Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir

1/2005

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005,   föstudaginn  2. september, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gísli Gíslason, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2005  Ólafur Guðmundsson gegn Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.   

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

 

I.

Stjórnsýslukæra Ólafs Guðmundssonar  hér eftir nefndur kærandi, er dags. 23. desember, 2004, en barst úrskurðarnefnd 5. janúar, 2005.   Kærð er ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisnefndar  Reykjavíkur, hér eftir nefnd kærði, um að kæranda beri að afla samþykkis beggja sameigenda sinna fyrir hundahaldi að Grenimel 6 í Reykjavík.

 Gögn sem kærunni fylgdu eru :

1)      Afrit af úrskurði kærða dags. 23. september, 2004.

2)      Afrit af bréfi kærða dags. 23. september, 2004.

3)      Afrit af athugasemdum  kæranda við bréfi kærða dags. 22.júlí, 2004. 

4)      Afrit af umsögn Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur vegna kæru kæranda til kærða vegna skilyrðis um samþykki sameigenda fyrir veitingu hundaleyfis.

5)      Afrit af greinargerð með kæru kæranda dags. 24. mars 2004.

6)      Afrit af kæru kæranda dags. 6. febrúar 2004.

7)      Afrit af úrskurði kærða í máli Birgis Jónssonar gegn Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

8)      Afrit af svarbréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 25. ágúst 2003 vegna umsóknar um hundahald í Reykjavík.

9)      Afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 15. september 2003.

10)  Afrit af svarbréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu til kæranda dags. 12. október, 2003.

11)  Afrit af bréfi kæranda til Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 22. október, 2003

12)  Afrit af samþykki Huldu Jessen fyrir hundahaldi kæranda.

13)  Afrit af bréfi kæranda til Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 7. nóvember, 2003.

14)  Afrit af svarbréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu við umsókn um leyfi til hundahalds dags. 7. nóvember, 2003.

15)  Afrit af bréfi kæranda til Umhverfis- og heilbrigðisstofu  dags. 30. janúar, 2004.

16)  Afrit af bréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu til kæranda dags. 8. febrúar 2004.

17)  Afrit af bréfi kæranda til Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 3. mars, 2004.

Afrit af gögnum kæranda var sent kærða til umsagnar.  Gögn kærða voru send með bréfi póststimpluðu  4. maí 2005, en bréf er dags. 4. apríl, 2005.

 

II.

Kærandi kærir úrskurð kærða dags 23. september, 2004 um að honum beri að afla samþykkis beggja sameigenda sinna fyrir hundahaldi sínu að Grenimel 6 í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og verði ekki fallist á aðalkröfu sé þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og staðfest verði að kærða sé ekki á grundvelli samþykktar um hundahalds í Reykjavík nr. 52/2002 fært að binda útgáfu leyfis til kæranda til að halda hund á efri hæð í fjöleignarhúsinu að Grenimel 6 í Reykjavík, því  skilyrði að sameigendur þar lýsi sig samþykka hundahaldinu. Kærandi vísar um málavexti til fylgiskjals síns nr. 5, í meðfylgjandi gögnum.  Kveðst kærandi hafa afhent umsókn um leyfi til hundahalds hinn 23. ágúst 2003.  Hafi umsókn og fylgigögnum verið veitt viðtaka en starfsmaður Umhverfis- og heilbrigðisstofu hafi talið að veiting leyfis væri háð því skilyrði að lagt yrði fram samþykki eigenda íbúðar á neðri hæð fyrir hinu áformaða hundahaldi.  Kærandi kveður að þar eð umrædd skoðun hafi eigi verið í samræmi við ákvæði 13. tl. A-liðar 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og virðist ekki eiga stoð í ákvæðum samþykktar nr. 52/002 um hundahald í Reykjavík hafi undirritaður óskað eftir að fá gögn sem staðfestu réttmæti þessarar afstöðu starfsmanns. Komið hafi þá til annar starfsmaður Umhverfis- og heilbrigðisstofu sem hafi afhent útprentun af úrskurði kærða dags. 24. febrúar 2000.  Þegar kærandi hafi skoðað úrskurðinn hafi hann ekki getað séð að hann styddi staðhæfingar um nauðsyn á samþykki af hálfu eigenda íbúðarinnar á neðri hæð að Grenimel 6.  Þar eð sá úrskurður varði túlkun á ákvæðum eldri samþykktar um hundahald í Reykjavík eigi hann ekki við.  Þá komi það eitt fram í niðurstöðum úrskurðarins varðandi forsendur að talið sé að hlutaðeiganda hafi borið að afla samþykkis allra sameigenda í húsinu þar eð húsið sé fjöleignarhús skv. 5. gr. þágildandi samþykktar um hundahald í Reykjavík.  Telur kærandi því að þessi staða hafi ekki ein og sér átt að nægja til þess arna sbr. 13. tl. A- liðar 41. gr. l. nr. 26/1994 og því síður sé svo nú sbr. ákvæði 6. gr. 13. tl A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994.  Þá sé í niðurstöðum ekki umfjöllun um hvað sé talið felast í hugtakinu “sameiginlegur inngangur” sem fram komi í tilgreindum 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 hvað þá um hvað teljist “sérinngangur “ í skilningi ákvæða 2. mgr. 6. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002.  Því hafi kærandi talið að starfsmaður Umhverfis- og heilbrigðisstofu  hlyti að hafa gert mistök með því að afhenda honum umræddan úrskurð.

Kærandi kveður Umhverfis- og heilbrigðisstofu hafa með bréfi dags. 25. ágúst 2003 krafið sig um að afla samþykkis eigenda neðri hæðar að Grenimel 6 vegna hundahalds.  Hafi þá kærandi svarað og bent á að afstaða stofunnar væri byggð á misskilningi og að eflaust ættu við ákvæði 2. mgr. 5. gr. samþykktar nr.52/2002 auk þess sem vísað hafi verið til ótvíræðra ákvæða 13. tl. 41. gr. laga nr. 26/1994.  Hafi kærandi óskað afgreiðslu umsóknar án frekari málalenginga en óskað þess að ef Umhverfis- og heilbrigðisstofa ætlaði að halda kröfu sinni til streitu yrði gerð skilmerkilega og ítarlega rökstudd grein fyrir grundvelli þeirrar afstöðu áður en frekara framhald yrði á málinu.  Kveður kærandi að bréf hafi borist frá Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 12. október 2003. Í bréfinu hafi verið slíkar mótsagnir að ekki hafi verið unnt að henda reiður á því hvert væri raunverulegt efni þess.  Hafi því kærandi sent svarbréf og bent á að slíkar sendingar yrði að skoða sem markleysu.  Kærandi lýsti þó að í ljósi aðstæðna og krafna um fjárútlát hafi hann talið ráðlegast að afla tímabundins samþykkis af hálfu eiganda íbúðarinnar á neðri hæð að Grenimel 6.  Hafi samþykki verið sent til Umhverfis- og heilbrigðisstofu.  Skömmu síðar hafi borist bréf forstöðumanns Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 7. nóvember 2003 um að ritvilla hafi verið í bréfi dags. 12. október 2003 en það væri meining stofnunarinnar að “aðkoma”að húsnæði kæranda að Grenimel 6 félli ekki undir þær kringumstæður sem lýst væri í 2. mgr. 6. gr. samþykktar nr. 52/2002.  Ekki hafi verið frekari skýringar í bréfinu en vísað væri til þess að samþykkt um hundahald sé sett með stoð í lögum nr. 7/1998 er veiti sveitarstjórnum heimild til að setja í samþykktir sínar ítarlegri kröfur en fram komi í sjálfum lögunum  eða reglugerðum settum samkvæmt þeim og að á grundvelli þessa sé skilyrði fyrir veitingu leyfis til hundahalds í fjöleignarhúsi í Reykjavík við þær aðstæður sem lýst er í 1. og 2. mgr. samþykktar um hundahald að samþykki sameigenda liggi fyrir.  Þá hafi mátt ráða af niðurlagsmálsgrein bréfsins að það fæli í sér ákvörðun af hálfu Umhverfis- og heilbrigðisstofu um að samþykki eigenda íbúðar á neðri hæð að Grenimel 6 yrði sett sem skilyrði fyrir veitingu leyfis til hundahalds í íbúð kæranda.

   Kærandi bendir á að með bréfi til Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 30. janúar 2004 hafi hann krafist þess að þegar í stað yrði gengið frá afgreiðslu leyfis til hundahalds honum til handa og krafist skýringa á því af hverju það hefði ekki enn verið veitt, auk þess sem því var lýst yfir að áskilinn væri réttur til að krefjast endurgreiðslu gjalds sem greitt hafði verið.  Með bréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu dags. 8. febrúar 2004 hafi verið greint frá því að afgreiðsla umsóknar hefði tafist vgna mistaka en úr því yrði bætt.  Ennfremur kom fram að sakir þess að afgreiðsla leyfisins hefði misfarist yrði ekki um að ræða gjaldtöku vegna ársins 2004.  Nokkrum dögum síðar barst bréf er innihélt skilríki til staðfestingar því að leyfi til hundahalds væri veitt. 

Kærandi kveðst hafa kært ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisstofu um að binda veitingu leyfis því skilyrði að eigendur íbúðar á neðri hæð samþykktu hundahaldið til kærða.  Þá kveðst kærandi hafa sent Umhverfis- og heilbrigðisstofu bréf og gert grein fyrir þeim brestum sem hann teldi á málsmeðferð stofunnar og boðið að umrætt bréf frá 7. nóvember yrði tekið til baka og yrði þá kæran afturkölluð. Er ekki varð orðið við þessu boði hafi kærandi lagt fram ítarlega greinargerð með kærunni dags. 23. mars, 2004,  krafist ómerkingar vegna málsmeðferðarágalla, en til vara að staðfest yrði að 2. mgr. 6. gr. samþykktar nr. 52/2002 ætti við um hundahald í íbúð kæranda.  Orðið var við tilmælum kæranda um að fá í hendur “umsögn” Umhverfis- og heilbrigðisstofu vegna kærunnar, en við lestur hennar kveður kærandi hafa komið í ljós að stofan hafði algjörlega horfið frá fyrra grundvelli í málinu þ.e. að samþykkis sameiganda neðri hæðarinnar væri krafist þar sem inngangur íbúðanna teldist sameiginlegur og hefði því nú verið haldið fram að samþykkis væri þörf þar sem lóð væri sameiginleg.  Kærandi kveður að þessi afstaða hafi þó m.a. verið með öllu ósamrýmanleg hinu veitta leyfi til hundahalds sem hafði verið afgreitt án nokkurrar kröfu um samþykki eiganda kjallaraíbúðar í húsinu, sem lóð hússins hafi ekki síður verið tilheyrandi heldur en hæðunum tveim.  Hafi því kærandi sent ítarlegar athugasemdir og aðalkrafa um ómerkingu verið afturkölluð.  Kærandi hafi því kært ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur til kærða og sent með greinargerð dags. 24. mars, 2004 þar sem ítarleg grein hafi verið gerð fyrir málinu.

Kærði hafi fellt úrskurð sinn hinn 23. september s.l. og hafi úrskurðurinn borist kæranda 28. september s.l.  Í úrskurðarorðum komi fram að lagt sé fyrir kæranda að afla samþykkis beggja sameigenda sinna fyrir hundahaldinu.  Kærandi kveður að greindur úrskurður sé bæði efnislega rangur og auk þess afar óvandaður.  Ítarlegar efnislegar röksemdir kæranda fái þar enga umfjöllun og ábendingum um ágalla sé í engu sinnt og ekkert sé að því fundið að Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur hafi við kærumeðferð byggt afstöðu sína á öðrum grundvelli en við töku hinnar kærðu ákvörðunar.  Þá sé með úrskurðarorðum tekin ný ákvörðun en ekki lýst ákvörðun til kæruefnis, auk þess sem þau séu ósamþýðanleg áður veittu leyfi til hundahalds sem ekki hafi verið hróflað við.

 

Rök kæranda til stuðnings aðalkröfu.

Í kæru byggir kærandi aðalkröfu sína á hæfisskorti nefndarmanna kærða.  Um sé að ræða lögfræðileg atriði af því tagi sem ekki sé unnt að búast við að leikmenn valdi.  Telur kærandi úrskurðinn bera þess merki.  Þá byggir hann og á því að kærði hafi látið hjá líða að fjalla um og taka afstöðu til málsmeðferðar Umhverfis- og heilbrigðisnefndar, en kærandi hafi í greinargerð dags. 24. mars, 2004 lýst fjölmörgum ágöllum sem á ákvörðun virtust vera. 

Kærandi vísar til þess að Umhverfis- og heilbrigðisstofu hafi borið að gæta ákvæða stjórnsýslulaga við meðferð mála eins og þessa.  Kærandi féll frá kröfu um ómerkingu úrskurðar í bréfi sinu dags. 22. júlí 2004. Telur kærandi að ekki sé til neins að láta Umhverfis- og heilbrigðisstofu  fjalla um málið að nýju.

Aðalkrafan sé og studd með vísan til þess að reifun málsástæðna í hinum kærða úrskurði dags. 23. september, 2004 sé bæði ófullnægjandi og beinlínis röng.  Fari því mjög fjarri að málsástæðum kæranda fram bornum í greinargerð dags. 24. mars, 2004 og í athugasemdum dags. 22. júlí sé lýst með fullnægjandi hætti í þeim fjórum setningum um þær sem séu fram settar í úrskurði kærða.  Þannig sé t.d. í engu vikið að því ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús sem séu höfuðundirstaða í röksemdafærslu kæranda.  Þá sé rangt með farið að fram hafi komið að kærandi telji “ómálefnalegt að og óréttmætt” það sjónarmið að túlka verði undanþágur frá banni við hundahaldi í Reykjavík þröngt með hagsmuni samborgaranna að leiðarljósi “  Hins vegar sé í athugasemdun kæranda dags. 22. júlí 2004 vísað til þess að tilfærð orð afhjúpi að starfsmenn Umhverfis- og heilbrigðisstofu láti við embættisfærslu sína stjórnast af því viðhorfi að hagsmunir þeirra sem andsnúnir eru hundahaldi hafi meira vægi en hagsmunir þeirra sem vilja halda hunda og þeirri skoðun síðan lýst að það viðhorf sé algjörlega ómálefnalegt og óréttmætt.

Þá sé aðalakrafan og sérstaklega studd með vísan til þess að kærði hafi alls ekki fjallað um helstu málsástæður kæranda viðvíkjandi efnishlið þeirra ákvörðunar er hinn kærði úrskurður varðar. Telur kærandi að mjög alvarlegur brestur sé uppi að þessu leyti þar eð ekki sé neina umfjöllun að finna í kærðum úrskurði um þá meginröksemd kæranda að ákvæði 13. tl. A liðar 41. gr. l.nr. 26/1994 um fjöleignarhús laga gangi framar ákvæðum samþykkta sveitarfélaga sem sett hafi verið grundvelli 25. gr. l. nr. 7/1998.  Tekið skuli fram að orð í úrskurðinum fengin úr dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. september 1999 í máli Jóns Guðmundssonar gegn Reykjavíkurborg, á þá leið að samþykki um hundahald í Reykjavík hafi næga lagastoð, hafi enga þýðingu í þessu sambandi þar eð kærandi byggi ekki á því að samþykkt um hundahald í Reykjavík, skorti lagastoð.  Þá sé ekki heldur fjallað um athugasemdir kæranda um að umhverfis- og heilbrigðisstofa hafi undir rekstri horfið frá fyrra efnisgrundvelli, og vísar kærandi til athugasemda sinna dags. 22. júlí 2004 um þetta málefni.  Kærandi bendir á að þegar ákvörðun stjórnvalds sé skotið til æðra stjórnvalds sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, beri hinu æðra stjórnvaldi að taka hina kærðu ákvörðun og þær ástæður sem kærandi færi fram, til sjálfstæðrar, óvilhallrar og hlutlægrar skoðunar.  Þá beri æðra stjórnvaldi að rökstyðja niðurstöðu sína í kærumáli. Kveður kærandi að ekki fáist staðist að í slíkum úrskurði sé látið hjá liða að fjalla um helstu ástæður sem kærandi byggi á.  Í máli þessu hafi úrskurðaraðili þó skotið sér undan þessu og sé svo sem kærða hafi fallist hendur gagnvart því verkefni að fjalla með rökstuddum hætti um efnishlið kæru.  Telur kærandi að hinn kærði úrskurður beri ekki með sér að kæran hafi hlotið óvilhalla og hlutlæga skoðun.

Aðalkrafan sé og studd þeim röksemdum að með úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar hafi kærði tekið nýja ákvörðun en eigi lýst yfir afstöðu til fram kominna krafna.  Séu greind úrskurðarorð ósamþýðanleg veittu leyfi til hundahalds sem ekki hafi verið hróflað við.  Þá sé þversögn í því fólgin að kærði skuli annars vegar setja fram þá kröfu sem úrskurðarorð greina en hins vegar í engu finna að málsmeðferð Umhverfis- og heilbrigðisstofu.

Í athugasemdum kæranda dags. 22. júlí 2004 sé því lýst að aðkoma Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur að kærumeðferð kærða veki grun um að vera kunni að með fyrirmælum í 2. mgr. 1. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík um málsskotsrétt til kærða, sé í raun farið á svig við ákvæði 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ennfremur sé þar lýst grunsemdum um að verið geti að Umhverfis- og heilbrigðisstofa komi að úrskurðum í eigin málum með þeim hætti að í bága fari við góða stjórnsýsluhætti eða jafnvel ákvæði stjórnsýslulaga og ennfremur að spurningar vakni um það hvort kærði reiði  sig að öðru leyti á liðsinni starfsmanna Umhverfis- og heilbrigðisstofu við undirbúning og vinnu að úrskurðum sínum í málum sem sú sama stofnun á aðild að.   Kærandi fer þess á leit, verði orðið við kröfu um ómerkingu að réttaráhrif hennar verði tilgreind, þ.e. t.d. hvort kærða beri þá að endurtaka málsmeðferð sína eða hvort slík endurmeðferð sé háð kröfu um að hún fari fram. 

Rök til stuðnings varakröfu. 

Kærandi vísar til verndar eignarréttar í 72. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 enda sé friðhelgi eignarréttar ein helsta stoð almennra mannréttinda.  Telur kærandi gildi tilvísaðrar lagagreinar ekki síst í því fólgið að hún leiði til þess að almennt beri að túlka þröngt þau ákvæði er setja eignarréttindum skorður.  Kærandi bendir á að um gagnkvæm réttindi og skyldur eigenda fjöleignarhúsa sé mælt fyrir um í l. nr. 26/1994 um fjöleignarhús.  Umrædd lög séu sérlög varðand sérsvið eignarréttarins.  Skv. 1. mgr. 2. gr. laganna séu ákvæði þeirra ófrávíkjanleg nema annað sé tekið fram í þeim eða leiði af eðli máls. Kveður kærandi að löggjafinn hér á landi hafi skipað réttindum og skyldum sameigenda fjöleignarhúsa með samræmdum hætti óháð því hvar á landinu eignir þeirra séu.  Til fyllingar lögunum standi hinar almennu ólögfestu  lagareglur eignarréttar, einkum reglur varðandi sameign sem og reglur grenndarréttar.  Vísar kærandi til þess að í lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 sé mælt fyrir um við hvaða aðstæður hundahald eiganda íbúðar í fjöleignarhúsi sé háð samþykki eigenda annarra eignarhluta, sbr. A-lið 41. gr. laganna þar sem upp séu talin þau tilvik er samþykki allra sameigenda fjöleignarhúss þurfi til ráðstöfunar.  Í 13. tl. A-liðar 41. gr. segi um að halda hunda og/eða ketti í húsinu að þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægi samþykki þeirra eigenda sem hafi sameiginlegan inngang, stigagang eða annað semeiginlegt húsrými.  Kærandi vísar og til athugsemdar með frumvarpi umræddra laga og þar komi fram að skýra beri gildissvið greinds A-liðar 41. gr. þröngri lögskýringu.  Með tilvísan til framangreinds sé rökrétt að álykta að séu þær aðstæður sem lýst sé í 13. tl. ekki fyrir hendi sé hundahald ekki háð samþykki sameigenda.     Telur kærandi óhjákvæmilegt að líta svo á að orðin “sameiginlegt húsrými” í umræddum 13. tl. taki til húsrýmis þar sem snertifletir vegna umgengni hunda og katta sem haldin væru, yrðu ámóta og óhjákvæmilegt er þegar um er að ræða sameiginlegan inngang eða stigagang.  Ennfremur verði samkvæmt ofantöldu ályktað að merking hugtaksins”inngangur” verði ekki skilin víðtækum skilningi í því sambandi sem tilgreindur 13. tl. tekur til heldur þvert á móti.  Skv. því verði eigi talið að þar gæti verið um annað að ræða en þær aðstæður að beinlínis sé gengið inn í húsrými um sameiginlegar dyr. Á sama hátt verði fráleitt talið að “inngangur”geti í þessu sambandi átt við sameiginlega aðkomuleið undir beru lofti.  Vísar kærandi til ákvæðis 72. gr. stjskr. sem og almenn sjónarmið um að varlega beri að fara við að túlka lög til takmörkunar athafnafrelsis manna séu framangreindum ályktunum til frekari styrktar.  Kærandi bendir hins vegar á í þessu sambandi að enda þótt hundahald í fjöleignarhúsi kunni þannig að vera óháð samþykki sameigenda hljóti þó vegna hagsmuna og réttar sameigenda að verða að gæta strangari hamla við hundahald í fjöleignarhúsi en er um ræði hundahald í einbýli. 

Kærandi bendir á að þeirri innbyrðisskipan réttinda sameigenda fjöleignarhúsa sem ákveðin hafi verið með lögum um fjöleignarhús, sérlögum um þau málefni verði ekki vikið til hliðar nema með ótvíræðum lagaákvæðum.  Vísar kærandi þar um til þess að samþykktir sveitarfélaga geti eigi gengið framar ákvæðum laga sem Alþingi hafi sett.  Kærandi bendir á að ákvæði 1. mgr. 25. gr. l. nr. 7/1998 geti ekki staðist sem frávik frá þeirri reglu, enda alls ekki unnt með almennu lagaákvæði að framselja til handhafa framkvæmdavalds, hvað þá til sveitarfélaga vald til að setja reglur sem ryðja til hliðar ákvæðum laga.

Kærandi lýsir aðkomu að Grenimel 6 þannig að í húsinu séu þrjár íbúðir og þrír eignarhlutar.  Sé stígur frá götu að tröppuuppgangi á vesturhlið hússins og breikki stígurinn úr 1 m í 1.7 m er fáir metrar séu ófarnir að uppganginum.  Dyr að íbúðum á fyrstu og annarri hæð séu hlið við hlið á tilgreindum tröppuuppgangi sem sé með 8 tröppum.  Telur kærandi að vafalaust sé að samkvæmt þeirri merkingu sem lögð sé í orðið sérinngangur sé um að ræða lýsingu eiginleika fasteigna hvort heldur sé í tengslum við fasteignaviðskipti eða í almennu tali sé sérinngangur að íbúð kæranda á 2. hæð að Grenimel 6.  Með hliðsjón af þeim staðháttum fáist því ekki staðist að telja að aðstæður við innganga íbúða að 1. og 2. hæð að Grenimel 6 séu með því móti að með umgengni hunds um tröppuuppganginn á leið að og frá íbúðinni á 2. hæð hljóti íbúar 1. hæðar að komast í slíka snertingu við dýrið að óþægindi myndu skapast.   Ítrekar kærandi enn á ný að með hliðsjón af tilgangi þeim sem að baki hafi búið við lögfestingu ákvæðis 13. tl. A-liðar 41. gr. l. nr. 26/1994 séu ekki fyrir hendi forsendur til að teygja svo úr hugtakinu “sameiginlegur inngangur” í skilningi ákvæðisins að það geti átt við um aðkomu að 1. og 2. hæð að Grenimel 6.

Kærandi ítrekar á ný að ekki liggi fyrir vitneskja um af hverju Umhverfis- og heilbrigðisstofa telji að aðstæður varðandi inngang íbúðar hans falli ekki undir kringumstæður  sem 2. mgr. 6. gr. samþykktar nr. 52/2002 taki til.  Telur því kærandi að ekki verði komið að endanlegum rökstuðningi varðandi efnishlið málsins fyrr en upplýst hafi verið um framangreind atriði.  Kærandi ítrekar og að um það hvenær hundahald í fjöleignarhúsum sé háð samþykki sameigenda gildi ákvæði 13. tl. A-liðar l. nr. 26/1994.   Í ljósi aðstæðna við inngang íbúða sjái kærandi ekki að hundahald í íbúð hans geti verið háð samþykki eigenda íbúðar á neðri hæð.  Kærandi kveður að starfsmenn sveitarfélaga geti ekki tekið sér það fyrir hendur að skýra hugtök eins og “sérinngangur “ að eigin geðþótta og sé þá um valdníðslu að ræða er þeir fari svo fram án þess að byggja á haldbærum rökum eða málefnalegum ástæðum.  

 

III.

Eins og fyrr greinir sendi kærði svör, bréf dags. 4. apríl, 2005 ásamt tillögu að umsögn umhverfisráðs dags. 15. mars 2005, en gögnin bárust í bréfi sem er póststimplað 4. maí s.l.  Í bréfinu kemur fram að á fundi Umhverfisráðs  4. apríl hafi verið lögð fram drög að umsögn ráðsins og kæra kæranda til úrskurðarnefndar.  Tillagan að umsögn hafi verið samþykkt einróma.  Í tillögunni kemur fram að Umhverfisráð hafi kynnt sér kæru kæranda.  Telji Umhverfisráð rétt að taka fram að málsástæður kæranda hafi verið ítrekað ræddar af kærða þó ekki hafi verið talin ástæða til þess að fjalla um hverja málsástæðu í úrskurði nefndarinnar.  Að mati ráðsins hafi ekki komið fram ný efnisleg rök frá kæranda sem kalli á að ráðið fjalli sérstaklega um þau. Því vísar Umhverfisráð til tilgreinds úrskurðar kærða og þá sérstaklega til forsendna og niðurstöðu í úrskurði kærða, en þar komi eftirfarandi fram :

Um hundahald í Reykjavík gildi ákvæði samþykktar nr. 52/2002.  Þessi samþykkt sé sérstök heilbrigðissamþykkt sveitarfélags sett með stoð í 25. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en hún veiti sveitarfélögunum heimild til að setja í samþykktir ítarlegri kröfur en fram komi í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir eða reglugerðum settum skv. þeim.  Skv. 1. tl. 1. mgr. 25. gr. l. nr. 7/1998 sé sveitarfélögum heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds.  Vísað er og til þess að samþykkt um hundahald í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur hafi næga lagastoð. 

Vísað er til þess að skv. 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 sé hundahald bannað í Reykjavík.  Heimilt sé þó að veita einstaklingum undanþágur frá meginreglunni um bann við hundahaldi, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.  Fallast beri á það álit gagnaðila að túlka beri heimild til að veita undanþágu frá banni við hundahaldi þröngt.  Það feli í sér, að ríkar kröfur verði að gera hverju sinni til umsækjenda um undanþágu frá banni við hundahaldi og að þeir uppfylli öll skilyrði samþykktarinnar fyrir undanþágu.  Þá leiði af þröngri túlkun á undanþáguheimildinni að allur vafi um að umsækjandi uppfylli skilyrði samþykktarinnar beri að meta umsækjanda í óhag. Þá kemur og fram að kærandi krefjist þess að kærði staðfesti með úrskurði sínum að íbúð kæranda sé þannig að ekki sé þörf á leyfi sameigenda sbr. 2. mgr. 6. gr. samþykktar um hundahald.  Hljóði umrætt ákvæði svo : Þegar íbúð umsækjanda hefur sérinngang, þótt um sé að ræða annars konar sameiginlegt húsrými eða sameiginlega lóð þá er veiting undanþágu til hundahalds ekki háð samþykki annarra eigenda enda er öll viðvera og /eða umferð hundsins um slíkt rými stranglega bönnuð. “

Í máli þessu liggi fyrir að kærandi búi í húsi með þrem íbúðum og til þess að komast inn í íbúð kæranda þurfi að fara um lóð sem sé sameiginleg öllum þrem íbúðum hússins og tröppur og stigapall að dyrum, sem séu sameiginleg með íbúð kæranda og annars sameiganda.  Ekki verði séð að kærandi geti uppfyllt það skilyrði 2. mgr. 6. gr. samþykktar um hundahald að öll viðvera og/eða umferð hunds kæranda um sameiginlegt rými, hvort sem um ræðir lóð eða tröppur/stigapall verði stranglega bönnuð og beri honum því að skila inn samþykki sameigenda sinna.  Með vísan til ofanritaðs sé það niðurstaða kærða að kæranda beri að skila inn samþykki sameigenda sinna fyrir hundahaldi.  Drög þessi voru lögð fram í Umhverfisráði og var tillagan samþykkt einróma.

 

IV.

Krafa kæranda er að hinn kærði úrskurður um að kærandi skuli afla samþykkis beggja sameigenda sinna fyrir hundahaldi að Grenimel 6, verði ómerktur.  Til vara er þess rkafist að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og staðfest verði að Reykjavíkurborg sé ekki á grundvelli samþykktar um hundahald í Reykjavík fært að binda útgáfu leyfis til kæranda til að halda hund á efri hæð í fjöleignarhúsinu að Grenimel 6 í Reykjavík því skilyrði að sameigendur þar lýsi sig samþykka hundahaldinu.

Ekkert í gögnum málsins bendir til vanhæfis nefndarmanna kærða að lögum til að leysa úr því álitaefni sem hinn kærði úrskurður varðar.  Hvað varðar vísan kærða til þess að reifun málsástæðna sé ófullnægjandi og beinlínis röng verður að vísa til þess að niðurstaða í úrskurði er í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og fyrirliggjandi úrskurði.  Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að kærði hafi látið hjá líða að fjalla um og taka afstöðu til málsmeðferðar Umhverfis- og heilbrigðisstofu verður að benda á að málsmeðferð sé ekki háð þeim annmörkum sem varði ómerkingu úrskurðar.  Þá verður ekki heldur talið að skuli valda ómerkingu úrskurðar þó reifun málsástæðna hafi ekki verið nægileg að mati kæranda.  Ljóst virðist af öllum gögnum málsins að öll sjónarmið kæranda hafi legið fyrir og kemur fram í svari Umhverfisráðs við kærunni að þó málsástæður kæranda hafi ekki verið teknar upp í úrskurði hafi þær verið margræddar.   Kærandi byggir málsástæðu á því að A liður 41. gr. laga um  fjöleignarhús nr. 26/1994 gangi framar samþykkt um hundahald í Reykjavík.    13. tl. A liðar 41. gr. l. nr. 26/1994 er svohljóðandi :

 Við ákvarðanatöku um sameiginleg málefni í fjöleignarhúsum, sbr. 39. gr., gilda þessar reglur:

   A. Til ákvarðana um eftirfarandi þarf samþykki allra eigenda:

13. Um að halda megi hunda og/eða ketti í húsinu. Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.

Aðilar máls eru sammála um að túlka beru heimild til að veita undanþágu frá banni við hundahaldi þröngt. 

Með tilvísan til framangreinds og í ljósi aðstæðna við fasteignina að Grenimel 6 í Reykjavík verður að telja að samþykki sameigenda neðri hæðar sem eru með sameiginlegan inngang með kæranda, sé fullnægjandi.    

 

Er því kærður úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir kærða að taka málið til meðferðar að nýju. 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

             

  Úrskurður kærða er felldur úr gildi og lagt fyrir kærða að taka málið til meðferðar að nýju.

 

 

 ___________________________________

         Lára G. Hansdóttir

 

 

__________________________             ______________________________

          Gísli Gíslason                                       Guðrún Helga Brynleifsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta