13/2011
Mál nr. 13/2011.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2011, mánudaginn 14. nóvember, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir. Fyrir var tekið mál nr. 13/2011 I.Á. hönnun ehf., Sóleyjargötu 14, Akranesi gegn Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, Reykjavík. Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
I. Aðild kærumáls og kröfur
Með stjórnsýslukæru, dags. 8. júní 2011, kærði Ólafur Hvanndal Ólafsson, hdl., f.h. I.Á. hönnunar ehf. (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir nefnd kærði) um álagningu fráveitugjalds á 2.434 fermetra fasteign við Krókatún 22-24, Akranesi (fastanúmer 210-1212).
Kærandi gerir þá kröfu aðallega að álagning fráveitugjalds á umrædda fasteign verði felld niður. Til vara krefst kærandi þess að álagning fráveitugjalds verði lækkuð og hún miðuð við 751,5 fermetra fasteign. Kærði telur að hafna beri kröfum kæranda og staðfesta hina kærðu ákvörðun um álagningu fráveitugjalds.
II. Málsmeðferð
Kærandi málsins beindi kæru sinni til umhvefisráðuneytisins, sem framsendi erindið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 20. júní 2011. Barst kæran úrskurðarnefndinni þann 21. júní 2011 og byggir hún á kæruheimild í 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðfylgjandi kæru voru álagningarseðill vegna vatns- og fráveitugjalda 2011, bréf kæranda til kærða, dags. 14. mars 2011 vegna innheimtu fráveitugjalds og svarbréf kærða til kæranda, dags. 29. mars 2011. Enn fremur fylgdi kærunni umboð frá Lýsingu hf., sem er þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 21. júní 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 21. júlí 2011. Greinargerð kærða var kynnt kæranda með bréfi, dags. 11 ágúst 2011. Sendi kærandi úrskurðarnefndinni athugasemdir, dags. 30. ágúst 2011, við greinargerð kærða. Voru athugasemdir kæranda kynntar kærða með bréfi, dags. 6. september 2011 og sendi kærði athugasemdir af sinni hálfu, dags. 8. september 2011. Í október 2011 var af hálfu úrskurðarnefndarinnar haft samband við lögmann kæranda og honum veitt tækifæri til að leggja fram gögn til staðfestingar á fullyrðingum í málatilbúnaði kæranda þess efnis að hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24, Akranesi, væri ekki tengdur fráveitu kærða. Þau svör bárust frá kæranda að hann gæti ekki lagt fram skrifleg gögn þess efnis. Úrskurðarnefndin fór þess á leit, með bréfi dags. 1. nóvember 2011, að kærði gerði úrskurðarnefndinni sérstaka grein fyrir afstöðu sinni til fullyrðinga kæranda um að hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24, Akranesi, væri tengdur annarri fráveitu en fráveitu sveitarfélagsins. Jafnframt fór úrskurðarnefndin þess á leit að kærði sendi nefndinni teikningar, ef til væru, sem sýndu fráveitulagnir frá umræddum húsum. Umbeðin gögn bárust 8. nóvember 2011.
III. Málsavik
Kærandi leigir fasteignina Krókatún 22-24, Akranesi, fastanúmer 210-1212, af Lýsingu hf. samkvæmt fjármögnunarleigusamningi og er greiðandi lögbundinna gjalda vegna hennar. Á lóðinni Krókatúni 22-24 munu, samkvæmt gögnum málsins, vera fjögur samtengd hús sem eru skilgreind í Fasteignaskrá Íslands sem iðnaðarhús 1018,4 fermetrar að stærð, renniverkstæði 233,1 fermetri að stærð, rafmagnsverkstæði/lager sem er 435,2 fermetrar að stærð og iðnaður sem er 751,4 fermetrar að stærð. Í janúar 2011 sendi kærði út álagningu fráveitugjalds vegna 2.434,3 fermetra húseignar á lóðinni Krókatúni 22-24 að fjárhæð 488.918 kr. Kærandi gerði athugasemdir við álagningu fráveitugjalda á framangreinda fasteign, auk annarra fasteigna, í bréfi til kærða, dags. 14. mars 2011. Kærði svaraði athugasemdum kæranda með bréf, dags. 29. mars 2011, þar sem m.a. kom fram sú afstaða að álagning fráveitugjalds vegna fasteignarinnar Krókatúns 22-24 væri í samræmi við lög um fráveitur.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi hafi beint erindi til kærða í kjölfar álagningar fráveitugjalda á nokkrar fasteignir á Akranesi, þar sem hann taldi það orka tvímælis að greiða bæri fráveitugjöld á grundvelli álagningar. Byggði kærandi á því að lagnakerfið sem flytti frárennsli frá fasteignunum væri hvorki í eigu sveitarfélagsins Akraness né kærða, heldur væri það að mestu í eigu félaga sem ættu eða hefðu umráð viðkomandi fasteigna. Kvað kærandi að umrætt lagnakerfi flytti frárennsli frá viðkomandi fasteignum beint út í miðlunarlón án þess að tengjast fráveitu kærða.
Í kærunni segir að í 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 sé kveðið á um að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Enn fremur sé í 4. mgr. 14. gr. sömu laga kveðið á um að gjöld skuli ákveðin í gjaldskrá. Þá bendir kærandi á að í 9. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga nr. 982/2010 komi fram að heimilt sé að setja sérstaka gjaldskrá innan fráveitusvæðis fyrir einstök hús eða þyrpingu húsa, sem ekki séu tengd fráveitukerfinu en njóti þjónustu fráveitu sveitarfélagsins, og að í slíkum tilvikum skuli gjald miðast við áætlaðan raunkostnað við þjónustuna.
Kærandi heldur því fram að aðeins hluti af fasteigninni Krókatúni 22-24 sé tengdur fráveitu kærða. Hann bendir á að álagningarseðill kærða beri með sér að álagt fráveitugjald sé miðað við heildarstærð fasteignarinnar eða 2.434 fermetra en aðeins lítill hluti fasteignarinnar sé tengdur fráveitu kærða, þ.e. 751,5 fermetra viðbygging. Heldur kærandi því fram að eldri hlutar bygginga séu ekki tengdir fráveitu kærða heldur lagnakerfi í eigu félaga sem eigi fasteignina eða hafi umráðarétt að henni. Kveðst kærandi telja að það sé ekki í samræmi við lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna að taka fullt fráveitugjald fyrir fasteignina sem mál þetta varðar. Réttara sé að miða fráveitugjald vegna fasteignarinnar við fermetrafjölda viðbyggingarinnar og leggja eingöngu á fráveitugjöld fyrir þann hluta fasteignarinnar sem tengdur sé fráveitu kærða. Vísar kærandi í þessu sambandi til framangreindrar 9. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga og kveðst telja rétt að gjaldtaka vegna umræddrar fasteignar verði felld niður eða eftir atvikum lækkuð.
Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða hafnar kærandi túlkun kærða á 9. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga og heldur því fram að samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að setja sérstaka gjaldskrá fyrir einstök hús eða þyrpingu húsa sem ekki séu tengd fráveitukerfi sveitarfélags. Þá ítrekar kærandi að aðeins eitt af fjórum húsum á lóðinni Krókatúni 22-24 sé tengt fráveitukerfi kærða og sé þar um að ræða 751,4 fermetra iðnaðarhús. Heldur kærandi því fram að það að eitt húsa á lóðinni sé tengt fráveitukerfi kærða eigi ekki að leiða til þess að kærða sé stætt á að miða álagningu fráveitugjalda við heildarflatarmál allra húsa á lóðinni og þar með innheimta fráveitugjöld af þremur húsum sem séu samtals 1.686,7 fermetrar og ótengd fráveitu kærða.
V. Málsástæður og rök kærða
Í greinargerð kærða segir að samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 eigi eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggi, rétt á að fá tenginu við fráveitukerfi. Þá segir að samkvæmt 2. mgr. 12. gr. sömu laga sé eigendum húseigna þar sem fráveita liggi skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Enn fremur segir að lagaskylda framangreindrar 1. mgr. 11. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna hafi verið uppfyllt með því að lóðin Krókatún 22-24 sé tengd við fráveitukerfið og tekið fram að lagning heimæða innan lóðar sé á ábyrgð eiganda fasteignarinnar.
Í greinargerðinni segir jafnframt að samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sé heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Þrátt fyrir að einstakar fasteignir eða matshlutar á lóðinni kunni að vera ótengdar fráveitu eða frárennsli veitt annað en í fráveitukerfi, veiti það ekki undanþágu frá greiðsluskyldu samkvæmt lögunum, enda séu lagnir og tengingar innan lóðar á ábyrgð fasteignareiganda en ekki fráveitu. Þá segir að kærði telji að 9. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga eigi ekki við í hinu kærða tilviki, þar sem ákvæðið eigi við fasteignir sem ekki séu tengdar fráveitukerfi en njóti samt sem áður þjónustu fráveitu sveitarfélagsins, t.d. við hreinsun rótþróa. Fasteignin Krókatún 22-24 sé hins vegar tengd fráveitukerfi Akraness.
Í athugasemdum sem bárust frá kærða, dags. 8. september 2011, er ítrekaðar tilvísanir í 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og ítrekuð sú afstaða að ákvæði 9. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga eigi ekki við í hinu kærða tilviki þar sem óumdeilt sé að fasteignin Krókatún 22-24 sé tengd fráveitukerfi Akraness.
Í svari kærða við beiðni úrskurðarnefndarinnar um að kærði taki afstöðu til fullyrðinga kæranda um að hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24, Akranesi, sé tengdur annarri fráveitu en fráveitu sveitarfélagsins, kemur m.a. fram að samkvæmt mynd, sem fylgdi svarinu, "virðist hluti frárennslis frá húsinu, þ.e. frá þvottahúsi, leitt út í sjó". Síðan segir að hins vegar sé ekkert því til fyrirstöðu af hálfu kærða að veita frárennsli frá þvottahúsinu út í kerfi kærða eins og gert sé með annað frárennsli frá húsinu.
VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar
Í máli þessu er deilt um álagningu fráveitugjalds á 2.434 fermetra húseign á lóðinni Krókatúni 22-24 á Akranesi. Samkvæmt gögnum málsins samanstendur umrædd húseign af fjórum samtengdum húsum sem ætluð eru til atvinnurekstrar.
Lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 hafa í II. kafla að geyma ákvæði sem varða fráveitur sveitarfélaga, en í III. kafla þeirra eru ákvæði sem varða aðrar fráveitur. Ákvæði um gjaldtöku eru í V. kafli laganna og varðar 14. gr., fráveitugjald. Í 1. mgr. 14. gr. er kveðið á um að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags.
Í frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi Alþingis, var lagt til að 1. mgr. 14. gr. laganna heimilaði að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar væru eða gætu tengst fráveitu sveitarfélags.
Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna segir að fram hafi komið ábending um að orðalag 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins væri of víðtækt með því að heimila innheimtu fráveitugjalds af fasteignum sem gætu tengst fráveitu. Tók nefndin undir ábendinguna og lagði til þá orðalagsbreytingu að heimildin næði til fasteigna sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu sveitarfélags. Voru lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna samþykkt með því orðalagi.
Í framangreindu nefndaráliti segir jafnframt að ákvæðum frumvarps til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna um gjaldtöku sé ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé.
Í 10. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga nr. 982/2010, sem sett var með stoð í 21. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er kveðið á um fráveitugjald. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, þ.m.t. óbyggðum lóðum sem tengdar séu, muni tengjast fráveitu sveitarfélags eða njóti þjónustu hennar.
Í 1. tölulið 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna er frárennsli skilgreint sem rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt sé í fráveitur.
Skilgreiningu á fráveitu er að finna í 2. tölulið 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna þar sem segir:
"Leiðslukerfi og búnaður til meðhöndlunar og hreinsunar skólps. Til fráveitu telst allt lagnakerfi sem flytur frárennsli frá heimilum, stofnunum, atvinnufyrirtækjum, götum, gönguleiðum, lóðum og opnum svæðum, svo sem tengingar við einstakar fasteignir, niðurföll, svelgir, brunnar, safnkerfi, tengiræsi, sniðræsi, stofnlagnir, yfirföll og útræsi. Til fráveitu teljast einnig öll mannvirki sem reist eru til meðhöndlunar eða flutnings á frárennsli, svo sem hreinsivirki, dælu- og hreinsistöðvar og set- og miðlunartjarnir."
Fyrir liggur í gögnum málsins að kærandi sendi kærða erindi í mars 2011 þar sem óskað var niðurfellingar fráveitugjalda vegna húseigna þeirra sem mál þetta varðar, svo og annarra tilgreindra húseigna á Akranesi. Byggði kærandi á því í erindinu að langakerfi sem flytti frárennsli frá viðkomandi húseignum væri í eigu þeirra sem hefðu umráð húseignanna og flytti það lagnakerfi frárennsli frá húseignunum beint út í miðlunarlón án þess að tengjast fráveitu kærða. Féllst kærði á erindi kæranda varðandi fasteignir á tveimur tilteknum lóðum en hafnaði því varðandi fasteignir á tveimur öðrum tilteknum lóðum, þ. á m. þeirri lóð sem húseignir þær sem mál þetta varðar standa á.
Kærandi heldur því fram að þrjú af þeim fjórum samtengdu húsum, sem standa á lóðinni Krókatúni 22-24, séu ekki tengd fráveitu kærða og er viðurkennt af hálfu kærða að svo virðist sem hluti frárennslis frá húsunum sé ekki leitt í fráveitu kærða. Heldur kærði því hins vegar fram að þó vera kunni að á lóð, sem sé tengd fráveitukerfi sveitarfélags, séu einstakar fasteignir eða matshlutar sem séu ótengdir fráveitu eða frárennsli frá þeim veitt annað en í fráveitukerfi, veiti það ekki undanþágu frá greiðsluskyldu fráveitugjalds. Vísar kærði í málatilbúnaði sínum til 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Þar er annars vegar kveðið á um að eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggi eigi rétt á að fá tengingu við fráveitukerfi og hins vegar að eigendum húseigna þar sem fráveita liggi sé skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi.
Samkvæmt gögnum málsins má ætla að kærði hafi uppfyllt lagaskyldu sína samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa að kærandi hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna þó frárennsli hluta húseignar hans sé ekki tengt fráveitu kærða. Snýst ágreiningur máls þessa þess í stað um það hvort frárennsli frá hluta húseigna á viðkomandi lóð sé tengt eða muni tengjast fráveitu viðkomandi sveitarfélags, þ.e. fráveitu kærða og þar með hvort heimilt sé að innheimta fráveitugjald vegna þeirra samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna.
Úrskurðarnefndin telur að í tilviki því sem hér er til úrlausnar, þar sem fyrir liggur að húseign er a.m.k. að hluta tengd annarri fráveitu en fráveitu sveitarfélags, megi ljóst vera að sá hluti húseignarinnar sé hvorki tengdur fráveitu sveitarfélagsins né fyrirsjáanlegt að hann muni tengjast því fráveitukerfi og þ.a.l. verði ekki lagt á þann hluta húseignarinnar fráveitugjald.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að heimvísa skuli málinu til nýrrar álagningar fráveitugjalds og skal við álagningu miðað við hve stór hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24, Akranesi, sé tengdur fráveitu kærða.
Úrskurðarorð:
Málinu er heimvísað til nýrrar álagningar fráveitugjalds og skal álagningin miðast við hve stór hluti húseigna á lóðinni Krókatúni 22-24, Akranesi, sé tengdur fráveitu Orkuveitu Reykjavíkur.
Steinunn Guðbjartsdóttir
Gunnar Eydal
Arndís Soffía Sigurðardóttir