2/2000 Úrskurður frá 25. október 2000
Nefnd skv. 31 gr. l. nr. 7/1998
Lágmúla 7
108 Reykjavík
Ár 2000 miðvikudaginn 25. október kom nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík. Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal, skrifstofustjóri og Óðinn Elísson hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 2/2000, kæra Óskars H. Ólafssonar, Sævangi 22, Hafnarfirði, vegna álagningar Akranessbæjar á sorphirðugjaldi fyrir árið 2000 fyrir fasteignirnar 01-02-01, 02-01-03 og 04-01-01 Vesturgötu 119, Akranesi.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
Úrskurður
I.
Forsaga máls þessa er að þann 28. febrúar 2000 fór Óskar H. Ólafsson f.h. einkahlutafélagsins Óskars og Kjartans fram á það við bæjarráð Akranesskaupstaðar að kaupstaðurinn felldi niður álagningu sorphirðugjalds á þremur tilgreindum eignarhlutum í fasteigninni nr. 119 við Vesturgötu á Akranesi.
Með bréfi dagsettu þann 2. mars 2000 hafnaði Akranesbær erindinu og í framhaldi sendi Óskar H. Ólafsson erindi dagsett þann 19. apríl 2000 til umhverfisráðuneytisins og óskaði eftir úrskurði þess. Þann 31. maí framsendi ráðuneytið erindi Óskars H. Ólafssonar til nefndar skv. 31 gr. l. 7/1998.
Nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 óskaði þann 27. júní 2000 eftir athugasemdum Akranesskaupstaðar vegna erindisins og bárust athugasemdir kaupstaðarins til nefndarinnar 18. júlí. Nefndinni þótti ástæða til að gefa Óskari H. Ólafssyni kost á andsvörum og bárust þau nefndinni þann 8. ágúst 2000. Vegna ýmissa atriða í svarbréfi Óskars H. Ólafssonar þótti ástæða til að afla frekari gagna frá Akranesskaupstað og bárust þau þann 17. ágúst 2000.
II.
Sjónarmið kæranda koma fram í bréfi hans til bæjarráðs Akranesskaupstaðar þann 28. febrúar 2000 en þar segir m.a.: "Undirritaður f.h. hlutafélagsins Óskars og Kjartans ehf kt. 480399-3319, Sævangi 22, 220 Hafnarfirði, eigendur að neðangreindum eignarhlutum fasteignarinnar að Vesturgötu 119, Akranesi, nánar tiltekið eignarhlutum, 210-115, 2233-9631 og 223-9633, förum fram á niðurfellingu sorphirðugjalds. Umræddir eignarhlutar eru í dag langt frá því að vera komnir í fullbúið ástand sbr. hér að neðan og ennfremur fer engin starfsemi fram í umræddum eignarhlutum". Síðar í bréfinu segir: " Af framangreindu má ljóst vera að umræddir eignarhlutar eru einungis rúmlega fokheldir og langt í að einhver starfsemi verði í eignarhlutunum. Því er farið fram á að Akranesskaupstaður felli niður álagningu sorphirðugjalds þar til eignarhlutarnir eru komnir í fullbúið ástand og starfsemi hafin í þeim. Undirritaður skuldbindur sig til að láta Akranesskaupstað strax vita þegar starfsemi hefst í einhverjum þessara eignarhluta."
Í andsvari við rökum Akranesskaupstaðar segir m.a.: "Forsaga þessa máls og samskipti mín við Akranesbæ voru í stuttu máli þau að ég kvartaði yfir reikningi sem mér var sendur vegna sorphirðugjalda sem eru innheimt með fasteignagjöldum bæjarins og óskaði eftir að hann yrði niðurfelldur þar sem engin starfsemi væri í mínum hluta hússins við Vesturgötu 119. Lét ég þess getið að ekki væru neinar sorptunnur við húseign mína. Daginn eftir voru settar 3 sorptunnur við húsið (hafa þær fokið tómar til og frá um lóðina í vetur). Ég ræddi símleiðis við bæjarritara og í samtali okkar kom aðeins fram að þetta væru reglur Akranesbæjar og reikningurinn fengist ekki niður felldur."
"Í 4. málsgrein fjallar J.P.P. um að: "..timbri, járni og spillefnum sé komið til Sorpu í Reykjavík til frekari vinnslu". Ég óska eftir að taka fram að eftir að framkvæmdum við útlitsbreytingar og viðhald húseignar að utan lauk, greiddu húseigendur móttökustöð sérstaklega fyrir urðun á grófúrgangi er til féll og sáu sjálfir um flutning þess, sé ég ekki hvað það kemur þessu máli við þar sem húseigendum er gert að greiða sérstaklega fyrir það eftir vigt.
Í 5. málsgrein bréfs Jóns Pálma segir ennfremur: "..reglur settar á árinu 1997 og staðfestar af umhverfisráðherra þann 18. desember það ár." Í framhaldi af þessu svari hlýt ég að spyrja hvaða þýðingu það hefur fyrir mál mitt ef rétt er.
Í 6. málsgrein sama bréfs er tíundaður samingur Akraneskaupstaðar vegna sorphirðu bæjarins. Ég get ekki séð að það hafi neitt með mín mál að gera þó Akranesbær eigi í erfiðleikum með að greiða fyrir sorphirðu eða geri óhagstæða samninga við verktaka sína.
Í áðursendu bréfi mínu frá 28. febrúar útskýrði ég ástæður mínar fyrir ósk um niðurfellingu sorphirðugjalds v/húseignar minnar, þar sem enn fer engin starfsemi fram og er hún á sama byggingarstigi og áður var lýst.
Ég tel það réttlætismál að mér sé ekki gert að greiða fyrir þjónustu sem ég þarf ekki á að halda þó um verulegar upphæðir sé ekki að ræða í þessu tilviki. Óska ég því eftir að nefnd sú sem alþingi hefur falið að úrskurða um þessi mál taki mál mitt til úrskurðar."
III.
Í rökum Akranesskaupstaðar segir m.a. "Akraneskaupstaður hefur með höndum sorphirðu fyrir Akranes og rekur til þess móttökustöð þar sem sorpi frá einstaklingum og fyrirtækjum er veitt móttaka. Sorpinu er síðan ekið til Fíflholta á Mýrum til urðunar. Einnig er timbri, járni og spillefnum komið til Sorpu í Reykjavík til frekari vinnslu. Grófúrgangi, þ.e. jarðefnum og þ.h. er komið fyrir í grófurðunargryfju nálægt sorpmóttökustöð Akraness.
Bæjarstjórn Akraness hefur samþykkt reglur sem unnið er eftir varðandi fyrirkomulag á hirðingu og innheimtu gjalda, þær reglur voru settar á árinu 1997 og staðfestar af umhverfisráðherra þann 18. desember það ár. Á grundvelli þeirra samþykkta hefur bæjarstjórn síðan gefið út gjaldskrá sem unnið hefur verið eftir, nú síðast sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 7. desember 1999 og gildir fyrir árið 2000.
Á árinu 2000 er reiknað með að sorphirðan kosti Akraneskaupstað um 5 milljónir króna (nettó), en þá hefur verið tekið tillit til innheimtra sorpgjalda bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, en þá er ekki reiknað inn í þá tölu afskriftir af stofnkostnaði sem var um 50 millj. króna á árinu 1997, eða fjármagnskostnaður af þeirri upphæð.
Fyrirkomulag sorpmála er með þeim hætti að lagt er sorpgjald á allar fasteignir (matseiningar) og er í gjaldskránni ákvæði um lágmarkseiningu sem nemur lágmarksgjaldi, en slíkt var talið nauðsynlegt með hliðsjón af jafnræði. Þetta gjald hefur verið innheimt á alla aðila sem eiga fasteignir óháð því hversu mikið sorp fellur til hjá viðkomandi. Sorplosun er síðan á 14 daga fresti. Sé þörf á tíðari losunum verða viðkomandi aðilar að annast slíkar losanir sjálfir eða semja um slíkt við verktaka.
Það hefur verið skoðun bæjaryfirvalda á Akranesi að sú beiðni sem fram kemur frá Óskari um niðurfellingu sorpgjalda falli ekki innan núverandi samþykkta um sorphreinsun á Akranesi eða undir gildandi gjaldskrá, af þeim orsökum var ekki hægt að verða við beiðni hans.
Það er einnig skoðun bæjaryfirvalda að illmögulegt sé að taka tillit til slíkrar beiðni þar sem bæði skipulag og kostnaður vegna sorpmála geri ráð fyrir verulegum föstum kostnaði í þessum málaflokki sem fellur ekki niður þótt einstaklingar eða fyrirtæki nýti ekki sorphirðuna með fullum hætti einhvern hluta ársins.
Þess utan að talið hefur verið ómögulegt að halda þannig utan um sorpmálin að eingöngu sé miðað við magn þess sorps sem kemur frá þeim aðilum sem skila frá sér sorpi, sorpmálin á Íslandi bjóða einfaldlega ekki enn þann möguleika að innheimt sé eftir vigt frá hverjum og einum sem þurfa að koma frá sér sorpi, þótt slíkt kunni að vera eðlilegt til framtíðar litið.
Í þessu samhengi er rétt að benda á að fasteignagjöld, holræsagjöld og vatnsskattur hefur verið lagður á fasteignir óháð því hvort eignirnar séu nýttar í starfsemi eða til íbúðar, eingöngu hefur verið horft til þess hvort viðkomandi eign sé komin í fasteignamat eða ekki og þar af leiðandi hafa þau gjöld ekki verið felld niður hafi viðkomandi fasteignir ekki verið nýttar allt árið, það sama hlýtur að gilda varðandi álagningu lágmarksgjalda vegna hirðingu(sic) og eyðingu(sic) sorps í sveitarfélögum, ekki er hægt að sjá hvernig annað fyrirkomulag geti í raun gengið upp án verulegs kostnaðarauka fyrir þá sem þjónustuna nota."
IV.
Samþykkt um sorphreinsun á Akranesi var afgreidd í bæjarstjórn Akraness þann 9. desember 1997 og síðar birt í Stjórnartíðindum 30. desember 1997. Í samræmi við samþykktina var síðan samin og samþykkt gjaldskrá fyrir hirðingu og eyðingu sorps á Akranesi þann 7.12.1999 og gildir sú gjaldskrá um sorphirðugjöld þau sem deilt er um í máli þessu.
V.
Í 9 gr. l. 45/1998 segir að sveitarstjórnir hafi ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast að svo miklu leyti sem ekki eru um það settar reglur í löggjöf. Í 44 gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 segir að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi sorps frá öllum húsum á viðkomandi svæðum og í 38 gr. 3. tl. mengunarvarnar-
reglugerðar nr. 48/1994 er sagt að sveitarstjórn skuli sjá um að tæma sorpílát og flytja sorpið brott sé það ekki falið öðrum með samningi.
Í 25 gr. l. 7/1998 segir m. a. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin og síðan segir áfram að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrá vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu, en gjöld megi ekki vera hærri en nema kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Um það atriði er ekki deilt í máli þessu.
Eftir framangreindum reglum setti Akranesskaupstaður sér gjaldskrá fyrir hirðu og eyðingu sorps þann 7.12.1999.
Í gögnum kemur fram að kærandi telur ekki grundvöll fyrir sorphirðugjaldi þar sem fasteignir þær sem mynda gjaldstofninn séu ekki komnar í fullbúið ástand og engin starfsemi sé í eignunum, en tekið fram að kaupstaðnum verði gert viðvart strax og svo verði. Hvorki í samþykktum um sorphreinsun á Akranesi né í gjaldskrá fyrir hirðu og eyðingu sorps á Akranesi er gert ráð fyrir undantekningum frá gjaldskyldu af ástæðum samsvarandi þeim er fram koma í sjónarmiðum kæranda og ekki kemur heldur fram í gögnum hvort aðstæður kæranda verði bornar saman við aðstæður annarra gjaldenda á Akranesi og honum mismunað að því leyti.
Nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 lítur svo á að Akranesskaupstaður hafi samkvæmt framansögðu lagalegar heimildir til að haga gjaldtöku vegna sorphirðu á þann hátt sem fram kemur í ákvæðum gjaldskrár frá 9. desember 1999 og almennt verði sorphirðugjöld ekki ákveðin nema sem jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign, en lög og reglur standi ekki til þess að reiknaður sé kostnaður sem fellur til vegna hvers og eins gjaldanda.
Úrskurðarorð
Ekki er fallist á niðurfellingu sorphirðugjalda vegna Vesturgötu 119, Akranesi fyrir eignarhluta nr. 01-02-01, 02-01-03 og 04-01-01.
____________________________
Sigurmar K. Albertsson hrl.
________________________ __________________________
Gunnar Eydal Óðinn Elísson hdl.