Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 739/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 739/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23090022

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 5. september 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Palestínu ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. september 2023, um að hafna umsókn hans um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki. Til vara krefst kærandi þess að endurkomubann verði fellt niður eða stytt. 

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei verið með dvalarleyfi á Íslandi. Samkvæmt dvalarleyfisumsókn kom kærandi til landsins í nóvember 2022. Kærandi dvaldi hér á landi, að eigin sögn, óslitið til 29. maí 2023 og kvaðst þá hafa farið til Ítalíu, hvar hann hefur ótímabundna heimild til dvalar, en komið aftur til landsins 4. júní 2023. Hinn 18. júlí 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. september 2023, var umsókn kæranda hafnað á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 51. gr. laga um útlendinga og undanþága 3. mgr. ákvæðisins ætti ekki við í máli hans. Þar að auki var kæranda gert að sæta brottvísun á grundvelli 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og honum bönnuð endurkoma til Íslands í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Hinn 5. september 2023 kærði kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Skipunarbréf, dags. 6. september 2023, var gefið út til handa talsmanni kæranda og barst kærunefnd greinargerð ásamt öðrum fylgigögnum 18. september 2023.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 17. nóvember 2023 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda greinir hann frá málavöxtum en fram kemur að kærandi hafi fæðst í Abu Dhabi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og síðar stundað nám í verkfræði. Kærandi sé með ótímabundið dvalarleyfi á Ítalíu en eigi einnig bróður hér á landi. Kærandi hafi komið reglulega til landsins frá árinu 2016 og heimsótt bróður sinn og fjölskyldu hans. Kærandi hafi fengið útgefna kennitölu á síðasta ári og öðlast aukin ökuréttindi til aksturs atvinnutækja hér landi. Frá 21. nóvember 2022 hafi kærandi dvalist hér á landi en bróðir kæranda hafi orðið fyrir alvarlegu vinnuslysi 23. janúar 2023 og verið óvinnufær með öllu til 14. apríl 2023. Kærandi hafi því aðstoðað hann og fjölskyldu hans á meðan veikindunum hafi staðið. Kærandi hafi haldið áfram dvöl sinni og samveru með fjölskyldu, og hafið störf hjá [...] 25. mars 2023. Kærandi hafi ferðast til Ítalíu 29. maí 2023 og komið aftur til Íslands 4. júní s.á., hann hafi því verið í lögmætri dvöl þegar hann hafi á grundvelli starfans sótt um dvalar- og atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki.

Kærandi vísar einkum til heilsufars bróður síns, starfa sinna hjá [...] og telur sig hafa dvalist hér og starfað í góðri trú. Því til stuðnings bendir kærandi á að engar athugasemdir hafi verið gerðar þegar umsókn hans hafi verið lögð fram, og hann hafi þegar fengið útgefna kennitölu hér á landi. Kærandi vísar til 51. gr. laga um útlendinga og bendir á að hugtakið ríkar sanngirnisástæður í 3. mgr. ákvæðisins sé matskennt, sem ekki sé nánar útfært í lögunum eða reglugerð um útlendinga. Einu vísbendingarnar komi fram í athugasemdum í frumvarpi, þ.e. til að tryggja samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir eru í húfi. Með vísan til fjölskyldutengsla við bróður sinn, lögmætrar dvalar og atvinnutengsla telur kærandi ríkar sanngirnisástæður vera fyrir hendi í sínu tilviki. Þar að auki hafi hann sagt upp húsnæði og atvinnu í fyrra búseturíki og þar af leiðandi er ekkert fyrir hann að sækja þar.

Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn leiðbeiningaskyldu sinni, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga sem hafi leitt til skerðingar á atvinnufrelsi kæranda, sbr. 75. stjórnarskrárinnar, þar sem hann hafi, í góðri trú um atvinnuþátttöku hér á landi, sagt upp atvinnu sinni á Ítalíu. Hefði hann haft nægar upplýsingar um málsmeðferðina kveðst kærandi ekki hafa tekið slíka ákvörðun. Þá hafi hin kærða ákvörðun veruleg íþyngjandi áhrif á kæranda, þar sem hann eigi á hættu að missa atvinnu sína á Íslandi og sé bæði húsnæðis- og atvinnulaus á Ítalíu. Telur kærandi því að líta eigi til sanngirnissjónarmiða þar sem hann eigi fjölskyldu, atvinnu og heimili hér á landi.

Þar að auki telur kærandi að Útlendingastofnun hafi verið óheimilt að ákveða kæranda brottvísun á grundvelli 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og vísar til þess að brottvísun eigi einkum við þegar einstaklingar hafa brotið af sér með saknæmum og refsiverðum hætti, en slíkt eigi ekki við í máli kæranda. Um þessa málsástæðu vísar kærandi til breytingalaga nr. 64/2014 um breytingu á þágildandi lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Telur kærandi að beita eigi úrræðum um brottvísun og endurkomubann af varfærni enda skerði slík úrræði ferðafrelsi, atvinnufrelsi, og friðhelgi einkalífs og fjölskyldu innan Schengen-svæðisins. Þá telur kærandi ákvörðun um brottvísun og endurkomubann í andstöðu við meðalhófsreglu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærandi að brottvísun hafi ekki tengst atvikum í máli sínu, heldur verið hluti af markmiði stjórnvalda að sporna við komu fólks til Íslands þó svo að ríkar sanngirnisástæður væru fyrir hendi. Telur kærandi því ljóst að vægari úrræði hefðu verið möguleg til að ná framangreindu markmiði. Það sé verulega íþyngjandi fyrir kæranda að yfirgefa landið til þess eins að leggja fram nýja umsókn, sem yrði efnislega samhljóða þeirri sem nú sé til meðferðar hjá stjórnvöldum. Um það vísast bæði til málsmeðferðartíma og óvissu um viðbrögð vinnuveitanda við ótímabærri brottför.

Óskar kærandi því eftir að því að mál hans verði skoðað sjálfstætt, með hliðsjón af tengslum hans á Íslandi samanborið við Ítalíu og m.t.t. þess hversu fjárhagslega íþyngjandi það yrði fyrir hann að koma sér upp búsetu á Ítalíu til skamms tíma á meðan umsókn hans væri til meðferðar hér á landi. Að öllu framangreindu virtu telur kærandi að líta skuli til ríkra sanngirnisástæðna vegna umsóknar hans.

Meðal fylgigagna sem kærandi lagði fram á kærustigi eru yfirlit yfir ökunám, útskriftarvottorð úr umhverfis- og byggingarverkfræði við [...], dags. 8. júní 2020, afrit af brottfararspjöldum til og frá Ítalíu, dags. 29. maí 2023 og 4. júní 2023 ásamt læknisvottorði vegna ástands bróður síns, dags. 29. mars 2023.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Umsókn um dvalarleyfi

Samkvæmt umsókn kæranda um dvalarleyfi kom hann til landsins 11. nóvember 2022 en samkvæmt greinargerð kom hann 21. nóvember 2022. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var framangreindur vafi túlkaður kæranda í hag og dvöl hans miðuð við 21. nóvember 2022. Með vísan til þess hafi dvalarheimild kæranda á grundvelli áritunarfrelsis lokið 18. febrúar 2023, 90 dögum eftir komu til landsins. Umsókn kæranda um dvalar- og atvinnuleyfi var móttekin af Útlendingastofnun 18. júlí 2023, eða um fimm mánuðum síðar. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. reglugerðar um útlendinga og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er kæranda heimilt að dveljast hér á landi í allt að 90 daga á hverju 180 daga tímabili. Samkvæmt framangreindu varð dvöl kæranda á landinu ólögmæt frá og með 19. febrúar 2023. Dvöl kæranda á Ítalíu frá 29. maí til 4. júní 2023 rauf ekki ólögmæta dvöl hans hér á landi, enda kom hann aftur til landsins fyrir upphaf nýs 180 daga tímabils. Til þess hefði kærandi þurft að dvelja á Ítalíu til a.m.k. 26. ágúst 2023 en eftir það tímamark hefði hann getað dvalist hér á landi í allt að 90 daga. Verður því lagt til grundvallar að dvöl kæranda hafi verið ólögmæt, hvort tveggja þegar umsókn hans um dvalarleyfi var lögð fram, en einnig þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun um umsókn hans.

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c-lið 1. mgr. 51. gr., sbr. 2. mgr. 51. gr. Sæki útlendingur um dvalarleyfi hér án þess að vera undanþeginn því að sækja um áður en hann kemur til landsins skv. 1. og 2. mgr. skal hafna umsókninni á þeim grundvelli. Það sama á við ef umsækjandi kemur til landsins áður en umsókn er samþykkt, sbr. 4. mgr. 51. gr. laganna.

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins hefur hann dvalarleyfi í gildi á Ítalíu og þarf því ekki vegabréfsáritun til þess að ferðast yfir innri landamæri Schengen-svæðisins, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Líkt og að framan greinir var kærandi í ólögmætri dvöl þegar hann lagði inn umsókn sína um dvalarleyfi og eiga a-c-liðir 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga ekki við um kæranda. Ber því að hafna umsókn kæranda nema ríkar sanngirnisástæður mæli með því að vikið verði frá 1. mgr., sbr. 3. mgr. 51. gr. laganna.

Í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. í öðrum tilvikum en þar séu upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því. Ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er matskennt lagaákvæði en hugtakið „ríkar sanngirnisástæður“ er ekki útfært nánar í lögunum eða í reglugerð um útlendinga, líkt og ráðherra hefur heimild til. Eru einu leiðbeiningarnar sem stjórnvöld hafa við beitingu ákvæðisins þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga, en þar segir m.a. um 3. mgr. að ætlunin sé að ákvæðinu sé beitt þegar tryggja þarf samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi.

Í hinni kærðu ákvörðun er komist að þeirri niðurstöðu að ríkar sanngirnisástæður séu ekki fyrir hendi í máli kæranda, og er umsókn hans því hafnað, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi mótmælir þessu og telur ríkar sanngirnisástæður vera fyrir hendi, en um það vísar hann einkum til fjölskyldusjónarmiða vegna tengsla við bróður sinn og fjölskyldu hans, svo og vegna atvinnu sinnar hér á landi. Samkvæmt greinargerð og læknisvottorði, dags. 29. mars 2023, varð bróðir kæranda fyrir vinnuslysi og var óvinnufær frá 23. janúar til 14. apríl 2023. Kærandi kvaðst hafa aðstoðað hann og fjölskyldu hans á meðan á því stóð og því dvalið hér lengur en ella. Af gögnum málsins má einnig ráða að kærandi hafi hafið störf á meðan veikindaleyfi bróður hans stóð og hafi kærandi viðhaldið ólögmætri dvöl og atvinnu eftir að veikindaleyfinu lauk. Efnislegt ósamræmi má finna í greinargerð kæranda en tekið er fram á blaðsíðu 1 að hann eigi önnur systkini, sem búsett eru í Dúbaí, en á blaðsíðu 2 kemur fram að bróðir kæranda og fjölskylda hans hér á landi séu eina fjölskylda kæranda. Allt að einu verður þó ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi sé einhleypur og eigi hvorki maka, né börn sem þarfnist umönnunar hér á landi. Telur kærunefnd að fjölskyldutengsl kæranda við landið séu ekki slík að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í skilningi 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga, með hliðsjón af áður reifuðum lögskýringargögnum.

Þá vísar kærandi einnig til atvinnuþátttöku en hann er með ráðningarsamning við tiltekið fyrirtæki og hefur starfað þar frá 25. mars 2023. Kærandi vísar m.a. til þess að brottför til Ítalíu kunni að koma sér illa þar sem ekki er vitað hvernig vinnuveitandi myndi bregðast við því. Umrædd sjónarmið verða ekki lögð til grundvallar í máli þessu enda ljóst að kæranda hafi ekki verið heimilt að stunda atvinnu hér á landi án útgefins dvalar- og atvinnuleyfis. Um framangreint vísast m.a. til 2. mgr. 50. gr. sbr. b-liðar 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga sbr. og 6. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002.

Kærandi vísar einnig til atvinnufrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar og leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt gögnum málsins réði kærandi sig til starfa 25. mars 2023 en sótti ekki um dvalar- og atvinnuleyfi fyrr en 18. júlí 2023. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi óskað eftir sérstökum leiðbeiningum stjórnvalda um heimild sína til þess að stunda atvinnu en óumdeilt er að kæranda hafi ekki verið heimilt að hefja störf án útgefins atvinnuleyfis sbr. 2. mgr. 50. gr. laga um útlendinga sbr. og lög um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Þá bendir kærunefnd á að upplýsingar um heimild til dvalar og atvinnu má finna á vefsvæði Útlendingastofnunar. Var kæranda í lófa lagið að afla sér upplýsinga um þessi atriði áður en hann réði sig til starfa. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi útgefna kennitölu en ekki liggja fyrir skýringar á því hvers vegna eða með hvaða hætti, en ljóst er að kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi í gildi á Íslandi, og þá er hann hvorki EES- né EFTA-borgari. Hvað tilvísun kæranda til mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar varðar bendir kærunefnd á að samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrár og 2. málsl. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar hefur löggjafinn heimildir til þess að mæla fyrir um rétt útlendinga til þess að koma til landsins og dveljast hér, og setja skorður á atvinnufrelsi með lögum. Um aðgerðir löggjafans má nánar vísa með almennum hætti til laga um útlendinga og laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Hvað röksemdafærslu um húsnæðis- og atvinnuleysi kæranda á Ítalíu varðar telur kærunefnd kæranda verða að bera hallann af því, enda mátti honum vera ljóst að hann hefði ekki fengið útgefið dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi.

Loks bendir kærunefnd á að grundvöllur stjórnsýslumáls kæranda sé dvalarleyfisumsókn vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga en niðurstaða málsins hjá Útlendingastofnun réðst á 51. gr. sömu laga. Í ljósi þess eru tilvísanir kæranda til sérstakra tengsla og lögmæts tilgangs, sbr. 78. og 79. gr. laga um útlendinga auk 22. gr. reglugerðar um útlendinga, málinu óviðkomandi og renna ekki styrkari stoðum undir málsástæður hans.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga og er það mat kærunefndar að ríkar sanngirnisástæður, sbr. undantekningarheimild 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga, séu ekki til staðar í máli kæranda. Ber því að hafna umsókn kæranda á þeim grundvelli, sbr. 4. mgr. 51. gr. laganna.

Líkt og þegar hefur komið fram var réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar frestað, sbr. bréf kærunefndar dags. 17. nóvember 2023. Er því ljóst að endurkomubann kæranda verði fellt niður yfirgefi hann landið af sjálfsdáðum innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Getur kærandi lagt fram aðra dvalarleyfisumsókn á sama eða öðrum grundvelli eftir að hann yfirgefur Ísland. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort kærunefnd uppfylli önnur skilyrði laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis.

Að öllu framangreindu virtu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi.

Brottvísun og endurkomubann

Í 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga segir að svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Samkvæmt því sem þegar hefur verið rakið hefur dvöl kæranda verið ólögmæt frá og með 19. febrúar 2023. Hinn 18. júlí 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi  vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda ákvarðað brottvísun og endurkomubann til tveggja ára. Þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun sína 4. september 2023 dvaldi kærandi enn hér á landi. Var skilyrðum 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því fullnægt þegar hin kærða ákvörðun var tekin og birt kæranda. Kæra frestaði ekki framkvæmd ákvörðunar. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa og samþykkti kærunefnd þá beiðni 17. nóvember 2023.

Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2023, var kæranda leiðbeint um að honum kynni að verða ákvörðuð brottvísun og endurkomubann hingað til lands og gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Kærandi sendi Útlendingastofnun andmælabréf, dags. 29. ágúst 2023. Í andmælum kæranda er vísað til þess að hann hafi yfirgefið landið 29. maí 2023 og komið aftur til landsins 4. júní 2023 og talið dvöl sína lögmæta, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Að öðru leyti vísar kærandi til sömu atriða og rakin eru í greinargerð með stjórnsýslukæru á borð við bróður sinn og heilsufar hans, atvinnuþátttöku, og að íþyngjandi væri fyrir hann að fara aftur til Ítalíu. Hefur kærunefnd yfirfarið málsástæður kæranda og benda gögn málsins ekki til þess að brottvísun kæranda feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Er það niðurstaða kærunefndar að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda sé í samræmi við lög og er tilgangur hennar að framfylgja lögmætum markmiðum laga um útlendinga. Hvað varakröfu kæranda varðar þá bendir kærunefnd á að fallist var á beiðni hans um frestun réttaráhrifa. Í ljósi þess getur hann komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hann Ísland innan þess frests sem honum er gefinn.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda dvelur hann ólöglega í landinu. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. laganna, jafnframt staðfest. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda fellur niður yfirgefi kærandi landið sjálfviljugur innan framangreinds frests.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum