Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 237/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 12. mars 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 237/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23120051

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestur og kæruheimild

Hinn 12. desember 2023 kærði kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. nóvember 2023, um að synja beiðni hans um endurupptöku ákvörðunar stofnunarinnar frá 1. nóvember 2023.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að hafna honum um endurupptöku ákvörðunar stofnunarinnar frá 1. nóvember 2023.

Ákvörðun kæranda er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. nóvember 2023, var kæranda synjað um endurnýjun dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Var ákvörðun Útlendingastofnunar reist á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki lagt fram tilskilin gögn vegna málsins. Með tölvubréfi, dags. 15. nóvember 2023, óskaði hann eftir endurupptöku ákvörðunarinnar. Útlendingastofnunin hafnaði beiðninni með vísan til 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fram kom í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hafi lýst því yfir að hann gæti lagt fram frekari gögn vegna málsins. Þrátt fyrir yfirlýsingu sína hafi kærandi þó ekki lagt fram frekari gögn vegna málsins og var beiðni hans því hafnað.

Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 28. nóvember 2023 og kærð til kærunefndar útlendingamála 12. desember 2023. Með tölvubréfi, dags. 13. desember 2023, lagði kærandi fram greinargerð vegna málsins. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 27. febrúar 2024, var kæranda veittur frestur til og með 2. mars 2024 til þess að leggja fram frekari gögn vegna málsins. Ekki hafa verið lögð fram frekari gögn af hálfu kæranda.

III.      Málsástæður og rök kæranda

Ráða má af beiðni kæranda um endurupptöku samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga að hann telji að ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá að Útlendingastofnun tók ákvörðun sína 1. nóvember 2023.

Fram kemur í greinargerð kæranda að krafa hans byggist á því að honum sé unnt að útvega þau gögn sem Útlendingastofnun óskaði eftir að yrðu afhent með umsókn hans um dvalarleyfi, þ.e. afrit af vegabréfi og framfærslugögn. Telji kærandi í ljósi þessa að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja honum um endurupptöku hafi verið óréttmæt. Kærandi hafi dvalið á Íslandi á grundvelli dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla við landið allt frá árinu 2014, og því sé mikið í húfi fyrir hann að fá dvalarleyfi sitt endurnýjað. Kærandi harmi að hafa ekki lagt fram umbeðin gögn við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Vísað er til þess að Útlendingastofnun hafi sent honum bréf á heimilisfang þar sem hann hafi ekki búið lengur. Þrátt fyrir að kæranda hafi verið unnt að upplýsa um nýtt heimilisfang þegar umsókn hans um endurnýjun dvalarleyfis hafi verið til meðferðar hafi það misfarist. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi verið unnt að gefa honum kost á að afla umbeðinna gagna nú þegar kærandi njóti aðstoðar lögmanns við umsóknarferlið. Telur kærandi það hafa gengið of langt af hálfu Útlendingastofnunar að hafna beiðni hans um endurupptöku þegar því hafi verið lýst yfir að hann gæti útvegað umbeðin gögn. Nærtækara hefði verið að veita kæranda frekari frest til þess að afla umbeðinna gagna við meðferð málsins.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. nóvember 2023, var umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla við landið synjað þar sem kærandi hafði ekki lagt fram tilskilin fylgigögn með umsókn sinni. Sú ákvörðun var ekki kærð til kærunefndar útlendingamála. Með beiðni, dags. 15. nóvember 2023, óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins, á grundvelli þess að honum væri unnt að leggja fram umbeðin gögn. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. nóvember 2023, var beiðni kæranda hafnað með vísan til þess að kærandi hafi ekki lagt fram þau gögn sem hann þó kvaðst geta lagt fram.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 13. desember 2023, var kæranda tilkynnt að hann gæti lagt fram frekari gögn á meðan mál hans væri til meðferðar hjá nefndinni. Með tölvubréfi, dags. 27. febrúar 2024, var kæranda veittur frestur til og með 2. mars 2024, til þess að leggja fram þau gögn sem hann kvaðst hafa undir höndum og gæti lagt fram vegna málsins. Þrátt fyrir yfirlýsingar kæranda við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála um að geta lagt fram tilskilin fylgigögn hefur hann þó ekki gert það. Af 3. mgr. 10. gr. reglugerðar um útlendinga er ljóst að umsækjendur bera sjálfir ábyrgð á öflun fylgigagna með dvalarleyfisumsóknum.

Í ljósi þess að kærandi hefur ekki lagt fram þau gögn sem hann kveðst hafa undir höndum og gætu haft áhrif við meðferð máls hans, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir stjórnvalda, hefur ekki verið sýnt fram á að ákvörðunin hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða að ákvörðunin hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðunin var tekin. Verður kærandi því að bera hallann af því að hafa ekki lagt fram tilskilin fylgigögn í samræmi við 3. mgr. 10. gr. reglugerðar um útlendinga.

Verður ákvörðun Útlendingastofnunar um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku málsins því staðfest, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Valgerður María Sigurðardóttir

Sandra Hlíf Ocares                                                                          Gunnar Páll Baldvinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum