21/2011
Mál nr. 21/2011.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2012, mánudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir. Fyrir var tekið mál nr. 21/2011 Rakel Jónsdóttir, Fannafold 176, Reykjavík gegn heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
I. Aðild kærumáls og kröfur
Með stjórnsýslukæru, dags. 31. október 2011, kærði Rakel Jónsdóttir (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur (hér eftir nefnd kærði) frá 1. september 2011, þess efnis að staðfesta ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 3. ágúst 2011, sem varðar leyfi kæranda til hundahalds. Krefst kærandi ógildingar ákvörðunarinnar en kærði krefst staðfestingar hennar.
II. Málsmeðferð
Kæra málsins er dagsett 31. október 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 7. nóvember 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 18. nóvember 2011, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 23. nóvember 2011. Kærandi gerði athugasemdir, dags. 16. desember 2011, við greinargerð kærða og voru þær kynntar kærða með bréfi, dags. dags. 27. desember 2011. Barst úrskurðarnefndinni viðbótargreinargerð frá kærða, dags. 13. janúar 2012.
III. Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins var kæranda veitt leyfi til hundahalds í Reykjavík á árinu 2003 vegna hundsins Blíðu, skráningarnúmer 4504. Í kjölfar kvartana um lausagöngu hundsins í mars 2009 og eftirlitsferðar hundaeftirlitsmanns, þar sem staðreynt var að hundur kæranda var laus fyrir utan heimili hennar, ritaði hundaeftirlitsmaðurinn bréf til kæranda, dags. 19. mars 2009. Í því bréfi var kæranda gerð grein fyrir að borist hefði kvörtun um að hundur hennar ylli nágrönnum ónæði og óþægindum og að við eftirlit hefði kvörtun verið staðfest af hundaeftirlitsmönnum. Í bréfinu var kæranda jafnframt leiðbeint um ákvæði 13. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 og að ítrekuð brot á samþykktinni gætu leitt til afturköllunar á leyfi til hundahalds. Fleiri kvartanir bárust yfirvöldum vegna hunds kæranda og ritaði hundaeftirlitsmaður á ný bréf til hennar, dags. 21. júní 2010, þar sem gerð var grein fyrir kvörtunum vegna hundsins. Í bréfinu var athygli kæranda vakin á ákvæðum 13. gr. og 20. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík. Í báðum bréfunum var óskað eftir því, að hafði kærandi athugasemdir fram að færa við erindi bréfanna, yrðu þær sendar skriflega til umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar innan tveggja vikna frá dagsetningum þeirra. Kvartað var á ný til yfirvalda vegna lausagöngu hunds kæranda í ágúst 2010, svo og í júní og júlí 2011. Fóru hundaeftirlitsmenn í eftirlitsferð þann 16. júní 2011 og ræddu þá við eiginmann kæranda.
Þann 3. ágúst 2011 ritaði hundaeftirlitsmaður, f.h. heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, á ný bréf til kæranda vegna ítrekaðra brota á samþykkt um hundahald og fyrirhugaðrar sviptingar leyfis til hundahalds. Í bréfinu var kæranda gerð grein fyrir kvörtunum sem borist höfðu vegna hundahalds hennar og vísað var til fyrri bréfa hundaeftirlitsmanns til hennar og eftirlitsferðar 16. júní 2011, auk þess sem athygli kæranda var vakin á ákvæðum 13. og 20. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík. Í bréfinu sagði að í ljósi endurtekinna brota og engra viðbragða við erindum heilbrigðiseftirlitsins, með bættu hundahaldi, væri fyrirhugað að svipta kæranda leyfi til hundahalds í Reykjavík. Þá var í bréfinu óskað eftir, að hefði kærandi athugasemdir fram að færa við ákvarðanir þær sem bréfið varðaði, yrðu þær sendar skriflega til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins. Engin viðbrögð bárust heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur frá kæranda vegna þessa bréfs eftirlitsins til hennar. Hundahald kæranda var í framahaldi þessa rætt á fundi kærða þann 1. september 2011. Í fundargerð þess fundar var bókað að lagt hefði verið fram bréf heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 3. ágúst 2011, og að kærði staðfesti ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins einróma. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sendi kæranda bréfi, dags. 2. september 2011, þar sem henni var gerð grein fyrir samþykkt kærða frá 1. september 2011. Í bréfinu var tekið fram að hefði kærandi athugasemdir eða andmæli fram að færa skyldi þeim komið á framfæri við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins.
Kærandi brást við bréfi heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 2. september 2011, með bréfi til umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, dags. 16. september 2011. Í því bréfi kvaðst kærandi telja að við málsmeðferðina hefði verið brotið gegn ákvæðum 10., 12., 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo og 2. mgr. 20. gr. sömu laga. Jafnframt kvaðst kærandi telja að í bréfinu frá 2. september 2011 hefði henni verið veittur andmælaréttur til málamynda, þar sem þá hefði verið búið að taka ákvörðun í málinu. Af hálfu heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur var erindi kæranda frá 16. september 2011 svarað með bréfi, dags. 7. október 2011. Í því bréfi var gerð grein fyrir rökum kærða fyrir því að svipta kæranda leyfi til að halda umræddan hund og fram að málið teldist upplýst af hálfu heilbrigðiseftirlitsins og að kærandi hefði haft nokkur ár til að bæta hundahald sitt án árangurs. Þá var tekið fram að kæranda hafi verið veittur andmælaréttur í bréfum og hún fengið útskýringar bæði í bréfum og samtölum að hverju kvartanir hafi beinst, auk þess sem vísað hafi verið til þeirra ákvæða í hundasamþykkt sem brotið hafi verið gegn og kæranda verið leiðbeint um kæruheimildir.
IV. Málstæður og rök kæranda
Í kæru kveðst kærandi telja að bæði heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi þverbrotið ákvæði stjórnsýslulaga gagnvart henni og því beri úrskurðarnefndinni að ógilda hina kærðu ákvörðun. Vísar kærandi í því sambandi til bréfs hennar til umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkur, dags. 16. september 2011, þar sem m.a. kom fram að hún teldi kærða hafa brotið ákvæði 10., 12., 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga, svo og 2. mgr. 20. gr. sömu laga, við meðferð málsins. Þá gerir kærandi grein fyrir því að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi svarað bréfi hennar frá 16. september 2011, með bréfi, dags. 7. október 2011, og að í því bréfi hafi verið vísað til bréfa heilbrigðiseftirlitsins til hennar, dags. 19. mars 2009, 21. júní 2010, 3. ágúst 2011 og 2. september 2011.
Kærandi heldur því fram að henni hafi ekki borist bréf heilbrigðiseftirlitsins, dags. 3. ágúst 2011 og að bréf heilbrigðiseftirlitsins til hennar, dags. 21. júní 2010, hafi ekki átt við nokkur rök að styðjast. Kveðst kærandi ekki með nokkru móti geta séð að hún hafi notið þess réttar sem stjórnsýslulögin veiti og heldur því fram að þann rétt hefði hún nýtt sér hefði hún vitað að til stæði að svipta hana leyfi til hundahalds. Heldur kærandi því fram að henni hafi hvorki verið veittur andmælaréttur né málið verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því og að þegar af þeirri ástæðu beri að ógilda hina kærðu ákvörðun.
Kærandi kveðst viðurkenna að hundur hennar hafi sloppið úr gæslu og gengið laus en það hafi aðeins verið algjör undantekning og slys. Þá kveðst kærandi hafi orðið vör við fjölda annarra hunda í hverfinu sem hafi sloppið úr gæslu, komið inn á lóð hennar og gert stykki sín þar. Telur kærandi að sama hljóti að eiga við á lóðum nágranna hennar, sem kvartað hafi undan hennar hundi. Jafnframt viðurkennir kærandi að hundur hennar sé geltinn en bendir á að það séu ekki síður margir aðrir hundar í nágrenninu. Þá heldur kærandi því fram að hundahald hennar hafi verið bætt verulega í árslok 2009, eftir að slaknað hefði aðeins á því fyrr á því ári.
Kærandi kveður að samkvæmt þeim gögnum sem hún hafi fengið send með bréfi frá kærða, dags. 7. október 2011, hafi 15 kvartanir borist til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og lögreglu frá þremur mönnum á þeim tæpu 9 árum sem hún hafi haft hundinn. Gerir kærandi ýmsar athugasemdir við framkomnar kvartanir, en ekki þykir tilefni til að rekja þær athugasemdir sérstaklega í úrskurði þessum.
Í kærunni mótmælir kærandi sérstaklega minnisblaði framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 29. ágúst 2011 og kveður það vera rangt í veigamiklum atriðum. Heldur kærandi því fram að minnisblaðið sé vítavert þar sem henni hafi ekki verið veittur andmælaréttur í málinu og vegna „þeirra mjög svo einhliða frásagnar og neikvæðu röngu fullyrðinga“ sem þar komi fram. Þá heldur kærandi því ítrekað fram að hún hafi ekki fengið bréf kærða, dags. 3. ágúst 2011, í hendur fyrr en með bréfi kærða til hennar, dags. 7. október 2011. Því hafi hún ekki getað nýtt sér andmælarétt sinn samkvæmt bréfinu fyrir fund kærða þann 1. september 2011 og hafi málið þá ekki verið nægilega upplýst.
Í athugasemdum kæranda sem bárust í kjölfar greinargerðar kærða í málinu heldur hún því fram að villandi umfjöllun og útúrsnúninga sé að finna í greinargerð kærða. Nefnir kærandi í því sambandi að kærði haldi því fram að hún hafi ekki nýtt sér andmælarétt vegna bréfa heilbrigðiseftirlitsins til hennar, dags. 19. mars 2009 og 21. júní 2010 og tekur fram að hún hafi rætt við hundaeftirlitsmann vegna bréfanna og í hvorugu tilvikinu haft minnstu ástæðu til að ætla að hún yrði svipt leyfi til hundahalds í framhaldinu.
Kærandi ítrekar í athugasemdum sínum að hún hafi enga möguleika haft á því að nýta sér andmælarétt á grundvelli bréfs heilbrigðiseftirlitsins, dags. 3. ágúst 2011, þar sem henni hafi fyrst borist það bréf með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 7. október 2011, sem var sent eftir að hin kærða ákvörðun var tekin. Kærandi gerir athugasemdir við að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki sent henni í ábyrgðarpósti jafn alvarlegt erindi og það sem bréf heilbrigðiseftirlitsins til hennar, dags. 3. ágúst 2011, varðaði. Þá heldur kærandi því fram að heilbrigðiseftirlitið verði að bera hallann af því að engin sönnun liggi fyrir um það að hún hafi fengið umrætt bréf á umræddum tíma.
Jafnframt heldur kærandi því fram að ekki liggi fyrir hvenær heilbrigðiseftirlitið hafi tekið ákvörðunina, sem staðfest hafi verið af hálfu kærða með hinni kærðu ákvörðun. Kveður hún að allt bendi til að sú ákvörðun hafi verið tekin 3. ágúst 2011 og heldur því fram að það bendi til þess að enginn andmælaréttur hafi verið veittur áður en ákvörðunin hafi verið tekin. Kærandi gerir og athugasemd við fundargerð kærða frá 1. september 2011 og kveður hana vera mjög stutta, illa upplýsandi og ófullnægjandi um málið. Bendir kærandi á að svo virðist sem svipting tveggja óskyldra aðila á hundahaldi hafi verið tekin fyrir saman og þar hafi verið um eina ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins að ræða sem kærði hafi með einni atkvæðagreiðslu samþykkt einróma. Kveður kærandi það vera ótrúleg vinnubrögð og óréttlát og algjörlega óhæf málsmeðferð að afgreiða tvö óskyld mál sem eitt. Einnig heldur kærandi því fram að andmælaréttur sem kærði haldi fram að henni hafi verið veittur í bréfi, dags. 2. september 2011, eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin sé „auðvitað ekkert annað en skrípaleikur og ekki í neinu samræmi við stjórnsýslulög“. Greinir kærandi frá því að í því bréfi komi skýrt fram að ekki verði tekið neitt tillit til andmæla, heldur veittur kærufrestur til úrskurðarnefndar sem hafi verið óþarft ef ekki hafi verið búið að taka endanlega ákvörðun í málinu.
Enn fremur mótmælir kærandi því sem röngu og villandi að hún hafi ekki bætt hundahald sitt frá árinu 2009, ekki nýtt andmælarétt og viðurkennt ítrekuð brot á samþykkt um hundahald.
V. Málsástæður og rök kærða
Í greinargerð kærða segir að kærandi hafi haft leyfi til hundahalds í Reykjavík fyrir hundinn Blíðu síðan árið 2003 og hafi hún fengið leyfið að því tilskyldu að fara að gildandi reglum um hundahald í Reykjavík. Þá segir að kærandi hafi frá árinu 2009 haft tækifæri til að bæta hundahald sitt og fengið tækifæri til að andmæla kvörtunum en sá andmælaréttur hafi ekki verið nýttur.
Kærði kveður að ítrekað hafi borist kvartanir vegna hundahalds kæranda og heldur því fram að kærandi hafi viðurkennt í kæru sinni brot á hundasamþykkt Reykjavíkur nr. 52/2002 hvað varði bann við lausagöngu og ónæði s.s. vegna gelts. Kærandi hafi hins vegar hafnað tveimur kvörtunum, annars vegar frá 18. júní 2010 og hins vegar 21. apríl 2009. Í þessu sambandi kveður kærði að engin kvörtun hafi borist 18. júní 2010, hið rétta sé að farið hafi verið í eftirlitsferð til kæranda þann 18. júní 2010 vegna kvörtunar sem borist hafi 2. júní 2010 og hafi þá enginn verið heima. Vegna kvörtunar frá 21. apríl 2009 kveður kærði að kærandi hafi sagt í samtali við hundaeftirlitsmann, daginn eftir að kvörtunin barst, að hundurinn væri geltinn og að brýnt yrði fyrir börnum að vera ekki með hann lausan. Jafnframt kveður kærði að kærandi viðurkenni víða í kærunni að hundahaldi hennar hafi verið ábótavant, en tali um að þar hafi verið um undantekningar og slys að ræða, auk þess tali kærandi um að hún hafi bætt hundahald sitt verulega í árslok 2009. Kærða kveðst vera kunnugt um að kvörtunum vegna hundahalds kæranda hafi fækkað eftir 2009 en brot á hundasamþykkt eigi sér hins vegar enn þá stað hvað varði lausagöngu hunds hennar og ónæði af hans völdum.
Vegna fullyrðinga kæranda um að hún hafi ekki fengið í hendur bréf kærða, dags. 3. ágúst 2011, þar sem gerð var grein fyrir að fyrirhugað væri að svipta hana leyfi til hundahalds, segir í greinargerðinni að bréfið sé skráð út úr húsi og vistað í skjalaveri Borgartúns 12-14 og hafi ekki verið endursent kærða frá Íslandspósti. Hafi kærði því engar sannanir á því að umrætt bréf hafi ekki borist kæranda.
Vegna athugasemda kæranda við minnisblað framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 29. ágúst 2011 hafnar kærði því alfarið að eitthvað komi fram í minnisblaðinu sem ekki eigi við rök að styðjast og gerir grein fyrir því að minnisblaðið sé vinnuplagg þar sem málið sé rakið stuttlega en sé ekki bréf til kæranda.
Gerð er grein fyrir því að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin að undangengnum ítrekuðum staðfestum kvörtunum og samskiptum, bæði formlegum og óformlegum, og hafi kærandi fengið bréf, dags. 2. september 2011, þar sem henni hafi bæði verið veittur andmæla- og málskotsréttur. Í því bréfi hafi kæranda verið gerð grein fyrir hinni kærðu niðurstöðu sem kærði hafi tekið á fundi 1. september 2011 og hafi falið í sér að staðfesta ákvörðun heilbrigðiseftirlits Rekjavíkur um að svipta kæranda leyfi til hundahalds. Kærandi hafi nýtt andmælarétt sinn með bréfi til kærða, dags. 16. september 2011, sem svarað hafi verið með bréfi kærða, dags. 7. október 2011, þar sem bent hafi verið á kæruleið. Kveðst kærði standa við ákvörðun sína og krefst þess að úrskurðarnefndin staðfesti hina kærðu ákvörðun.
Í viðbótargreinargerð kærða er m.a. mótmælt fullyrðingum kæranda þess efnis að hún hafi ekki getað gert sér grein fyrir því að brot á hundasamþykkt gæti leitt til afturköllunar leyfis til hundahalds og bent á að í bréfi kærða til kæranda, dags. 21. júní 2010, komi skýrt fram að ítrekuð brot geti leitt til afturköllunar leyfis. Þá er einnig gerð grein fyrir því að í bréfum til kæranda hafi komið fram að andmæli skuli berast heilbrigðiseftirlitinu með skriflegum hætti en það hafi andmæli kæranda ekki gert.
VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar
Í 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um samþykktir sveitarfélaga. Þar segir m.a. í 1. mgr. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar hefur verið sett samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002, með síðari breytingum. Í 2. gr. samþykktarinnar segir að hundahald sé heimilað í Reykjavík að fengnu leyfi og að uppfylltum þeim skilyrðum, sem sett séu í samþykktinni. Í 20. gr. samþykktarinnar er kveðið á um að ef hundeigandi brjóti gegn lögum um dýravernd, dýrahald, samþykktinni sjálfri eða öðrum reglum, sem um dýrahald gilda, geti umhverfissvið afturkallað leyfi hans og/eða bannað honum að vera með hund í lögsagnarumdæmi Reykjavíkurborgar.
Samkvæmt gögnum málsins sendi hundaeftirlitsmaður Reykjavíkur kæranda bréf í kjölfar kvartana um hundahald hennar 19. mars 2009 og aftur þann 21. júní 2010. Í þeim bréfum var kærandi upplýst um framkomnar kvartanir og henni kynnt að brot á samþykkt um hundahald í Reykjavík geti leitt til afturköllunar leyfis til hundahalds. Þá var kæranda í báðum bréfunum gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegum athugasemdum við efni bréfanna.
Þann 3. ágúst 2011 sendi hundaeftirlitsmaður Reykjavíkur bréf til kæranda og var efni bréfsins tilgreint „Ítrekuð brot á hundasamþykkt - fyrirhuguð svifting leyfis“. Í bréfinu var gerð grein fyrir framkomnum kvörtunum og að kvartanir hefðu verið staðfestar. Þá sagði í bréfinu:
„Í ljósi endurtekinna brota og engra viðbragða við erindum Heilbrigðiseftirlits með bættu hundahaldi er fyrirhugað að svifta yður leyfi til hundahalds í Reykjavík“.
Þá var tekið fram í bréfinu að hefði kærandi athugasemdir fram að færa óskuðust þær sendar skriflega til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins, auk þess sem athygli var vakin á heimild 1. mgr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir til að skjóta málinu til úrskurðarnefndar.
Kærði kveðst hafa sent kæranda framangreint bréf, dags. 3. ágúst 2011, en kærandi kveðst á hinn bóginn ekki hafa borist bréfið fyrr en afrit þess var sent henni í október 2011. Engin staðfesting hefur verið lögð fram um að bréfið hafi borist kæranda fyrir þann tíma. Engar athugasemdir höfðu borist frá kæranda til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þegar hundahald hennar var tekið til umfjöllunar á fundi kærða þann 1. september 2011. Á þeim fundi var bókað um málið í fundargerð með svohljóðandi hætti:
„6. Svipting leyfis til hundahalds - Fannafold 68 og Fannafold 176. Lögð fram bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 3. ágúst 2011 og 4. ágúst 2011. Nefndin staðfesti ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur einróma“.
Þann 2. september 2011 ritaði framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur bréf til kæranda og var efni bréfsins tilgreint „Svifting leyfis til hundahalds“. Í bréfi sagði:
„Á fundi Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 1. september 2011 var tekið fyrir eftirfarandi: Svipting leyfis til hundahalds - Fannafold 176. Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 3. ágúst 2011. Nefndin staðfesti ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur einróma. Ef þér hafið einhverjar athugasemdir eða andmæli fram að færa við þessar ákvarðanir óskast þær sendar skriflega til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík innan tveggja vikna frá dagsetningu þessa bréfs“.
Þá var kæranda, í bréfinu, einnig leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Kærandi kom á framfæri athugasemdum við bréf heilbrigðiseftirlitsins frá 2. september 2011 með bréfi til umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, dags. 16. september 2011. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur svaraði athugasemdum kæranda með bréfi, dags. 7. október 2011. Í upphafi þess bréfs segir:
„Vísað er til bréfs yðar dags. 16. september sl. Þar koma fram fyrirspurnir er varða ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um að svifta yður leyfi til að halda hundinn Blíðu skráninganúmer 4504“.
Í niðurlagði bréfsins segir síðan:
„Varðandi framhald málsins þá hafið þér ekki lengur leyfi frá Reykjavíkurborg til að halda hundinn og á hann því að víkja“.
Í kjölfar bréfsins frá 7. október 2011 beindi kærandi kæru máls þessa til úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Eins og að framan er rakið ritaði hundaeftirlitsmaður, f.h. heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, bréf til kæranda, dags. 3. ágúst 2011, sem kærandi hafnar að hafa fengið í hendur og sem af hálfu kærða hefur ekki verið sýnt fram á að hafi borist kæranda. Efni bréfsins er að gera kæranda kunnugt um að fyrirhugað sé að svipta hana leyfi til að halda hundinn Blíðu. Hundahald kæranda var tekið til umfjöllunar á fundi kærða þann 1. september 2011 samhliða umfjöllum um hundahald í öðru húsi við götuna sem kærandi býr við. Þar var bókað að lögð væru fram bréf heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 3. og 4. ágúst 2011. Ekki verður annað ráðið af gögnum kærumáls þess, sem hér er til úrlausnar, en að framlagt bréf, dags. 3. ágúst 2011, sé framangreint bréf hundaeftirlitsmanns til kæranda sem varðaði fyrirhugaða sviptingu leyfis til hundahalds. Þá er ekki að finna neinar upplýsingar, í gögnum kærumálsins, um bréf, dags. 4. ágúst 2011, og telur úrskurðarnefndin að ætla megi að það varði ekki hundahald kæranda.
Á framangreindum fundi kærða þann 1. september 2011 var, auk bókunar um framlagningu bréfa, bókað að kærði staðfesti einróma ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Í bókuninni er hins vegar ekki tilgreint í hverju hin staðfesta ákvörðun felist.
Af gögnum málsins verður því ekki ráðið að þegar hundahald kæranda var tekið fyrir á fundi kærða þann 1. september 2011 hafi legið fyrir bein ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að svipta kæranda leyfi til að halda hundinn Blíðu, heldur aðeins að fyrirhugað væri að svipta hana leyfi til að halda umræddan hund. Þar með telur úrskurðarnefndin að við afgreiðslu kærða á máli kæranda hafi ekki legið fyrir ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins sem unnt hafi verið að staðfesta, sem stjórnsýsluákvörðun sem fæli í sér niðurstöðu í máli, og að ekki sé unnt að túlka afgreiðslu kærða á fundinum 1. september 2011 sem ákvörðun um að svipta kæranda leyfi til að halda hundinn Blíðu. Ákvörðun þess efnis að kærandi hefði ekki lengur leyfi frá Reykjavíkurborg til að halda hundinn og vísað var til í bréfi framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda, dags. 7. október 2011, lá því ekki fyrir þegar bréfið var ritað.
Í ljósi þess sem að framan er rakið telur úrskurðarnefndin að í máli því sem hér er til úrlausnar liggi ekki fyrir ákvörðun af hálfu borgaryfirvalda um að afturkalla leyfi kæranda málsins til hundahalds á grundvelli ákvæðis 20. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík. Þá telur úrskurðarnefndin að tilkynning heilbrigðisyfirvalda í Reykjavík um að fyrirhugað sé að afturkalla leyfið sé ekki kæranleg ákvörðun þar sem hún feli ekki í sér niðurstöðu sem bindi enda á málið, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að kæranleg ákvörðun liggi ekki fyrir í málinu og er kæru málsins þegar af þeirri ástæðu vísað frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir kæru Rakelar Jónsdóttur, þar sem kæranleg ákvörðun liggur ekki fyrir.
Steinunn Guðbjartsdóttir
Gunnar Eydal Arndís Soffía Sigurðardóttir