Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 47/2023. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála, LM.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 12. júní 2024
í máli nr. 47/2023:
Intuens Segulómun ehf.
gegn
Sjúkratryggingum Íslands,
Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf.,
Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og
Íslenskri myndgreiningu ehf.

Lykilorð
Aðgangur að gögnum.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála lagði til grundvallar að LM ætti rétt til aðgangs að sömu gögnum og kæranda hefði verið veittur aðgangur að með ákvörðun nefndarinnar í málinu frá 13. maí 2024, að undanskildum þeim gögnum sem LM hefði þegar fengið aðgang að.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 24. nóvember 2023 kærði Intuens Segulómun ehf. (hér eftir „kærandi“) kaup Sjúkratrygginga Íslands (hér eftir „varnaraðili“) á myndgreiningarþjónustu án útboðs.

Kærunefnd útboðsmála leysti úr ágreiningi milli aðila um rétt kæranda til aðgangs að tilteknum málsgögnum með ákvörðun 13. maí 2024. Í ákvörðuninni var lagt til grundvallar að kærandi ætti rétt til aðgangs að umbeðnum gögnum þó með þeim hætti að tilteknar upplýsingar skyldu afmáðar úr hluta þeirra.

Læknisfræðileg myndgreining ehf. lagði fram athugasemdir í tengslum við framangreindan ágreining með tölvupósti til nefndarinnar 16. janúar 2024. Í tölvupóstinum setti félagið jafnframt þá kröfu að því yrði veittur aðgangur að sömu gögnum og kæranda kynni að vera látin í té.

Kærunefnd útboðsmála leitaði eftir afstöðu annarra málsaðila til framangreindrar kröfu. Athugasemdir bárust frá Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf. og Íslenskri myndgreiningu 29. janúar 2024 en báðir aðilar lögðust gegn afhendingu gagnanna. Þá lagðist varnaraðili gegn afhendingu gagnanna með tölvupóstum 7. og 8. febrúar 2024.

Í kjölfar ákvörðunar nefndarinnar 13. maí 2024 óskaði kærunefnd útboðsmála eftir að málsaðilar tjáðu sig aftur um kröfu Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. í ljósi ákvörðunarinnar. Þá afhenti kærunefnd útboðsmála Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf. og Íslenskri myndgreiningu ehf. þau gögn sem vörðuðu fyrirtækin eins og þau höfðu verið afhent kæranda. Jafnframt afhenti kærunefnd útboðsmála varnaraðila afrit af öllum þeim gögnum sem afhent höfðu verið kæranda.

Frekari athugasemdir bárust frá Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf. og Íslenskrar myndgreiningar ehf. með tölvupóstum 21. og 22. maí 2024 og lögðust bæði félögin gegn afhendingu gagnanna. Með tölvupósti 24. maí 2024 ítrekaði varnaraðili þau sjónarmið sem hann hafði þegar sett fram.

I

Læknisfræðileg myndgreining ehf. rökstyður kröfu sína þannig að félagið eigi rétt til afhendingar á sömu gögnum og kærandi fékk afhent með ákvörðun nefndarinnar frá 13. maí 2024.

Varnaraðili byggir að meginstefnu til að ekki fáist séð að Læknisfræðileg myndgreining ehf. sé aðili að málinu og eigi því ekki rétt á afhendingu gagna á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá vísar varnaraðili til þeirra sjónarmiða sem hann hefur þegar sett fram hvað varðar afhendingu gagna til aðila máls.

Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf. byggir að meginstefnu á að ákvörðun nefndarinnar í málinu hafi verið kveðinn upp vegna kæru kæranda á höfnun varnaraðila á upplýsingagjöf og hafi afskiptum nefndarinnar af málinu þar með lokið. Félaginu hafi ekki verið tilkynnt um nýtt kærumál sem nefndin hafi til úrlausnar og telji eðlilegt að rökstudd beiðni frá samkeppnisaðila berist varnaraðila sem taki ákvörðun, líkt og hafi háttað til í fyrrgreindu kærumáli, að fengnum sjónarmiðum Myndgreiningarrannsóknarstöð Hjartaverndar ehf. Sú ákvörðun geti eftir atvikum ratað til kærunefndarinnar að nýju, sjái aðilar ástæðu til þess. Ekki fáist séð að sömu rök eigi við um upplýsingaöflun eins af varnaraðilum í framangreindu kærumáli eins og hafi háttað til um kæranda. Áréttað sé að ákvarðanir kærunefndar útboðsmála séu ekki kæranlegar til æðra stjórnvalds. Ákvörðun um upplýsingagjöf, sem ekki snerti með beinum hætti meðferð á ákvörðun annars stjórnvalds, sé þar með ráðið til lykta á einu stjórnsýslustigi sem sé bagalegt og dragi úr möguleikum á að koma að sjónarmiðum í málinu. Telji kærunefnd útboðsmála rétt að taka afstöðu til kröfu Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. séu sjónarmið úr fyrra málinu áréttuð og leggist félagið gegn umkrafinni upplýsingagjöf.

Íslensk myndgreining ehf. áréttar þau sjónarmið sem félagið hafði uppi gegn kröfu kæranda. Um sé að ræða viðkvæmar viðskiptaupplýsingar og starfi Læknisfræðileg myndgreining ehf. á sama samkeppnismarkaði og félagið og eigi þau í samkeppni á nánast öllum sviðum röntgenrannsókna. Þá sé Læknisfræðileg myndgreining ehf. með ráðandi stöðu á markaðinum. Þegar af þessari ástæðu sé ljóst að um sé að ræða upplýsingar og gögn sem undanþegin séu upplýsingaskyldu samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi Læknisfræðileg myndgreining ehf. enga lögvarða hagsmuni af því að fá gögnin afhent. Fyrir liggi að kærumálið sem sé til meðferðar hjá nefndinni varði ágreining kæranda og varnaraðila um hvort að samningar um greiðsluþátttöku í röntgenþjónustu hafi verið gerðir og hvort þeir hafi verið útboðsskyldir. Samningar sem deilt sé um í málinu séu sjálfstæðir samningar við varnaraðila og eigi Læknisfræðileg myndgreining ehf. enga aðild að samningi Íslenskrar myndgreiningar ehf. við varnaraðila og hafi samningurinn engin áhrif á réttindi og skyldu Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. Þá hafi samningur Íslenskrar myndgreiningar ehf. við varnaraðila enga þýðingu varðandi möguleika Íslenskrar myndgreiningar ehf. til að taka til varna í málinu eða gera athugasemdir við fram komna kæru. Sé Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. fullfært um að koma á framfæri sjónarmiðum sínum á grundvelli eigin samningsgerðar og samnings þess við varnaraðila. Séu skilyrði stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga um lögvarða hagsmuni því ekki uppfyllt.

II

Fyrir liggur í málinu að Læknisfræðileg myndgreining ehf. hefur þegar undir höndum hluta af þeim gögnum sem kærandi fékk afhent með ákvörðun kærunefndar útboðsmála frá 13. maí 2024, sbr. gögn sem eru tilgreind í töluliðum 1, 5, 8, 11 og 13 í ákvörðunarorði þeirrar ákvörðunar. Er því þarflaust í ákvörðun þessari að taka afstöðu til réttar félagsins til aðgangs að þeim gögnum.

Þau gögn sem Læknisfræðileg myndgreining ehf. óskar eftir aðgangi að teljast til málsgagna í því stjórnsýslumáli sem rekið er fyrir kærunefnd útboðsmála á milli málsaðila, en um meðferð kærumála fyrir nefndinni gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993, sbr. 7. mgr. 108. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Ber því við úrlausn um aðgang að gögnunum að fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga sem ganga framar ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 2. mgr. 4. gr. síðarnefndu laganna, sbr. einnig 4. mgr. 17. gr. laga nr. 120/2016.

Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Hefur óheftur aðgangur að gögnum máls verið talinn nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og leiðrétta fyrirliggjandi gögn nýtist að fullu. Gerðar eru undantekningar frá þessari grunnreglu í 16. og 17. gr. laganna, en að mati nefndarinnar er ljóst að einungis 17. gr. laganna getur komið til álita um þau gögn sem Læknisfræðileg myndgreining ehf. krefst aðgangs að. Samkvæmt þeirri grein er stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Við mat á þessum skilyrðum ákvæðisins verður meðal annars að horfa til þess að ákvæði 17. gr. laganna er undantekning frá þeirri meginreglu að málsaðili eigi rétt á því að kynna sér málsgögn auk þess sem líta ber til þess hvort afhending upplýsinga geti raskað hagsmunum sem lögum um opinber innkaup er ætlað að þjóna, þar á meðal jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup.

Heimild til aðgangs að skjölum og öðrum gögnum er mál varða er bundin við að sá sem óskar eftir aðgangi sé aðili máls, sbr. fyrrnefnd 15. gr. stjórnsýslulaga. Við mat á því hvort Læknisfræðileg myndgreining ehf. falli undir hugtakið „aðili máls“ ber til þess að líta að lög nr. 120/2016 hafa að geyma sérreglur um hvernig aðild skuli háttað við meðferð mála hjá kærunefnd útboðsmála. Í 2. mgr. 109. gr. er fjallað um aðild annarra en þeirra sem teljast varnaraðilar í skilningi 1. mgr. ákvæðisins. Þar segir að hafi annað fyrirtæki, svo sem annar bjóðandi í útboði eða þátttakandi í forvali vegna lokaðs útboðs, í samkeppnisviðræðum eða í samningskaupum, lögvarinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu máls hjá nefndinni skuli það þá einnig talið aðili til varnar.

Í efnislega hluta málsins er í meginatriðum deilt um hvort varnaraðila hafi verið skylt að bjóða út innkaup á myndgreiningarþjónustu. Kærandi krefst þess meðal annars að samningar varnaraðila um kaup á myndgreiningarþjónustu verði lýstir óvirkir og varnaraðila gert að bjóða út innkaupin. Fyrir liggur í málinu að Læknisfræðileg myndgreining ehf. er einn af viðsemjendum varnaraðila og verður því að telja að félagið hafi, í ljósi kröfugerðar og málatilbúnaðar kæranda, lögvarinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins í skilningi 2. mgr. 109. gr. laga nr. 120/2016 og sé þar með aðili máls í skilningi 15. gr. stjórnsýslulaga.

Að mati kærunefndar útboðsmála verður að telja að Læknisfræðileg myndgreining ehf. hafi hagsmuni af því að kynna sér umbeðin gögn. Er þá einnig litið til sjónarmiða um jafnræði aðila við meðferð stjórnsýslumála en fyrir liggur að kærandi hefur fengið aðgang að þeim gögnum sem krafa Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. tekur til. Ekki verður talið að svo ríkir almanna- eða einkahagsmunir í skilningi 17. gr. stjórnsýslulaga séu fyrir hendi að réttlætanlegt sé að víkja frá meginreglu 15. gr. laganna að því er varðar afhendingu umræddra gagna til Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf.

Að framangreindu gættu og að öðru leyti með vísan til þess sem fram kemur í ákvörðun kærunefndar útboðsmála í málinu frá 13. maí 2024 verður fallist á kröfu Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. um að félagið skuli fá aðgang að sömu gögnum og kæranda hefur verið veittur aðgangur að, þó að undanskildum þeim gögnum sem félagið hefur þegar undir höndum.

Ákvörðunarorð:

Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. er veittur aðgangur að sömu gögnum og kærandi, Intuens Segulómun ehf., fékk aðgang að með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. maí 2024 í máli nr. 47/2023, að undanskildum þeim gögnum sem eru tilgreind í töluliðum 1, 5, 8, 11 og 13 í ákvörðunarorði þeirrar ákvörðunar.


Reykjavík, 12. júní 2024.


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum