Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 453/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 8. maí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 453/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24010049

 

Kæra [...]

á ákvörðun

lögreglustjórans á Suðurnesjum

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 17. janúar 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 9. janúar 2024, um frávísun frá Íslandi.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/399 um för yfir landamæri (Schengen landamærareglurnar), stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til Íslands með flugi frá Róm, Ítalíu, 9. janúar 2024. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 9. janúar 2024, var kæranda frávísað frá landinu.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda hafi verið frávísað frá Íslandi á grundvelli c- og d-liða 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Ákvörðuninni fylgdu viðbótarathugasemdir, þar sem fram kemur að kærandi hafi ekki bókað hótelgistingu né sýnt fram á tilgang dvalar. Þá hafi kærandi ekki haft næga fjármuni til framfærslu á meðan á dvöl stæði. Í rökstuðningi lögreglu til kærunefndar, dags. 12. janúar 2024, kemur fram að lögregla hafi haft afskipti af kæranda við komu til landsins. Kærandi hafi framvísað albönsku vegabréfi og ætlað að dvelja hér á landi í þrjá daga en að mati lögreglu hafi hann gefið óljós svör um tilgang dvalar sinnar á Íslandi. Var hann því færður í viðtalsherbergi lögreglu á Keflavíkurflugvelli þar sem kærandi hafi m.a. verið spurður um tilgang komu sinnar til landsins og hvort hann ætti einhver tengsl á Íslandi. Þar hafi m.a. komið fram að kærandi hafi ætlað að skoða Reykjavík en aðspurður hafi hann ekki getað svarað lögreglu með nánari hætti hvað hann hygðist skoða. Þá kvaðst kærandi eiga vinkonu hér á landi sem hann hafi nafngreint en ekki getað veitt nánari upplýsingar um hvernig þau hafi kynnst né hver tengsl þeirra væru. Kærandi hafi verið beðinn um að gera grein fyrir fjármunum sem hann hefði fyrir dvölinni og hafi hann framvísað [...] evrum. Aðspurður um gistingu hafi kærandi lagt fram ógreidda hótelbókun en samkvæmt starfsfólki hótelsins, sem lögregla hafði samband við, hafi hótelbókunin verið ógreidd að beiðni kæranda. Jafnframt hafi kærandi lagt fram hálfkláraða bókun á bílaleigubifreið og kvaðst hann eiga bókað flug frá Íslandi 12. janúar 2024. Við skoðun lögreglu hafi ekki fundist gögn eða upplýsingar um umrædda bókun kæranda og vísar lögregla til þess að kærandi hafi ekki sagt satt og rétt frá varðandi farmiða sinn úr landi.

Við meðferð málsins hafi komið í ljós að kæranda hafi áður verið gert að sæta frávísun, sbr. c- og d-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi verið ósáttur við afskipti lögreglu þegar reynt hafi verið að útskýra fyrir honum að hann þyrfti að sýna fram á tilgang dvalar og fjármagn til dvalar. Að mati lögreglu beri gögn málsins með sér að kærandi eigi ógreidda gistibókun, ókláraðar bókanir fyrir bílaleigubifreið og farmiða úr landi, sem einnig séu ógreiddar. Í ljósi þess að kærandi hafi ekki haft farmiða úr landi hafi verið mat lögreglu að hann hefði ekki næga fjármuni fyrir dvöl sinni, að teknu tilliti til frádráttar vegna gistingar, leigu bifreiðar, og farmiða úr landi að nýju. Þar að auki taldi lögregla kæranda vera verulega ósannfærandi varðandi tilgang dvalar og tengsl hans hér á landi.

Að teknu tilliti til frásagnar kæranda, málsatvika og heildstæðs mats lögreglu ásamt gögnum málsins tók lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvörðun um frávísun kæranda á grundvelli c- og d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Auk þess bendir lögregla á að kærandi hafi ekki geta orðið sér út um farmiða úr landi sjálfur og hafi stoðdeild ríkislögreglustjóra haft milligöngu um farmiðakaup. Skuldaviðurkenning, dags. 10. janúar 2024, hafi verið birt fyrir kæranda sem hann hafi neitað að undirrita og sagt að einhver ótilgreindur einstaklingur á hans vegum hefði getað keypt fyrir hann umræddan farmiða úr landi. Kærandi fór með flugvél til Mílanó, Ítalíu, en ekki kemur fram í rökstuðningi lögreglu hvaða dag kærandi fór af landi brott.

Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 17. janúar 2024. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd 31. janúar 2024.

Með tölvubréfi, dags. 10. apríl 2024, óskaði kærunefnd eftir frekari gögnum og skýringum frá lögreglu, þ. á m. skuldaviðurkenningu, dags. 10. janúar 2024, sem kærandi hafi ekki undirritað. Frekari gögn bárust kærunefnd 11. apríl 2024.

III.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi viljað heimsækja Ísland og skoða höfuðborgina. Við komu til landsins, 9. janúar 2024, hafi hann verið stöðvaður af lögreglu og meinuð landganga. Í skýrslu lögreglu sé vísað til þess að kærandi hafi gefið óljós svör um tilgang dvalar sem kærandi hafni alfarið. Kærandi geri athugasemdir við efni lögregluskýrslu, einkum varðandi aðgang að lögfræðiþjónustu og svigrúm til að koma andmælum á framfæri. Eftir birtingu ákvörðunar lögreglu hafi kærandi haft samband við lögmann sinn og beðið hann um aðstoð. Hafi lögmaður kæranda hringt í varðstofu á Keflavíkurflugvelli og sent tölvubréf, þar sem óskað var eftir útgáfu umboðs, svo unnt væri að afhenda lögmanninum gögn málsins. Lögregla hafi hins vegar hunsað beiðnir kæranda og lögmanns hans.

Kærandi vísar til a-liðar 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga um rétt aðila máls til þess að leita aðstoðar lögmanns. Að sögn kæranda liggi fyrir að hann hafi gert tilraunir til þess en lögregla hafi ekki veitt lögmanni kæranda kost á því að gæta hagsmuna hans. Þá virðast verkferlar lögreglu á Keflavíkurflugvelli útiloka rétt kæranda um að njóta aðstoðar lögmanns, og vísar kærandi til fylgiskjala með greinargerð því til stuðnings. Hafi lögregla því brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 11. gr. laga um útlendinga og 7. gr. stjórnsýslulaga.

Að mati kæranda hafi lögregla virt gögn og andmæli hans að vettugi, sem hafi ekki verið rannsökuð nánar en þau hafi staðfest að kærandi hafi verið með bókaða farmiða frá Íslandi og bókaða gistingu hér á landi. Lögregla hafi hvorki hlustað á kæranda sjálfan né lögmann hans. Í því samhengi vísar kærandi einkum til þess að lögregla hafi ekki svarað símtölum lögmanns kæranda né staðfest móttöku erinda hans fyrr en eftir framkvæmd ákvörðunar. Gagnabeiðnum hafi verið hafnað þar sem ekki hafi legið fyrir umboð til lögmanns kæranda og var beiðnum til lögreglu um að færa kæranda umboð til undirritunar hundsaðar. Með framangreindri háttsemi hafi lögregla gróflega brotið gegn 11. gr. laga um útlendinga, auk 7. og 13. gr. stjórnsýslulaga. Enn fremur hafi lögregla ekki gætt að meðalhófi, né rannsóknarskyldu sinni og margbrotið stjórnsýslureglur á meðan á meðferð málsins hafi staðið.

Þar að auki byggir kærandi málatilbúnað sinn á því að skilyrði frávísunar hafi ekki verið uppfyllt. Kærandi andmælir mati lögreglu og kveðst hafa gefið upp tilgang dvalar sinnar, auk þess sem að hann hafi nægileg fjárráð fyrir dvöl sinni. Sökum brots á andmælarétti kæranda hafi skýringar hans verið virtar að vettugi. Að mati kæranda sé hin kærða ákvörðun ólögmæt og beri að fella hana úr gildi.

Enn fremur gerir kærandi athugasemdir við framkvæmd hinnar kærðu ákvörðunar. Honum hafi verið útvegaður brottfararmiði gegn vilja sínum, enda taldi hann hina kærðu ákvörðun ólögmæta. Við innritun í flug kæranda til Mílanó, Ítalíu, 11. janúar 2024, hafi fjórir lögreglumenn tekið hann með valdi og fært hann um borð í flugvélina. Kærandi telji framkvæmd ákvörðunarinnar ekki uppfylla áskilnað 104. og 105. gr. laga um útlendinga eða aðra verkferla við framkvæmd ákvarðana um frávísun. Óskar kærandi eftir því að kærunefnd útlendingamála rannsaki framkvæmdina sérstaklega og beini tilmælum til lögreglu um framkvæmd ákvarðana.

Loks er fundið að því að kæranda hafi verið haldið á svo nefndu „non-Schengen“ svæði á Keflavíkurflugvelli í tæpa tvo sólarhringa og hafi honum hvorki verið boðinn matur né drykkur, þvert á það sem fram kemur í lögregluskýrslu. Þá hafi kærandi ekki verið handhafi brottfararspjalds og því ekki getað keypt sér mat eða aðrar drykkjarvörur í verslunum eða á veitingastöðum á Keflavíkurflugvelli.

Kærandi geri athugasemdir við málsmeðferð lögreglu. Frásögn hans sé allt önnur en sú sem fram kemur í lögregluskýrslu með málinu. Óskar kærandi eftir því að rannsakað verði hvort skýrsla lögreglu standi, t.a.m. með yfirferð myndefnis úr búkmyndavélum lögreglu, einkum við framkvæmd frávísunar. Auk þess séu gerðar athugasemdir við verkferla lögreglu varðandi aðgang málsaðila að lögmanni, enda verði slíkur réttur ekki tryggður ef beiðni einstaklinga er hunsuð vegna skorts á umboði.

Meðal fylgigagna sem kærandi lagði fram við meðferð málsins á kærustigi eru tölvupóstsamskipti lögmanns kæranda og lögreglu dagana 10. og 11. janúar 2024. Einnig lagði kærandi fram bókun vegna farmiða til heimaríkis, hótelbókun, og skjáskot af samfélagsmiðlinum WhatsApp til lögmanns síns.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda byggir á c- og d-liðum 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017.

Í málinu liggur fyrir að lögmaður kæranda óskaði eftir endurupptöku málsins með tölvubréfi, dags. 10. janúar 2024, sem lögregla hefur ekki brugðist við. Endurupptaka er ein leið til að fá endurskoðun á ákvörðunum stjórnvalda, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga og hefur slík beiðni áhrif á stjórnsýslukæru, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga. Líta verður svo á að í íslenskum stjórnsýslurétti gildi sú meginregla að mál verði ekki endurskoðuð af tveimur stjórnvöldum samtímis. Komi upp sú aðstaða að leitað sé endurskoðunar tveggja stjórnvalda gangi framar sú endurskoðun sem aðili máls hafi leitast eftir fyrr. Í þessu felst að stjórnsýslukæra kæranda verður ekki tekin til efnislegrar meðferðar fyrr en endurupptökubeiðni kæranda hafi verið til lykta leidd. Athygli er vakin á ákvæði 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga sem mælir fyrir um að kærufrestur rofni þegar aðili máls fer fram á endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar innan kærufrests. Verði beiðni um endurupptöku hafnað heldur kærufrestur áfram að líða að nýju frá tilkynningu ákvörðunar um höfnun endurupptöku. Hefur kærandi þá kost á því að kæra málið til kærunefndar að nýju.

Að öllu framangreindu virtu er kæru kæranda vísað frá kærunefnd.

Athugasemdir við málsmeðferð lögreglustjórans á Suðurnesjum

Í 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga kemur fram að í máli er varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis skal útlendingi þegar í upphafi máls leiðbeint um réttindi sín og meðferð málsins á tungumáli sem ætla má með sanngirni að hann geti skilið. Samkvæmt a-lið ákvæðisins skal útlendingi m.a. leiðbeint um rétt sinn til að leita aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa á eigin kostnað við meðferð máls.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi leitað aðstoðar lögmanns sem setti sig í samband við lögreglu á Keflavíkurflugvelli, m.a. með tölvubréfum. Af gögnum málsins er ljóst að kæranda var gert að dvelja á tilteknum stað á Keflavíkurflugvelli, sbr. til hliðsjónar g-lið 1. mgr. 114. gr. laga um útlendinga, sbr. og 2. mgr. 15. gr. laga um landamæri. Hafi kærandi því ekki getað farið á starfsstöð lögmannsins til þess að undirrita umboð. Enn fremur er ljóst að aðgengi lögmanns að kæranda innan Keflavíkurflugvallar hafi verið skert, sbr. til hliðsjónar ákvæði laga um loftferðir nr. 80/2022.

Með hliðsjón af framangreindu gat kærandi ekki notið aðstoðar lögmanns án aðstoðar lögreglu, líkt og lögmaður kæranda óskaði eftir með tölvubréfi, dags. 10. janúar 2024. Bar lögreglu því að hafa milligöngu um undirritun umboðs til handa lögmanns. Að öðrum kosti er réttur kæranda, sem mælt er fyrir um í a-lið 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga, að engu hafður. Af samskiptum lögmanns kæranda og lögreglu er ljóst að lögregla hafði ekki milligöngu um undirritun umboðs og brást ekki efnislega við erindi lögmanns kæranda fyrr en 11. janúar 2024, og þá með þeim viðbrögðum að ekki lægi fyrir fullnægjandi umboð. Telur kærunefnd framangreind vinnubrögð aðfinnsluverð og beinir því til lögreglu að haga vinnubrögðum sínum þannig að aðilar að málum samkvæmt lögum um útlendinga geti notið réttinda sinna.

Loks bendir kærunefnd á að hlutverk nefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli laga um útlendinga. Athugasemdir eða umkvartanir vegna framkvæmda lögreglu á ákvörðunum stjórnvalda er unnt að bera undir nefnd um eftirlit með lögreglu eða héraðssaksóknara eftir ákvæðum VII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996.

 

Úrskurðarorð

Kæru kæranda á ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er vísað frá.

The appellant’s appeal of the decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is dismissed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum