Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 584/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 18. október 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 584/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23070135

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 27. júlí 2023 kærði […], kt. […], ríkisborgari Albaníu ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. júlí 2023, um að synja umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli náms 16. janúar 2016 og var það dvalarleyfi endurnýjað með gildistíma til 15. febrúar 2017. Hinn 25. janúar 2017 var dvalarleyfi kæranda endurnýjað með gildistíma til 15. júlí 2017 og loks aftur með gildistíma til 15. júlí 2018. Hinn 11. maí 2018 lagði kærandi fram umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli skorts á vinnuafli en var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. október 2018. Var kæranda veittur 15 daga frestur frá móttöku ákvörðunarinnar til þess að yfirgefa landið en kærandi móttók ákvörðunina 31. október 2018. Hinn 27. nóvember sama ár lagði kærandi fram umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar ásamt beiðni um heimild til dvalar á landinu á meðan umsókn hans yrði afgreidd. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. desember 2018, var umsókn kæranda hafnað með vísan til 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Með úrskurði kærunefndar nr. 81/2019, dags. 28. febrúar 2019, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Hinn 26. febrúar 2021 fékk kærandi útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar með gildistíma til 15. febrúar 2025. Hinn 11. janúar 2023 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Kærandi er staddur hér á landi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. júlí 2023, var umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi synjað með vísan til þess að samfelld dvöl hans hér á landi næði ekki fjórum árum, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar barst kæranda með ábyrgðarbréfi 18. júlí 2023. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar 27. júlí 2023. Hinn 10. ágúst 2023 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgiskjali.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfa í rúmlega 59 mánuði. Fyrst hafi hann dvalið hér á landi frá 16. janúar 2016 til 15. júlí 2018 á grundvelli dvalarleyfis vegna náms. Kærandi hafi síðan dvalið hér á landi frá 26. febrúar 2021 á grundvelli dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Í millitíðinni hafi kærandi sótt framhaldsnám við SMK University of Applied Social Sciences í Vilníus í Litháen. Það hafi verið mat Útlendingastofnunar að skilyrði ótímabundins dvalarleyfis samkvæmt 58. gr. laga um útlendinga væru ekki uppfyllt. Hafi sú niðurstaða einkum byggst á því að rof hafi myndast í dvöl kæranda hér á landi. Kærandi sé ekki sammála þessu mati og telji að það eigi ekki að horfa á dvöl kæranda erlendis sem rof á samfelldri dvöl í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi dvalið erlendis vegna náms. Í athugasemdum við 58. gr. laga um útlendinga sé gert ráð fyrir því að dvöl erlendis vegna náms skuli ekki leiða til þess að dvölin teljist ekki samfelld. Kærandi telur að það sé eðlilegt að námsvist hans við skólann erlendis falli þarna undir og því sé ekki um að ræða rof á samfelldri dvöl í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærandi að eðlilegt sé að taka til skoðunar undanþáguákvæði b-liðar 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að víkja frá skilyrði um að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, en undanþágan eigi við um útlendinga sem hafi dvalið hér á landi á grundvelli náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi dvalið hér á landi lengur en í fjögur ár og með vísan til framangreinds þá sé að mati hans eðlilegt að horft sé á dvölina sem samfellda dvöl. Af þeim sökum sé rétt að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun og veita honum ótímabundið dvalarleyfi hér á landi samkvæmt 58. gr. laga um útlendinga.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Í b-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er m.a. mælt fyrir um heimild til að víkja frá því skilyrði að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar útlendingur hefur haft slíkt dvalarleyfi í a.m.k. tvö ár og hefur áður dvalið hér á landi í samfelldri dvöl samkvæmt dvalarleyfi vegna náms samkvæmt 65. gr. þannig að heildardvöl sé a.m.k. fjögur ár. Í 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga segir m.a. að heimilt sé í vissum tilvikum að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl samkvæmt 1. mgr. og b-lið 2. mgr. séu uppfyllt.

Eins og fram hefur komið dvaldi kærandi hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna náms samkvæmt 65. gr. laga um útlendinga frá 16. janúar 2016 til 15. júlí 2018. Kærandi var ekki með dvalarleyfi hér á landi frá 15. júlí 2018 til 26. febrúar 2021. Þrátt fyrir að kærandi hafi dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis í meira en tvö ár er ljóst að kærandi hefur ekki dvalið hér á landi í samfelldri dvöl í a.m.k. fjögur ár. Uppfyllir kærandi þannig ekki skilyrði b-liðar 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Þá hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að ákvæði 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga eigi við um kæranda.

Kærandi telur að ekki eigi að horfa á dvöl hans erlendis vegna náms  sem rof á samfelldri dvöl í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga þar sem að í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laganna komi fram að slík dvöl skuli ekki leiða til þess að dvöl teljist ekki samfelld. Á hinn bóginn er til þess að líta að ljóst er af orðalagi ákvæðisins og athugasemdum um það í frumvarpi til laga um útlendinga að hvoru tveggja er áskilið að umsækjandi um ótímabundið dvalarleyfi hafi samfellt dvalið hér á landi og að slík dvöl sé á grundvelli gilds dvalarleyfis af tiltekinni gerð. Þrátt fyrir að löggjafinn hafi gert ráð fyrir að skemmri dvöl erlendis vegna náms ryfi ekki samfellda dvöl verða þær athugasemdir sem kærandi vísar til ekki skildar sem svo að átt sé við aðstæður þegar umsækjandi dvelst erlendis án dvalarleyfis hér á landi. Allt að einu er ljóst að kærandi hafði ekki dvalarleyfi í tvö ár og átta mánuði og getur það því ekki talist stutt dvöl erlendis vegna náms, eins og vísað er til í athugasemdunum.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum