Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir

16/2011

Mál nr. 16/2011.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, þriðjudaginn 27. desember, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir. Fyrir var tekið mál nr. 16/2011 Anna Margrét Kristinsdóttir, Haukanesi 14, Garðabæ gegn heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 5. september 2011, kærði Anna Margrét Kristinsdóttir (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis (hér eftir nefnd kærði) frá 29. ágúst 2011, sem kynnt var með bréfi dags. 30. ágúst 2011, þar sem þess er krafist að hundurinn Golíat nr. 5126 verði aflífaður. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en kærði gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

II. Málsmeðferð

Kæra málsins er dagsett 5. september 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Í kæru var jafnframt sett fram krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 9. september 2011. Óskaði úrskurðarnefndin í því bréfi hvort tveggja eftir greinargerð kærða í málinu og afstöðu hans til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum til beiðni um frestun réttaráhrifa með bréfi, dags. 16. september 2011. Þann 26. september 2011 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð um að fresta skyldi réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Greinargerð kærða, dags. 27. september 2011, barst úrskurðarnefndinni og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. október 2011. Kærandi gerði athugasemdir, dags. 31. október 2011, við greinargerð kærða og voru þær kynntar kærða með bréfi, dags. 2. nóvember 2011. Kærði sendi úrskurðarnefndinni bréf, dags. 8. nóvember 2011, þar sem fram kom að kærði teldi ekki tilefni til frekari athugasemda af sinni hálfu.

III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda, þann 14. júlí 2010, veitt leyfi til hundahalds í Garðabæ nr. 5126 vegna hundsins Golíats. Var leyfið veitt í kjölfar þess að hundurinn hafði verið fangaður óskráður og fluttur í hundagæslu. Þegar gengið var frá skráningu hundsins og hann leystur úr hundagæslunni mun hafa verið brýnt fyrir kæranda að tryggja gæslu hans, svo og annars hunds í hennar eigu, sem einnig hafði verið fangaður. Engu að síður hafa heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis borist kvartanir vegna hundsins. Þann 19. ágúst 2010 var kvartað undan því að hundurinn Golíat og annar hundur í eigu kæranda gengju of mikið lausir í götunni við heimili þeirra og að Golíat hefði náð að glefsa til manns veturinn á undan. Þann 26. maí 2011 var kvartað undan lausagöngu hunda kæranda og því að Golíat hefði náð að glefsa í gangandi vegfarendur. Þann 31. maí 2011 ritaði heilbrigðiseftirlitið kæranda bréf og gerði kröfu um að umræddur hundur færi í skapgerðarmat og að kærandi kæmi í kjölfarið til fundar hjá heilbrigðiseftirlitinu. Engin viðbrögð höfðu átt sér stað vegna bréfs þessa þegar kvartað var undan lausagöngu hundsins þann 9. júní 2011. Í þeirri kvörtun kom fram að sá sem kvartaði hefði fjórum sinnum áður komið óformlegum kvörtunum á framfæri. Aðfaranótt 15. júní 2011 kom tilkynning frá eiganda/umráðmanni hundsins um að hundurinn væri laus, en hann mun hafa skilað sér heim án afskipta dýraeftirlits. Þann 24. júlí 2011 var leitað til lögreglu sökum þess að Golíat, sem þá var laus, hafði bitið í kálfa á konu, sem var á göngu. Heilbrigðiseftirlitið sendi kæranda bréf, dags. 3. ágúst 2011, þar sem henni var gert kunnugt um að hundahald hennar yrði tekið fyrir á fundi kærða sem fyrirhugaður væri 29. ágúst 2011. Þann 3. ágúst 2011 barst einnig kvörtun um lausagöngu hundsins, svo og þann 9. ágúst 2011. Þá var Golíat fangaður af dýraeftirlitsmanni og honum komið fyrir í gæslu. Þann 15. ágúst 2011 var jafnframt tilkynnt til heilbrigðiseftirlitsins að viku fyrr hefði Golíat glefsað í aftanverðan kálfa á manni, sem var á göngu. Sonur kæranda hafði samband við heilbrigðiseftirlitið þann 10. ágúst 2011 sökum þess að hann saknaði hundsins og var hann þá upplýstur um stöðu mála. Upplýsti sonur kæranda þá að kærandi væri erlendis en væntanleg til landsins um miðjan ágústmánuð. Þann 16. ágúst 2011 mætti kærandi til fundar hjá heilbrigðiseftirlitinu vegna Golíats og var þá ákveðið að kæranda léti fara fram skapgerðarmat á hundinum. Þann 24. ágúst 2011 barst heilbrigðiseftirlitinu skapgerðarmat Katrínar Harðardóttur dýralæknis vegna umrædds hunds og þann 25. ágúst 2011 sendi kærandi bréf til kærða þar sem hún gerði grein fyrir sínum sjónarmiðum. Hundahald kæranda var síðan rætt á fundi kærða þann 29. ágúst 2011 og var þá tekin ákvörðun um að krefjast þess að hundurinn Golíat yrði aflífaður. Var það gert með svohljóðandi bókun:

„Heilbrigðisnefnd telur að hundurinn Golíat nr. 5126 hafi sýnt af sér verulega hættulegt atferli. Ólíðandi sé að hundur sé haldinn sem glefsi til og bíti vegfarendur þegar hann er laus úr gæslu. Með vísun til ákvæða 11. gr. samþykktar um hundahald nr. 154/2000 krefst nefndin þess að dýrið verði aflífað.“

IV. Málstæður og rök kæranda

Kærandi greinir frá því í kæru sinni að maki hennar hafi gefið fjölskyldunni hundinn Golíat í jólagjöf 2008 og hafi því fylgt mikil hamingja þar sem hundurinn sé einstaklega skemmtilegur og uppátækjasamur. Áföll hafi hins vegar dunið yfir fjölskylduna árið á eftir þegar maki kæranda lést, svo og móðir hennar, besti vinur hennar og tveir nákomnir ættingar. Kveður kærandi að tíminn síðan þessar atburðir gerðust hafi verið hrikalegur fyrir fjölskyldu hennar og að ekki hafi gefist mikill tími fyrir strangt og gott uppeldi á umræddum hundi. Þá kveðst kærandi hafi þurft að fara erlendis í maí sl. og hafi hún ekki komið aftur heim fyrr en 15. ágúst sl. Hafi hún ætlað sér að koma hundinum Golíat og öðrum hundi sem hún eigi, fyrir á hundahóteli, en þá hafi hins vegar legið fyrir sonur hennar yrði atvinnulaus yfir sumarið og hafi hann langað til að hafa hundana hjá sér, auk þess sem fyrirséð hafi verið að elsti sonur hennar yrði mikið á heimilinu með sína fjölskyldu. Kveðst kærandi hafa gert þau mistök að láta reyna á ábyrgð og þroska sona sinna og hafi hún staðið í þeirri trú að allt gengi ljómandi vel í fjarveru hennar, þar sem enginn hafi látið hana vita af vandræðunum sem urðu með hundinn fyrr en lögregla hafði samband við hana í lok júlí.

Í kærunni kveðst kærandi gera sér fulla grein fyrir þeim skaða og vandræðum sem hundurinn hafi valdið. Á hinn bóginn geti hún ekki, eftir allt sem á undan sé gengið, látið svæfa hundinn, „síðustu jólagjöfina frá pabba“. Þess í stað kveðst kærandi geta tekið ábyrgð á þeim málum sem gerst hafi og gert allt sem í hennar valdi standi til að gera góðan og sómasamlegan hund úr Golíati og tryggt umhverfið sem hann búi í. Kærandi kveðst hafa talað við eiganda hundaskólans Gallerí voff, sem sé tilbúinn til að aðstoða kæranda við mjög stranga þjálfun á Golíati, sem muni standa eins lengi og það taki að gera góðan hund úr honum. Þá gerir kærandi grein fyrir því að hún hafi fengið dýralækni til að skoða hundinn, þar sem hann dvelji nú í gæslu, til að gera á honum skapgerðarmat. Kveður kærandi það vera mat dýralæknisins að Golíat sé góður hundur og sjái dýralæknirinn engin merki um geðveiki hjá honum. Þá telji dýralæknirinn að hundurinn eiga við hegðunarvandamál að stríða og að hann sé meðal annars að vernda yfirráðasvæði sitt með hegðun sinni. Hafi dýralæknirinn ráðlagt kæranda að láta gelda hundinn og myndi hann þá róast.

Kærandi lýsir því jafnframt í kæru sinni að Golíat sé góður og skemmtilegur hundur, sem sé fljótur að læra og kveðst hún ekki efast um að hægt sé að gera úr honum enn þá betri hund, sem ógni ekki umhverfi sínu. Hann sé virkilega snjall og kunni því miður að opna allar dyr. Það hafi verið eitt helsta vandamálið tengt honum, en verði leyst með því að snúa öllum snerlum á útihurðum lóðrétt, halda öllum útidyrum læstum og setja á þær öryggiskeðjur. Þá kveðst kærandi vera með stóra og góða hundagirðingu þar sem hundar hennar fái að valsa inn og út og leika sér, en því miður hafi verið allt of mikið um að börn úr nágrenninu hafi verið að opna girðinguna og hleypa hundunum út. Kveðst kærandi geta leyst það vandamál með góðum hengilás og keðju. Enn fremur kveðst kærandi hafa sest niður með börnum sínum og gert þeim grein fyrir alvöru málsins. Kveður hún þau vera tilbúin til að vinna hörðum höndum við hlið hennar að uppeldi og gæslu hundsins. Sjálf kveðst kærandi sjá fram á rólegri tíma og meira jafnvægi í lífi fjölskyldunnar og að hún geti gefið sig alla að uppeldi hundsins.

Í athugasemdum kæranda sem bárust í kjölfar greinargerðar kærða í málinu ítrekar hún þau sjónarmið sem komu fram í kæru hennar, auk þess sem hún gerir beinar athugasemdir við greinargerð kærða í sex tölusettum liðum. Í fyrsta lagi kveður kærandi lýsingu á afskiptum dýraeftirlitsmanns þann 30. júní 2010 ekki vera rétta hjá kærða. Það rétta sé að dýraeftirlitsmaðurinn hafi hringt í hana og hún þá verið sannfærð um að hundar hennar væru heima þar sem hún hafi verið nýbúin að gefa þeim að borða og setja þá út í girðingu. Hafi hún því miður ekki áttað sig á því í símtalinu við dýraeftirlitsmanninn að barn úr nágrenninu hafi verið búið að hleypa hundum hennar úr girðingunni. Í öðru lagi vekur kærandi athygli á því að á einum stað hafi kærði í greinargerð sinni talað um að hundurinn hafi glefsað „til“ en ekki glefsað „í“ viðkomandi. Í þriðja lagi tekur kærandi fram að skýringin á því, að hundur hennar hafi ekki verið látinn í skapgerðarmat í lok maí sl. og að engin viðbrögð hafi fengist við bréfi heilbrigðiseftirlitisins til hennar þess efnis, sé sú að hún hafi verið erlendis á þeim tíma og ekki fengið bréfið í hendur. Í fjórða lagi vekur kærandi athygli á að kærði kveðist hafa fengið upplýsingar um að alvarlegt hundsbit hafi átt sér stað þann 24. júlí 2011 en í lögregluskýrslu um þann atburð segi að sárið hafi verið lítið en talsvert mar í kring. Þá gerir kærandi í fimmta lagi athugasemd við birtingu bréfs heilbrigðiseftirlitsins til hennar, dags. 3. ágúst 2011, sem birt var af stefnuvotti. Í sjötta lagi gerir kærandi athugasemd við að í greinargerð kærða segi: „Dýrið virðist ekki árásargjarnt undir stöngu eftirliti. Í báðum tilfellum var dýrið undir strangri gæslu. Ekki er hægt að yfirfæra þær aðstæður á venjulegar aðstæður á heimili“. Athugasemdir kæranda eru að í fyrra tilfellinu hafi hundurinn verið heima hjá sér með syni kæranda og dýraeftirlitsmanni. Í hinu tilfellinu hafi hundurinn verið með dýralækni sem ekki hafi annast hann áður. Kemur kærandi því á framfæri að hún vilji gjarnan fá tækifæri til að vera með hundinum ásamt dýralækni og hundaþjálfara á heimili sínu og láta meta hann bæði í hans umhverfi og annars staðar.

Þá tekur kærandi fram í athugasemdum sínum að hundurinn Golíat sé búinn að vera þrjá mánuði vistaður á hundahóteli á Leirum. Þar sé mikið af ókunnugu fólki bæði að koma og fara á hverjum degi og hafi hundurinn ekki sýnt því nokkra grimmd. Einnig hafi hundurinn á þeim tíma haft hátt í fjörutíu mismunandi hunda sitt hvoru megin við sig og fylgi því mikið áreiti. Greinir kærandi jafnframt frá því að umsjónarmaður á hundahótelinu hafi sagt henni að hann teldi næsta líklegt að Golíat kæmi ekki til með að bíta eða glefsa í nokkurn mann framar og að hann hafi hvorki sýnt grimmd né árásargirni.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að samkvæmt gögnum kærða hafi kærandi haldið tvo hunda á heimili sínu í Garðabæ. Fyrri hundurinn hafi verið skráður þann 28. janúar 2003, en sá seinni, þ.e. hundur sá sem mál þetta varðar, hafi verið skráður þann 14. júlí 2010. Kvartanir um lausagöngu og ónæði vegna hunds kæranda hafi borist árin 2005 og 2007, hafi dýraeftirlitsmaður þá farið á vettvang og svo virst sem málin hefðu skánað. Á árinu 2010 hafi kvartanir borist á ný og hafi hundarnir þá verið orðnir tveir og af þeim stafað ógn að sögn íbúa. Eftirlitsmaður hafi ítrekað haft samband við húsráðanda vegna kvartana og kröfur verið gerðar um úrbætur. Þann 30. júní 2010 hafi dýraeftirlitsmaður fengið ábendingu um lausagöngu hunda kæranda og farið á vettvang. Kærandi hafi þá ekki saknað hunda sinna og vísað kvörtununum á bug. Eftirlitsmaðurinn hafi hins vegar í beinu framhaldi fundið hunda á flækingi, náð að handsama þá og flytja í hundageymslu. Hafi komið í ljós að hundarnir tilheyrðu kæranda, hafi þeir verið sóttir, auk þess sem Golíat, sem þá var tveggja ár gamall, hafi verið skráður. Brýnt hafi verið fyrir kæranda að tryggja gæslu hundanna. Þann 19. ágúst 2010 hafi borist ábending símleiðis um að lausaganga umræddra hunda væri enn til staðar og greindi kvartandi frá því að yngri hundurinn hefði glefsað til hans en nokkur tími væri liðinn frá þeim atburði. Hafi eftirlitsmaður á ný haft samband við kæranda og óskað eftir úrbótum. Síðan segir í greinargerðinni að í maí 2011 hafi farið að berast ítrekaðar kvartanir um lausagöngu Golíats og ógnanir af hans hálfu. Hafi heilbirgðiseftirlitið krafist þess í bréfi til kæranda, dags. 31. maí 2011, að Golíat yrði látinn í skapgerðarmat og að kærandi kæmi til fundar um aðgerðir til úrbóta. Engin viðbrögð hafi orðið við bréfinu. Þann 24. júlí 2011 hafi lögreglu borist tilkynning um að kona hafi verið bitin af hundi, þar sem hún hafi verið á göngu í götu þeirri sem kærandi býr við. Samkvæmt þeim upplýsingum sem heilbrigðiseftirlitið fékk frá lögreglu hafi verið um alvarlegt bit að ræða og enginn vafi á hvaða hundur hafi verið að verki.

Í greinargerðinni segir síðan að þann 28. júlí 2011 hafi framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins og dýraeftirlitsmaður farið á heimili kæranda vegna málsins. Kærandi hafi ekki verið heima en sonur hennar hafi tekið á móti þeim sem þar mættu. Við skoðun hafi Golíat ekki virst vera óöruggur eða árásargjarn inni í húsinu í návist þriggja fullorðinna. Sonur kæranda hafi greint frá því að í fjarveru kæranda væri hundurinn í umsjón bróður hans. Samkvæmt greinargerðinni var alvarleiki málsins brýndur fyrir syni kæranda og honum falin skilaboð um að bróðir hans hefði samband. Auk þess hafi dýraeftirlitsmaðurinn lesið skilaboð inn á síma bróðurins þann 2. ágúst 2011 um að hafa samband. Við skilaboðunum hafi hins vegar ekki verið brugðist. Með bréfi, dags. 3. ágúst 2011, sem heilbrigðiseftirlitið hafi sent bæði kæranda og syni hennar, umsjónarmanni hundsins, með stefnuvotti, hafi þeim verið tilkynnt að heilbrigðiseftirlitið teldi hundinn vera hættulegan vegfarendum og að um alvarleg og ítrekuð brot hafi verið að ræða á samþykkt nr. 154/2000 um hundahald. Jafnframt hafi í bréfinu verið upplýst um ákvæði 14. gr. samþykktarinnar og að kærði myndi taka mál hundsins Golíats fyrir á ráðgerðum fundi sínum þann 29. ágúst 2011 ef mál tengd honum yrðu ekki leyst fyrir þann tíma. Þá kveður kærði að kvartanir um lausagöngu hafi haldið áfram að berast. Þann 9. ágúst 2011 hafi dýraeftirlitsmaður náð að handsama Golíat í lausagöngu og hafi heilbrigðiseftirlitið þá ekki talið fært að afhenda hundinn í ljósi þess sem á undan hafi gengið. Hafi hundinum því verið komið fyrir í gæslu, þar sem hann sé enn og greinir kærði frá því að hundurinn hafi einu sinni á vörslutímabilinu bitið í kálfa dýrahirðis.

Þá gerir kærði grein fyrir því í greinargerðinni að kærandi hafi með erindi til heilbrigðiseftirlitsins lýst aðstæðum sínum og farið fram á að fá Golíat til baka í trausti þess að hægt yrði að gera góðan hund úr honum með þjálfun frá heimili hans. Kærði kveðst hafa tekið mál Golíats fyrir á fundi þann 29. ágúst 2011. Samkvæmt 11. gr. samþykktar um hundahald hafi kærði heimild til að krefjast aflífunar hafi hundur bitið mann og/eða sé hættulegur. Þá kveður kærði að það sé mat kærða að bæði skilyrðin eigi við í tilviki Golíats og því sé krafist aflífunar hans. Það sé mat kærða að hegðunarvandamál dýrsins séu mjög alvarleg og vísar kærði í því sambandi til kvartana um glefs, bit sem gerð sé grein fyrir í lögregluskýrslu og atviks varðandi dýragæslumann.

Um ályktanir dýralæknis samkvæmt vottorði frá 23. ágúst 2011 segir í greinargerðinni að ályktunum dýralæknisins beri saman við heimsókn starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins á heimili kæranda þann 28. júlí 2011. Hundurinn virðist ekki árásargjarn undir ströngu eftirliti, en bæði þegar starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins hafi farið á heimili kæranda og þegar dýralæknirinn hafi gert skapgerðarmat á hundinum hafi hundurinn verið undir strangri gæslu sem ekki sé hægt að yfirfæra á venjulegar aðstæður á heimili. Kærði hafi metið hegðunarvandamál hundsins þannig að hann væri hættulegur ókunnugu fólki og fólki sem hann kæmi að óvörum. Að mati kærða skipti þá ekki máli hvort að um hegðunarvandamál sé að ræða eða grimmd.

Í greinargerð kærða segir einnig að kærði geti á grundvelli 14. gr. samþykktar um hundahald, sé um alvarleg eða ítrekuð brot á samþykktinni að ræða, afturkallað skráningu, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað viðurkenndum af eftirlitsaðila og látið fjarlægja hundinn. Í tilviki Golíats hafi kærði talið að um alvarlegt og ítrekað brot hafi verið að ræða og því verði að fjarlægja hundinn til að tryggja öryggi almennings. Hundur sem hlaupi ógnandi að fólki, losni hann úr gæslu, sé hættulegur og óverjandi að almenningur búi við þær aðstæður. Þá er tekið fram að við það að hundur ógni vegfaranda skapist hræðslu sem geti leitt til alvarlegra slysa t.d vegna falls. Jafnframt segir að þegar hundur hafi komist upp með að glefsa til fólks og bíta sé ekki nægjanlegt að breyta aðeins um umhverfi hundsins og í tilviki Golítas nægi að vísa til hegðunar hans í dýrageymslu. Þá segir að með vísan til meðalhófsreglu hafi kærði talið rétt að banna ekki kæranda að halda hund á eftirlitssvæðinu og sé það gert í trausti þess að tekið verði að festu við að hindra lausagöngu hins hundsins í eigu kæranda.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um samþykktir sveitarfélaga. Þar segir m.a. í 1. mgr. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar hefur verið sett samþykkt um hundahald á Álftanesi, í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000. Í 1. gr. samþykktarinnar segir að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæmi Bessastaðahrepps, Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Kópavogs með skilyrðum samkvæmt samþykktinni.

Í 10. gr. samþykktar nr. 154/2000 er kveðið á um að hundeiganda eða umráðamanni hunds sé skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða að hann raski ekki ró manna með stöðugu eða ítrekuðu gelti eða ýlfri og geti eftirlitsaðili krafist þess að eigandi hunds sæki hlýðninámskeið með hund sinn ef ástæða þyki til.

Þá segir í 11. gr. samþykktar nr. 154/2000 að hafi eigandi ástæðu til að ætla að hundur hans sé grimmur eða varasamur skuli hann sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns. Enn fremur segir í þeirri grein að hafi hundur bitið mann og/eða sé hættulegur geti eftirlitsaðili, tjónþoli eða forráðamaður hans krafist þess að hundurinn verði aflífaður. Óski hundeigandi þess skuli leita álits sérfróðs aðila, dýralæknis eða hundaþjálfara sem heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis viðurkenni, áður en ákvörðun um aflífun sé tekin.

Í 14. gr. samþykktar nr. 154/2000 segir síðan að sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykktinni að ræða eða sinni hundeigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðun hunds geti heilbrigðisnefnd afturkallað skráningu, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila eða látið fjarlægja hundinn.

Í máli því sem hér er til úrlausnar hefur ítrekað verið kvartað til heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis yfir því að hundurinn Golíat sé laus, hann ógni fólki og gelfsi eða bíti í fólk. Á tímabilinu maí til ágúst 2011 bárust a.m.k. sex slíkar tilkynningar til yfirvalda. Á því tímabili dvaldi kærandi erlendis en hafði falið 18 ára gömlum syni sínum að annast hundinn og hafa eftirlit með honum. Kærandi hefur sjálf viðurkennt að það hafi verið mistök af hennar hálfu að fela syninum að bera ábyrgð á hundinum þennan tíma.

Heilbrigðiseftirlitið skrifaði tvö bréf til kæranda, dags. 31. maí og 3. ágúst 2011, og fór auk þess á heimili hennar þann 28. júlí 2011. Í fyrra bréfinu er vísað til þess að heilbrigðiseftirlitið hafi fengið kvartanir vegna lausagöngu Golíats, ógnana sem gangandi vegfarendum stafi af honum og þess að hann hafi glefsað til vegfaranda. Segir í bréfinu að nauðsynlegt sé að Golíat fari í skapgerðarmat hjá þar til bærum aðila og í framhaldi þess mæti eigandi hans til heilbrigðiseftirlitsins til að kynna og fara yfir þær ráðstafanir sem gera þurfi til að koma í veg fyrir að atburðir þeir sem kvartað hafi verið yfir endurtaki sig. Í síðara bréfinu segir að heilbrigðiseftirlitið telji ljóst að hundurinn Golíat sé hættulegur vegfarendum og sé um að ræða alvarleg og ítrekuð brot á samþykkt nr. 154/2000 um hundahald í Garðabæ. Þá segir að kærði muni taka mál hundsins fyrir á ráðgerðum fundi sínum þann 29. ágúst 2011 hafi mál tengd hundahaldinu ekki verið leyst fyrir þann tíma og er kæranda og umráðamanni hundsins veitt tækifæri til að grípa til viðeigandi ráðstafana svo ekki verði þörf á frekari ákvörðun af hálfu kærða.

Eins og að framan greinir var kærandi stödd erlendis þegar framangreind bréf voru send henni. Bárust bréfin af þeim sökum ekki til hennar og hún brást ekki við efni þeirra fyrr en hún kom til landsins nokkrum dögum eftir að Golíat hafði verið handsamaður af dýraeftirlitsmanni og fluttur í dýragæslu í ágúst 2011. Umráðamaður hundsins sinnti ekki heldur efni framangreindra bréfa né heldur skilaboðum sem lögð voru fyrir hann um að hafa samband við eftirlitsaðila.

Strax og kærandi kom til landsins, um miðjan ágúst 2011, setti hún sig í samband við heilbrigðiseftirlitið, sem veitti henni samskonar tækifæri og fólust í framangreindum bréfum eftirlitsins til hennar. Var henni gefinn kostur á að koma til fundar hjá heilbrigðiseftirlitinu og láta gera skapgerðarmat á hundinum, auk þess sem henni var veitt tækifæri til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri áður en mál hundsins og hundahald hennar yrði tekið fyrir á fundi kærða.

Kærandi nýtti þau tækifæri sem henni voru veitt og leitaði hún til Katrínar Harðardóttur, dýralæknis, sem framkvæmdi skapgerðarmat á Golíat þann 23. ágúst 2011. Í vottorði sem dýralæknirinn gaf út af því tilefni segir:            „Það vottast hér með að ofangreindur hundur hafi farið í skapgerðarmat í dag á Hundahótelinu Leirum. Samkvæmt eiganda hefur hundurinn sloppið af heimilinu og glefsað í hælana á tveimur manneskjum. Við skoðun virðist hundurinn vera sjálfsöruggur og vakandi fyrir umhverfinu. Hann sýnir engin merki um grimmd við veruleg áreiti frá minni hálfu. Hann var ekki óöruggur eða árásargjarn þegar var hlaupið að honum eða burt frá honum. Ég tel að glefsið sé frekar hegðunarvandamál en grimmd. Það er mitt álit að hundurinn hefur ekki fengið nægilegt uppeldi og þjálfun. Til þess að minnka áhuga hundsins á að strjúka af heimilinu ætti að gelda hann. Einnig tel ég að hann hefði gott af því að fara á hlíðni námskeið hjá hundaþjálfara.“

Í máli þessu verður ekki framhjá því litið að samkvæmt gögnum málsins hefur ítrekað verið kvartað til yfirvalda vegna hundsins Golíats og ítrekaðra brota á framangreindu ákvæði 10. gr. samþykktar um hundahald nr. 154/2000, þar sem m.a. er kveðið á um að hundeiganda eða umráðamanni hunds sé skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu og óþægindum. Þá hafa einnig komið upp ítrekuð tilvik þar sem hundurinn hefur glefsað í fólk og jafnvel bitið og verður hann því að teljast hættulegur í skilningi framangreindrar 11. gr. samþykktar um hundahald nr. 154/2000. Hafa yfirvöld ítrekað þurft að hafa afskipti af hundahaldi kæranda og hefur af þeirra hálfu verið brýnt fyrir kæranda að tryggja gæslu hundsins.

Fyrir liggja upplýsingar um að uppeldi hundsins Golíats hafi lítið sem ekkert verið sinnt og verður það að teljast ámælisvert þegar um þriggja ára gamlan hund er að ræða. Þá er ljóst, samkvæmt því sem að framan er rakið, að kæranda hefur ekki tekist að tryggja gæslu hundsins. Einnig má ljóst vera þegar litið er til hinna ítrekuðu brota á samþykkt um hundahald nr. 154/2000, þess að hundurinn hafi ítrekað glefsað í fólk og einnig bitið, að hundurinn hafi ógnað fólki. Telur úrskurðarnefndin það ekki geta haft áhrif á úrlausn málsins hvort þá ógn megi rekja til hegðunarvandamála hundsins, sem orðinn er þriggja ára gamall, eða grimmdar af hans hálfu. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta skuli hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis þess efnis að aflífa skuli hund Önnu Margrétar Kristinsdóttur, Golíat, sem skráður er nr. 5126.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                                 Arndís Soffía Sigurðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta