Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir

9/2008

Mál nr. 9/2008.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

 

Ár 2008, þriðjudaginn 16. desember kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2008. Haukur Þór Smárason, kt. 080487-2319, Brekkugötu 12, Akureyri, hér eftir nefndur kærandi gegn Heilbrigðiseftirliti Austurlands, hér eftir nefnt kærði. Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 26. ágúst 2008 kærði Haukur Þór Smárason ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands, frá 20 ágúst 2008 um að tíkinni Von skuli komið fyrir utan Seyðisfjarðarkaupstaðar. 

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1.      Stjórnsýslukæra dags. 26.08.2008 ásamt fylgiskjölum.

2.      Athugasemdir kærða dags. 09.09.2008 ásamt fylgiskjölum. 

3.      Athugasemdir kæranda dags. 02.10.2008 ásamt fylgiskjölum.    

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð. 

Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.  Kæran barst úrskurðarnefndinni 26.08.2008.  Þegar umsögn barst frá kærða var hún send til kæranda og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Athugasemdir kæranda bárust 02.10.2008.  Kærandi setti einnig fram kröfu um frestun réttaráhrifa en sú krafa var afturkölluð meðan á meðferð málsins stóð.  Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna anna. 

III. Málsatvik

 

Kærandi er með lögheimili á Akureyri og er með leyfi til hundahalds þar.  Hann á ættingja á Seyðisfirði og dvelur talsvert þar.  Í júlí 2008 beit hundur kæranda kött til bana þegar hann dvaldi á Seyðisfirði

 

Heilbrigðiseftirlit Austurlands tók þá ákvörðun hinn 13. ágúst 2008 að fjarlægja ætti hundinn frá Seyðisfirði eins fljótt og auðið væri. 

Með stjórnsýslukæru dags. 26.08.2008 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar. 

Kærða var með bréfi dags. 01.09.2008 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 19.09.2008.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 02.10.2008.    

IV. Málsástæður og rök kæranda.

 

Kærandi telur að kærði hafi brotið ólögfesta meginreglu stjórnsýsluréttar um að gæta skuli meðalhófs. Sú ákvörðun kærða að meina tíkinni dvöl á Seyðisfirði sé langt um of harkaleg. Koma megi í veg fyrir meinta hræðslu íbúa og vernd katta með vægari úrræðum svo sem skilyrðum um að tíkin sé alltaf tjóðruð við fastan húshlut eða í bandi hjá fullvaxta einstaklingi. Að reka tíkina burt úr heimabæ fjölskyldu kæranda sé alls ekki vægasta úrræðið í stöðunni.

 

Kærandi telur kærða hafa brotið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með því að rannsaka eigi málið til hlítar áður en ákvörðun var tekin. Ákvörðunin sé byggð á sögusögnum en ekki vottorðum sérfræðinga. Alls ekki sé rökstuddur grunur til að óttast að tíkin valdi nágrönnum eða íbúum á Seyðisfirði óþægindum eða raski ró þeirra, ekki frekar en aðrir hundar. Kæranda finnst kærði ekki hafa rannsakað málið nægilega t.d. var hundurinn ekki sendur í  skapgerðarmat.  Kærandi aflaði sjálfur skapgerðarmats sem sýndi fram á að hundurinn væri ekki hættulegur. 

 

Kæranda var veittur frestur til andmæla kröfubréfi kærða.  Þann 19. ágúst sl. nýtti hann rétt sinn en strax daginn eftir ritaði kærði bréf þar sem ekki var fallist á andmæli hans og krafa um brottflutning hundsins ítrekuð.  Ekki var veittur neinn frestur til koma hundinum úr bænum. Kæranda var afhent bréfið á fundi 21. ágúst og frestinum lauk 22. ágúst þannig að svigrúm kæranda til að taka til viðeigandi ráðstafana var lítill sem enginn.

Að auki sinnti kærði ekki þeirri skyldu sinni að veita upplýsingar um kæruleiðir.   

 

Kærandi á lögheimili á Akureyri og er með leyfi til hundahalds þar. Eftir ákvæðum samþykktar um hunda- og kattahald í Seyðisfjarðarkaupstað dagsett 4. maí 1998 eru ekki sérstakar reglur varðandi hunda sem eru skráðir í öðru bæjarfélagi en eru í heimsókn á Seyðisfirði. Skv. 1. gr. samþykktarinnar er hundahald í Seyðisfjarðarkaupstað aðeins háð þeim takmörkunum sem samþykktin kveður á um. Ekkert í samþykktinni kveður á um að gestir bæjarins geti ekki komið með hunda sína með sér í styttri og lengri heimsóknir.

 

Að sögn kæranda byggir kærði ákvörðun sína á tveimur ákvæðum samþykktarinnar. Annars vegar ákvæði d-liðar 2. gr. um að hundaeigandi skuli gæta þess að hundur hans valdi ekki hættu eða raski ró manna eða verði mönnum til óþæginda á neinn annan hátt. Óumdeilt er að tíkin, sem er 15 mánaða hvolpur, beit kött sem kom inná lóðina til hans, svo að kötturinn dó. Fjögur vitni voru að atburðinum og hafa tvö þeirra staðfest að þeim hafi alls ekki stafað ógn af tíkinni þegar atburðurinn átti sér stað. 

 

Kærandi vísar jafnframt til álits Heiðrúnar Villu, hundaatferlisfræðings, sem telur mönnum og umhverfinu ekki stafa ógn af tíkinni. Tíkin sé hvolpur og hafi blandað saman leik og veiðieðli svo úr varð umrætt slys. Að mati sérfræðingsins mun slys sem þetta ekki koma fyrir aftur. Hundurinn sé með mjög gott geðslag og blíður við fólk og börn. Kærandi segist tilbúinn til að gera sitt til að fyrirbyggja frekari slys og að tíkin verði ekki laus utandyra og fari eingöngu út bundinn í sterkri keðju eða í fylgd einstaklinga sem fyllilega ráða við hana.

 

Hins vegar byggir kærði ákvörðun sína á 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar um að hunda sem ráðist á menn eða skepnur skuli fjarlægja, og heimilt sé að lóga þeim þegar í stað. Skv. orðanna hljóðan fjallar ákvæðið um handsömun hundaeftirlitsmanns og heimildir hans til að fjarlægja hunda og heimildir eigenda til að fá hunda afhenta til baka gegn framvísun leyfis og greiðslu handsömunargjalds. Ekki er um að ræða heimild til að meina hundi dvöl á Seyðisfirði.

 

Þess utan telst brot tíkarinnar minniháttar og ekki er um ítrekuð brot að ræða. Þá falla gæludýr skv. lagavenju ekki undir hugtakið skepnur þegar það er notað í réttarheimildum en þá er einkum átt við búfénað. Þannig er orðalag ákvæðisins óskýrt. 

Kærandi krefst þess að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt leyfi til að hafa fjölskylduhund sinn með í för þegar hann heimsækir fjölskyldu sína á Seyðisfirði.

V. Málsástæður og rök kærða.

Þótt ekki séu í samþykkt Seyðisfjarðarkaupstaðar ákvæði um tímalengd sem gestkomandi hundar mega dvelja í sveitarfélaginu, er að mati kærða óeðlilegt að dýr dvelji mánuðum saman utan þess sveitarfélags þar sem leyfi er fyrir þeim.  Í samþykkt Seyðisfjarðar um hunda- og kattahald er gert ráð fyrir að afla skuli leyfis fyrir hunda sem þar dvelja innan tveggja mánaða. Það er mat kærða að eðlileg krafa hafi verið að hundurinn færi til síns heima eða a.m.k. frá Seyðisfirði í ljósi þess að íbúar í nágrenninu höfðu mikinn ama af honum, og að ekki var leyfi fyrir tíkinni á Seyðisfirði og hún dvaldi nálægt tveimur mánuðum í bænum.

                                                                                  

Í meðalhófsreglu felst að velja skuli vægasta kost til að ná fram ásættanlegri lausn.  Í samþykkt Seyðisfjarðarkaupstaðar segir að lóga megi hundum sem ráðast á menn eða skepnur.   Í samræmi við meðalhófsreglu segist kærði ekki hafa gert kröfur um að tíkin yrði aflífuð heldur aðeins færð frá Seyðisfjarðarkaupstað. 

 

Kærði byggði sína ákvörðun á fundum sem haldnir voru á skrifstofu bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar 12.08.2008 með kærða og á þeim staðreyndum máls sem þar komu fram, sem og upplýsingum sem tíundaðar voru í bréfi til kæranda 13.08.2008.  Kærandi hafði öll tækifæri til að kynna málstað sinn fyrir kærða. 

 

Atferlismat fyrir hundinn, dags. 14.08.2008 liggur fyrir.  Í því kemur ekkert það fram sem tryggir að dýrið muni ekki hegða sér á sama hátt við svipaðar aðstæður.  Það er ennfremur mat kærða að veiðieðli dýrsins sé eðlilegt, en að einmitt vegna þess þurfi að gæta hundsins enn betur en ella og virða ótta nágranna þeim mun fremur, en ef veiðieðlið væri minna og hundurinn ekki jafnsterkur og raunin er.

 

Kærði telur því að rannsóknaskyldu hafi verði fullnægt.

 

Kærði hafnar því að ekki hafi verið gefið nægilegt svigrúm til að gera viðeigandi ráðstafanir eða koma hundinum fyrir utan Seyðisfjarðarkaupstaðar.  Um þetta hafi verið fjallað á fundi með kæranda 12.08.2008.  Þar var kæranda gefinn kostur á að gera ráðstafanir til að finna hundinum annan dvalarstað.  Kærði kveðst hafa sýnt sveigjanleika í málinu en ekki hörku. 

 

Kærði telur heilbrigðiseftirliti skylt að vinna skv. ákvæðum hollustuháttareglugerðar nr. 941/2002 m.s.br. þar sem m.a. segir:  Gæludýr skulu þannig haldin að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði.  Að auki beri að fara eftir samþykktum sveitarfélaga um gæludýrasamþykktir.  Í samþykkt Seyðisfjarðarkaupstaðar um hunda- og kattahald frá maí 1998 segir: “Hundaeigandi skal gæta þess að hundur hans valdi ekki hættu eða raski ró manna eða verði mönnum til óþæginda á neinn annan hátt.

 

Varðandi það hvort hundar geti verið gestkomandi í Seyðisfjarðarkaupstað ótímabundið tekur kærði fram að í b lið samþykktar um hunda- og kattahald í Seyðisfjarðarkaupstað frá 1998 segi:  “Dragist lengur en tvo mánuði að skrá hund á skrifstofu sveitarfélagsins skal heimilt að innheimta tvöfalt skráningargjald.”  Af þessu er ljóst að ætlast er til að hundar sem íbúar á Seyðisfirði eiga  skulu ekki dvelja í sveitarfélaginu í meira en tvo mánuði án þess að leyfi sé veitt fyrir veru þeirra og skráningargjald greitt.  Það er óeðlilegt með öllu að gestir og hundar þeirra hafi rýmri rétt en íbúar og heimahundar og að gestahundar geti dvalið mánuðum saman í sveitarfélaginu án leyfisveitinga.

 

Að mati kærða skiptir ekki höfuðmáli hvort um hættulegt ástand var að ræða þegar hundurinn réðst á köttinn.  Hundurinn raskaði ró manna verulega og olli óþægindum. 

 

Kærði leggur áherslu á að í mati Heiðrúnar Villu komi hvergi fram að tryggt sé að atvik svipað því sem henti 18.7. sl. geti ekki endurtekið sig.  Miklu frekar segir í hennar mati:  “Eigendur hunda með sterkt veiðieðli verða að gera sér grein fyrir því og fyrirbyggja slys sem geta þó alltaf komið fyrir.” Einnig segir í skýrslu hennar “.. minni dýr með snöggar hreyfingar verða oftast valdur að sterku veiðieðli...”

 

Þegar umrætt atvik átti sér stað gerðist annað tveggja að hundurinn reif sig lausan frá fullorðnum einstaklingi sem hélt í taum hans eða sleit tauminn eins og kemur fram í kærubréfi.  Það er mat kærða að af þessu sé ljóst að taumur er ekki nægilega traustvekjandi til að taka af óróa nágranna út af hundinum, né heldur ótta íbúa sem eru af einhverjum ástæðum hræddir við hunda.

 

Kærði furðar sig á þeirri fullyrðingu í kærubréfi að brot tíkarinnar sé minniháttar.  Missir gæludýrs er ekki minniháttar tilvik fyrir eiganda gæludýrsins og börn á hans heimili. 

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar. 

Kærandi á hundinn Von af Rottweiler kyni sem fæddur er 29. maí 2007.  Kærandi er með lögheimili á Akureyri og er með leyfi til hundahalds þar.  Hann á ættingja á Seyðisfirði og dvelur stundum þar, m.a. sumarið 2008. 

Um hundahald á Seyðisfirði  gilda ákvæði samþykktar dags. 4. maí 1998 sem sett var stoð í 25. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Skv. 2. gr. samþykktarinnar er heimilt að veita lögráða einstaklingum sem eiga lögheimili í bænum leyfi til hundahalds með ákveðnum skilyrðum.  Engar reglur eru um hunda sem eru gestkomandi í sveitarfélaginu en í b. lið 2. mgr. samþykktarinnar kemur fram að dragist lengur en 2 mánuuði að skrá hund megi innheimta tvöfalt skráningargjald.  Kærði túlkar ákvæðið þannig að hundar sem íbúar á Seyðisfirði eiga, skuli ekki dvelja í sveitarfélaginu lengur en tvo mánuði án þess að leyfi sé veitt fyrir veru þeirra þar.  Ekkert í samþykktinni kveður á um að gestir bæjarins geti ekki komið með hunda sína með sér í styttri og lengri heimsóknir.  Ekki er að finna ákvæði í samþykktinni um skammtímaheimsóknir hunda svo sem finna má í hliðstæðum samþykktum í öðrum sveitarfélögum. 

Þann 18.07.2008 drap hundur kæranda heimiliskött sem kom inn á  lóðina þar sem hundurinn var.  Eftir atburðinn óskaði kærandi eftir mati frá hundaatferlisfræðingi.  Að áliti þess aðila geta atvik af þessu tagi gerst vegna sterks veiðieðlis.  Hundurinn hafi blandað veiðieðlinu við leik sem hafi orðið til þess að atburðurinn gerðist.  Hundurinn hafi verið ungur og ekki fullmótaður. 

Samkvæmt gögnum málsins hafa ekki komið upp önnur atvik er varða þennan tiltekna hund. 

Með bréfi dagsettu 13.08.2008 var kæranda tilkynnt sú niðurstaða kærða að fjarlægja bæri hundinn frá Seyðisfirði.  Jafnframt var tekið fram að meðan hundurinn væri á Seyðisfirði mætti hann ekki fara út nema í sterkri keðju sem fest væri tryggilega eða í fylgd einstaklinga sem réðu við hann.  Samkvæmt gögnum málsins virðist kærandi hafa fylgt þeim fyrirmælum.  Af þessu má ráða að mat kærða haif verið það að ekki stafaði slæik hætta af hundinum að hann þyrfti að aflífa. 

Kærði byggir ákvörðun sína á tveimur ákvæðum samþykktar um katta og hundahald í Seyðisfjarðarkaupstað.  Annars vegar ákvæði d-liðar 2. gr. um að hundaeigandi skuli gæta þess að hundur hans valdi ekki hættu eða raski ró manna eða verði mönnum til óþæginda á neinn annan hátt.  Hins vegar byggir kærði ákvörðun sína á 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar um að hunda sem ráðist á menn eða skepnur skuli fjarlægja og heimilt sé að lóga þeim þegar í stað.  Hundurinn var hvorki fjarlægður af kærða eða aflífaður. 

 

Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.   Þá felur reglan í sér að ef fleiri úrræða er kostur er þjónað geta því markmiði, sem að er stefnt, skal velja það úrræði sem vægast er. Íþyngjandi ákvörðun skal þannig aðeins taka að ekki sé völ vægara úrræðis sem þjónað geti markmiðinu. 

Að mati kærunefndarinnar hefði verið unnt að ná því markmiði sem að var stefnt með öðru og vægara móti s.s. að krefjast þess að hundurinn væri ávallt tryggilega bundinn.     

Að virtum þeim atriðum sem að framan eru rakin er það niðurstaða nefndarinnar að fallast á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er ógilt. 

Steinunn Guðbjartsdóttir

 

Gunnar Eydal    

                              

Guðrún Helga Brynleifsdóttir

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta