Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 47/2023. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. maí 2024
í máli nr. 47/2023:
Intuens Segulómun ehf.
gegn
Sjúkratryggingum Íslands,
Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf.,
Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og
Íslenskri myndgreiningu ehf.

Lykilorð
Aðgangur að gögnum.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála lagði til grundvallar að I ætti rétt til aðgangs að tilteknum gögnum, sem S hafði lagt fram að beiðni nefndarinnar, þó þannig að hluti upplýsinga yrðu afmáðar.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 24. nóvember 2023 kærði Intuens Segulómun ehf. (hér eftir „kærandi“) kaup Sjúkratrygginga Íslands (hér eftir „varnaraðili“) á myndgreiningarþjónustu án útboðs.

Kæran var kynnt fyrir öllum aðilum málsins og þeim gefinn kostur á að tjá sig sem og þeir gerðu. Í kjölfar þess að athugasemdir bárust frá varnaraðila 21. desember 2023 óskaði kærunefnd útboðsmála eftir að hann legði fram tiltekin gögn sem vitnað var til í athugasemdunum. Varnaraðili afhenti gögnin með tölvupósti 3. janúar 2024. Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir frekari gögnum með tölvupósti 4. janúar 2024 sem varnaraðili afhenti degi síðar. Með fyrirspurn 5. janúar 2024 óskaði nefndin aftur eftir frekari gögnum sem varnaraðili afhenti 8. sama mánaðar. Gögnin sem varnaraðili afhenti nefndinni voru eftirfarandi:

1. Samningur varnaraðila (áður Tryggingastofnun ríkisins) og Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf., dags. 27. desember 1996, ásamt eftirfarandi fylgiskjölum:
    1. Gjaldskrá samningsins.
    2. Bréf frá Læknisfræðilegri myndgreiningu til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. desember 1996.
2. Samningur varnaraðila og Íslenskrar myndgreiningar ehf., dags. 17. maí 2001, ásamt eftirfarandi fylgiskjölum:
    1. Gjaldskrá samningsins.
    2. Mat Íslenskrar myndgreiningar ehf. á einingaþörf á árunum 2001-2004.
    3. Tillaga Íslenskrar myndgreiningar ehf. á taxta, dags. 18. apríl 2001.
    4. Bréf frá Íslenskri myndgreiningu ehf., dags. 16. maí 2001.
3. Samningur varnaraðila og Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar, dags. 7. nóvember 2017, ásamt eftirfarandi fylgiskjölum:
    1. Gjaldskrá samningsins.
    2. Gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu.
4. Samkomulag varnaraðila og Íslenskrar myndgreiningar ehf., dags. 16. febrúar 2021
5. Samkomulag varnaraðila og Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf., dags. 16. febrúar 2021
6. Samkomulag varnaraðila og Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf., dags. 20. maí 2021.
7. Samkomulag varnaraðila og Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf., dags. 21. desember 2023.
8. Bréf frá varnaraðila til Læknisfræðilegrar myndgreiningar, dags. 23. nóvember 2021.
9. Bréf frá varnaraðila til Íslenskrar myndgreiningar ehf., dags. 23. nóvember 2021.
10. Bréf frá varnaraðila til Íslenskrar myndgreiningar ehf., dags. 31. mars 2023.
11. Bréf frá varnaraðila til Læknisfræðilegrar myndgreiningar, dags. 31. mars 2023.
12. Bréf frá varnaraðila til Íslenskrar myndgreiningar ehf., dags. 20. desember 2023.
13. Bréf frá varnaraðila til Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf., dags. 20. desember 2023.

Við afhendingu gagnanna tók varnaraðili fram að hann heimilaði hvorki áframsendingu né birtingu gagnanna. Þá lagði varnaraðili áherslu á að tekið væri við gögnunum í trúnaði og þau yrðu ekki birt kæranda eða öðrum.

Með tölvupósti 9. janúar 2024 upplýsti kærunefnd útboðsmála kæranda um framlagningu gagnanna og bauð honum að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í tengslum við gögnin. Með athugasemdum 11. janúar 2024 krafðist kærandi aðgangs að gögnunum og færði fram röksemdir til stuðnings kröfunni.

Kærunefnd útboðsmála kynnti öðrum aðilum athugasemdir kæranda og gaf þeim kost á að tjá sig.

Athugasemdir bárust frá Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf. og Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. 16. janúar 2024 en báðir aðilar lögðust gegn afhendingu gagnanna.

Athugasemdir bárust frá Íslenskri myndgreiningu 18. janúar 2024 en félagið krafðist þess aðallega að kröfu kæranda yrði hafnað en til vara að allar upplýsingar skyldu afmáðar úr gögnunum aðrar en dagsetningar þeirra. Til þrautavara krafðist fyrirtækið þess að „eftirfarandi ákvæði og samningsgreinar verði afmáðar: Gildissvið, kröfur til umbjóðanda míns, allar tölulegar upplýsingar, greiðsluforsendur, verðákvæði, greiðsluþátttaka SÍ og sjúklinga, aðgangur að gögnum, reikningsgerð, ábyrgð o.fl., n.t.t. greinar 1-8 í samningnum sem og allar bókanir, fylgigögn og viðauka við samninginn. Jafnframt er þess krafist að sambærileg ákvæði í samningi dags. 16. febrúar 2021 verði afmáð“.

Með athugasemdum 22. janúar 2024 krafðist varnaraðili þess að kröfu kæranda yrði hafnað en til vara að kærunefnd útboðsmála myndi framkvæma sérstakt hagsmunamat á öllum þeim gögnum sem krafan tæki til og einstakra upplýsinga sem í þeim væri að finna samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og afmá allar upplýsingar þar sem birting eða afhending gæti skaðað almannahagsmuni auk upplýsinga sem tengdust fjárhags-, viðskipta- eða einkahagsmunum þeirra aðila sem gögnin fjölluðu um.

Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir að kærandi skilaði lokaathugasemdum sínum í málinu sem og hann gerði með athugasemdum 20. mars 2024.

I

Kærandi byggir á að um aðgang hans að gögnum fari eftir 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að undantekningarákvæði 17. gr. laganna sé túlkað afar þröngt. Af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 72/2011 megi til að mynda ráða að einstaklega mikið þurfi að koma til eigi samkeppnislegir hagsmunir að réttlæta beitingu 17. gr. stjórnsýslulaga. Skjöl nr. 1-3 á skjalalista séu öll eldri en 5 ára og tvö þeirra raunar yfir tveggja áratuga gömul. Geti ætlaðir viðskiptahagsmunir aldrei verið fyrir hendi um svo gömul skjöl og hvað þá samkeppnishagsmunir. Beri því þegar af þeirri ástæðu einni að veita kæranda þegar í stað aðgang að þeim gögnum.

Kærandi vísar til þess að fyrir liggi skýr og ítrekuð fordæmi kærunefndar útboðsmála þess efnis að innkaup varnaraðila séu ekki undanskilin lögum um opinber innkaup. Sé því mótbára stofnunarinnar um að ekki beri að afhenda gögn fyrr en afstaða hefur verið tekin til þess hvort innkaupin falli undir gildissvið laganna því með öllu haldlaus. Þá hafi Samkeppniseftirlitið staðfest, í ákvörðun stofnunarinnar í máli nr. 35/2020, að kaup á myndgreiningarþjónustu séu samkeppnismarkaður og hafi varnaraðili raunar staðfest það sjálfur í umsögn sinni í því máli. Þá bendir kærandi á að af framkvæmd um skýringu 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sem kveði á um talsvert víðtækari takmörkun á upplýsingarétti vegna fjárhags- og viðskiptahagsmuna, megi skýrlega ráða að málatilbúnaður, líkt og sá sem varnaraðili setji fram, fái ekki staðist. Þannig sé um að ræða ráðstöfun opinberra hagsmuna en almennt geti upplýsingar um slíka ráðstöfun ekki farið leynt. Sé það enda megintilgangur lagareglna um aðgang að gögnum úr stjórnkerfinu að tryggja að ekkert óeðlilegt eigi sér stað við ráðstöfun opinberra hagsmuna, líkt og ráða megi af athugasemdum með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum og til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 1162/2023.

Framangreindu til viðbótar sé ljóst að aðgangur að upplýsingum þurfi að vera til þess fallinn að valda þeim sem upplýsingarnar varði tjóni. Svo geti ekki verið hér enda eigi einingaverðin að vera bæði samræmd og opinber. Hafi þau félög sem starfa á markaðnum hingað til ekki talið ástæðu til sérstakrar leyndar og fjallað opinberlega um einingaverðin. Þá sé kærandi vart samkeppnisaðili enda hafi varnaraðili synjað honum um greiðsluþátttöku og virðist ætla að útiloka hann frá markaðnum með næsta útboði. Þess utan felist mögulega hætta á röskun á samkeppni með upplýsingaskiptum samkeppnisaðila einkum í hættunni á svonefndri samhæfðri hegðun en engin hætta sé á því hér enda verð þegar samræmd á grundvelli stjórnvaldsákvörðunar. Loks sé fyrirvari sem hafi verið gerður við gagnaafhendingu varnaraðila, þ.e.a.s. að gögnin hafi verið afhent í trúnaði, að engu hafandi enda geti kærunefnd útboðsmála ekki heitið trúnaði um tiltekin gögn nema slíkt eigi sér stoð í ákvæðum laganna, sbr. m.a. ákvörðun nefndarinnar í máli nr. 8/2021.

II

Varnaraðili tiltekur að kærunefnd útboðsmála geti ekki, gegn synjun hans og annarra málsaðila, tekið ákvörðun um að afhenda kæranda umbeðin gögn án þess að framkvæma atviksbundið hagsmunamat á hverju og einu skjali og einstökum atriðum skjala ef þau hafa að geyma margvíslegar upplýsingar. Kærandi hafi áður lagt fram beiðni um aðgang að málsgögnum frá varnaraðila á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga en varnaraðili hafi leitað eftir afstöðu þeirra aðila sem gögnin fjölluðu um varðandi hvort að þeir teldu að upplýsingarnar skyldu fara leynt á grundvelli 2. mgr. 17. gr. stjórnsýslulaga. Viðsemjendur hafi í öllum tilvikum lagst gegn afhendingu gagnanna og sé mikilvægt að nefndin taki tillit til sjónarmiða sem þessir aðilar hafi teflt fram þar sem þeir eigi ekki beina aðild að málinu. Varnaraðili byggir í meginatriðum á að synja skuli kæranda um aðgang að gögnunum samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga með vísan til mun ríkari einka- og almannahagsmuna.

Hvað varðar takmörkun á aðgengi vegna einkahagsmuna komi fram í gögnum málsins upplýsingar um umfang viðskipta og efni viðskiptasamninga en slíkar upplýsingar séu undanþegnar aðgangi eftir ákvæðinu, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 10/2009. Sérstaklega beri að líta til samkeppnissjónarmiða og þeirra áhrifa sem afhending gagna til samkeppnisaðila eða birting þeirra kynni að hafa. Nefndin hafi áður fjallað um heimilar takmarkanir á skyldu til afhendingar gagna samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga og lýst því sem svo að viðskiptahagsmunir viðsemjenda kunni að leiða til þess að heimilt sé að synja um afhendingu gagna eða hluta þeirra, sbr. ákvarðanir í málum nr. 19/2014, 32/2019 og 20/2023.

Hvað varðar takmörkun á aðgengi vegna almannahagsmuna bendir varnaraðili á að hagkvæm innkaup á heilbrigðisþjónustu séu ein af undirstöðum gildandi heilbrigðisstefnu og að afhending gagna, sem feli í sér röskun á samkeppnissjónarmiðum, leiði bersýnilega til óhagkvæmni í innkaupum á myndgreiningarmarkaði fyrir ríkið. Þannig krefjist almannahagsmunir þess að varnaraðili beiti sér fyrir því að viðhalda samkeppni á markaði. Samkeppnismarkaður á sviði myndgreininga sé með þeim hætti að þeir aðilar sem nú séu á markaði séu með ólíkar gjaldskrár og ólík einingarverð. Umræddar gjaldskrár séu mótaðar á grundvelli útboða, tilboða og samningsviðræðna. Um sé að ræða langtímasamninga, sem byggi á heimild 9. gr. reglugerðar nr. 510/2010, sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 112/2012, um að viðhafa lengri samningstíma en almennt sé heimilt þar sem krafa sé um að þjónustuveitandi komi sér upp kostnaðarsamri aðstöðu eða búnaði vegna slíkra innkaupa. Aðstaða og búnaður til myndgreininga krefjist mikillar fjárfestingar og því séu samningar varnaraðila við myndgreiningarfyrirtæki eðli máls samkvæmt með lengri samningstíma en almennt gerist í innkaupum hins opinbera.

Nauðsynlegur þáttur í því að tryggja getu varnaraðila til að viðhafa hagkvæm innkaup á sviði myndgreininga sé að gæta þess að innihald samninga, sér í lagi sem varði verðlagningu þjónustu, sé trúnaðarmál og að aðilum á markaði gefist ekki tækifæri til að grípa til samhæfðrar hegðunar. Á það sé bent að birting samninga og gjaldskráa myndi í fyrsta lagi draga úr möguleikum varnaraðila til að leita eftir verðlækkun einstakra verka, í öðru lagi gera viðsemjendum kleift að krefjast verðhækkana til samræmis við samkeppnisaðila og í þriðja lagi kynni það að búa til hvata fyrir viðsemjendur til að beina þjónustu í auknum mæli frá þeim verkþáttum þar sem verð þeirra séu lægri en keppinauta til að hámarka mögulegan heildarhagnað viðsemjenda. Þá myndi slíkt einnig skaða samningsstöðu varnaraðila í komandi valferli fyrir myndgreiningarþjónustu, sem nú sé í undirbúningi, ef allir núgildandi samningar yrði birtir eða afhentir mögulegum þátttakanda í valferli. Allt þetta kynni að leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkið sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og til óhagkvæmni í innkaupum á heilbrigðisþjónustu, þvert á gildandi heilbrigðisstefnu. Í þessu samhengi tekur varnaraðili fram að ekki sé rétt hjá kæranda að einingaverð séu samræmd því að gjaldskrár séu ólíkar og verk skilgreind með ólíkum hætti. Þá hafi engin ákvörðun verði tekin um að útiloka kæranda frá greiðsluþátttöku heldur beiðni hans um samning án valferlis hafnað. Varðandi valferlið sem nú sé í undirbúningi hafi kærunefnd útboðsmála þegar skýrt það sem svo að afhending gagna og upplýsinga sem kunni að liggja til grundvallar útboði kunni að raska almannahagsmunum með slíkum hætti að undantekningarákvæði 17. gr. stjórnsýslulaga eigi við, sbr. m.a. ákvörðun nefndarinnar í máli nr. 42/2023.

Ekkert í málatilbúnaði kæranda bendi til þess að það séu ríkir hagsmunir fyrir því að hann fái aðgang að umbeðnum gögnum, sér í lagi í ljósi þeirrar mögulegu áhættu sem afhending slíkra gagna kunni að hafa gagnvart samkeppnismarkaði á myndgreiningarþjónustu. Málatilbúnaður kæranda byggi á því að kaup varnaraðila á myndgreiningarþjónustu feli í sér útboðsskyld kaup á þjónustu samkvæmt lögum um opinber innkaup nr. 120/2016. Einnig að varnaraðila sé óheimilt að framlengja samninga þar sem þeir hafi verið útrunnir. Ekkert í efni samninganna hafi að geyma upplýsingar um hvort um sé að ræða útboðsskylda samninga en þegar liggi fyrir að um sé að ræða samninga sem feli í sér kaup á alhliða myndgreiningarþjónustu. Niðurstaða um hvort samningarnir séu útboðsskyldir ráðist af þeim lögum sem gilda um innkaupin og verði því ekki séð að málatilbúnaður kæranda yrði nokkru bættari með því að hafa aðgang að innihaldi samninganna hvað þetta varði. Lagaskylda til að framkvæma útboð byggi að engu leyti á efni samninganna, aðeins á gildandi réttarheimildum. Þá verði ekki séð að afhending umbeðinna gagna myndi hafa nein áhrif á málsástæður kæranda varðandi framlengingu samninganna. Mat á því hvort samningarnir hafi verið útrunnir og hvort að heimilt hafi verið að framlengja þá geti kærunefndin sjálf framkvæmt á grundvelli framkominna gagna. Samkvæmt þessu verði ekki séð að kærandi hafi nokkra hagsmuni af því að kynna sér efni umbeðinna gagna. Loks gerir varnaraðili athugasemdir við önnur atriði í málatilbúnaði kæranda.

Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf. byggir að meginstefnu til á því að ekki sé hægt að fallast á að gefnar séu upplýsingar sem snerta viðskiptahagsmuni þess en undir það falla allir samningar, tilboð, samskipti og hvaðeina sem máli kann að skipta milli aðila. Félagið telji afar mikilvægt að viðhalda trúnaði um þau atriði sem snerta viðskipti varnaraðila en með þeim hætti megi tryggja heilbrigða samkeppni þeirra sem veita þjónustu á heilbrigðissviði.

Læknisfræðileg myndgreining ehf. byggir að meginstefnu til á því að þær upplýsingar sem til álita geti komið að séu undanþegin upplýsingarétti samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga séu tölulegar upplýsingar um verð, afslætti og kvóta, sbr. 17. gr. laganna.

Íslensk myndgreining ehf. byggir að meginstefnu til á því að ekki sé þörf á að taka afstöðu til kröfu kæranda um aðgang að gögnum þar sem vísa beri málinu frá kærunefnd útboðsmála. Ljóst sé að kæran varði ætlaða ákvörðun sem hafi aldrei verið tekin og að kærufrestur vegna raunverulegra ákvarðana um kaup á myndgreiningarþjónustu sé löngu liðinn. Þá byggir fyrirtækið á að allar hinar umbeðnu upplýsingar séu viðkvæmar trúnaðarupplýsingar um rekstrarforsendur þess og viðskiptahagsmuni og að hagsmunir fyrirtækisins, af því að umrædd gögn og upplýsingar verði ekki látnar af hendi, séu mun meiri en hagsmunir kæranda af því að fá gögnin afhent. Séu því allar forsendur til að beita ákvæðum 17. gr. stjórnsýslulaga og hafna aðgangi kæranda að gögnunum, sbr. ákvörðun kærunefndar útboðsmála í máli nr. 12/2023. Þá sé á það bent að aldur skjalanna skipti ekki máli þar sem um sé að ræða gilda samninga sem séu grundvöllur að viðskiptum Íslenskrar myndgreiningar ehf. og varnaraðila.

III

Umbeðin gögn teljast til málsgagna í því stjórnsýslumáli sem rekið er fyrir kærunefnd á milli málsaðila, en um meðferð kærumála fyrir nefndinni gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993, sbr. 7. mgr. 108. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Ber því við úrlausn um aðgang að gögnunum að fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga sem ganga framar ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 2. mgr. 4. gr. síðarnefndu laganna, sbr. einnig 4. mgr. 17. gr. laga nr. 120/2016.

Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Hefur óheftur aðgangur að gögnum máls verið talinn nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og leiðrétta fyrirliggjandi gögn nýtist að fullu. Gerðar eru undantekningar frá þessari grunnreglu í 16. og 17. gr. laganna, en að mati nefndarinnar er ljóst að einungis 17. gr. laganna getur komið til álita um þau gögn sem kærandi krefst aðgangs að. Samkvæmt þeirri grein er stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Við mat á þessum skilyrðum ákvæðisins verður meðal annars að horfa til þess að ákvæði 17. gr. laganna er undantekning frá þeirri meginreglu að málsaðili eigi rétt á því að kynna sér málsgögn auk þess sem líta ber til þess hvort afhending upplýsinga geti raskað hagsmunum sem lögum um opinber innkaup er ætlað að þjóna, þar á meðal jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup.

Á þessu stigi málsins verður ekki tekin afstaða til þeirra krafna sem aðilar hafa uppi fyrir nefndinni í tengslum við efnislega úrlausn málsins. Eins og atvikum er háttað og að virtum málatilbúnaði aðila kemur að mati nefndarinnar ekki til álita hér að takmarka aðgang kæranda að gögnum málsins á þeim grundvelli að kröfum hans verði hugsanlega hafnað eða vísað frá í endanlegum úrskurði.

Í efnislega hluta málsins er í meginatriðum deilt um hvort varnaraðila hafi verið skylt að bjóða út innkaup á myndgreiningarþjónustu. Kærandi krefst þess meðal annars að samningar varnaraðila um kaup á myndgreiningarþjónustu verði lýstir óvirkir og varnaraðila gert að bjóða út innkaupin. Að mati kærunefndar útboðsmála verður að telja að kærandi hafi ríka hagsmuni af því að kynna sér umbeðin gögn enda er þar um að ræða samningana sem kröfugerð hans beinist að ásamt upplýsingum um skilmálabreytingar og framlengingu þeirra. Ekki verður talið að svo ríkir almanna- eða einkahagsmunir í skilningi 17. gr. stjórnsýslulaga séu fyrir hendi að réttlætanlegt sé að víkja frá meginreglu 15. gr. laganna að því er varðar afhendingu umræddra gagna til kæranda.

Aftur á móti telur nefndin að líta verði til þess að hluti skjalanna hefur að geyma upplýsingar um afsláttarkjör af einingum umfram tiltekið magn, áætlaðar einingar vegna nánar tiltekinna aðgerða og nýleg einingarverð. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að hér sé um að ræða atriði sem eru í gildi í samningssambandi varnaraðila við Íslenska myndgreiningu ehf., Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf. og Læknisfræðilega myndgreiningu ehf. Telja verður að þessar upplýsingar varði viðskiptahagsmuni umræddra fyrirtækja og telur nefndin í ljósi atvika að hagsmunir fyrirtækjanna af trúnaði um þessar upplýsingar séu mun ríkari en hagsmunir kæranda af aðgangi. Upplýsingar um þetta verða því afmáðar, eins og nánar greinir í ákvörðunarorði. Að öðru leyti verður ekki séð að í umbeðnum gögnum komi fram upplýsingar sem varði mun ríkari almanna- eða einkahagsmuni í skilningi 17. gr. stjórnsýslulaga en í því samhengi verður ekki fallist á að trúnaður skuli ríkja um þau einingarverð sem koma fram í samningum fyrirtækjanna við varnaraðila frá árunum 1996, 2001 og 2017.

Samkvæmt framangreindu verður fallist á kröfu kæranda um afhendingu umbeðinna gagna með þeim hætti sem nánar greinir í ákvörðunarorði.

Ákvörðunarorð:

Kæranda, Intuens Segulómun ehf., er veittur aðgangur að eftirfarandi gögnum:

1. Samningi varnaraðila, Sjúkratrygginga Íslands (áður Tryggingastofnun ríkisins), og Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf., dags. 27. desember 1996, ásamt fylgiskjölum samningsins þó með þeim hætti að afmá skal 2. mgr. 3. gr. samningsins, sem hefur að geyma upplýsingar um afsláttarkjör, og upplýsingar um fjölda eininga sem koma fram á eftir flokkum 1-12 í gjaldskrá samningsins.
2. Samningi varnaraðila og Íslenskrar myndgreiningar ehf., dags. 17. maí 2001, ásamt fylgiskjölum samningsins, þó með þeim hætti að upplýsingar um fjölda eininga sem koma fram á eftir flokkum 1-12 í gjaldskrá samningsins og tillögu Íslenskrar myndgreiningar ehf., sbr. fylgiskjöl 1 og 3 með samningnum, skulu afmáðar.
3. Samningi varnaraðila og Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar, dags. 7. nóvember 2017, ásamt fylgiskjölum samningsins þó með þeim hætti að dálkurinn „Einingar“ í gjaldskrá samningsins skal afmáður í heild sinni ásamt því að afmá skal einingarfjölda tiltekinna aðgerða sem fram koma í dálkinum „Heiti rannsóknar“ í gjaldskránni.
4. Samkomulagi varnaraðila og Íslenskrar myndgreiningar ehf., dags. 16. febrúar 2021, þó með þeim hætti að fjárhæð einingarverðs skal afmáð.
5. Samkomulagi varnaraðila og Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf., dags. 16. febrúar 2021, þó með þeim hætti að fjárhæð einingarverðs skal afmáð.
6. Samkomulagi varnaraðila og Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf., dags. 20. maí 2021, þó með þeim hætti að magn eininga vegna „Ts-kransæðar“ skal afmáð ásamt upplýsingum um afsláttarprósentu og þann einingarfjölda sem sú prósenta miðast við.
7. Samkomulagi varnaraðila og Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf., dags. 21. desember 2023, þó með þeim hætti að fjárhæð einingarverðs skal afmáð.
8. Bréfi frá varnaraðila til Læknisfræðilegrar myndgreiningar, dags. 23. nóvember 2021.
9. Bréfi frá varnaraðila til Íslenskrar myndgreiningar ehf., dags. 23. nóvember 2021.
10. Bréfi frá varnaraðila til Íslenskrar myndgreiningar ehf., dags. 31. mars 2023.
11. Bréfi frá varnaraðila til Læknisfræðilegrar myndgreiningar, dags. 31. mars 2023.
12. Bréfi frá varnaraðila til Íslenskrar myndgreiningar ehf., dags. 20. desember 2023.
13. Bréfi frá varnaraðila til Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf., dags. 20. desember 2023.


Reykjavík, 13. maí 2024.


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum