2/2010
Mál nr. 2/2010.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2010, mánudaginn 14. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir. Fyrir var tekið mál nr. 1/2010 Marel Food Systems hf., nú Marel hf., Austurhrauni 9, 210 Garðabæ, hér eftir nefndur kærandi, gegn Umhverfisstofnun, Suðurlandsbraut 24, Reykjavík, hér eftir nefndur kærði.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
I. Aðild kærumáls og kröfur
Með stjórnsýslukæru, dags. 1. febrúar 2010, kærði Árni Sigurjónsson, hdl. f.h. Marel Food Systems hf.únbogason HH hf. (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Umhverfisstofnunar, (hér eftir nefnd kærði) frá 30. október 2009 um skyldu kæranda til að eiga aðild að skilakerfi framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja í samræmi við 22. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Er aðallega gerð sú krafa af hálfu kæranda að framangreind ákvörðun kærða verði felld úr gildi en til vara að ákvörðunin verði ógild.
Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:
1. Stjórnsýslukæra dags. 1. febrúar 2010 ásamt fylgiskjölum.
2. Athugasemdir kærða dags. 9. mars 2010 ásamt fylgiskjölum.
3. Athugasemdir kæranda dags. 14. apríl 2010.
Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.
II. Málsmeðferð
Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 10. febrúar 2010. Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.
III. Málsatvik
Í desember 2008 sendi kærði fyrirspurn til kæranda þess efnis hvort kærandi flytti inn til landsins eða framleiddi raf- og rafeindatæki sem féllu undir viðauka I. við lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Tilkynnti kærði að ef svo væri þyrfti kærandi að eiga aðild að skilakerfi, sameiginlegu kerfi eða reka eigið skilakerfi a.m.k 15 dögum áður en varan, sem fellur undir I. viðauka laganna, er markaðssett hér á landi. Kærandi svaraði kærða með bréfi þann 13. janúar 2009 á þá leið að starfsemi kæranda félli utan þeirra vara sem væru skráningarskyldar skv. 22. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og þyrfti því ekki að eiga aðild að eða setja á laggirnar sérstakt skilakerfi. Kærði féllst ekki á þau sjónarmið kæranda og vakti athygli á því með bréfi dags. 12. mars 2009 að kærandi flytti inn vörur sem féllu undir viðauka I. við lög nr. 55/2003 og væri skylt að eiga aðild að skilakerfi skv. 22. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Kærandi svaraði bréfi kærða þann 18. mars 2009 þar sem kærandi upplýsti kærða um að þær vörur sem kærði vísaði til væru íhlutir sem væru undanþegnir skráningarskyldu sbr. vöruflokk nr. 6 í viðauka I. við lög 55/2003. Í framhaldinu funduðu aðilar þar sem m.a. var farið yfir rafeindaframleiðslu kæranda. Kæranda barst svo bréf frá kærða dags. 30. október 2009 þar sem kæranda er tilkynnt sú ákvörðun kærða að honum sé skylt að reka á eigin kostnað skilakerfi eða gerast aðili að sameiginlegu skilakerfi framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja, sbr. 22. gr. laga nr. 55/2003. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun kærða til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir með kæru dags. 1. febrúar 2010.
IV. Málsástæður og rök kæranda.
Kærandi bendir á, til stuðnings kæru sinni, orðalag 22. gr. laga nr. 55/2003 að þar sé ekki að finna skilgreiningu á þeim vörum sem falla undir viðauka I við lögin, heldur sé aðeins að finna upptalningu á tíu yfirflokkum. Þar er einungis að finna rýra upptalningu á eðli þeirra vara sem falla undir viðaukann við lögin. Viðaukinn telji aðeins upp yfirflokka og erfitt sé að átta sig á því hvaða vörur falli þar undir. Kærandi bendir á að í reglugerð nr. 1104/2008 um raf- og rafeindaúrgang, sbr. tilskipun nr. 2002/96/EB sé að finna mun ítarlegri upptalningu á því hvers konar vörur falli undir viðauka I. við lög 55/2003, sbr. viðauki B við reglugerðina. Kærandi kveður kærða aðallega vísa til flokka nr. 3 og nr. 9 í viðauka I. við lög nr. 55/2003 í samskiptum sínum við kæranda. Kærandi telur að fyrir hendi sé misskilningur af hálfu kærða sem kærandi hefur reynt að leiðrétta, m.a. með því að funda með kærða í apríl 2009. Kærandi leggur mikla áherslu á að umhverfisvernd skipti meginmáli í framleiðslu hans og því megi ekki skilja efni kærunnar á þann veg að kærandi sé að koma sér undan lögbundnum skyldum sínum í þeim efnum. Kærandi telur staðreynd málsins hins vegar vera að hann framleiði föst tæki til iðnaðar sem eru sérstaklega undanþegin skráningarskyldu skv. undantekningarflokki nr. 6 í viðauka I við lög nr. 55/2003. Kærandi bendir jafnframt á að ekki sé að finna skilgreiningu á því í lögum um meðhöndlun úrgangs hvað eru föst tæki til iðnaðar. Kærandi telur eðlilegt að við mat á því hvað séu föst tæki til iðnaðar, sem falla undir undanþáguflokk laganna, sé tekið tillit til þess að með föstum tækjum til iðnaðar kunni að finnast íhlutir sem falli undir undanþágu laganna annars falli engin framleiðandi undir þá undanþágu sem skýrt er kveðið á um í framangreindri réttarheimild.
Kærandi vísar sérstaklega til þess að félagið framleiði ekki tæki á sviði upplýsingatækni- og fjarskiptabúnaðar sem falla undir flokk nr. 3 í viðauka I. við lög 55/2003. Kærandi fær ekki séð hvernig tiltekin tollskráningarnúmer verða þess valdandi að þau teljist falla undir ákvæði laga nr. 55/2003 um skilakerfi. Kærandi vísar til ákvörðunar kærða þar sem sérstaklega er fjallað um vogir og stillibúnað sem falla undir flokk nr. 9 við viðauka I. við lög nr. 55/2003. Kærandi bendir á að félagið framleiði ekki vogir eða stillibúnað fyrir heimili eða rannsóknarstofur heldur eingöngu í tengslum við tæki til matvælaframleiðslu.
Ógildingarkrafa kæranda er rökstudd á þá leið að hann telur ákvörðun kærða ekki nægilega rökstudda eða upplýsta. Þá hafi kærði ekki tekið tillit til þeirra sjónarmiða og röksemda sem kærandi hefur haft uppi frá upphafi máls þessa. Kærandi telur framangreint andstætt 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi taldi sig hafa upplýst kærða á fundi sem haldinn var þann 1. apríl 2009 með fullnægjandi hætti og taldi málið niður fallið þar sem ekkert hafði heyrst frá kærða í um hálft ár áður en ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 30. október 2009. Kærandi telur ákvörðun kærða einnig matskennda og því hafi þurft að taka sérstaklega til skoðunar 11. gr. stjórnsýslulaga og ólögfestar meginreglur stjórnsýsluréttarins, að matskenndar ákvarðanir verða að vera byggðar á málefnalegum sjónarmiðum sem beitt er á forsvaranlegan hátt. Á grundvelli framangreinds telur kærandi ákvörðun kærða frá 30. október 2009 vera byggða á misskilningi um eðli þeirra rafeindatækja sem framleidd eru af félaginu. Kærandi framleiðir föst tæki til iðnaðar sem falla undir undanþáguflokk nr. 6 í viðauka I. við lög nr. 55/2003. Því beri að fella ákvörðun kærða úr gildi. Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda krefst kærandi þess til vara að ákvörðun kærða verði ógild þar sem hún sé matskennd, illa upplýst og órökstudd sem sé í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga.
Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða vill kærandi ítreka þá skoðun sína að ákvörðun kærða sé andstæð grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Ákvörðunin hafi ekki verið skýr að efni til og henni ekki beint að réttum aðila máls. Kærandi telur að ef einhver vafi er fyrir hendi skuli skýra þann vafa málsaðila í hag. Til stuðnings framangreindu vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis nr. 4315 frá árinu 2005. Kærandi telur ákvörðun kærða ekki nægilega upplýsta áður en hún var tekin og því ekki í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur einnig að kærði hafi ekki gætt að framangreindum meginreglum og ákvæðum stjórnsýslulaga við undirbúning ákvörðunar frá 30. október 2009. Ákvörðuninni hafi verið beint að röngum aðila, þ.e. að Marel hf. en ekki Marel ehf. þrátt fyrir ábendingar um það. Ábyrgð á slíkum mistökum hlýtur að liggja hjá viðkomandi stjórnvaldi fremur en kæranda.
Að lokum telur kærandi það skjóta skökku við að kærði telji kæranda ekki réttan aðila til að kæra ákvörðun kærða á þeim forsendum að henni var ekki beint að kæranda heldur dótturfélagi í eigu kæranda, Marel ehf. sem nú heitir Marel Iceland ehf. Kærandi bendir á að kæran sé í fullu samræmi við þær leiðbeiningar sem kærði gaf kæranda í bréfi sínu til hans þann 30. október 2009. Kærandi telur því frávísunarkröfu kærða afar mótsagnarkennda.
Varðandi ógildingarkröfu kæranda ítrekar kærandi þá skoðun sína að kærði hafi ekki fylgt ákvæði 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða við meðferð málsins. Kærandi bendir á að kærði hafi viðurkennt seinagang málsins í greinargerð sinni til nefndarinnar. Kærandi telur því ljóst að málið hafi ekki verið upplýst nægilega vel og kærði ekki í stakk búinn til að upplýsa málið á fullnægjandi máta áður en ákvörðunin var er tekin. Kærandi telur að vandleg skoðun þurfi að fara fram áður en kæranda er gert skylt að reka eigið skilakerfi. Kærandi getur ekki fallist á þá túlkun kærða að tollanúmer vöru leiði sjálfkrafa til þess að kæranda sé skylt að eiga aðild að skilakerfi. Þá telur kærandi að ákvörðun kærða sé byggð á mati kærða og vísar í því sambandi til orðalags í greinargerð kærða. Kærandi bendir á að meiri kröfur séu gerðar til matskenndra ákvarðana stjórnvalda en lögbundinna athafna þeirra.
Kærandi ítrekar að félagið skilji ekki þá túlkun kærða að fella framleiðslulínu kæranda undir flokk nr. 1 í viðauka I. við lög nr. 55/2003 en ekki undanþáguflokk nr. 6. í viðauka I. við lögin. Kærandi hefur frá upphafi haldið fram þeirri skoðun sinni að það sé einmitt sá flokkur sem framleiðsla þessi tilheyri. Kærandi telur það fjarri að félagið framleiði tæki sem notuð eru til eldunar, heldur er félagið í fararbroddi í framleiðslu margvíslegra stórra tækja fyrir matvælaiðnaðinn. Kærandi vísar í þessu samhengi til greinargerðar kærða en þar segir kærði að íhlutir stórra fastra tækja til iðnaðar þurfi ekki endilega að leiða sjálfkrafa til þess að framleiðandi eða innflytjandi þurfi að gerast aðilar að skilakerfi. Hins vegar segir að sá flokkur sé undanþáguflokkur sem lúti þröngri lögskýringu. Kærandi telur vandséð á hvaða forsendum slík lögskýring fer fram.
Kærandi vísar að öðru leyti til kæru sinnar og framlögð gögn í málinu og ítrekar þær kröfur sem þar koma fram.
V. Málsástæður og rök kærða.
Kærði telur aðallega að vísa beri frá kæru kæranda, Marel Food Systems hf., þar sem ákvörðun kærða var ekki beint að Marel Food Systems hf. heldur Marel ehf.
Verði ekki fallist á frávísunarkröfu kærða bendir kærði til nýlegra breytinga á lögum nr. 55/2003. Breytingin hafði í för með sér að aukin ábyrgð var lögð á framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja og á rafeindaúrgangi. Frá og með 1. janúar 2009 bera framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja ábyrgð á þess konar tækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn hingað til lands og falla undir viðauka I. í lögum nr. 55/2003. Kærði kveður breytinguna vera tilkomna vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuráðsins og Ráðsins nr. 2002/96/EB um raf- og refeindaúrgang og tilskipun Evrópuráðsins nr. 2003/108/EB um breytingar á tilskipun nr. 2002/96/EB. Markmið tilskipunar Evrópuráðsins er að draga úr rafeindaúrgangi, endurnýtingu og endurnotkun á slíkum úrgangi og vinna að aukinni umhverfisvitund þeirra sem koma að vörunni á lífsferli hennar.
Kærði byggir ákvörðun sína á skilgreiningu í 3. gr. laga nr. 55/2003. Þar segir að framleiðandi eða innflytjandi raf- eða rafeindatækis sé sá sem selur raf- og rafeindatæki undir eigin vörumerki, sem endurselur raf- og rafeindatæki undir eigin vörumerki sem aðrir birgjar framleiða, eða flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr landinu í atvinnuskyni. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 55/2003 skal stýrinefnd raf- og rafeindatækjaúrgangs tilkynna til kærða ef nefndin telur framleiðanda eða innflytjanda raf- og rafeindatækis sem fellur undir viðauka I. við lög nr. 55/2003 án þess að vera aðili að skilakerfi skv. 22. gr. sömu laga. Kærði fékk tilkynningu frá stýrinefnd þann 19. desember 2008 þess efnis að kærandi væri ekki aðili að skilakerfi sem lögin gera að skilyrði. Kærði sendi kæranda bréf þann 22. desember 2008 þar sem kæranda var gefinn kostur á því að tjá sig um hvort það framleiddi eða flytti inn raf- og rafeindatæki. Kærði áréttar að bréfið var fyrir mistök stílað á Marel hf. en átti að berast til Marel ehf. Kærandi svaraði bréfi kærða þann 13. janúar 2009 f.h. Marel ehf. þar sem kærandi taldi sig framleiða vörur sem féllu utan við viðauka I. við lög nr. 55/2003.
Við undirbúning ákvörðunar kærða var óskað eftir upplýsingum frá Tollstjóra um innflutning á raf- og rafeindatækjum kæranda hér á landi. Þá skoðaði kærði einnig allan innflutning kæranda árið 2009. Kærði telur að framangreind rannsókn hafi staðreynt að tilkynning stýrinefndarinnar væri á rökum reist og kæranda sé skylt að skrá sig í skilakerfi framleiðanda og innflytjanda skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 55/2003. Þá fóru fulltrúar kærða á fund með kæranda í apríl 2009 þar sem framleiðsla kæranda var skoðuð. Kærði áréttar að eftir þann fund var fulltrúum kæranda tilkynnt að kærði myndi halda áfram að kanna málið og taka endanlega ákvörðun í framhaldinu. Kærði vill benda á að ástæða seinkunar við ákvörðunartöku í málinu hafi verið vegna stærðar málaflokksins hjá kærða. Kærði bendir á að til meðferðar hjá kærða á sama tíma og mál kæranda voru um 1500 lögaðilar og aðeins tveir fulltrúar kærða sem sjá um þennan málaflokk. Því hafi ekki verið unnt að taka endanlega ákvörðun fyrr en í október 2009.
Kærði byggir ákvörðun sína einnig á túlkun laganna hver sé innflytjandi eða framleiðandi raf- og rafeindatækja, sbr. 3. gr. laga nr. 55/2003. Kærandi byggir einnig á 1. mgr. 22. gr. laga nr. 55/2003 en þar segir að framleiðandi og innflytjandi raf- og rafeindatækja beri ábyrgð á þeim raf- og rafeindatækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn og falla undir viðauka I. við lög nr. 55/2003. Kærði telur að framleiðendur og innflytjendur eigi að uppfylla lagalegar skyldur sínar með því að reka eigin skilakerfi eða eiga aðild að sameiginlegu skilakerfi fleiri framleiðenda og innflytjenda skv. 22. gr. laga nr. 55/2003. Kærði telur að kærandi sé innflytjandi og framleiðandi raf- og rafeindatækja í skilningi 3. gr. laga nr. 55/2003 og að kærandi flytji inn raf- og rafeindatæki til landsins í atvinnuskyni og falli þar af leiðandi undir lið iii. í 3. gr. laganna. Því beri kæranda að eiga aðild að skilakerfi innflytjanda og framleiðanda raf- og rafeindatækja, sbr. 22. gr. laga nr. 55/2003.
Kærði bendir á að samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóra hefur kærandi flutt inn til landsins frá 1. janúar 2009 til 30. september 2009 alls 29.024 kg. af vörum á 68 tollskrám. Í ákvörðun kærða frá 30. október 2009 hafi verið í dæmaskyni nefndir af handahófi hitastillar sem falla undir vöruflokk nr. 9 í viðauka I. við lög nr. 55/2003 að mati kærða. Kærði bendir á að ekki sé að finna í lögum nr. 55/2003 eða reglugerð nr. 1104/2008 ákveðið lágmark sem verði til þess að skylda skv. 22. gr. laga nr. 55/2003 stofnist. Kærði telur nóg að kærandi hafi flutt inn vörur sem falla undir viðauka I. við lögin. Það verði til þess að kæranda sé skylt að gerast aðili að skilakerfi skv. 22. gr. laganna. Þá bendir kærði á að kærandi hafi flutt inn fleiri vörur en nefnda hitastilla sem falli undir viðauka I. við lögin. Kærði telur því ljóst að kærandi hafi flutt inn vörur sem falli undir viðauka I. og þurfi annað hvort að reka eigið skilakerfi eða gerast aðili að sameiginlegu skilakerfi skv. 22. gr. laga nr. 55/2003.
Hvað varðar þann lið í stjórnsýslukæru kæranda að vörur sem kærandi flytur inn falli í sérstakan undanþáguflokk í flokki nr. 6 í viðauka I. við lög nr. 55/2003 vill kærði benda á að flokkur nr. 6 í viðauka I. við lög 55/2003 undanskilur stór föst tæki til iðnaðar. Kærði telur ekki unnt að fallast á túlkun kæranda og fella alla vörulínu kæranda undir flokk nr. 6 í viðauka I. við lögin. Um sé að ræða undanþágu laganna sem beri að túlka þröngt. Kærði bendir á að kærandi hafi flutt inn raf- og rafeindatæki til landsins í atvinnuskyni og þar af leiðandi eigi hann að eiga aðild að skilakerfi skv. 22. gr. laga nr. 55/2003 en hvorki í lögum nr. 55/2003 eða reglugerð nr. 1104/2008 er gert ráð fyrir undantekningu frá þeirri skyldu eftir að vörurnar hafa verið tollafgreiddar. Kærði bendir á að skilgreining á hugtakinu raf- og rafeindabúnaður skv. 3. gr. laga nr. 55/2003 er búnaður sem þarf rafstraum eða rafsegulsvið til að geta starfað á réttan hátt og búnaður til að framleiða, flytja og mæla slíkan rafstraum og rafsegulsvið. Af þessu megi ráða að það sé ekki einungis eiginlegur rafeindabúnaður raf- og rafeindatækis sem falli undir I. viðauka laganna heldur einnig allir íhlutir þess undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af raf- og rafeindatækinu. Kærði bendir jafnframt á að í greinargerð með lögum nr. 73/2008 um breytingu á lögum nr. 55/2003 segi: „Raf- og rafeindatækjaúrgangur er skilgreindur sem úrgangur, þ.m.t. allir íhlutir, undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af vörunni þegar henni er fleygt. Mikilvægt er að allir þeir hlutar raf- og rafeindatækja sem eru hluti af vörunni þegar hún er seld falli undir að vera raf- og rafeindatækjaúrgangur þegar varan er orðin að úrgangi.“ Framangreind skilgreining er studd við skilgreiningu tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins í tilskipun nr. 75/442/EEC. Kærði telur að með vísan til þess að innflutningur á raf- og rafeindaúrgangi leiði af sér skyldu til að gerast aðili að skilakerfi enda hafi tilgangurinn með lagasetningunni verið sá að tryggja að allir hlutar raf- og rafeindatækjabúnaðar falli undir ábyrgð framleiðanda og innflytjenda í 22. gr. laga nr. 55/2003.
Varðandi ógildingarhluta í kæru kæranda vill kærði benda á að fulltrúar kærða bentu fulltrúum kæranda á það á fundi aðilanna í apríl 2009 að innflutningur á íhlutum raf- og rafeindatækja leiði til þess að innflytjandinn verði að gerast aðili að skilakerfi skv. 22. gr. laga nr. 55/2003. Kærði hafi ætlað að kanna málið betur og taka ákvörðun í framhaldinu. Sú könnun hafi leitt í ljós skylduaðild kæranda að skilakerfi. Sú ákvörðun hafi verið tekin þann 30. október 2009. Kærði hafnar því að hann hafi ekki tekið tillit til skýringar kæranda heldur hafi þvert á móti kannað það sem kom fram á fundinum og aflað frekari upplýsinga. Kærði telur einnig að stofnunin hafi fylgt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem upplýsinga hafi verið aflað áður en ákvörðun var tekin í málinu m.a. um innflutning kæranda og gagna aflað frá Tollstjóra. Þá síðast telur kærði ekki unnt að fallast á þá fullyrðingu kæranda að kærandi hafi mátt ætla að málið væri niður fallið. Kærði bendir á að skýrt hafi verið áréttað eftir fund milli aðila 1. apríl 2009 að fulltrúar kærða myndu kanna frekar innflutning kæranda og taka í kjölfarið málið til skoðunar og taka ákvörðun. Kærði bendir jafnframt á að kærandi hafi getað óskað eftir frekari rökstuðningi skv. 21. gr. stjórnsýslulaga en kærða hafi ekki borist þess konar beiðni frá kæranda heldur tilkynning um að ákvörðunin yrði kærð til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Síðast áréttar kærði að kærandi sé ekki réttur aðili til að kæra ákvörðun kærða frá 30. október 2009. Ákvörðuninni hafi ekki verið beint að Marel Food Systems hf. heldur Marel ehf. og beri því að vísa kærunni frá.
Verði ekki fallist á þá kröfu kærða krefst hann þess að ákvörðunin frá 30. október 2009 verði staðfest og að hún hafi verið í fullu samræmi við lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sem og stjórnsýslulög nr. 37/1993.
VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar.
Kæruheimild vegna málsins er að finna í 39. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 31. gr. laga nr. 7/1998 segir að ágreiningur er varðar framkvæmd laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Fyrst ber að fjalla um frávísunarkröfu kærða. Krafan er byggð á þeim forsendum að kærandi sé ekki réttur aðili til að kæra ákvörðun kærða þar sem henni hafi ekki verið beint að kæranda heldur dótturfélagi í eigu þess, Marel ehf. Kærði hafi fyrir mistök beint ákvörðun sinni að kæranda. Hugtakið aðili er skýrt rúmt innan stjórnsýsluréttarins og er nóg að aðili eigi óbeina hagsmuni af úrlausn máls svo hann teljist aðili þess. Mistök kærða að beina ákvörðun sinni að kæranda en ekki dótturfélagi í eigu þess veldur ekki frávísun málsins. Ljóst er að kærandi hefur hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og er einnig bær til að koma fram fyrir hönd Marel ehf. sem er að fullu í eigu kæranda. Þar að auki er tilgangur kæranda, samkvæmt stofnsamþykkt félagsins, sem og dótturfélagsins Marel ehf., að framleiða, kaupa og selja rafeindatæki. Ákvörðun kærða snertir því hagsmuni kæranda og hefur félagið því beinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Með vísan til alls þessa er það mat nefndarinnar að hafna frávísunarkröfu kærða.
Mál þetta varðar ágreining um hvort kæranda sé skylt að reka eigið skilakerfi eða eiga aðild að sameiginlegu skilakerfi í samræmi við 22. gr. laga nr. 55/2003 og hvort íhlutir sem kærandi framleiðir og flytur inn til landsins falli undir undanþáguflokk nr. 6 í viðauka I. við lög nr. 55/2003 og þurfi kærandi því ekki að eiga aðild að skilakerfi.
Markmið laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og mengi ekki vatn, jarðveg né andrúmsloft, svo og að draga úr hættu sem förgun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra. Í 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á því hver er framleiðandi og innflytjandi í skilningi laganna. Þar segir að framleiðandi og/eða innflytjandi sé sá er framleiðir og selur raf- og rafeindatæki undir eigin vörumerki eða flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr landinu í atvinnuskyni. Í sama lagaákvæði er hugtakið raf- og rafeindatæki skilgreint sem búnaður sem þarf rafstraum eða rafsegulsvið til að geta starfað á réttan hátt og búnaður til að framleiða, flytja og mæla slíkan rafstraum og rafsegulsvið þeirra vara sem falla undir viðauka I. við lög nr. 55/2003. Raf- og rafeindatækjaúrgangur er einnig skilgreindur í 3. gr. lagana á þann hátt að um sé að ræða raf- og rafeindatæki sem er úrgangur þ.m.t. allir íhlutir, undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af búnaðinum. Með lögum nr. 73/2008 var nýjum kafla bætt við lög nr. 50/2003. Þar er kveðið á um raf- og rafeindatækjaúrgang og í 22. gr. laganna er kveðið á um ábyrgð framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja á rafeindatækjaúrgangi, sbr. 2. gr. laga nr. 73/2008. Ábyrgðin sem 22. gr. laga nr. 55/2003 kveður á um er sú að framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja er gert skylt að fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs þeirra vara sem falla undir viðauka I. við lögin. Skyldan sem lögin kveða á um er skylduaðild að sameiginlegu skilakerfi eða fjármögnun eigin skilakerfis. Framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja er gert skylt að skrá sig í skráningarkerfi samkvæmt 27. gr. laga nr. 55/2003, sbr. 2. gr. laga nr. 72/2008, a.m.k. 15 dögum áður en vara sem fellur undir viðauka I. við lög nr. 55/2003 er markaðssett hér á landi.
Í viðauka I. við lög nr. 55/2003, sbr. viðauki A og B við reglugerð nr. 1104/2008, eru listaðir upp vöruflokkar sem skylda framleiðanda eða innflytjanda til að reka eigið skilakerfi eða eiga aðild að sameiginlegu skilakerfi. Meðal þeirra vara sem eru listaðar upp í flokki nr. 6 í viðauka I. við lög 55/2003 eru raf- og rafeindatæki en flokkur nr. 6 undanskilur stór föst tæki til iðnaðar. Undanþágan undanskilur ekki frekari tæki eða aukahluti eða íhluti fastra tækja til iðnaðar. Hvorki lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, viðauki I. við lögin eða reglugerð nr. 1104/2008 um raf- og rafeindatækjaúrgang undanskilja íhluti fastra tækja skylduaðild að skilakerfi. Þvert á móti er skýrt kveðið á um að framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja er gert skylt að eiga aðild að skilakerfi. Tilgangurinn með lagasetningunni var að fella raf- og rafeindatæki undir lögin og þar af leiðandi tryggja að framleiðendur og innflytjendur ættu aðild að skilakerfi. Verður því að telja íhluti og aukahluti fastra tækja til iðnaðar sem raf- og rafeindatæki og fella þau tæki utan við undanþáguflokk nr. 6 í viðauka I. við lög nr. 55/2003.
Í 1. mgr. 28. gr. laga um meðhöndlun úrgangs er skýrlega kveðið á um það að kærði skeri úr um hvaða raf- og rafeindatæki falli undir lögin. Í sama lagaákvæði segir ennfremur að kærði hafi heimild til að taka ákvörðun um hvort leggja skuli fyrir viðkomandi framleiðanda eða innflytjanda að skrá sig í skilakerfi í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs. Verður af framangreindu ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að ákvörðun kærða hafi grundvallast af mati sem valda eigi ógildingu ákvörðunarinnar þar sem lögin fela kærða það vald að skera úr um hvaða vörur falli undir viðauka I. við lög nr. 55/2003.
Af öllu framangreindu er það niðurstaða nefndarinnar að framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja beri lagalega skyldu til að reka eigið skilakerfi eða eiga aðild að sameiginlegu skilakerfi framleiðenda eða innflytjenda raf- og rafeindatækja. Lögin kveða aðeins á um eina undantekningu frá framangreindri skyldu, ef um er að ræða stór föst tæki til iðnaðar. Hvorki lög um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 eða reglugerð nr. 1104/2008 kveða á um að íhlutir eða aukahlutir stórra fastra tækja til iðnaðar séu undanþegnir skyldu laganna og falli í sama undanþáguflokk og stór tæki til iðnaðar. Ekki verður fallist á þá túlkun kæranda að svo sé, þar sem undantekningarflokkur laganna nær aðeins yfir stór föst tæki til iðnaðar en ekki aukahluti eða íhluti. Því falla aukahlutir og íhlutir raf- og rafeindatækja undir viðauka I. við lög nr. 55/2003 og kæranda er skylt að eiga aðild að skilakerfi í samræmi við 22. gr. laga nr. 55/2003.
Hvað varðar ógildingarkröfu kæranda verður ekki fallist á að ákvörðunin frá 30. október 2009 hafi verið haldin svo miklum annmörkum að það valdi ógildingu hennar.
Úrskurðarorð:
Ekki er fallist á frávísunarkröfu kærða. Aðal- og varakröfu kæranda er hafnað. Ákvörðun kærða frá 30. október 2009 um skyldu kæranda til að eiga aðild að skilakerfi samkvæmt 22. gr. laga nr. 55/2003 er staðfest.