Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 530/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 21. september 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 530/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23070055

 

Endurtekin umsókn [...]

I.       Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 325/2022, dags. 6. október 2022, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. maí 2022, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 7. október 2022.

Hinn 13. október 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og synjaði kærunefnd beiðni kæranda 8. nóvember 2022 með úrskurði nr. 460/2022. Hinn 3. janúar 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku og var þeirri beiðni synjað með úrskurði kærunefndar nr. 94/2023, dags. 16. febrúar 2023. Hinn 10. júlí 2023 barst kærunefnd endurtekin umsókn kæranda ásamt greinargerð. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun 10. júlí 2023, Vinnumálastofnun 14. og 17. júlí 2023 og stoðdeild Ríkislögreglustjóra 24. ágúst 2023 og 4. september 2023.

Af greinargerð kæranda má ráða að umsókn hans byggi á 35. gr. a laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 30. desember 2021. Á leið sinni til Íslands hafi kærandi millilent í Austurríki en hann hafi aðeins ætlað sér að sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Í Austurríki hafi kærandi ekki fengið upplýsingar um lagalegan rétt sinn eða gjaldfrjálsa lögfræðiaðstoð. Þá hafi kærandi mátt þola ofbeldi af hálfu lögreglu í Ungverjalandi sem hafi haft áhrif á heilsu hans og leitt til bakvandamála. Kærandi vísar til þess að jafnvel þó austurrísk stjórnvöld hafi samþykkt að taka við umsókn kæranda um alþjóðlega vernd, eigi íslensk stjórnvöld að bera ábyrgð á umsókn hans á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi lagt fram frumrit gagna um tengsl við frændur sína sem séu búsettir hér á landi. Kærandi hafi engin tengsl við Austurríki og hafi aðeins dvalið þar í skamman tíma á leið sinni til Íslands. Kærandi sé heimilislaus, við slæma heilsu og hafi ekki aðgengi að húsnæði eða heilbrigðisþjónustu í Austurríki.

Þá byggir kærandi endurtekna umsókn sína á því að meira en 18 mánuðir séu liðnir frá því hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi, með vísan til 2. mgr. 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin).

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn hans samkvæmt 24. gr. laganna. 

Með vísan til 35. gr. a laga um útlendinga óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra, dags. 24. ágúst 2023, um skráningu kæranda í kerfi lögreglu, þ.e. hvort kærandi væri staddur hér á landi. Í svari stoðdeildar sama dag kom fram að kærandi væri skráður eftirlýstur í kerfum lögreglu. Hinn 24. ágúst 2023 var kæranda veittur frestur til að koma að andmælum vegna framangreindra upplýsinga og honum veitt tækifæri til að gefa sig fram við lögreglu, sé hann sannanlega staddur á landinu, og fá skráningunni breytt, ellegar yrði endurtekinni umsókn kæranda vísað frá. Hinn 30. ágúst 2023 bárust andmæli frá kæranda þess efnis að hann hafi sent stoðdeild Ríkislögreglustjóra tölvubréf með upplýsingum um heimilisfang sitt. Með tölvubréfi, dags. 4. september 2023, óskaði kærunefnd að nýju eftir upplýsingum frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra um það hvort kærandi hefði gefið sig fram við lögreglu og breytt skráningu sinni. Í svari stoðdeildar, dags. 4. september 2023, kom fram að kærandi hefði ekki gefið sig fram við lögreglu og væri enn skráður eftirlýstur.

Kærunefnd vísar til þess að á meðan kærandi er skráður eftirlýstur í kerfum lögreglu, sem annast framkvæmd ákvarðana nefndarinnar með flutningi úr landi, lítur nefndin svo á að kærandi hafi ekki sýnt fram á að vera staddur hér á landi. Í þessu sambandi lítur nefndin svo á að kærandi þurfi að gefa sig fram við lögreglu með óyggjandi hætti. Þrátt fyrir að kærandi kveðist hafa sent tölvubréf og sett sig í símasamband við lögreglu þá hefur það ekki leitt til þess að lögreglan hefur breytt skráningu hans í kerfinu sem verður að túlka svo að enn hafi ekki verið staðfest að kærandi sé staddur hér á landi. Kærunefnd vísar jafnframt til þess að þrátt fyrir að gögn málsins gefi til kynna að kærandi sé enn skráður í þjónustu Vinnumálastofnunar lítur kærunefnd svo á að ekki sé hægt að byggja á þeim upplýsingum án staðfestingar frá lögreglunni um að viðkomandi sé staddur hér á landi. Með vísan til þess er skilyrði ákvæðis 35. gr. a laga um útlendinga, um að kærandi skuli vera staddur hér á landi, ekki uppfyllt í máli kæranda. 

Að framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurtekna umsókn vísað frá.

 

Úrskurðarorð:

 

Endurtekinni umsókn kæranda er vísað frá.

 

The appellant ‘s subsequent application is dismissed.

F.h. kærunefndar útlendingamála,

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum