambýliskonu hans, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, né þjóðernis hans, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Var því hvorki fallist á að G ehf. hefði gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 né lög nr. 86/2018.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 20. ágúst 2024 er tekið fyrir mál nr. 1/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 13. janúar 2023, kærði A ákvörðun Grímsborga ehf. um að segja honum upp störfum. Af kæru má ráða að kærandi telji að kærði hafi með uppsögninni brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, þar sem uppsögnina hafi annars vegar mátt rekja til þungunar sambýliskonu hans og hins vegar þjóðernisuppruna hans. Jafnframt krefst kærandi þess að kærði greiði honum kostnað af því að hafa kæruna uppi.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 14. febrúar 2023. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 15. mars s.á., og var send kæranda degi síðar. Athugasemdir kæranda eru dags. 31. s.m. og athugasemdir kærða dags. 19. apríl s.á. Kærði lét nefndinni í té trúnaðargögn 15. maí s.á. Dráttur varð á að upplýsa kæranda um gögnin en það var gert 19. desember s.á. Kærunefnd óskaði eftir nánari upplýsingum frá kærða með tölvubréfi, dags. 26. janúar 2024. Umræddar upplýsingar bárust nefndinni ásamt athugasemdum 20. febrúar, 27. mars og 8. maí 2024 og voru sendar kæranda til kynningar 27. júní s.á.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kæranda, sem er af erlendu bergi brotinn og hafði starfað hjá kærða frá árinu 2019, var sagt upp störfum 24. ágúst 2022 með starfslokum 30. nóvember s.á. Í uppsagnarbréfinu voru ástæður uppsagnarinnar sagðar skipulagsbreytingar og mikil fækkun bókana á hótelinu. Sambýliskona kæranda, sem var þunguð þegar kæranda var sagt upp störfum, starfaði á sama tíma hjá kærða.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  5. Kærandi heldur því fram að uppsögn hans úr starfi hjá kærða þegar sambýliskona hans var barnshafandi feli í sér brot gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og 7. og 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  6. Kærandi tekur fram að honum og sambýliskonu hans, sem starfaði einnig hjá kærða, hafi verið tjáð að raunveruleg ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að sambýliskonan hafi verið barnshafandi en að kærði gæti ekki sagt henni upp störfum þar sem hún nyti ráðningarverndar á meðan hún væri þunguð. Þá telur kærandi að leiða megi líkur að því að þjóðernisuppruni hafi einnig haft áhrif á uppsögnina.
  7. Kærandi heldur því fram að ástæður uppsagnarinnar í uppsagnarbréfinu um skipulagsbreytingar og slæma bókunarstöðu á komandi mánuðum séu til málamynda, enda standist þær ekki skoðun. Bendir kærandi á að fleiri kokkar hafi verið ráðnir til kærða eftir að kæranda var sagt upp störfum. Aldrei hafi verið minnst á það við kæranda að uppsögnina mætti rekja til þess að hann kynni ekki að framreiða a la carte matseðil, auk þess sem hann framreiddi sannanlega slíkan matseðil í störfum sínum hjá kærða. Sé því um ólögmæta uppsögn að ræða.
  8. Kærandi bendir á að kærða hafi verið kunnugt um þungun sambýliskonu hans. Sú forsenda ætti ein og sér að nægja til þess að sönnunarbyrðinni sé snúið við, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Þá hafi komið fram í munnlegum samskiptum kæranda og sambýliskonu hans við annan eigenda kærða að raunveruleg ástæða uppsagnarinnar hafi verið þungun konunnar. Hafi eigandinn haft ummælin uppi stuttu eftir uppsögnina en þau staðfesti að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða þrátt fyrir staðhæfingar kærða um hið gagnstæða.
  9. Kærandi telur að gildissvið 19. gr. laga nr. 150/2020 sé nokkuð víðtækara en gildissvið 50. gr. laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, þar sem m.a. er kveðið á um bann við uppsögnum barnshafandi starfsfólks. Síðastgreinda ákvæðið nái ekki samkvæmt orðanna hljóðan til maka barnshafandi starfsmanns á meðan 19. gr. laga nr. 150/2020 geri ekki þann greinarmun og ætti því að ná til kæruefnisins. Feli ákvæðið því í sér tiltekna vernd fyrir báða foreldra áður en fæðingar- eða foreldraorlof hafi verið tilkynnt, þ.e. bann við mismunun á grundvelli aðstæðna í tengslum við meðgöngu og barnsburð, svo sem við uppsögn.
  10. Kærandi telur að þar sem hann sé af erlendu bergi brotinn megi leiða að því líkur að þjóðernisuppruni hafi spilað inn í ákvörðun kærða um uppsögn, enda ólíklegt að innlendum starfsmanni yrði sagt upp við sömu kringumstæður. Því sé um að ræða mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna sem sé óheimil, sbr. 7. og 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018. Með tilliti til málsatvika verði að telja að sönnunarbyrðin, sbr. 15. gr. laganna, um að ólögmætar ástæður hafi ekki legið að baki uppsögninni, hvíli á kærða.
  11. Kærandi telur að þar sem kæranda var mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismunarástæðu sé um að ræða fjölþætta mismunun, sbr. 15. tölul. 3. gr. laga nr. 86/2018 og 3. tölul. 2. gr. laga nr. 150/2020. Þá áréttar kærandi að óheimilt sé að afsala sér réttindum samkvæmt jafnréttislögum, sbr. 23. gr. laga nr. 150/2020 og 14. gr. laga nr. 86/2018. Hafi því ákvæði uppsagnarbréfs, sem var samið einhliða af kærða, um að hvorugur aðilinn eigi kröfur á hendur hinum eftir uppgjör milli aðila, ekki þýðingu í þessu samhengi. Að lokum krefst kærandi málskostnaðar að mati nefndarinnar á grundvelli 8. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  12. Kærði hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, og laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við uppsögn kæranda þegar sambýliskona hans var barnshafandi.
  13. Kærði tekur fram að ávirðingar kæranda í garð kærða séu í senn mjög alvarlegar og með öllu rangar. Mótmælir hann því að þau sjónarmið sem kærandi teflir fram í kærunni hafi verið lögð til grundvallar uppsögninni og að þau hafi komið til skoðunar í aðdraganda hennar. Uppsögn kæranda megi hvorki rekja til þess að sambýliskona hans hafi verið þunguð né þess að hann sé af erlendu bergi brotinn.
  14. Kærði tekur fram að kærði starfi á sviði ferðaþjónustu og reki 99 herbergja hótel. Um sé að ræða fimm stjörnu hótel sem leggi mikla áherslu á gæði, fagmennsku og góða þjónustu í starfsemi sinni og þjálfi kærði starfsfólk sitt í viðleitni sinni til að tryggja að framkvæmd starfa sé í samræmi við þær áherslur og kröfur. Í starfseminni sé rík áhersla lögð á að starfsmenn fylgi reglum í framkomu og við framkvæmd starfa sinna. Það sé alþekkt að hótelstarfsemi á Íslandi sveiflist talsvert eftir árstíðum, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig sé háannatími ferðaþjónustunnar yfir sumar­mánuðina og starfsmannafjöldi í hámarki en þegar bókunarstaðan lækki á haustin og veturna kalli slíkar rekstraraðstæður á einhverja fækkun starfsfólks. Þannig hafi endurmat á starfsmannaþörf áður farið fram í ágústmánuði í ljósi minnkandi bókana.
  15. Kærði bendir á að á þeim tíma sem uppsögn kæranda átti sér stað hafi ríflega 40 starfsmenn starfað hjá honum, þar af meirihluti af öðrum þjóðernisuppruna en íslenskum. Haustið 2022 hafi 15 manns látið af störfum sem annaðhvort var sagt upp eða voru ekki endurráðnir þegar starfstímabili þeirra lauk.
  16. Kærði tekur fram að uppsögn kæranda hafi einungis byggst á því að í ágúst 2022 hafi verið ljóst að fækka þyrfti starfsfólki hjá félaginu vegna slæmrar bókunarstöðu á næstu mánuðum. Í þeim tilvikum sé almennt horft heilt yfir starfsemi fyrirtækisins og það að fækkun gesta feli í sér minni umsvif bæði varðandi gisti- og matarþjónustu. Kærandi hafi starfað við framleiðslu á morgunverði en við það starfi alla jafna ófaglært starfsfólk án reynslu sem kokkar. Vanti kæranda menntun og reynslu til að starfa við framleiðslu á a la carte matseðli en veitingastaðir kærða framreiði nær eingöngu a la carte rétti. Á þessum grundvelli hafi þremur starfsmönnum sem voru á föstum ráðningarsamningum verið sagt upp haustið 2022, einum íslenskum og tveimur erlendum en annar þeirra var kærandi. Jafnframt hafi tímabundnar ráðningar hjá tólf manns ekki verið endurnýjaðar, þ. á m. eins erlends kokks sem hafi sóst eftir endurráðningu. Þannig hafi starfsmönnum verið fækkað um 15 af ríflega 40. Hafi þessi árstíðarbundna uppsögn hjá kærða því stuðst við hlutlæga mælikvarða sem tengdust rekstri og starfsmannaþörf í breyttu rekstrarumhverfi og ekkert haft að gera með þjóðerni eða félagslegar aðstæður viðkomandi starfsmanna. Hafi uppsagnirnar farið fram á málefnalegan hátt í því skyni að ná lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði hafi verið viðeigandi og nauðsynlegar.
  17. Kærði tekur fram að það sé miður að þurfa að segja starfsfólki upp og að hann taki því alvarlega. Framkvæmd uppsagnar kæranda hafi verið með sama hætti og í tilvikum annarra starfsmanna. Kærandi hafi verið boðaður á fund þar sem honum var tjáð að tekin hafi verið ákvörðun um að segja honum upp störfum, farið yfir ástæður uppsagnar og hann upplýstur um réttindi sín. Honum hafi verið afhent uppsagnarbréf á íslensku og ensku en hann hafi ekki gert neinar athugasemdir við móttöku þess og undirritað það. Kærði bendir á að það sé rangt að tveir nýir kokkar hafi hafið störf á uppsagnarfresti kæranda en eins og kæranda ætti að vera kunnugt um geti kærði kallað inn kokka í verktöku í þeim tilvikum sem mannmargar veislur kalli á slíkt.
  18. Kærði bendir í fyrsta lagi á að kærandi leggi hvorki fram gögn né færi fram staðreyndir eða upplýsingar sem leiði líkur að því að mismunun hafi átt sér stað við ákvörðun um uppsögn kæranda. Geti sönnunarbyrðin því ekki færst yfir á kærða. Þá lágmarkskröfu þurfi að gera til kæru að þar komi fram eitthvað annað en fullyrðingar um brot á ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020. Í öðru lagi hafi kærði lýst þeim aðdraganda og ástæðum sem leiddu til uppsagnar kæranda. Þær hafi í engu með þjóðerni að gera en eins og áður hefur komið fram hafi einum íslenskum og öðrum erlendum starfsmanni verið sagt upp á sama tíma og kæranda. Það sé því rangt að engum Íslendingi hafi verið sagt upp. Það eitt að kærandi sé af erlendu bergi brotinn þýði ekki að jafnréttislög hafi verið brotin við uppsögn hans, heldur þurfi meira að koma til. Erlendir starfsmenn geti rétt eins og íslenskir staðið frammi fyrir uppsögn en kærandi leggi í kæru sinni ekki fram nein gögn, staðreyndir eða upplýsingar máli sínu til stuðnings.
  19. Kærði tekur fram að það sé rangt að ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að sambýliskona kæranda hafi verið barnshafandi eða það á einhvern hátt haft áhrif á ákvörðun kærða. Þá mótmælir kærði því að annar eigenda hótelsins hafi látið þau orð falla að uppsögnina mætti rekja til þess að sambýliskona kæranda hafi verið barnshafandi. Slíkt væri í algjörri andstöðu við annað sem fram hefur komið í málinu sem og aðdraganda og ástæður uppsagnar kæranda. Jafnframt bendir kærði á að kærandi hafi ekki verið búinn að tilkynna um töku fæðingarorlofs. Samkvæmt 50. gr. laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, miði vernd gegn uppsögnum við að tilkynnt hafi verið um töku fæðingar- eða foreldraorlofs. Þá mæli ákvæðið ekki fyrir um bann við uppsögnum heldur að við slíkar aðstæður þurfi gildar ástæður að vera fyrir hendi og skriflegur rökstuðningur að fylgja uppsögn.
  20. Kærði tekur fram að hann sé ósammála lagatúlkun kæranda varðandi samspil 50. gr. laga nr. 144/2020 og 19. gr. laga nr. 150/2020. Telur hann engan grundvöll fyrir þeirri lagatúlkun að í 19. gr. laga nr. 150/2020 felist bann við uppsögn maka barnshafandi starfsmanns. Bann við uppsögnum sé verulegt inngrip í starfsemi atvinnufyrirtækja á einkamarkaði og þá lágmarkskröfu verði að gera að bannreglur af þessu tagi séu tilgreindar í lögum, enda skerði þær verulega athafnafrelsi fyrirtækja og þær grunnreglur sem gilda um starfsemi þeirra. Verði því að mæla fyrir um slíkt með skýrum hætti í lögum.
  21. Kærði telur enga mismunun í skilningi laga nr. 86/2018 hafa átt sér stað við uppsögn kæranda. Þá hafnar kærði því að fjölþætt mismunun hafi átt sér stað, enda byggi slíkt á því að kærði hafi mismunað bæði á grundvelli þjóðernis og vegna þess að sambýliskona kæranda hafi verið þunguð. Bendir kærði á að sönnunarfærsla kæranda á grundvelli 15. gr. laga nr. 86/2018 sé engin í kæru og engin gögn, staðreyndir eða upplýsingar fylgi kærunni sem leiði líkur að mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna.
  22. Kærði telur að hafna beri málskostnaðarkröfu kæranda en enginn grundvöllur sé til að fallast á hana í ljósi málatilbúnaðar hans og kæruefnis. Telur hann að kæran sé bersýnilega tilefnislaus og að grundvöllur sé fyrir hendi til að beita heimild samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020 og gera kæranda að greiða kærða málskostnað sem hann hefur orðið fyrir vegna málsins.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  23. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi annars vegar brotið gegn 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og hins vegar gegn 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með því að hafa látið aðstæður tengdar meðgöngu og þjóðernisuppruna hafa áhrif á uppsögn kæranda úr starfi hjá kærða. Þá krefst kærandi þess að kærði greiði honum kostnað af því að hafa kæruna uppi, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, og kærði að kærandi greiði honum kostnað sem hann hefur orðið fyrir vegna málsins, sbr. 6. mgr. sama ákvæðis.
  24. Af orðalagi 19. gr. er ljóst að gildissvið hennar takmarkast ekki við það foreldri sem gengur með og fæðir barn heldur nær það jafnt til beggja foreldra. Samkvæmt því fellur mál kæranda undir lög nr. 150/2020.
  25. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr., þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar ákvarðanir í tengslum við laun, önnur starfskjör og uppsagnir.
  26. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  27. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 150/2020 er hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, óheimil. Þá er fjölþætt mismunun jafnframt óheimil. Í 1. mgr. 19. gr. laganna er tekið fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingar, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnu­aðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna. Þá er óheimilt að láta fæðingar- og foreldra­orlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. kemur það í hlut starfsmanns sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi haft áhrif á uppsögn. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að ákvörðun um uppsögn hafi grundvallast á öðrum ástæðum en fæðingar- og foreldraorlofi, meðgöngu eða barnsburði. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi haft áhrif á uppsögn hans hjá kærða.
  28. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018 er tekið fram að hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1.gr. laganna sé óheimil. Jafnframt er tekið fram að fjölþætt mismunun sé óheimil. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli þeirra þátta sem taldir eru upp í 1. mgr. 1. gr. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, símenntun, starfs­þjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og önnur starfskjör starfsmanna. Sam­kvæmt sönnunarreglu í 15. gr. laganna kemur það í hlut starfsmanns sem telur á sér brotið með uppsögn að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli þjóðernisuppruna. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en þjóðernisuppruni hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Er því um sams konar sönnunarreglu að ræða og í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Kemur það því í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að þjóðernisuppruni hafi haft áhrif á uppsögn hans.
  29. Fyrir liggur að kærða var sagt upp störfum þegar sambýliskona hans var barnshafandi. Við úrlausn þess hvort uppsögn kæranda hafi farið gegn lögum nr. 150/2020 verður að hafa í huga að ekki er ólögmætt að segja starfsmanni upp störfum sé það gert á grundvelli annarra ástæðna en sem tengjast fæðingar- og foreldraorlofi, meðgöngu eða barnsburði, sbr. 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Verða því aðrar ástæður að liggja til grundvallar uppsögn starfsmanns. Hér vísast einnig til 50. gr. laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, um sambærileg sjónarmið.
  30. Í uppsagnarbréfinu sem liggur fyrir í málinu voru ástæður uppsagnarinnar sagðar nauðsynlegar skipulagsbreytingar og fyrirsjáanlegur samdráttur í rekstri kærða. Hefur kærði lagt fram gögn um bókunarstöðu kærða árin 2022 og 2023 máli sínu til stuðnings. Ekki verður véfengt það mat kærða að það hafi verið honum nauðsynlegt að endurskipuleggja rekstur fyrirtækisins á grundvelli þess að fyrirsjáanlegt væri að tekjur minnkuðu eins og kærði heldur fram.
  31. Í málinu liggur fyrir að auk kæranda var tveimur öðrum starfsmönnum sagt upp störfum, annars vegar íslenskum og hins vegar erlendum starfsmanni. Þá liggur fyrir að tímabundnir ráðningarsamningar tólf starfsmanna voru ekki endurnýjaðir. Ekki er upplýst hvað fór á milli eiganda kærða og kæranda í tengslum við uppsögn kæranda. Verður það því ekki lagt til grundvallar niðurstöðunni. Samkvæmt því verður, eins og mál þetta liggur fyrir, að telja að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi legið uppsögn kæranda til grundvallar. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við uppsögn kæranda hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020 og lögum nr. 86/2018.
  32. Með vísan til framangreinds verður að telja að ekki hafi verið sýnt fram á að ákvörðun um uppsögn kæranda hafi farið gegn lögum nr. 150/2020 og lögum nr. 86/2018. Telur kærunefnd því að mat kærða, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði ekki líkur að því að við uppsögnina hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, eða þjóðernisuppruna, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018. Verður því hvorki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 né 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018. Samkvæmt því hefur hann ekki gerst sekur um fjölþætta mismunun, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018.
  33. Í samræmi við þessa niðurstöðu verður ekki fallist á kröfu kæranda um að kærði greiði honum málskostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020. Þá verður ekki heldur fallist á að kæran sé bersýnilega tilefnislaus í skilningi 6. mgr. sama ákvæðis og því ekki fallist á að kæranda verði gert að greiða kærða málskostnað sem hann hefur orðið fyrir vegna málsins.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Grímsborgir ehf., braut hvorki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, né lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við uppsögn kæranda.

Hvorki er fallist á kröfu kæranda um að kærði greiði honum málskostnað við að hafa kæruna uppi né kröfu kærða um að kærandi greiði honum málskostnað sem hann hefur orðið fyrir vegna málsins.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Berglind Bára Sigurjónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum