3/2006
Mál nr. 3/2007.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2007, fimmtudaginn 15. nóvember kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.
Fyrir var tekið mál nr. 3/2006 Oddur Björgvin, kt., 010257-3879, Skólavegi 27, Vestmannaeyjum, hér eftir nefndur kærandi, gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Austurvegi 56, Selfossi, hér eftir nefnt kærði.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
I. Aðild kærumáls og kröfur
Með stjórnsýslukæru, dags 21. júní 2007, kærði Oddur Björgvin, (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, (hér eftir nefnd kærði) frá 20. febrúar 2007 að leyfa reykingar í afmörkuðu rými í húsnæði AA samtakanna að Heimagötu 24, Vestmannaeyjum.
Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að ákvörðuninni verði hnekkt og að úrskurðanefnd kveði á um það að reykingar í húsnæðinu séu bannaðar.
Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:
1. Stjórnsýslukæra dags. 21.06. 2007
2. Bréf kæranda dags. 20.07 2007
3. Athugasemdir kærða dags. 03.09.2007
Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.
II. Málsmeðferð
Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 21. júní 2007 eða 4 mánuðum eftir hina kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefnd hefur ákveðið að taka kæruna til meðferðar þó hún hafi borist að liðnum kærufresti. Að mati nefndarinnar er afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr þar sem vanrækt var að veita leiðbeiningar um kæruheimild.
III. Málsatvik
Með bréfi dags. 15.12.2006 til kærða fór kærandi formlega fram á, með vísan til 9 gr. laga 6/2002 um tóbaksvarnir, að reykingar í húsnæði AA samtakanna að Heimagötu 24, Vestmannaeyjum yrðu bannaðar.
Kærði svaraði erindi kæranda með bréfi dagsettu 2. janúar 2007. Í svari kærða kemur m.a. fram að samkvæmt lögum séu tóbaksreykingar í félagsheimilum bannaðar. Jafnframt var tekið fram að Heilbrigðiseftirlitið mundi beina þeim tilmælim til AA samtakanna í Vestmannaeyjum að reykingar í húsnæðinu yrðu alfarið bannaðar.
20. febrúar 2007 barst kæranda annað bréf frá kærða. Í því kemur fram að kærða hafi borist önnur kvörtun en nú vegna v. banns við reykingum. Kvörtunin sé byggð á þeirri forsendu að margir félagar í AA samtökunum eigi erfitt með að hætta samhliða að drekka og reykja. Kærði hafi því ákveðið að leyfa reykingar í afmörkuðu rými í húsnæðinu. Í bréfinu er framangreind ákvörðun tilkynnt en ekki eru leiðbeiningar um kæruheimild.
Með stjórnsýslukæru dags. 21.06.2007 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. Með bréfi nefndarinnar dagsettu 13.07.2007 var óskað eftir tilteknum upplýsingum frá kæranda. Svar barst frá kæranda 25.07.2007.
Kærða var með bréfi dags. 27.08.2007 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 05.09.2007.
Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 07.09.2007 og bárust athugasemdir þann 15.09.2007.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun kærða frá 20. febrúar 2007 um að leyfa reykingar á afmörkuðu svæði í húsnæði AA samtakanna að Heimagötu 24 í Vestmannaeyjum verði hnekkt.
Kærandi byggir kröfu sína á 9. gr. laga um tóbaksvarnir nr. 6/2002. Í ákvæðinu komi fram að tóbaksreykingar séu óheimilar í þjónusturými félagasamtaka þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram. Húsnæði AA samtakanna að Heimagötu 24, Vestmannaeyjum falli undir þessa skilgreiningu.
V. Málsástæður og rök kærða.
Kærði tekur fram að með bréfi sínu til AA samtakanna dags. 2. janúar 2007 þar sem reykingar í húsnæðinu voru takmarkaðar hafi embættið gert ríkari kröfur en efni stóðu til og hafi það verið leiðrétt á fundi með forsvarsmanni AA samtakanna þann 14. febrúar. Eftir þann fund hefði verið fallist á að reykingar yrðu heimilaðar í afmörkuðu rými enda ekki um sama rými að ræða og þjónusturými skv. 9. gr. laganna. Sameiginlegur skilningur aðila var að hið afmarkaða rými væri herbergi inn af kaffistofu og þar þyrfti enginn að fara inn nema til að reykja
Þá tók kærandi fram að umrætt hús væri ekki á skrá hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands sem félagsheimili né að þar fari fram starfsleyfisskyld starfsemi. Umrætt hús væri einbýlishús, lánað af Vestmannaeyjabæ til AA samtakanna og ekki notað í neitt annað.
Kærði vísar til 18. gr. laga 6/2002 þar sem fram komi að heilbrigðisnefndir, Vinnueftirlit ríkisins, Siglingastofnun Íslands og Flugmálastjórn hafi, eftir því sem við á, eftirlit með því að virt séu ákvæði III. kafla laganna í samræmi við þau lög sem gilda um þessar stofnanir. Kærði lítur svo á að hvorki húsnæðið né AA samtökin séu stofnun í skilningi laganna og því beri að horfa til 11. gr. l. 6/2002 þar sem fram komi að forráðamenn húsnæðis, sem almenningur hefur aðgang að en fellur ekki undir 9. og 10. gr. laga þessara, geti sjálfir ákveðið að takmarka reykingar í húsnæðinu. Skal slíkt látið greinilega í ljós á staðnum og tilkynnt heilbrigðisnefnd eða Vinnueftirliti ríkisins eftir því sem við á skv. 1. mgr. 18. gr. og gilda þá ákvæði þessara laga þar sem við á.
VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar.
Samkvæmt 1. gr. laga 6/2002 um tóbaksvarnir er markmiðlaganna að draga úr heilsutjóni og virða rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra.
Í 9. gr. laganna kemur fram sú regla að tóbaksreykingar séu óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins er banninu ætlað að ná til staða sem almenningur hefur aðgang að m.a. vegna félagsstarfsemi.
Húsnæðið að Heimagötu 24 í Vestmannaeyjum er einbýlishús, lánað af Vestmannaeyjabæ til AA samtakanna. Húsnæðið er einungis notað undir starfsemi samtakanna. AA samtökin eru samtök þar sem félagsstarfsemi fer fram og falla að mati nefndarinnar undir skilgreiningu 9. gr. laganna. Í húsnæðinu eru haldnir fundir sem opnir eru öllum. Úrskurðanefnd telur að húsnæðið að Heimagötu falli undir skilgreiningu 9. gr. laganna um félagssamtök og að tóbaksreykingar séu óheimilar í þjónusturými þess.
Úrskurðanefnd fellst því ekki á þá málsástæðu kærða að húsnæðið falli ekki undir 9. og 10. gr. l. 6/2002 og að 11. gr. sl. eigi við.
Í 10. mgr. 2. gr. l. 6/2002 kemur fram skilgreining á þjónusturými. Samkvæmt ákvæðinu er þjónusturými öll húsakynni undir þaki, föstu eða hreyfanlegu, svo og samkomutjöld og sýningartjöld, sem almenningur hefur aðgang að vegna viðskipta og veittrar þjónustu og þátttöku í menningar- og félagsstarfsemi, þ.m.t. áhorfendasvæði, biðstofur, gestamóttaka, forstofur, gangar, snyrtiherbergi o.fl. Skilgreining laganna er rúm og upptalning í ákvæðinu ekki tæmandi. Svo sem fram er komið hafa reykingar verið leyfðar í herbergi inn af eldhúsi. Úrskurðanefnd telur að umrætt herbergi tilheyri þjónusturými húsnæðisins. Það er inn af eldhúsi og líklegt að tóbaksreykur eigi greiða leið um allt hús.
Með vísun til þess, sem að framan greinir er það niðurstaða nefndarinnar að fallast á kröfu kæranda. Ákvörðun kærða er felld úr gildi. Reykingar í húsnæði AA samtakanna að Heimagötu 24, Vestmannaeyjum eru bannaðar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 20. febrúar 2007 að leyfa reykingar í afmörkuðu rými í húsnæði AA samtakanna að Heimagötu 24, Vestmannaeyjum er felld úr gildi.
Reykingar í húsnæði AA samtakanna að Heimagötu 24, Vestmannaeyjum eru bannaðar.
___________________________________
Steinunn Guðbjartsdóttir
__________________________ ___________________________
Gunnar Eydal Guðrún Helga Brynleifsdóttir