Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 238/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 12. mars 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 238/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23110124

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 25. nóvember 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Gana ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. nóvember 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarrétt á grundvelli hjúskapar við EES- eða EFTA-borgara, og gera henni að sæta brottvísun og endurkomubanni til tveggja ára.

Kærandi krefst þess að ákvörðun um brottvísun og tveggja ára endurkomubann verði felld úr gildi. Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála. Við upphaf málsins krafðist kærandi þess einnig að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarrétt fyrir maka EES borgara yrði felld úr gildi, en sá hluti kærunnar var dreginn til baka.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi eða annan rétt til dvalar hér á landi. Hinn 15. júní 2022 lagði kærandi fram umsókn um dvalarrétt á grundvelli fjölskyldusameiningar við EES- eða EFTA-borgara, sbr. 1. mgr. 86. gr. laga um útlendinga, vegna maka hennar sem búsettur væri hér á landi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. nóvember 2023, var umsókn kæranda synjað með vísan til b-liðar 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom m.a. fram að hjónavígsluvottorð kæranda væri ótraustvekjandi samkvæmt skjalarannsóknarskýrslu lögreglu. Hafi kærandi því ekki sýnt fram á að hún uppfyllti skilyrði 86. gr. laga um útlendinga um dvalarrétt fyrir aðstandendur EES- og EFTA-borgara. Þá kom einnig fram að maki kæranda væri belgískur ríkisborgari en samkvæmt opinberri skráningu í Belgíu væri hann skráður í hjúskap með annarri konu. Bryti hjúskapur kæranda og maka hennar því einnig gegn 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 17. nóvember 2023. Hinn 25. nóvember 2023 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð og frekari fylgigögn bárust kærunefnd með tölvubréfum, dags. 1. og 11. desember 2023.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 27. febrúar 2024, óskaði nefndin eftir frekari skýringum og gögnum frá Útlendingastofnun, og eftir atvikum Lögreglustjórans á Suðurnesjum vegna skjalarannsóknarskýrslu, dags. 18. febrúar 2023, sem er meðal gagna málsins. Með tölvubréfi, dags. 28. febrúar 2024, bárust frekari skýringar frá lögreglu.

Við meðferð málsins kom í ljós að lögheimili maka kæranda, þess sem beiðni um fjölskyldusameiningu grundvallast á, hefði verið flutt erlendis samkvæmt skráningu í Þjóðskrá Íslands 29. nóvember 2023. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 28. febrúar 2024, var framangreint borið undir kæranda. Var henni jafnframt tilkynnt að óbreyttu hefði hún engan rétt fyrir aðstandendur til þess að byggja á. Með tölvubréfi kæranda, dags. 4. mars 2024, dró kærandi til baka þann hluta kæru sinnar er varðar dvalarrétt. Hún hefði þó lögvarða hagsmuni af úrlausn kærunefndar varðandi ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann og taldi hún forsendur fyrir þeirri ákvörðun brostnar.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 23. febrúar 2024 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Vegna afturköllunar kæranda á kæru er lýtur að dvalarrétti fyrir aðstandendur EES- og EFTA-borgara verða aðeins reifaðar málsástæður kæranda er varða ákvörðun um brottvísun og endurkomubann.

Kærandi krefst því að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann verði felld úr gildi. Í því skyni vísar kærandi einkum til þess að henni hafi ekki verið tilkynnt um fyrirhugaða málsmeðferð í samræmi við 14. gr. stjórnsýslulaga og naut hún ekki nokkurs andmælaréttar í tengslum við þann þátt málsins. Kærandi telji hinn afturvirka andmælarétt sem Útlendingastofnun veitti henni brjóta í bága við þá grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins að aðili máls eigi rétt á því að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því. Telji kærandi Útlendingastofnun einnig hafa brotið gegn rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í ljósi framangreinds hafi hagsmunamat kæranda gagnvart 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga ekki farið fram. Þá telji kærandi úrskurð kærunefndar nr. 91/2023, dags. 15. mars 2023, hafa þýðingu í málinu, en kærandi vísar til þess að niðurstaða nefndarinnar hafi verið að ógilda ákvörðun um brottvísun og endurkomubann með vísan til þess að Útlendingastofnun hafi ekki lagt mat á það hvort takmarkanir á heimild til brottvísunar ættu við í máli kæranda. Með tölvubréfi, dags. 4. mars 2024, lagði kærandi fram frekari gögn sem tengdust ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi brottvísun og endurkomubann. Í tölvubréfinu vísaði kærandi til þess að hún væri nú búsett á Spáni og lagði fram gögn því til stuðnings.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Umsókn um dvalarrétt

Með vísan til þess að kærandi dró til baka þann hluta stjórnsýslukæru sinnar er varðar dvalarrétt á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga kemur sá þáttur málsins ekki til frekari skoðunar hjá kærunefnd. Stendur ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja henni um dvalarrétt eftir ákvæðum 86. gr. laga um útlendinga því óhögguð.

Brottvísun og endurkomubann

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærandi hafi ekki lengur heimild til dvalar og var henni því gert að sæta brottvísun, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, eins og ákvæðinu var breytt með lögum um landamæri nr. 136/2022. Samhliða því var kæranda gert að sæta tveggja ára endurkomubanni, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Kæranda var þó veittur 15 daga frestur frá birtingu ákvörðunar til þess að yfirgefa landið sjálfviljug, en innan þess tímafrests yrði endurkomubann hennar fellt niður, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Samhliða ákvörðun um brottvísun var kæranda veittur sjö daga frestur til þess að leggja fram andmæli gegn ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann, með hliðsjón af 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

Ákvarðanir stjórnvalda um brottvísun og endurkomubann eru stjórnvaldsákvarðanir sem mæla fyrir um íþyngjandi skyldur fyrir aðila máls og bundnar íþyngjandi stjórnsýsluviðurlögum. Gera verður ríkar kröfur til málsmeðferðar í slíkum málum, einkum varðandi tilkynningu um meðferð máls og andmælarétt, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga, auk annarra málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttarins og laga um útlendinga. Sú tilhögun Útlendingastofnunar að taka ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda, án þess að tilkynna henni um að stofnunin hefði slíkt til skoðunar og veita henni ekki tækifæri á að koma á framfæri andmælum sínum áður en ákvörðun var tekin, felur í sér alvarlegan annmarka á meðferð málsins. Þar að auki fær kærunefnd ekki séð að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, s.s. með því að fá svör við spurningum sem hafa það að markmiði að upplýsa hvort takmarkanir geta verið á ákvörðun á brottvísun, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur slíka annmarka á meðferð málsins að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi. Verður því að fella úr gildi þann hluta ákvörðunar Útlendingastofnunar er varðar brottvísun kæranda og endurkomubann.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Til viðbótar við framangreint gerir kærunefnd athugasemdir við ákvörðunarorð Útlendingastofnunar en í ákvörðun kæranda er eingöngu tekið fram að umsókn hennar um dvalarskírteini sé synjað. Ekki er tekið fram að kæranda sé brottvísað og ákvarðað endurkomubann til tveggja ára þrátt fyrir umfjöllun í kafla um niðurstöðu Útlendingastofnunar. Í tilvikum þar sem Útlendingastofnun tekur ákvörðun um brottvísun og endurkomubann ber stofnuninni að tilgreina slíkt í ákvörðunarorðum sínum. Þá hafa aðilar stjórnsýslumáls alla jafna ríka hagsmuni af því að mál þeirra hljóti hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum, þótt slíkur hraði megi eðli málsins samkvæmt ekki bitna á gæðum málsmeðferðar og ákvörðunar. Líkt og áður greinir lagði kærandi fram umsókn sína um dvalarrétt 15. júní 2022 og tók Útlendingastofnun ákvörðun í málinu 17. nóvember 2023, eða um 17 mánuðum síðar. Ljóst að málsmeðferðartími stofnunarinnar fór fram úr því sem eðlilegt getur talist og fer meðferð þessi í bága við fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Kærunefnd beinir því til Útlendingastofnunar að gæta framvegis að þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið rakin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda er felld úr gildi.

 

The decision of the Directorate of Immigration regarding the appellant‘s expulsion and entry ban is vacated.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum