Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 764/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 764/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23110107

 

Beiðni um frestun réttaráhrifa í máli […]

 

I.        Málsatvik

Hinn 15. nóvember 2023 staðfesti kærunefnd útlendingamála, með úrskurði nr. 278/2023, ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. júní 2023, um að synja umsókn […], ríkisborgara Íraks, um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og brottvísa honum frá landinu og ákveða endurkomubann. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir aðila 16. nóvember 2023 og 22. nóvember 2023 barst kærunefnd beiðni aðila um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar ásamt rökstuðningi og fylgiskjölum.

Aðili krefst þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan hann fer með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.        Málsástæður aðila

Í rökstuðningi með beiðni aðila um frestun réttaráhrifa kemur fram að samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Aðili hyggist bera synjun stjórnvalda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar undir dómstóla þar sem synjun sé alfarið byggð á 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi verið staddur hér á landi þegar hann hafi lagt fram umsóknina. Aðili telur synjunina ekki réttmæta þar sem ríkar sanngirnisástæður mæli með því að hann fái að dvelja hér á landi á meðan umsóknartíma standi. Engin rík ástæða sé hjá stjórnvöldum fyrir því að meina aðila að dvelja með fjölskyldu sinni á meðan á málsmeðferð standi enda sé engin hætta á ferð eða íþyngjandi kostnaður sem falli á stjórnvöld við dvöl hans hér á landi. Aðili hafi gert mistök þegar hann hafi ekki sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar síns þar sem þau hjón hafi talið að við það að ganga í hjúskap þyrfti ekki að sækja um sérstakt leyfi. Hafi þau á þeim tíma ekki verið með lögmann sér til aðstoðar heldur hafi þau talið að þar sem maki þurfi ekki að sækja um atvinnuleyfi hér á landi þá gildi það sama um dvalarleyfi. Þrátt fyrir fyrri reynslu aðila af kerfinu hér á landinu sé ekki hægt að gera honum að þekkja í þaula lög þau sem hér gildi. Þar sem hann hafi áður haft hér dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar hafi hann talið að það leyfi yrði sjálfkrafa virkt við hjúskap hans og eiginkonu hans. Við ákvörðun stjórnvalda skuli þess gætt samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til og byggir aðili því beiðni sína um frestun réttaráhrifa á því að engin slík nauðsyn sé uppi í máli þessu að stjórnvöldum sé skylt að vísa honum úr landi á meðan hann beri ákvörðun stjórnvalda um synjun á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga undir dómstóla. Hins vegar sé það honum afar brýnt að vera ekki sendur úr landi á meðan á málsmeðferð standi enda eigi hann ekki í nein hús að venda utan Íslands.

Aðili hafi greitt sína skatta og staðið við sínar skyldur undanfarin ár og vísar hann þar til hjálagðra skattframtala sinna. Þannig hafi það ekki verið svo að hann hafi reynt að leynast eða vinna svart hér á landi heldur hafi hann þvert á móti talið sig vera með atvinnu- og dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þar til honum hafi skyndilega verið gerð grein fyrir hinu gagnstæða í október 2022. Hafi hann þá rakleiðis gengið í það að leggja fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við eiginkonu sína og hafi þeirri umsókn verið synjað á grundvelli forms- en ekki efnisatriða og hyggist aðili bera það undir dómstóla. Verði kærunefnd ekki við því að fresta réttaráhrifum úrskurðar síns yrði það verulega íþyngjandi fyrir aðila sem þyrfti þá að stöðva rekstur veitingastaðar síns og eiginkonu sinnar, hætta við opnun nýs staðar sem áætlað sé að opna á næstu vikum og dvelja í óvissu fjarri eiginkonu sinni og stjúpdóttur sinni. Er því farið fram á það við kærunefnd að fallist verði á beiðni aðila um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar.

III.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga nr. 80/2016 en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum aðila af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi aðila óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi aðila að dómstólum, hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega eða hvort þörf sé á sérstakri varúð, m.a. með tilliti til hagsmuna barna. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að liggja fyrir tilteknar ástæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála hefur verið tekin afstaða til málsástæðna aðila varðandi ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd ítrekar það sem fram kemur í úrskurði í máli aðila en þær málsástæður sem aðili hefur lagt fram með beiðni um frestun réttaráhrifa eru ekki til þess fallnar að breyta fyrri ákvörðun nefndarinnar. Í úrskurðinum tók kærunefnd afstöðu til tengsla og reksturs aðila hér á landi og komst að þeirri niðurstöðu að ríkar sanngirnisástæður væru ekki fyrir hendi í skilningi 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd tekur fram að tiltölulega skammur tími er liðinn síðan nefndin úrskurðaði í máli aðila. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að aðstæður aðila hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málinu á þann hátt að nefndin telji að það gæti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins eða að tengsl aðila hér á landi séu þess eðlis að hagsmunir hans krefjist þess að réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar verði frestað. Þá er ekkert í gögnum málsins sem gefur til kynna að framkvæmd úrskurðar kærunefndar frá 15. nóvember 2023 kunni að valda aðila óafturkræfum skaða.

Þá áréttar kærunefnd að vera aðila á landinu er ekki forsenda fyrir því að mál sem hann höfðar til ógildingar á úrskurði kærunefndar sé tækt til meðferðar hjá dómstólum. Þá hefur aðili möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt hann sé ekki hér á landi, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 3. og 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé ástæða til að fallast á beiðni aðila um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar í máli hans.

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu aðila er hafnað.

The appellant’s request is denied.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum