Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 240/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 240/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120082

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 23. desember 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íran (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. desember 2022, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 3. ágúst 2021. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum 9. ágúst 2021 kom í ljós að fingraför hans höfðu meðal annars verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi. Hinn 20. ágúst 2021 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá þýskum yfirvöldum, dags. 25. ágúst 2021, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Hinn 22. september 2021 ákvað Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnismeðferðar. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 12. október 2021. Hinn 29. nóvember 2021 staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar. Hinn 8. júní 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Í júní 2022 var mál kæranda endurupptekið hjá Útlendingastofnun og umsókn hans um alþjóðlega vernd tekin til efnismeðferðar.

Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 5. ágúst 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 12. desember 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 23. desember 2022. Hinn 13. janúar 2023 barst kærunefnd greinargerð ásamt fylgigögnum. Frekari gögn bárust kærunefnd frá kæranda dagana 6. og 19. mars og 5. apríl 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana og trúarbragða.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er hvað málsatvik varðar vísað til gagna málsins.

Í greinargerð eru gerðar ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi telur umfjöllun Útlendingastofnunar um mannréttindabrot stjórnvalda og dauðrefsingar í landinu ekki hafa byggst á nýjum og aðgengilegum heimildum um ástandið í landinu. Þá sé enga umfjöllun að finna í ákvörðun Útlendingastofnunar um mikla aukningu í handtökum, pyndingum og fangelsisrefsingum fólks sem hafi viðhaft einhvers konar andíslamska tjáningu eða hegðun. Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar kemur fram að hann sé enn virkur á samfélagsmiðlum, þar hafi hann gagnrýnt íranska íslamska ríkið og birt kristilegar færslur með myndum af Jesú. Kærandi hafi haldið áfram að birta færslur sem flokkaðar yrðu sem gagnrýni á aðgerðir stjórnvalda, sbr. framlagt skjáskot af færslu af samfélagsmiðlinum Instagram, frá 22. september 2022.

Þá gerir kærandi athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar en að mati stofnunarinnar hafi verið misræmi í frásögn hans. Hafi meint misræmi falist í að talsmaður kæranda hafi beðið hann um myndir af örum á líkama hans sem hann hafi ekki sagst eiga. Pyndingarnar sem kærandi hafi orðið fyrir hafi annars vegar falið í sér endurtekin höfuðhögg og hins vegar bruna á höndum sem kærandi telji að hafi verið gert með sígarettum. Kærandi vísar til þess að pyndingarnar hafi átt sér stað fyrir meira en áratugi síðan, árið 2011, og því sé ekki skrítið að brunaör hafi dofnað og að ekki séu til myndir frá þeim tíma er hann hafi hlotið áverkana. Kærandi telur það ósanngjarnt og ómálefnalegt að stofnunin láti framangreint draga úr trúverðugleika hans. Kærandi vísar til þess að hann hafi leitað sér hjálpar sökum þess að hann telji að það séu lifandi ormar inni í sér og hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun. Kærandi vísar til þess að slíkar hugmyndir einkenni oft fórnarlömb pyndinga. Kærandi vekur athygli á því að Útlendingastofnun hafi ekki lagt til grundvallar í trúverðugleikamatinu að hann hafi orðið fyrir pyndingum. Þá vekur kærandi máls á því að Útlendingastofnun hafi ekki farið eftir viðmiðunarreglum Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna um skimun fyrir pyndingum. Með vísan til framangreinds telur kærandi að annmarkar hafi verið á rannsókn málsins hjá Útlendingastofnun. Framangreindu til stuðnings vísar kærandi til 14. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sbr. lög nr. 19/1996.

Jafnframt gerir kærandi athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar er lúti að heilsufari hans. Kærandi glími við bakvandamál og hafi það ekki farið á milli mála að hann hafi verið sárkvalinn af verkjum þegar viðtöl við hann hafi farið fram hjá Útlendingastofnun. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi ekki sönnun eða gögn til að staðhæfa að frásögn hans hvað framangreint varðar sé ósönn.

Þá mótmælir kærandi því mati Útlendingastofnunar að frásögn hans af þeim atburðum sem hafi leitt til flótta hans frá heimaríki hafi verið óstöðug og að í henni hafi gætt ósamræmis. Að mati kæranda ríki fullkomið samræmi milli allra viðtala sem kærandi hefur farið í hjá Útlendingastofnun. Kærandi gerir kröfu um að vita hvaða atriði í frásögn hans hafi valdið því að frásögn hans um ástæður flótta hans frá heimaríki hafi verið óstöðug og að í henni hafi verið ósamræmi. Að mati kæranda sé ekki að finna rökstuðning fyrir því í ákvörðun Útlendingastofnunar.

Kærandi gerir aðallega kröfu um alþjóðlega vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til greinargerðar sem hann lagði fram til Útlendingastofnunar, dags. 26. ágúst 2022, hvað varðar rökstuðning fyrir aðalkröfu hans. Í greinargerðinni komi meðal annars fram að kærandi óttist líflát vegna hótana sem hann hafi orðið fyrir í gæsluvarðhaldi af hálfu meðlima öryggissveita árið 2011 og afskipta þeirra af honum eftir það. Þá tilheyri kærandi þjóðfélagshópi í Íran sem sé mótfallinn aðgerðum stjórnvalda en slíkt sé ólöglegt samkvæmt lögum í Íran. Kærandi byggir einnig á því að hann óttist ofsóknir í heimaríki þar sem hann hafi tekið upp kristna trú. Kærandi hafi afsalað sér íslamstrú í kjölfar framangreindra atburða í heimaríki og hafi fengið sér húðflúr með mynd af Ísrael og orðinu „guð“. Þá sé kærandi af ísraelskum ættum í föðurætt. Með vísan til framangreinds telur hann að öryggi hans verði verulega ógnað í Íran snúi hann þangað aftur.

Til vara gerir kærandi kröfu um viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að hættan á ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í Íran sé aukin í kjölfar mótmælabylgjunnar sem ríki þar í landi. Stóraukinn vilji sé hjá stjórnvöldum að refsa þeim sem mótmæli Íslam eða ríkisstjórninni með einhverjum hætti. Þá sé kærandi í enn meiri hættu þar á að verða handtekinn af yfirvöldum við heimkomu vegna opinberrar gagnrýni hans á samfélagsmiðlum á ríkisstjórn landsins sem og vegna áberandi andíslamsks húðflúrs sem hann beri á hnakkanum. Kærandi vísar til þess að á grundvelli 167. gr. írönsku stjórnarskrárinnar, sbr. 220. gr. írönsku hegningarlaganna, hafi dómarar frelsi til að dæma múslímskt fólk til dauða fyrir að hafa afsalað sér íslamstrú.

Til þrautavara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að félagsleg staða hans í heimaríki verði sérstaklega bagaleg í ljósi stöðu hans sem kristins einstaklings og einstaklings sem gagnrýni ríkisstjórnina opinberlega á samfélagsmiðlum. Kærandi muni ekki geta iðkað trú sína og sótt kirkju í Íran án þess að leggja líf sitt að veði eða eiga á hættu á að verða fyrir ómannúðlegri meðferð. Þá byggir kærandi kröfu um dvalarleyfi á því að hann þjáist af andlegum kvillum og sé einstaklingur í viðkvæmri stöðu sem fórnarlamb pyndinga.

Að lokum gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við dagsetningu greinargerðar hafi mál kæranda verið í meðferð í 17 mánuði og 11 daga þar sem kærandi hafi sótt um vernd hér á landi 3. ágúst 2021 og sé fyrirséð að kærandi fái ekki niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða. Þá telur kærandi að hann uppfylli öll skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi lagt fram íranskt kennivottorð sem hann telur að sanni auðkenni hans, kærandi mótmælir niðurstöðu Útlendingastofnunar þess efnis að kennivottorðið sanni ekki auðkenni hans.

Kærandi telur að með því að senda hann til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingum, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Í kafla ákvörðunar Útlendingastofnunar sem ber heitið Mat á trúverðugleika frásagnar er fjallað um trúarlegar aðstæður í Íran og trúverðugleiki metinn á málsástæðu kæranda um skipti hans yfir í kristna trú. Er vísað til þess að kærandi hafi lagt fram til sönnunar um trúskipti sín bréf frá presti innflytjenda hér á landi, dags. 7. september 2022, þar sem vottað væri að kærandi hefði mætt reglulega í guðsþjónustu hjá þjóðkirkjunni. Þá kæmi fram í bréfinu að kærandi hefði hafið þátttöku í kristnum guðþjónustum í Þýskalandi og verið skírður í Baptist kirkjunni í Nordenham í Þýskalandi. Var það mat Útlendingastofnunar að framlögð gögn sýndu ekki fram á að umsækjandi hefði skipt um trú. Í niðurstöðukafla Útlendingastofnunar um alþjóðlega vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga tók stofnunin fyrst afstöðu til málsástæðu kæranda um trúskipti. Segir meðal annars í niðurstöðunni að þeir einstaklingar sem taki þátt í trúarstarfi kristinna kirkna í Íran eigi á hættu ofsóknir af hálfu yfirvalda enda sé refsivert samkvæmt lögum að snúast frá Íslam og taka upp kristna trú. Þá segir að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðji frásögn hans um trúskiptin eða sýni fram á að hann sé kristinnar trúar. Það sé því mat Útlendingastofnunar að ekkert bendi til þess að yfirvöld í Íran kunni deili á kæranda eða trúarskoðunum hans. Með vísan til trúverðugleikamats og landaupplýsinga auk viðtals við kæranda yrði ekki fallist á það að hann ætti á hættu að verða fyrir ofsóknum vegna trúarbragða. Er óljóst af ákvörðun Útlendingastofnunar hvort stofnunin taldi af einhverjum ástæðum ekki hægt að leggja til grundvallar að kærandi hefði skipt um trú eða að hann væri ekki í hættu þrátt fyrir trúskiptin.

Í fyrsta viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun, 24. ágúst 2021, greindi kærandi frá því að hafa skipt yfir í kristna trú árið 2011, mánuði eftir að hann hafi látið af störfum í hernum. Greindi kærandi frá því að ef hann sneri til heimaríkis myndi hann hvetja fólk til að gerast kristið. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 1. september 2021 greindi kærandi frá því að faðir hans og afi væru fæddir í Íran en restin af fjölskyldu hans væri frá Ísrael. Fjölskylda hans væri í hættu í heimaríki þar sem stjórnvöld væru að leita uppi einstaklinga frá Ísrael og drepa þá eða láta þá hverfa. Þá kæmu stjórnvöld einu sinni til tvisvar í viku að heimili hans og spyrðu um hann. Í efnismeðferðarviðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 5. ágúst 2022, greindi kærandi frá því að faðir hans og afi væru frá Ísrael en móðir hans og amma væru frá Íran. Við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram ljósmynd af húðflúri af Davíðs-stjörnunni sem hann beri á hnakkanum. Í framangreindum viðtölum var kæranda ekkert spurður út í ísraelskan uppruna sinn, svo sem hvaða trúarbrögð hafi verið iðkuð á heimili hans í ljósi þess að faðir hans sé frá Ísrael og móðir írönsk. Framangreint gaf Útlendingastofnun ástæðu til þess að spyrja kæranda ítarlegar út í trúarlegar aðstæður kæranda í heimaríki, bæði innan fjölskyldu hans og frá þeim tíma er hann kvaðst hafa skipt um trú árið 2011. Þá var full ástæða til þess að kanna frekar hvaða stöðu einstaklingar af ísraelskum uppruna hafa í Íran og hvort að húðflúr af Davíðsstjörnunni geti valdið kæranda erfiðleikum snúi hann aftur til heimaríkis. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað með fullnægjandi hætti málsástæðu kæranda um trúskipti eða fært fram rökstudda afstöðu til þeirrar málsástæðu hans. Er það mat kærunefndar að ákvörðun Útlendingastofnunar sé haldin annmarka hvað þetta varðar.

Kærandi hefur verið nokkuð samkvæmur sjálfum sér frá því að hann kom í fyrsta viðtal til Útlendingastofnunar um það að hafa gagnrýnt yfirvöld í heimaríki vegna meðferðar þeirra á einstaklingum þar í landi. Í efnismeðferðarviðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi meðal annars hafa verið handtekinn í heimaríki fyrir að mótmæla. Kvað hann klerkana hafa viljað ákæra sig fyrir eitthvað svo þeir gætu tekið hann af lífi. Aðspurður um hvort hann ætti einhver gögn um tíma sinn í fangelsi kvaðst hann hafa átt þau þegar hann hafi verið í Þýskalandi en bakpoka hans hefði verið stolið. Aðspurður um hvort hann ætti gögn varðandi handtöku hans greindi hann frá því að honum hafi verið birt stefna sem hann hafi afhent yfirvöldum í Þýskalandi en ekki fengið þau til baka. Af gögnum málsins og ákvörðun Útlendingastofnunar er ekki að sjá að kæranda hafi verið gefið færi á að afla þeirra gagna sem hann hafi afhent þýskum yfirvöldum eða að Útlendingastofnun hafi reynt að afla þeirra af sjálfsdáðum, sem og annarra gagna frá þýskum yfirvöldum varðandi málsmeðferð kæranda þar í landi. Það er mat kærunefndar að frásögn kæranda hvað þetta varðar hafi gefið stofnuninni tilefni til að rannsaka mál kæranda betur m.a. í ljósi afstöðu Útlendingastofnunar varðandi trúverðugleika frásagnar hans af ástæðu flótta frá heimaríki.

Þá er það mat kærunefndar að trúverðugleikamat Útlendingastofnunar sé óljóst en það virðist einkum byggt á atriðum sem varla geta talist misræmi og skorti á framlagningu gagna. Að mati kærunefndar liggur ekki ljóst fyrir í ákvörðuninni með hvaða rökum Útlendingastofnun komst að því að kærandi væri ótrúverðugur hvað varðar ástæður flótta hans frá heimaríki. Er rökstuðningi ákvörðunar stofnunarinnar ábótavant að þessu leyti.

Er það mat kærunefndar að af ákvörðun Útlendingastofnunar verði því ekki séð að stofnunin hafi haft fullnægjandi upplýsingar til þess að leggja til grundvallar niðurstöðu sinni í máli kæranda.

Við málsmeðferð hjá kærunefnd lagði kærandi fram ljósmyndir af örum á líkama sínum, ljósmynd af húðflúri af Davíðs-stjörnunni og skjáskot af Instagram síðu hans. Þá lagði kærandi fram afrit af skírnarvottorði sínu frá framangreindri kirkju í Þýskalandi og bauðst til þess að leggja fram frumrit þess.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Með vísan til framangreinds er ljóst að málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunarinnar í máli kæranda var ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, einkum 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur framangreinda annmarka Útlendingastofnunar verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls kæranda. Þá er það mat kærunefndar að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því sé rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case. 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum