4/2003
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2004, föstudaginn 22. október, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.
Fyrir var tekið mál nr. 4/2003 Einar Jóhannes Einarsson gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
Úrskurður
I.
Stjórnsýslukæra Einars J. Einarssonar kt. 100553-2799, Breiðvangi 38 Hafnarfirði, hér eftir nefndur kærandi, er dags. 2. september, 2003. Kærð er ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hér eftir nefndur kærði. Ákvörðun kærða, að synja kæranda um að halda hund á heimili sínu er dags. 11. júlí 2003. Er gerð krafa um að ákvörðun kærða verði hrundið og kæranda verði veitt leyfi til hundahalds. Gögn sem kærunni fylgdu eru :
1) Afrit mynda af inngangi í húsnæði.
2) Afrit stjórnsýslukæru lögmanns kæranda dags. 7. júlí, 2003.
3) Afrit synjunarbréfs kærða dags. 24. júní, 2003.
Afrit af kæru og gögnum kæranda voru send kærða sem sendi greinargerð dags. 17.október, 2003 ásamt eftirfarandi gögnum :
1) Umsókn um skráningu á hundi dags. 23.júní, 2003.
2) Teikningar af Breiðvangi 38.
3) Myndir af Breiðvangi 38.
4) Afrit af bréfi kærða dags. 24. júní, 2003.
5) Afrit af bréfi, fyrirspurn um leyfi til hundahalds frá eigendum og íbúum neðri hæðar að Breiðvangi 38, dags. 19 ágúst, 2003.
6) Svar kærða við fyrirspurn um leyfi til hundahalds, dags. 26. ágúst, 2003.
II.
Í erindi lögmanns kæranda dags. 2. september, 2003, er kærð ákvörðun kærða dags. 11. júlí 2003 að synja kæranda um leyfi til hundahalds. Er krafa lögmanns kæranda sú að ákvörðun kærða verði hrundið og umrætt leyfi til hundahalds verði veitt án frekari tafa. Í erindinu mótmælir lögmaður kæranda rökstuðningi kærða sem fráleitum að til rýmis skv. ákvæðum 13. tl. A-liðar í 1. mgr. 41. gr. l. nr. 26/1994 um fjöleignarhús teljist a) gangstéttin heim að húsinu, b) tröppur og pallur við útihurðir, c) skyggni yfir útidyrum, d) pallur milli útihurða e) lóð og f) sorpgeymsla. Vísar lögmaður kæranda til þess að við túlkun hugtaksins húsými beri að líta til þeirrar skilgreiningar sem finna megi í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. l.nr. 26/1994 um fjöleignarhús en þar sé húsrými skilgreint sem gangar, stigar, geymslur, kyndiklefar, þvottahús, þurrkherbergi, kæliklefar, tómstundaherbergi, vagna- og hjólageymslur, háaloft, risloft o.sv.frv. án tillits til legu, nýtingarmöguleika og nýtingarþarfa einstakra eigenda í bráð og lengd. Eina sameiginlega rými eigenda húsnæðisins að Breiðvangi 38 í Hafnarfirði sé sorptunnugeymsla. Lögmaður kæranda sendir með stjórnsýslukæru þar sem mótmælt er ákvörðun kærða og rökstuðningi í bréfi dags. 11. júlí, 2003. Lögmaður kæranda bendir á að fasteignin að Breiðvangi 38 skiptist í 2 aðgreinda hluta og ekki sé um að ræða neitt sameiginlegt rými. Telur lögmaðurinn að sameiginlegur garður falli ekki undir skilgreininguna rými í skilningi laga um fjöleignarhús og tilvísun kærða í tröppur og gangstéttir sé með öllu óskiljanleg í þessu samhengi. Þá telur lögmaður kæranda að ekki sé rétt með farið í bréfi kærða þegar sagt sé að eftirlitinu sé heimilt að falla frá kröfu um samþykki allra meðeigenda þegar fullnægt sé ákvæðum 13. tl. 1. mgr. 41. gr. nr. 26/1994. Rétt sé að starfsmönnum kærða sé það beinlínis skylt. Umrætt ákvæði beri að túlka rúmt en ekki þröngt og ákvæði reglugerða og samþykkta bæjarins verði að byggja á lagaákvæðinu með heimild í lögunum sjálfum og megi ekki fela í sér frekari takmarkanir en ákvæðið sjálft bjóði upp á. Vísar lögmaður kæranda og til takmarkana á persónufrelsi en allar takmarkanir verði að vera skýrt tilgreindar í lögum. Vísar lögmaður til ákvæðis stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs. Telur lögmaður kæranda ljóst vera að íbúð kæranda hafi séringang og að hann og fjölskylda hans deili engu sameiginlegu rými með nágrönnum og sé því samþykki nágranna ónauðsynlegt.
III.
Í greinargerð kærða dags. 17. október 2003 kemur fram að tilgangur sveitarfélagsins með samþykkt um hundahald sé að vinna að því að slíkt gæludýrahald valdi sem minnstu ónæði fyrir aðra íbúa og skapa þannig sátt milli þeirra sem halda vilja hunda og þeirra sem séu á móti hundahaldi. Kemur og fram að lengi vel hafi hundahald verið bannað í Hafnarfirði, en þegar ákveðið hafi verið að leyfa það með takmörkunum hafi heilbrigðisnefnd krafist, vegna hollustuhátta sjónarmiða, samþykkis meðeigenda í fjöleignahúsum nema það sé augljóslega óþarft. Bendir kærði á að hundahaldi geti fylgt óþægindi vegna óþrifa og ónæðis og hundar geti valdið hræðslu. Hafi því helbrigðisnefnd litið svo á að það sé fullgilt hollustuháttasjónarmið sem gildi fyrir alla, að geta gengið inn og út úr híbýlum sínum og hafst við á sinni lóð. Því séu fullgild málefnaleg sjónarmið fyrir því að krefjast samþykkis meðeigenda þegar aðstæður séu þannig. Það að krefja um samþykki meðeigenda byggi því á þeirri skyldu umsækjanda að virða rétt og hagsmuni annarra eigenda við hagnýtingu sameignar. Vísar kærði til þess að þessi afstaða nefndarinnar sé í fullu samræmi við ákvæði 13. og 35. gr. fjöleignahúsalaga nr. 26/1994. Kærði tekur fram að heilbrigðisnefnd hafi ekki haldið því fram að gangstétt heim að húsinu, tröppur og pallur við útihurðir, skyggni yfirútidyrum, pallur milli utihurða eða lóð teldust til húsrýmis skv. ákvæðum 13. tl. A í 1. mgr.41. gr. laga nr. 26/1994. Leggi heilbrigðisnefnd áherslu á að aðstæður varðandi þetta rými utandyra séu sambærilegar við sameiginlegt rými innan dyra. Ástæða sé til að vekja athygli á að sorpgeymsla sé í sérstöku sameiginlegu húsrými og að þessu húsrými verði að fara um umræddan pall við útihurðir og sameiginlega gangstétt þegar farið sé í sorpgeymslu. Ekki hafi því verið haldið fram að hundurinn hafi hafst þar við. Þá upplýsir kærði að frá því synjað hafi verið um leyfi til hundahalds hafi borist ein kvörtun vegna hundahaldsins.
Í svarbréfi kærða dags. 24. júní, 2004 til kæranda komi fram að kærði telur liggja ljóst fyrir að afla beri samþykkis meðeigenda í húsinu. Vísar kærði til ákvæða í 4. gr. samþykktar um hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000 þar sem áskilið sé samþykki allra meðeigenda fjöleignahúss ef við eigi. Kemur ennfremur fram að kærða sé heimilt að falla frá kröfu um samþykki allra meðeigenda þegar fullnægt sé ákvæðum 41. gr. l. nr.26/1994.
IV.
Deilt er í máli þessu um hvort samþykki sameigenda fjöleignahúss þurfi til útgáfu leyfis um hundahald. Í 1. gr. samþykktar um hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi kemur fram að hundahald á svæðinu sé takmarkað með skilyrðum skv. samþykktinni. Í 5. gr. samþykktarinnar segir að um hundahald í fjöleignahúsi gildi ákvæði laga nr. 26/1994 með síðari breytingum. Ákvæði 13. tl. 41. gr. l.nr. 26/1994 hljóðar svo :”Um að halda megi hunda og/eða ketti í húsinu. Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.”
Með tilvísan til þessa ákvæðis og aðstæðna við fasteign er ljóst að samþykki meðeigenda fasteignarinnar að Breiðvangi 38 í Hafnarfirði þarf til útgáfu leyfis til hundahalds.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu lögmanns kæranda um að ákvörðun kærða verði hrundið og umrætt leyfi til hundahalds verði veitt, er hafnað.
__________________________________
Lára G. Hansdóttir
__________________________ ___________________________
Gunnar Eydal Guðrún Helga Brynleifsdóttir