Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 478/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 7. september 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 478/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23080007 og KNU23080008

 

Kæra […]

og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 31. júlí 2023 kærðu […], fd. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir M) og […], fd. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir K), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 26. júlí 2023, um að brottvísa kærendum og börnum þeirra, […], fd. […], ríkisborgara Albaníu (hér eftir A), […], fd. […], ríkisborgara Albaníu (hér eftir B) og […], fd. […], ríkisborgara Albaníu (hér eftir C), og ákvarða kærendum endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Kærendur krefjast þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi.

Fyrrgreindar ákvarðanir er kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur lögðu fyrst fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi 10. maí 2018. Við leit að fingraförum þeirra í Eurodac gagnagrunninum sama dag kom í ljós að fingraför þeirra höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi og Frakklandi. Hinn 14. maí 2018 var beiðni um viðtöku kærenda og umsókna þeirra um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Hinn 18. maí 2018 barst svar frá frönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kærenda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað 2. og 7. ágúst 2018 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að vísa þeim frá landinu. Kærendur og börn þeirra voru flutt til Frakklands 12. febrúar 2019.

Kærendur lögðu á ný fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi 9. maí 2023 fyrir sig og börn þeirra. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun 16. maí 2023 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 16. maí 2023, synjaði Útlendingastofnun kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærendum var jafnframt brottvísað frá landinu og þeim ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Með úrskurði kærunefndar, dags. 11. júlí 2023, voru ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra, að því er varðar umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, staðfestar. Felldar voru úr gildi ákvarðanir stofnunarinnar um frávísun og brottvísun kærenda og barna þeirra og endurkomubann kærenda. Var Útlendingastofnun gert að taka þann hluta ákvarðana sinna til meðferðar á ný. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 26. júlí 2023, var kærendum brottvísað og ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Börnum kærenda var brottvísað. Kærendum var tilkynnt um ákvarðanir Útlendingastofnunar 28. júlí 2023. Kærendur kærðu ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar 31. júlí 2023. Hinn 14. ágúst 2023 barst kærunefnd greinargerð kærenda.

Í kæru óskuðu kærendur eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðunum Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Afstaða kærunefndar til þeirrar beiðni verður rakin í niðurstöðukafla úrskurðarins.

III.       Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur m.a. fram að þau telji fyrirhugaða brottvísun og endurkomubann fela í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Kærendur hafi af ýmsum ástæðum sterk tengsl við Schengen-svæðið, en þau eigi fjölskyldu í Þýskalandi og Grikklandi. Byggja kærendur á því að brottvísun og endurkomubann brjóti í bága við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga 12. gr. stjórnsýslulaga. Vísa kærendur til ákvæðis a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því til stuðnings, en það feli í sér heimild en ekki skyldu til þess að ákveða útlendingi brottvísun og endurkomubann. Með tilliti til framangreinds sé um að ræða gífurlega íþyngjandi ákvörðun en hún kæmi alfarið í veg fyrir samvistir kærenda við fjölskyldumeðlimi sem búi víðsvegar um Evrópu.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.

Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 26. júlí 2023, var kærendum og börnum þeirra brottvísað og kærendum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára með vísan til 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Eins og að framan greinir byggðu kærendur á því að ekki væri skylda að ákveða útlendingi brottvísun og endurkomubann heldur væri um að ræða heimild samkvæmt a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af leiðbeiningarskyldu stjórnvalda sendi kærunefnd tölvubréf til kærenda, dags. 30. ágúst 2023, þar sem þeim var gerð grein fyrir því að 15. desember 2022 hafi lög um landamæri nr. 136/2022 verið samþykkt á Alþingi þar sem m.a. hafi verið gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Kærendum var gefið færi á því að leggja fram viðbótarathugasemdir með tilliti til framangreinds og þeim veittur frestur til framlagningar til 1. september 2023. Kærunefnd barst ekki svar frá kærendum.

Kærendum var í viðtali hjá Útlendingastofnun leiðbeint um að til skoðunar væri að brottvísa þeim og börnum þeirra frá Íslandi og ákvarða kærendum endurkomubann hingað til lands. Var kærendum gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Greindi M frá því að hann ætti tvo bræður í Þýskalandi, einn bróður í Grikklandi og tvær frænkur. K kvaðst eiga bróður í Grikklandi. Þá mótmælti M hugsanlegri brottvísun og endurkomubanni en ekki K. Af þeim svörum sem kærendur gáfu um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun þeirra og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð kærenda eða nánustu aðstandenda þeirra, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frests sem veittur er samkvæmt 104. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 101. gr. laganna. Heimilt er þó að veita styttri frest eða fella hann niður ef umsókn útlendings um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra kemur fram að þau séu ríkisborgarar ríkis sem sé á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki. Var það mat Útlendingastofnunar með vísan til fyrri ákvarðana stofnunarinnar í málum kærenda og barna þeirra, dags. 16. maí 2023 og úrskurði kærunefndar, dags. 11. júlí 2023, að umsóknir kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd teldust bersýnilega tilhæfulausar, sbr. b-lið 1. mgr. 29. gr. og b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þá var kærendum og börnum þeirra ekki veittur frestur til sjálfviljugrar heimfarar með vísan til þess að umsóknir þeirra hefðu verið metnar bersýnilega tilhæfulausar og að málsatvik bentu ekki til þess að til staðar væru ástæður sem réttlætt gætu að þeim yrði veittur slíkur frestur, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 5. mgr. sama ákvæðis.

Lög um útlendinga skilgreina ekki hvað felist í orðalaginu „bersýnilega tilhæfulaus“ í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna. Við túlkun ákvæðisins telur kærunefnd að líta verði til þess að orðið tilhæfulaus lýsir einhverju sem byggir ekki á staðreyndum eða á ekki við rök að styðjast. Þá leiðir af orðalagi ákvæðisins að tilhæfuleysi umsóknar þarf að vera bersýnilegt, þ.e. blasa við stjórnvaldi við skoðun málsins. Með vísan til orðalags ákvæðisins og til samræmis við ákvæði tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl telur kærunefnd að umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna þegar eftirfarandi tilvik eiga við:

a) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda varða ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til,

b) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda séu ekki þess eðlis eða nái ekki því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita umsækjenda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, og

c) frekara mat og gagnaöflun, þar með talið viðtal við umsækjanda, hafi ekki breytt ofangreindu upphaflegu mati.

Líkt og er ítarlega fjallað um í úrskurði kærunefndar nr. 407/2023, dags. 11. júlí 2023, byggðu kærendur umsóknir sínar og barna sinna um alþjóðlega vernd hér á landi á því að þau eigi á hættu ofsóknir á grundvelli kynþáttar þar sem þau séu af egypskum uppruna. Yfirvöld hafi ekki vilja til að veita þeim vernd gegn hótunum og ofbeldi og því hafi þau ákveðið að flýja heimaríki sitt. Það var niðurstaða kærunefndar, að teknu tilliti til gagna um heimaríki kærenda og aðstæður þeirra og barna þeirra þar, að kærendum standi til boða að leita til lögreglu þurfi þau á aðstoð að halda. Þá sé til staðar kerfi í Albaníu sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Það hafi því frá upphafi málsmeðferðarinnar verið bersýnilegt að málsástæður kærenda vörðuðu ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taki til. Enn fremur hafi verið bersýnilegt að aðrar aðstæður í heimaríki kærenda séu ekki þess eðlis eða nái því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í þessu sambandi lítur kærunefnd til þess að orðalag 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um að aðili þurfi að sýna fram á ríka þörf á vernd og tekur mat stjórnvalda á tilhæfuleysi slíkra umsókna mið af þeirri ábyrgð sem lögð er á aðila að þessu leyti. Þá er einnig ljóst að frekara mat og gagnaöflun hafi ekki breytt ofangreindu mati. Er það því mat kærunefndar að 12. gr. stjórnsýslulaga standi því ekki í vegi að kærendum hafi ekki verið veittur frestur til að yfirgefa landið.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að umsóknir kærenda og barna þeirra um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd hafi verið bersýnilega tilhæfulausar, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, og rétt að veita þeim ekki frest til þess að yfirgefa landið sjálfviljug.

Eins og að framan greinir var umsóknum kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga synjað með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2023, sem staðfestar voru með úrskurði kærunefndar nr. 407/2023. Hafa þau því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með þeim ákvörðunum var réttilega bundinn endir á heimild kærenda og barna þeirra til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa kærendum og börnum þeirra úr landi, enda stendur ákvæði 102. gr. laganna ekki því í vegi. Þá hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að fella niður frest til að kærendur og börn þeirra geti yfirgefið landið sjálfviljug, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Fyrir liggur að kærendum og börnum þeirra var fylgt til heimaríkis 11. ágúst 2023 og tók endurkomubann kærenda til landsins gildi þann dag, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Þá bar kærunefnd, í ljósi framangreindrar niðurstöðu, að vísa frá beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa ákvarðana Útlendingastofnunar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Var kærunefnd því ekki heimilt að fallast á þá beiðni kærenda.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana eru ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra staðfestar.

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

Þorsteinn Gunnarsson

 

Sindri M. Stephenssen                                                                 Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum