5/2008
Mál nr. 5/2008.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2008, miðvikudaginn 18. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.
Fyrir var tekið mál nr. 5/2008. Ingimundur Einar Grétarsson, kt. 080659-2619, Brákabraut 11, Borgarnesi hér eftir nefndur kærandi gegn sveitarfélaginu Borgarbyggð, hér eftir nefnt kærði. Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
I. Aðild kærumáls og kröfur
Með stjórnsýslukæru, dags. 28. febrúar 2008 kærði Ingimundur Einar Grétarsson ákvörðun sveitarfélagsins Borgarbyggðar, frá 26. mars 2007 álagningu fráveitugjalds í Borgarbyggð árið 2007. Gerð er sú krafa af hálfu kæranda að úrskurðað verði hvort með réttmætum hætti hafi verið staðið að álagningu fráveitugjaldsins. Verði krafa hans tekin til greina krefst hann þess að kærða verði gert að endurgreiða honum það sem ofgreitt var ásamt vöxtum.
Kærði krefst frávísunar þar sem krafan sé of seint fram komin en til vara að kröfum kæranda verði hafnað.
Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:
1. Stjórnsýslukæra dags. 20.02.2008 ásamt fylgiskjölum.
2. Athugasemdir kærða dags. 18.03.2008 ásamt fylgiskjölum.
3. Athugasemdir kæranda dags. 08.04.2008.
4. Athugasemdir kærða dags. 09.06.2008.
Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.
II. Málsmeðferð.
Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Kæran barst Samgönguráðuneytingu 28.02.2008 eða u.þ.b. 11 mánuðum eftir hina kærðu ákvörðun. Kærandi beindi kærunni til Samgönguráðuneytis sem sendi hana til umsagnar kærða. Þegar umsögn barst frá kærða var hún send til kæranda og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Að loknum umsögnum og með hliðsjón af gögnum málsins komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að málið ætti undir úrskurðarnefnd samkvæmt lögum nr. 7/1998. Málið barst nefndinni með bréfi Samgönguráðuneytisins dagsettu 29. apríl 2008.
III. Málsatvik
Með bréfi dags. 16. mars 2007 sótti kærandi um endurálagningu fráveitugjalds vegna fasteignar sinnar að Brákabraut 11, Borgarnesi.
Kærði svaraði erindi kæranda með bréfi dagsettu 26.03.2007. Í svari kærða kemur m.a. fram sú ákvörðun að beiðni kæranda um endurálagningu væri synjað.
Kærandi óskaði eftir upplýsingum og rökstuðningi fyrir synjuninni með bréfi dagsettu 19. apríl 2007. Kærði svaraði með bréfi dagsettu 26. apríl 2007. Með bréfi dagsettu 27. apríl fór kærandi fram á frekari upplýsingar frá kærða. Þar sem svör bárust ekki ítrekaði hann erindi sitt með tölvupósti dagsettum 12.12.2007. Kærandi svaraði með bréfi dagsettu 02.01.2008.
Með stjórnsýslukæru dags. 20.02.2008 kærði kærandi framangreinda álagningu til Samgönguráðuneytisins.
Kærða var með bréfi dags. 29.02.2008 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 18.03.2008.
Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 25.03.2008. Athugasemdir kæranda bárust 08.04.2008.
Kærði gerði grein fyrir kostnaði Borgarbyggðar við álagningu og tilheyrandi vegna fráveitugjalda ársins 2007 með bréfi dags. 9. júní 2007
IV. Málsástæður og rök kæranda.
Kærandi mótmælir kröfu kærða um frávísun málsins. Umbeðin gögn er málið vörðuðu hafi ekki verið lögð fram fyrr en í janúar 2008 þrátt fyrir ítrekuð tilmæli. Þá voru engar upplýsingar gefnar um kæruheimildir, fresti eða aðra þá þætti er varða réttindi gjaldanda. Kærði hafi aldrei sinnt lögboðinni leiðbeiningarskyldu sinni um kæruleiðir. Kröfu kærða um frávísun verði því að hafna.
Kærandi gerir athugasemdir við álögð fasteigna- og þjónustugjöld fyrir árið 2007 vegna fasteignar 211-1173, Brákarbraut 11, Borgarnesi. Kæranda var gert að greiða kr. 60.150 í fráveitugjald vegna eignarinnar. Samkvæmt álagningarstofni var álagt fráveitugjald 0,3% af álagningarstofni sem var heildarfasteignamat eignarinnar. Með samningi er undirritaður var 15. desember 2005 seldi Borgarbyggð Fráveitu Borgarness til Orkuveitu Reykjavíkur. Í 6. gr. samningsins kemur fram hvernig staðið skuli að útreikningi fráveitugjalds er Borgarbyggð innheimti síðan af hverri fasteign sem tengd er fráveitunni og greiði síðan til Orkuveitu Reykjavíkur með 12 jöfnum greiðslum ár hvert. Í samningnum kemur fram að Orkuveita Reykjavíkur yfirtaki allar eignir, réttindi og skyldur vegna Fráveitu Borgarness svo og rekstur veitunnar fyrir tiltekið gjald á hverja fasteign. Kærandi tekur fram að holræsagjald sé þjónustugjald sem á að standa undir hluta stofnkostnaðar, rekstrarkostnaði, afskriftum og vegna viðhalds fráveitna. Orkuveita Reykjavíkur og Borgarbyggð gerðu því samkomulag með áðurnefndum samningi, hvað væri hæfilegt þjónustugjald fyrir hverja fasteign til að standa straum af áður nefndum þáttum vegna rekstrar fráveitunnar. Kærandi segir að sér hafi verið gert að greiða kr. 60.150 af fasteign sinni til Borgarbyggðar samkvæmt ákvörðun sveitarstjóranar Borgarbyggðar. Borgarbyggð greiddi síðan kr. 46.584 í fráveitugjald vegna sömu eignar. Þannig hafi verið innheimt kr. 13.566 hærra gjald en gjaldskrá OR gerði ráð fyrir.
Kærandi segir að af svari kærða frá 2. janúar 2008 megi ráða að eigendum fasteigna í skattflokki A í Borgarnesi hafi verið gert að greiða umfram það sem gjaldskrá OR gerði ráð fyrir kr. 8.551. Eigendur annarra fasteigna í sveitarfélaginu er tengdar eru fráveitunni greiddu samtals kr. 3.880 lægri upphæð en gjaldskrá OR gerði ráð fyrir. Í sveitarsjóð Borgarbyggðar runnu því kr. 4.671. Í samningi OR og Borgarbyggðar frá 15. desember 2005 er ekki heimild til handa sveitarfélaginu til að taka þóknun vegna innheimtu fráveitugjalds eða annarra þátta. Gjaldskrá Borgarbyggðar öðlaðist síðan ekki gildi fyrr en 26. mars 2007 eða mánuði eftir að innheimta hófst. Kærandi telur að ekki hafi verið lagastoð fyrir að innheimta fráveitugjald með þeim hætti sem gert var eða að heimild hafi verið til að láta hluta gjaldsins renna í sveitarsjóð. Með því að viðhafa aðra aðferð við innheimtu fráveitugjalds í Borgarbyggð fyrir árið 2008 hafi kærði í raun viðurkennt réttmæti staðhæfinga kæranda um að staðið hafi verið að innheimtu á ólögmætan hátt.
V. Málsástæður og rök kærða.
Kærði gerir þá kröfu aðallega að kærunni verði vísað frá en til vara að kröfum kæranda verði hafnað.
Kærði bendir á að kæran sé dagsett 20.02.2008 og hafi verið móttekin í Samgönguráðuneytinu 28. sama mánaðar. Þá hafi kærufrestur verið löngu liðinn sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt því beri að vísa kærunni frá sbr. 1. mgr. 28. gr. sömu laga enda engar eðlilegar ástæður fyrir því að umrædd ákvörðun var ekki kærð fyrr en nærri því eitt ár var liðið frá því að hún var tekin og tilkynnt kæranda.
Til vara gerir kærði kröfu um að kröfu kæranda verði hafnað.. Fráveitugjald í Borgarbyggð hafi verið lagt á samkvæmt gjaldskrá sem var samþykkt í sveitarstjórn Borgarbyggðar 14. desember 2006. Gjaldskráin hlaut staðfestingu og hefur ekki verið véfengd en hún var sett með heimild í 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í gjaldskránni koma fram reglur um álagningu fráveitugjalds í Borgarbyggð 2007 og eftir þeim hefur verið farið.
Með samningi 15. desember 2005 gerðu Borgarbyggð og Orkuveita Reykjavíkur samning um að OR yfirtæki rekstur Fráveitu Borgarbyggðar. Samkvæmt 6. gr. samningsins skal Borgarbyggð greiða ákveðið gjald til OR vegna fráveitunnar og skyldu greiðslur skiptast á 12 mánuði. Álögð fráveitugjöld árið 2007 voru samkvæmt upphaflegri álagningu 53.000.000 og greiðsur til OR voru um 49.500.000 þannnig að mismunur var kr. 3.500.000 en þá á eftir að taka tillit til umsýslukostnaðar og/eða annars kostnaðar hjá Borgarbyggð vegna álagningar gjaldanna.
Kærði segir það vera alkunna að þegar þjónustugjöld eins og fráveitugjöld eru lögð á að þá sé ekki hægt að áætla upp á krónu hver raunverulegur kostnaður við viðkomandi þjónustu verði á komandi ári. Þannig að það getur komið til þess að gjöldin verði of há eða of lág þegar liggur fyrir hver endanlegur kostnaður er vegna viðkomandi málaflokks. Verður þá tekið tillit til þess þegar gjöld verða næst lögð á eða á komandi árum. Samkvæmt 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 skulu álögð gjöld ekki vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum háttum. Þar er ekki verið að tala um eitt einangrað ár heldur verður að gæta þess þegar til lengri tíma er litið að álögð gjöld séu ekki hærri en raunverulegur kostnaður og að viðkomandi gjöldum verði ráðstafað til viðkomandi málaflokks en ekki til annars reksturs á vegum sveitarfélagsins.
Kærði mótmælir þeirri staðhæfingu kæranda að ekki sé heimilt að gera ráð fyrir kostnaði við álagningu gjalda og innheimtu þegar þjónustugjöld eru ákveðin. Að sjálfsögðu teljist sá kostnaður til kostnaðar við rekstur viðkomandi málaflokks.
Kærði tekur fram að gjaldskrá vegna fráveitu og fráveitugjalds í Borgarbyggð árið 2008 hafi verið samþykkt í sveitarstjórn 13. desember 2007. Þar var breytt álagningarreglum frá því sem áður var, og ástæða þess var sú að færa álagningu gjaldanna til samræmis við það sem tíðkaðist á Akranesi og í Reykjavík, en þau sveitarfélög eru sameigendur Borgarbyggðar að OR. Þykir því æskilegt að álagning þessara gjalda sé með sama hætti hjá þeim sveitarfélögum. Með því sé ekki verið að fallast á réttmæti ábendingar kæranda enda sé ekki ljóst hvaða ábendingar er um að ræða.
Í kæru kemur fram að kærandi telji að ekki hafi verið lagastoð fyrir að innheimta fráveitugjald með þeim hætti sem gert var og ekki hafi verið heimild til að láta hluta gjaldsins renna í sveitarsjóð. Vegna þessa tekur kærði fram að í þessu sambandi skipti meira máli hvernig fráveitugjaldið er lagt á heldur en hvernig það er innheimt. Þrátt fyrir að kærandi telji að það hafi ekki verið lagastoð fyrir því hvernig gjaldið var lagt á, er ekki vísað til neinna lagareglna eða annarra reglna sem sú fullyrðing byggir á. Því er í raun ekki hægt að svara þessari fullyrðingu kæranda. Þá segir kærði að sú fullyrðing kæranda að hluti gjaldsins hafi runnið í sveitarsjóð röng. Með vísan til alls þessa krefst kærði þess að kröfum kæranda verði hafnað séu þær á annað borð tækar til úrskurðar.
VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar.
Skoðun nefndarinnar beinist að því hvort kærði hafi farið rétt að samkvæmt stjórnsýslulögum, þ.m.t. sinnt leiðbeiningarskyldu um kæruheimildir og kæruleiðir og hvort innheimta gjalda sé í samræmi við 25. gr. nr. 7/1998.
Þegar hin kærða ákvörðun var tilkynnt voru engar upplýsingar gefnar um kæruheimildir, fresti eða aðra þætti er varða réttindi kæranda. Kærði sinnti því heldur ekki á síðari stigum. Kröfu kærða um frávísun verði því að hafna.
Í 7. gr. l. nr. 45/1998 segir m.a.: ,,Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim er falin að lögum." Síðan segir: ,,Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast."
Í 9. gr. s.l. segir m.a.: ,, Sveitarstjórn hefur ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf."
Í 2. gr. l. nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga segir: ,,Auk tekna skv. 1. gr. (þ.e. fasteignaskatta, framlaga úr jöfnunarsjóði og útsvars) hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum, hitaveitum o.fl., enn fremur ýmsar aðrar tekjur, svo sem af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o.fl. allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um."
Í 25. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segir ennfremur að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur sem fram koma í þeim og er heimilt m.a. að setja í slíkar samþykktir ákvæði um meðferð úrgangs og sorps svo og gjaldtökuleyfi, leigu eða veitta þjónustu. Sveitarfélögum er heimilt að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda en þau gjöld mega ekki vera hærri en nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu.
Álögð fráveitugjöld árið 2007 voru samkvæmt upphaflegri álagningu 53.000.000 og greiðslur til OR voru um 49.500.000 þannig að mismunur var kr. 3.500.000. Kærði hefur gert grein fyrir öðrum skilgreindum kostnaði vegna þjónustunnar. Í bréfi kærða dagsettu 9. júní 2008 kemur fram að kostnaður Borgarbyggðar árið 2007 við álagningu og tilheyrandi vegna fráveitugjalda sé samtals 4.280.000. Kostnaðurinn er ekki nákvæmlega útreiknaður heldur áætlaður á grundvelli fyrirliggjandi gagna og staðreynda.
Samkvæmt orðalagi 25. gr. laga nr. 7/1998 mega gjöld ekki vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu. Það er álit nefndarinnar að kærði hafi gert grein fyrir kostnaði við fyrirliggjandi þjónustu á fullnægjandi hátt.
Með vísun til þess er það niðurstaða nefndarinnar að álagning fráveitugjalds 2007 sé í samræmi við 25. gr. l. 7/1998. Ákvörðun sveitarfélagsins Borgarbyggðar er staðfest.
Úrskurðarorð.
Ákvörðun sveitarfélagsins Borgarbyggðar er staðfest.
___________________________________
Steinunn Guðbjartsdóttir
__________________________ ___________________________
Gunnar Eydal Guðrún Helga Brynleifsdóttir