Nr. 5/2002.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2004 miðvikudaginn 19. maí, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík. Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.
Fyrir var tekið mál nr. 5/2002 Faxi ehf. gegn Bæjarveitum Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabæ.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
Úrskurður
I.
Erindi lögmanns Faxa ehf., hér eftir nefndur kærandi barst nefndinni m. bréfi dags. 16. september, 2002. Gögn sem með fylgdu eru :
1) Afrit af bréfi Faxa ehf. dags. 07.07.2000.
2) Afrit af svarbréfi Bæjarveitna dags. 12.07.2000.
3) Afrit af bréfi Geisla dags. 24.07.2000.
4) Afrit bréf Bæjarveitna dags. 31.07.2000..
5) Afrit af bréfi Geisla dags. 09.08.2000.
6) Afrit af bréfi lögmanns Faxa ehf. dags. 22.01.2001.
7) Afrit af bréfi Bæjarveitna dags. 29.01.2001.
8) Afrit af bréfi lögmanns Faxa ehf. dags. 20.06.2001.
9) Afrit af bréfi Bæjarveitna dags. 27.06.2001.
10) Afrit af bréfi lögmanns félags kaupsýslumanna dags. 01.08.2001.
11) Afrit af bréfi lögmanns Faxa ehf. dags. 02.08.2001.
12) Afrit af bréfi Bæjarveitna dags. 15.09.2001.
13) Afrit af bréfi lögmanns dags. 26. 10.2001.
14) Afrit tölvupósts frá bæjarstjóra og stjórnarformanni bæjarveitna dags. 01.02.2002.
15) Afrit af bréfi lögmanns Faxa ehf. dags. 03.06.2002.
Afrit gagna þessara voru send Bæjarveitum Vestmannaeyja til umsagnar með bréfi dags. 1. febrúar 2003. Greinargerð Bæjarveitna, hér eftir nefndur kærði, er dags. 31. október 2003. Greinargerð sú var send lögmanni kæranda sem svaraði með greinargerð dags. 24. 11. 2003.
II.
Í erindi lögmanns kæranda sem tekið var sem stjórnsýslukæra, er óskað úrskurðar um ágreining aðila um álagningu sorpeyðingargjalda. Kveður lögmaður kæranda að breytingar hafi orðið á álagningu sorpeyðingargjalda á árinu 2000 á grundvelli nýrrar gjaldskrár Bæjarveitna Vestmannaeyja sem byggst hafi á rúmmálsmagni sorps. Lögmaður kveður kæranda hafa mótmælt gjaldinu með bréfi sínu dags. 7. júlí, 2000, en þá hafi og verið óskað endurgreiðslu á 2/3 hlutum sorpeyðingargjalds. Hafið gjaldið hækkað úr kr. 56.025,- í kr. 203.289,- fyrir árið 2000, en starfsemi kæranda hafi lítið eða ekkert breyst. Erindi kæranda hafi verið svarað með því að greiðsluseðill væri í fullu samræmi við það sorpmagn sem borist hafi árið 1999 og yrði fjárhæð því ekki leiðrétt. Í framhaldinu hafi kærandi óskað upplýsinga um hvaða starfsmenn hafi komið með sorp og hvenær og jafnframt var óskað eftir kvittunum fyrir móttöku sorps. Í svarbréfi kærða kom fram að um væri að ræða aðferð sem bæjaryfirvöld hefðu komið sér upp til að skipta kostnaði við sorpeyðingu sem réttast milli þeirra aðila sem greiða eigi fyrir þjónustu. Ennfremur fylgdi með tafla yfir sorp sem Geisli fyrirtæki kæranda átti að hafa skilað af sér á árinu 1999. Í bréfi lögmanns kæranda frá 22. janúar 2001 er greint frá því að ágreiningurinn í málinu snúist um magn sorps sem metið væri frá kæranda til grundvallar álagningu sorpeyðingargjaldsins. Óskað var eftir upplýsingum um aðferðir við mælinguna, og kröfur um aðferðir. Ennfremur var óskað eftir rökstuðningi um hvernig sorpmagn sé fundið út og á hvaða forsendum mæling hafi farið fram, þar sem ágreiningur snúist um þá framkvæmd. Í svarbréfi kærða kemur fram að gjald fyrirtækja standi aðeins undir 80% þess kostnaðar sem af sorpeyðingu fyrirtækja hljótist. Gjaldinu sé skipt á fyrirtæki eftir skráningu sem framkvæmd sé, en slíkt verði að teljast mun nákvæmari aðferð en sú áætlun sem áður hafi verið notuð og hafi byggt á huglægu mati þeirra sem gjaldið hafi ákveðið. Kemur fram að ekki sé tekið gjald umfram kostnað og gjaldinu skipt réttlátlega milli aðila eftir hlutfalli af heildarmagni sorps sem tekið hafi verið á móti. Enn á ný ritaði lögmaður kæranda bréf nú fyrir hönd annarra hagsmunaaðila í Vestmannaeyjum. Í bréfi kærða kemur fram að mat á magni sorps frá hverju fyrirtæki fyrir sig sé sjónrænt mat og vegna gagnrýni á matsaðferðir verði komið upp vikt til þess að um nákvæmari aðferðir verði að ræða við ákvörðun magns sorps.
III.
Greinargerð kærða er dagsett 31. október 2003. Gerir kærði þá kröfu að erindi kæranda verði vísað frá nefndinni. Telur kærði að hvorki verði með góðu móti ráðið hvaða ágreiningi sé skotið til nefndarinnar né hvers sé krafist. Fari lögmaður kæranda fram á að álagning sorpeyðingargjalda verði skoðuð þar sem brotinn hafi verið réttur á kæranda með álagningu gjaldanna og að slík álagning sé óréttmæt og órökstudd. Telur kærði óljóst til hvaða ára kæra lögmannsins taki og hver raunveruleg afmörkun kæruefnisins sé. Vísar kærði til þess að álíta megi að farið sé fram á úttekt nefndarinnar á sorpeyðingarmálum Vestmanneyinga. Þá gerir kærði þá kröfu að erindi verði vísað frá nefndinni þar sem kærufrestur sé liðinn.
Kærði kveður að í stuttu máli megi segja að sorpeyðingargjald í Vestmannaeyjum byggist á gjaldskrá sem kveði á um að notendur sorpeyðingarstöðvarinnar í Vestmannaeyjum skuli greiða fyrir þá þjónustu sem þeir nota. Til að finna út álagningu hvers notanda fari fram skráning á magni þess sorps sem notendur komi með til eyðingar og hvernig það sé meðhöndlað. Hafnar því kærði alfarið að álagning gjaldanna sé órökstudd, sem og að álagning byggist á áætlun kærða. Kærði kveður að allt frá árinu 1993 hafi sorpeyðingargjöld verið lögð á alla atvinnustarfsemi í Vestmannaeyjum. Hafi gjaldið í upphafi verið miðað við áætlað sorpmagn frá hverjum og einum greiðanda og eyðingargjald innheimt samkvæmt því. Álagning hafi því alfarið verið byggð á huglægu mati. Vegna óánægju greiðenda og ónákvæmni í slíkri gjaldtöku hafi verið leitað nýrra leiða við að ákvarða álagningu sorpeyðingargjalds í Vestmannaeyjum. Hafi gjaldskráin fyrst í stað verið ákvörðuð með þeim hætti að gjaldskrárstofn ársins hafi verið ákveðinn skv. fjárhagsáætlun sorpeyðingarstöðvarinnar og hafi fyrirtæki stofnanir og lögaðilar í Vestmannaeyjum verið látin greiða 55% af kostnaði, en 45 % hafi fallið á hinn almenna íbúa Vestmannaeyjabæjar og sé sá hluti innheimtur í gegnum fasteignagjaldstofn hvers árs. Kostnaðarsamsetning hafi verið fundin út af ráðgjafarfyrirtæki. Þá kemur ennfremur fram í greinargerð kærða að til þess að koma í veg fyrir að álagning vegna sorpeyðingar yrði ákveðin með huglægu mati starfsmanna bæjarveitna hafi verið ákveðið að starfsmenn í mótttökusal sorpeyðingarstöðvarinnar hæfust handa við að skrá magn þess sorps er komið væri með til eyðingar. Jafnframt hafi fjöldi losana verið skráður sem og hvort þurft hafi að meðhöndla sorpið með einhvejrum hætti. Þessi skráning hafi alla tíð síðan verið höfð til hliðsjónar þegar álagning sorpeyðingargjalda sé ákvörðuð ár hvert. Á grundvelli þessarar skráningar hafi verið hægt að ákvarða álagningu hvers og eins notanda með meiri nákvæmni en áður en jafnframt hafi það gerst að kostnaður hafi verið lagður meira á notendur frekar en að bæjarsjóður tæki á sig beinan kostnað við rekstur stöðvarinnar. Vegna þessa hafi sorpeyðingargjald hækkað hjá ákveðnum fyrirtækjum stofnunum og lögaðilum v. ársins 2000. Sú hækkun hafi hins vegar alfarið verið byggð á þessum skráningum.
Kærði bendir á að öllum fyrirtækjum stofnunum og lögaðilum hafi verið send auglýsing árið 1999 þar sem fyrirhugaðar breytingar á gjaldskrá hafi verið kynntar. Ennfremur að í dag sé í gildi gjaldskrá fyrir sorphirðu í Vestmannaeyjum nr. 352/2001 sem byggi á þeim grunni sem lýst hafi verið í þessari greinargerð.
Kærði vísar í greinargerðinni til þess sem fram komi í erindi lögmanns kæranda að sorpeyðing sé meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga og sé sveitarfélögum heimilt að leggja þjónustugjald á fyrirtæki og íbúa þess vegna veittrar þjónustu. Þau gjöld megi þó aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við slíka þjónustu. Bendir kærði ennfremur á að sveitarfélögum sé veitt heimild til tekjuöflunar með innheimtu þjónustugjalda fyrir þjónustu sem þau veiti. Þessi gjöld sé heimilt að innheimta hjá tilteknum hópum einstaklinga eða lögaðila fyrir sérgreint endurgjald sem látið sé í té af sveitarfélögum og sé greiðslunni ætlað að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við endurgjaldið sbr. 25. gr. l nr. 7/1998.
Kærði kveður að sé litið til markmiða með gjaldskrám vegna sorpeyðingargjalda í Vestmannaeyjum hafi ávallt verið leitast við að hafa gjaldskrá sanngjarna þannig að kostnaði við sorpeyðingu sé réttilega skipt niður á fyrirtæki, stofnanir og lögaðila eftir umfangi þess sorps sem frá þeim stafar. Hafi bæjaryfirvöld sett sér þá stefnu að tekjur af sorpeyðingargjöldum lögaðila stæðu undir a.m.k. 80% af raunkostnaði við eyðingu á sorpi. Til þess að ná fram þessum markmiðum hafi álagning sorpeyðingargjalda verið byggð á skráningu á því sorpmagni sem borist hafi frá hverju og einu fyrirtæki, stofnunum, lögaðilum eða einstaklingum sem stundi atvinnurekstur og hvernig sorpið hafi verið meðhöndlað. Þessar tölur séu síðan árlega notaðar við ákvörðun álagningar sorpeyðingargjalda fyrir hvern og einn greiðanda.
Kærði telur mikilvægt að gera því góð skil hvernig gjaldskrá fyrir sorphirðu í Vestmannaeyjum sé byggð upp, og vísar til þess að í 3. gr. gjaldskrárinnar segi að sorpeyðingargjald fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök miðist við magn úrgangs, en upphæð magngjaldsins fari eftir heildar sorpmagni sem til eyðingarstöðvar berst ár hvert. Því séu gjaldendur í reynd að greiða fyrir hlutdeild í sorpeyðingu á heildar sorpmagni sem stöðinni berst.
Kærði getur þess sérstaklega að gámaþjónustan í Vestmannaeyjum sem sjái um skráninguna hafi enga beina hagsmuni af skráningunni þar sem greiðsla til fyrirtækisins sé ekki háð því magni sem til eyðingar berist. Vísað er til langrar starfsreynslu starfsmanna fyrirtækisins og því lýst yfir að fjarri lagi sé að skráningin byggist alfarið á huglægu mati starfsmanna heldur byggist hún á athugun starfsmanna á magni þess sorps sem aðilar koma með til eyðingar og meðhöndlun þess sorps.
Í niðurlagi greinargerðar sinnar segir kærði að rétt sé að halda því til haga að tilgangur gjaldskrár og áðurlýsts fyrirkomulags sé einfaldlega að koma sorpmálum í Vestmannaeyjum í sem best horf þannig að þeir aðilar sem nýti sér þjónustu sorpeyðingarstöðvarinnar greiði fyrir notkun sína. Notkun sé fundin út með einfaldri skráningu við komu aðila með sorp til stöðvarinnar enda hafi ekki verið sýnt fram á að slík skráning sé röng eða ólögleg, þvert á móti verður að telja að hér sé notaður mælikvarði sem byggir á raunverulegri notkun hvers notanda og hann sé til þess fallinn að koma á sem réttlátastri skiptingu milli notenda í raunkostnaði við sorpeyðingu í Vestmannaeyjum.
IV.
Kröfugerð kæranda í kæru er ekki nægilega ljós. Fram kemur þó í svarbréfi lögmanns kæranda dags. 24.11.2003 að kvörtunin lúti að því að ekki sé lagagrundvöllur fyrir álagningu sorpeyðingagjalds án raunverulegrar magnmælingar. Kæran eða erindið snúi því að sjálfsögðu að því hvort slíkt sé heimilt eða ekki og taki til gjalda sem lögð voru á, á grundvelli nýrrar gjaldskrár, fyrst vegna gjalda sem innheimt voru árið 2000.
Kærði krefst þess að málinu verði vísað frá nefndinni þar sem ágreiningur eða kröfugerð séu ekki skýr og ennfremur að kærufrestur hafi verið liðinn þegar erindi kæranda kom fram. Ekki þykja vera þeir anmarkar á kröfugerðinni að málið sé ekki tækt til úrlausnar hjá nefndinni. Ekki er heldur fallist á að kærufrestur hafi verið liðinn. Kröfum um frávísun er því hafnað.
Í 25. gr l. nr. 7/1998 segir að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrár um innheimtu gjalda að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefnda. Gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.
Í gjaldskrá fyrir sorphirðu í Vestmananeyjum nr. 352/2001 miðast sorpeyðingargjald fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök við magn úrgangs. Magngjald (hámark) sé kr. 15.000,- fyrir hverja 10m3 (10.000 lítra) sorps. Upphæð magngjaldsins fari eftir heildarsorpmagni sem til stöðvarinnar berist. Þá er greint frá meðhöndlunargjaldi.
Gjöld vegna veittrar þjónustu sveitarfélaga mega ekki vera umfram veitta þjónustu. Fram kemur í lýsingu kærða að sú aðferð sem viðhöfð er við ákvörðun gjaldsins "að sorpeyðingagjald fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök miðist við magn úrgangs, en upphæð magngjaldsins fari eftir heildarsorpmagni sem til eyðingastöðvar berst hvert ár. Því séu gjaldendur í reynd að greiða fyrir hlutdeild í sorpeyðingu á heildar sorpmagni sem stöðinni berast". Gjaldtaka af því tagi sem hér um ræðir, að fyrirtækjum, stofnunum og félagsamtökum sé gert að greiða fyrir þjónustu sveitarfélagsins á grundvelli áætlaðrar hlutdeildar í veittri þjónustu sveitarfélagsins, fær ekki stoð í 25. gr. laga nr. 7/1998. Heimildin til gjaldtöku á grundvelli lagaákvæðisins byggir á því að gjaldtakan sé ákvörðuð vegna tiltekinnar, afmarkaðrar þjónustu sem sveitarfélagið er að veita hverju sinni. Fallast verður á það með kæranda að raunveruleg magnmæling sorps sé nauðsynleg til þess að skilyrði laganna um þetta atriði verði haldin. Með vísan til þess er fallist á kröfu kæranda um að raunveruleg magnmæling sorps verði að liggja til grundvallar gjaldi fyrir sorpeyðingu.
Úrskurðarorð:
Fallist er á það með kæranda að heimild sveitarfélaga til gjaldtöku á grundvelli 25.gr. laga nr. 7/1998 skuli byggja á því að verið sé að veita tiltekna, afmarkaða þjónustu hverju sinni. Raunveruleg magnmæling verði því að liggja til grundvallar gjaldi fyrir sorpeyðingu.
_____________________
Lára G. Hansdóttir
_________________________ ________________________
Gunnar Eydal Guðrún Helga Brynleifsdóttir