Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 631/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 24. október 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 631/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23060098

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 12. júní 2023 barst kærunefnd útlendingamála sjálfkrafa kæra, samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, á ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar hér á landi umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Úkraínu (hér eftir kærandi) um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi lagði ekki fram greinargerð vegna kæru málsins en gera má ráð fyrir að hann krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 15. febrúar 2023. Með umsókn framvísaði kærandi dvalarleyfisskírteini frá Litháen með gildistíma til 10. ágúst 2024. Á þeim grundvelli var, dags. 27. febrúar 2023, beiðni um viðtöku viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Póllandi, sbr. 1. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá litháískum yfirvöldum, dags. 17. apríl 2023, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 7. mars 2023, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 12. júní 2023 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að litháísk stjórnvöld beri ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Litháen ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Litháen.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram greinargerð í málinu en sendi kærunefnd tölvubréf 30. júní 2023 þess efnis að hann færi fram á að úrskurðað yrði í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 16. mars 2023, kemur m.a. fram að kærandi hafi farið frá heimaríki sínu 14. október 2021 til Litháen. Kærandi hafi dvalið þar í landi til 17. október 2022 og hafi svo lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 15. febrúar 2023. Kærandi hafi mátt þola fordóma í viðtökuríki og það hafi reynst honum erfitt að fá leiguhúsnæði. Þá greindi kærandi frá því að hann þjáist af kvíða og þunglyndi vegna þess að fjölskylda hans sé stödd í Úkraínu. Kærandi byggi kröfu sína á því að umsókn hans skuli tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum og þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna mismununar sökum þjóðernis.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi einstæður karlmaður á [...] sem staddur er einsamall hér á landi. Við meðferð málsins greindi kærandi frá því að hann hann hafi áður dvalið hér á landi árið 2019 á vegum litháísks fyrirtækis sem hann hafi starfað fyrir og hann eigi vini hér á landi. Kærandi greindi frá því að hann hafi farið frá Úkraínu til Litháen 14. október 2021. Kærandi hafi verið með dvalarleyfi í viðtökuríki á grundvelli atvinnu en starfið hafi verið tímabundið og illa launað. Kærandi hafi viljað koma hingað til lands til að afla tekna fyrir fjölskyldu sína og vini í heimaríki. Kærandi greindi frá því að hafa sjálfur greitt fyrir húsnæði og mat í viðtökuríki. Kærandi hafi ekki fengið fjárhagsaðstoð og ekki þurft á heilbrigðisþjónustu að halda á þeim tíma sem hann dvaldi þar í landi. Kærandi hafi mátt þola fordóma og mismunun í Litháen. Kærandi hafi ekki lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Litháen og þekki ekki til réttinda sinna þar í landi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann væri við góða líkamlega heilsu en að hann þjáist af kvíða og þunglyndi vegna ástandsins í heimaríki.

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skal umsókn um alþjóðlega vernd samkvæmt 37. gr. tekin til efnismeðferðar nema tilteknar aðstæður séu fyrir hendi eins og Útlendingastofnun taldi að ætti við í máli kæranda. Í 37. gr. laganna koma fram skilyrði laganna fyrir því að alþjóðleg vernd skuli veitt. Verður af ákvæðum laganna ráðið að með hugtakinu efnismeðferð sé átt við mat á því hvort skilyrði alþjóðlegrar verndar séu uppfyllt. Í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um veitingu dvalarleyfa á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í ákvæðinu koma fram tiltekin skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að slíkt leyfi skuli veitt. Þá er mælt fyrir um að ákvæðinu skuli ekki beitt nema skorið hafi verið úr með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar. Án tillits til þessa hefur löggjafinn veitt ráðherra heimild í 44. gr. til að ákveða að veita þeim sem tilheyra hópi sem flýr tiltekið landsvæði slík dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í 4. mgr. 44. gr. laganna er mælt fyrir um hvernig fara skuli með umsókn um alþjóðlega vernd samkvæmt 37. gr. þegar umsækjandi uppfyllir skilyrði sameiginlegrar verndar samkvæmt 44. gr. laganna. Er þá heimilt að leggja umsókn um alþjóðlega vernd til hliðar í tiltekinn tíma frá því að umsækjandi fékk fyrst leyfi um sameiginlega vernd. Þegar sameiginleg vernd samkvæmt 44. gr. fellur niður skal gera umsækjanda grein fyrir að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði því aðeins tekin til meðferðar að hann láti í ljós ótvíræða ósk um það.

Af 4. mgr. 44. gr. laga um útlendinga leiðir að umsókn útlendings um alþjóðlega vernd sem uppfyllir skilyrði sameiginlegrar verndar verður ekki tekin til efnismeðferðar á grundvelli 37. gr. laganna á meðan viðkomandi hefur dvalarleyfi samkvæmt 74. gr. þeirra. Með vísan til þessa ber, við meðferð umsóknar einstaklings sem ástæða er til að ætla eða telur sig tilheyra fjöldaflótta sem fellur undir 44. gr. laga um útlendinga, að taka afstöðu til þess hvort viðkomandi uppfylli skilyrði þess ákvæðis og þeirra stjórnvaldsfyrirmæla sem ráðherra kann að setja með heimild í 1. mgr. 44. gr. laganna áður en tekin er afstaða til þess hvort 1. mgr. 36. gr. standi því í vegi að umsókn sé tekin til efnismeðferðar vegna skilyrða 37. gr. laganna. Verður því að taka afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði 44. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Hinn 4. mars 2022 birti dómsmálaráðuneytið tilkynningu á vef ráðuneytisins um að dómsmálaráðherra hefði ákveðið að virkja ákvæði 44. gr. laga um útlendinga um sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta. Ákvörðunin væri í samræmi við þá ákvörðun Evrópusambandsins að virkja samskonar úrræði með tilskipun nr. 2001/55/EB um tímabundna vernd vegna fjöldaflótta. Móttaka flóttamanna á Íslandi muni ná til sömu skilgreindu hópa og þeirra sem Evrópusambandið hafi ákvarðað. Þessari aðferð væri fyrst og fremst beitt til að geta veitt þeim sem flýja Úkraínu skjóta og skilvirka aðstoð, nánar tiltekið tímabundna vernd, án þess að móttakan og aðstoðin yrði verndarkerfi Íslands ofviða.

Umrædd tilskipun um tímabundna vernd vegna fjöldaflótta mælir fyrir um sambærilegar reglur og fram koma í 44. gr. laga um útlendinga. Sama dag og framangreind tilkynning um ákvörðun dómsmálaráðherra birtist á heimasíðu ráðuneytisins hafði Ráðherraráð Evrópusambandsins tekið ákvörðun nr. 2022/382 um fólksflótta frá Úkraínu í skilningi tilskipunar nr. 2001/55/EB. Í ákvörðuninni var skilgreint hvaða hópar manna skyldu fá tímabundna vernd innan Evrópusambandsins vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Hinn 21. mars 2023 gaf framkvæmdastjórnin út leiðbeiningar um innleiðingu á ákvörðun nr. 2022/382. Hvorki tilskipun nr. 2001/55/EB né ákvörðun nr. 2022/382 eru hluti af þeim þjóðréttarskuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist.

Degi áður en framangreind tilkynning dómsmálaráðherra var birt 4. mars 2022 var útbúið minnisblað í dómsmálaráðuneytinu um hvort virkja ætti 44. gr. laga um útlendinga vegna stöðunnar í Úkraínu og fólksflótta þaðan vegna innrásar Rússlands. Þá gerði ráðuneytið leiðbeiningar um framkvæmd ákvörðunarinnar, dags. 11. mars 2023, þar sem skilgreint var nánar gildissvið ákvörðunarinnar og tiltekið hvaða einstaklingar heyri þar undir. Leiðbeiningarnar voru uppfærðar með erindi ráðuneytisins, dags. 29. júní 2023. Framangreint minnisblað og leiðbeiningar voru á hinn bóginn ekki birt opinberlega.

Eins og að framan er rakið mælir 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga fyrir um að ráðherra geti ákveðið að beita skuli ákvæðum greinarinnar þegar um er að ræða fólksflótta. Þar sem slík ákvörðun felur í sér fyrirmæli stjórnvalds sem ekki beinist að tilteknum aðilum stjórnsýslumála verður að líta svo á að hún teljist til stjórnvaldsfyrirmæla. Af 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað nr. 15/2005 leiðir að birta ber stjórnvaldsfyrirmæli í Stjórnartíðindum og að slíkum fyrirmælum skuli ekki beitt fyrr en birting hafi farið fram. Í síðarnefnda ákvæðinu er þó mælt fyrir um að óbirt fyrirmæli bindi stjórnvöld frá gildistöku þeirra. Eftir því sem næst verður komist hefur ákvörðun ráðherra um beitingu 44. gr. laga um útlendinga vegna innrásar Rússa í Úkraínu ekki verið birt í samræmi við ákvæði laga nr. 15/2005. Með slíkri ákvörðun er mælt fyrir um veitingu réttinda til handa útlendingum sem sækjast eftir vernd hér á landi og bindur hún því hendur Útlendingastofnunar frá gildistöku hennar þrátt fyrir að farist hafi fyrir að birta hana.

Skyldan um birtingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla þjónar ekki aðeins því markmiði að tryggt sé að borgararnir eigi þess kost að kynna sér þær reglur sem um háttsemi þeirra gilda. Slík skylda stuðlar einnig að því að lagareglur séu nægjanlega skýrar og fyrirsjáanlegar til að stjórnvöld, sem ætlað er að sjá um framkvæmd þeirra, geti tekið ákvarðanir á grundvelli reglnanna í einstökum málum. Hvað svo sem líður áskilnaði laga nr. 15/2005 um birtingu stjórnvaldsfyrirmæla og þeirri staðreynd að ákvörðun ráðherra frá 4. mars 2022 var ekki birt í Stjórnartíðindum er til þess að líta að ókleift hefur reynst að fá aðgang að ákvörðuninni sjálfri. Er inntak ákvörðunar ráðherra því óljóst. Ekki er unnt að líta svo á að ákvörðun ráðherra hafi sjálf komið fram í tilkynningu á vef dómsmálaráðuneytisins frá 4. mars 2022, enda er þar ekki tilgreint til hvaða hóps fólks ákvörðunin tekur. Er þar aðeins tilgreint að ákvörðun ráðherra hafi verið tekin vegna fjöldaflótta í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu og að hún taki til sömu skilgreindu hópa og þeirra sem Evrópusambandið hafi ákveðið. Er í því samhengi vísað til tilskipunar 2001/55/EB en ekki getið ákvörðunar Ráðsins nr. 2022/382. Verður ekki ráðið af tilkynningunni með vissu hvort ákvörðun ráðherra hafi einungis tekið til þeirra sem umrædd ákvörðun tók til eða víðari hóps einstaklinga og þá hverra. Er tilkynningin því óskýr um efnislegt innihald ákvörðunar ráðherra. Þrátt fyrir að önnur gögn sem fyrir liggja um ákvörðun ráðherra varpi nokkru ljósi á efnislegt inntak hennar að þessu leyti verður ekki séð að með þeim sé fyllilega skýrt til hvaða hóps einstaklinga ákvörðunin tekur. Á þetta við um þær leiðbeiningar dómsmálaráðuneytisins sem vísað er til í ákvörðun Útlendingastofnunar og minnisblaðs sem tekið var saman fyrir ráðherra áður en hann tók ákvörðun sína. Þá hafa umrædd gögn ekki verið birt opinberlega. Engu að síður er ljóst að ríkisborgurum Úkraínu hefur verið veitt tímabundin vernd hér á landi á grundvelli ákvörðunar ráðherra og að Útlendingastofnun hafi litið svo á að hún hafi gildi.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki hjá því komist að taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til ákvörðunar ráðherra frá 4. mars 2022. Við það mat verður ákvörðun ráðherra ekki ljáð þrengra efnislegt inntak en leiðir af tilkynningu þeirri er birtist á heimasíðu ráðuneytisins þann sama dag. Kærandi er úkraínskur ríkisborgari sem hafði leyfi til dvalar í Litháen við upphaf stríðsins. Með vísan til þess sem að framan greinir um óskýrt efnislegt inntak ákvörðunar ráðherra er ekki hægt að leggja mat á það hvaða áhrif umrædd dvöl í Litháen hafi á það hvort kærandi teljist til þess hóps Úkraínumanna sem lagt hafi á flótta vegna stríðsins. Með vísan til þessa verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 74. gr., sbr. 44. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi með vísan til 74. gr., sbr. 44. gr. laga um útlendinga.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to issue the applicant a residence permit according to article 74, with regard to article 44, of the Act of Foreigners.

Þorsteinn Gunnarsson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Gunnar Páll Baldvinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum