Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 90/2024 Úrskurður 3. september 2024

Mál nr. 92/2024                    Eiginnafn:     Álft (kvk.)

Hinn 3. september 2024 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 92/2024 en erindið barst nefndinni 13. ágúst.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Eiginnafnið Álft  (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Álftar, brýtur ekki í bág við íslenskt málkerfi og er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Hér reynir aftur á móti á skilyrði um að eiginnafn sé ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Sum samnöfn skepna í íslensku eru nafnhæf af hefð (t.d. svanur, örn, björn og haukur). Önnur eru velflest til ama og niðrandi (t.d. gammur, tittlingur, álka og mús). Ekki má í þessum efnum rugla gælunöfnum við fuglsheiti (t.d. Lóa fyrir Ólöf).

Fuglsheitið svanur er samheiti við álft en er aftur á móti mannsnafn skv. hefð og kemur m.a. fyrir í Njálu. Eiginnafnið Svana er á mannanafnaskrá og má túlka sem kvenkyns nafnmynd af Svanur.

Álft er merarnafn og kerlingarálft er skammaryrði og er þá -álft í merkingunni fífl, trunta eða skrípi og er þannig notað jöfnum höndum við -álka sem einnig er fuglsheiti sem notað er í niðrandi merkingu. Orðið hefur því neikvæða og óvirðulega merkingu.

Nafnið Álft getur að mati mannanafnanefndar valdið nafnbera ama. Hafa ber í huga að samþykki mannanafnanefnd eiginnafn, færist það á mannanafnaskrá. Það kann að leiða til þess að börn geta hlotið það, en mikilvægir hagsmunir barna eru að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi sbr. greinargerð með frumvarpi til laga um mannanöfn.

Bent skal á að fullveðja einstaklingur sem hefur í hyggju að kjósa sér nafn af einhverjum ástæðum sem að öllu jöfnu kynni að valda barni sem nafnhafa ama, getur í daglegu lífi sínu viðhaft það nafn þótt það fái ekki opinbera skráningu hjá stjórnvöldum og færist ekki á mannanafnaskrá. Mannanafnanefnd hlutast ekki til um gælunöfn, listræn nöfn eða önnur þau nöfn eða nefni sem kunna að tíðkast í daglegu lífi utan opinberrar skráningar.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Álft (kvk.) er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum