Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir

6/2011

Mál nr. 6/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998. Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir. Fyrir var tekið mál nr. 6/2011 Sigurður H. Magnússon, Hvassaleiti 22, Reykjavík gegn Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, Reykjavík. Í málinu er kveðinn upp svofelldur úrskurður: I. Aðild kærumáls og kröfur Með stjórnsýslukæru, dags. 3. mars 2011, kærði Sigurður H. Magnússon (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir nefnd kærði) um álagningu fráveitugjalds vegna 20,3 fermetra bílskúrs á lóðinni Hvassaleiti 18 ? 22 í Reykjavík. Kærandi gerir þær kröfur að álagning fráveitugjalds á umræddan bílskúr, sem ekki sé tengdur neinum vatnslögnum og nýti ekki fráveitulangir, verði úrskurðuð óheimil. Kærandi krefst þess til vara að málinu verði heimvísað og kærða gert að taka málið til efnislegrar meðferðar með rökstuðningi í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærði telur að hafna beri kröfum kæranda og staðfesta hina kærðu ákvörðun um álagningu fráveitugjalds. II. Málmeðferð Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 7. mars 2011 og byggir hún á kæruheimild í 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðfylgjandi kæru voru álagningarseðill vegna vatns- og fráveitugjalda 2011, álagningarseðill fasteignagjalda 2011, svar kærða, dags. 8. febrúar 2011, við athugsemd kæranda vegna vatns- og fráveitugjalda fyrir árið 2011 og útprentun af Borgarvefsjá. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 11. mars 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 21. mars 2011, og fylgdi henni uppdráttur af viðkomandi lóð. Greinargerð kærða var kynnt kæranda með bréfi, dags. 6. apríl 2011. Sendi kærandi úrskurðarnefndinni athugasemdir, dags. 17. apríl 2011, við greinargerð kærða. Voru athugasemdir kæranda kynntar kærða með bréfi, dags. 27. apríl 2011. Frekari gögn hafa ekki borist. III. Málsavik Kærandi er annar tveggja eigenda að íbúðareign, ásamt bílskúr, í Hvassaleiti 22, fastanúmer 203-1650. Er þar um að ræða 93,5 fermetra íbúð og 20,3 fermetra bílskúr eða samtals 113,8 fermetra fasteign. Íbúðin er í fjölbýlishúsi en bílskúrinn er í bílskúralengju sem stendur sjálfstætt og samanstendur af 18 bílskúrum. Í janúar 2011 sendi kærði kæranda álagningu fráveitugjalda og voru gjöldin lögð á kæranda samkvæmt 113,8 fermetra fasteign hans, samtals að fjárhæð 27.764 kr. IV. Málsástæður og rök kæranda Í kæru greinir kærandi frá því að engin vatnslögn, hvorki kalda- né heitavatnslögn, sé tengd unræddum bílskúrum og kveðst hann telja sérkennilegt að þurfa að borga fráveitugjald fyrir rými sem hafi engan aðgang að vatni og nýti þ.a.l. ekki fráveitukerfi borgarinnar. Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða segir að óumdeilt sé að umræddir bílskúrar séu tengdir fráveitu og að sú fráveita tengist aðallögn sem sé tengd íbúðarhúsnæði á lóðinni Hvassaleiti 18 - 22. Kærandi bendir í athugasemdum sínum á athugasemdir í frumvarpi að lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, þar sem segir m.a. um 1. mgr. 14. gr., ?Ekki er gert ráð fyrir að hús þar sem engu vatni er veitt inn og ekkert frárennsli er frá, svo sem hjallar sem svo um háttar, greiði fráveitugjald?. Kveðst kærandi telja að þar komi vilji löggjafans skýrt fram og eigi sú túlkun við í því tilviki sem mál þetta varðar. Af athugasemdum kæranda verður ráðið að hann telji aðalatriði málsins vera að ekkert vatn renni inn í viðkomandi bílskúr og því renni ekkert vatn út og jafnframt að gjald vegna fráveitu skuli ráðast af því hvort skylda sé til að greiða vatnsgjald. Þá segir kærandi í athugasemdum við greinargerð kærða að þó utanaðkomandi vatn, t.d. rigningarvatn, fari í fráveitukerfið eigi það ekki að skipta máli þar sem af aðallögn sé greitt fráveitugjald í samræmi við stærð íbúða í íbúðarhúsinu. Heldur kærandi því fram að fráveitugjöld, sem lögð séu á í samræmi við stærð íbúða, eigi að standa undir þeim kostnaði sem fráveitugjaldið eigi að bera. Kærandi tekur fram að ekki sé drenlögn við umrædda bílskúra og bendir á að ekki séu greidd sérstök fráveitugjöld vegna niðurfalla bílastæða, sem tengist sömu aðallögn. Heldur kærandi því fram að nánast engin kostnaður stafi af vatni sem renni frá bílskúrunum í aðallögnina og jafnframt að samkvæmt 12. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna beri kærði engan kostnað af lögnum sem tengdar séu umræddum bílskúr. Kærandi segir að þegar fráveitugjald sé lagt á hljóti það að vera notkunin sem ráði og að þar skuli miða við eðlilega notkun, sem hann telur að hljóti að miðast við að viðkomandi rými sé tengt vatni. Þannig telur kærandi að tenging húsnæðis við vatn sé forsenda fyrir innheimtu fráveitugjalds. Þessu til staðfestingar vísar kærandi m.a. til skilgreiningar á fráveitu í 2. tl. 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og segir að ætla megi að meginhlutverk fráveitu sé að veita frá vatni sem veitt sé inn í húseignir. V. Málsástæður og rök kærða Í greinargerð kærða segir að samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna eigi eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggi, rétt á að fá tengingu við fráveitukerfi. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. sömu laga sé eigendum húseigna þar sem fráveita liggur skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Síðan segir að lagaskylda 1. mgr. 11. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna hafi verið uppfyllt í því tilviki sem mál þetta varði, þar sem lóðin Hvassaleiti 18 - 22 hafi verið tengd við fráveitukerfi. Lagning heimæða innan lóðar sé á ábyrgð eigenda fasteignarinnar. Þá segir að samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sé heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Ítrekað er að lóðin Hvassaleiti 18 - 22 sé tengd fráveitukerfinu og tekið fram að þrátt fyrir að einstakar fasteignir eða matshlutar á lóðinni kunni að vera ótengdir vatni eða fráveitu veiti það ekki undanþágu frá greiðsluskyldu samkvæmt lögunum. Þá er þess getið að allar líkur séu á að vatni sé veitt af þaki bílskúra á lóðinni og að umhverfis sökkla þeirra sé drenlögn sem veitt sé úr í fráveitukerfið. Kærði bendir í greinargerð sinni á að samkvæmt álagningarseðli fasteignagjalda kæranda sé eign hans 113,8 fermetrar að stærð og að álagning fráveitugjalda sé miðuð við sama fermetrafjölda. VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar Í máli þessu er deilt um álagningu fráveitugjalds á 20,3 fermetra bílskúr við Hvassaleiti í Reykjavík. Bílskúrinn er einn af átján bílskúrum sem byggðir eru í lengju á lóðinni Hvassaleiti 18 ? 20 og er ekki tengdur vatni, hvorki köldu né heitu. Í IV. kafla laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 er kveðið á um fráveitulagnir. Þar er í 1. mgr. 12. gr. kveðið á um að eigandi fráveitu sjái um lagningu og viðhald allra fáveitulagna, þ.e. stofnlagna, safnkerfa og fráveitutenginga. Í 1. málslið 2. mgr. 12. gr. er hins vegar kveðið á um að eigendum húseigna þar sem fráveita liggur sé skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Í 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna er kveðið á um fráveitugjald og þar segir að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Í frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi Alþingis, var lagt til að 1. mgr. 14. gr. laganna heimilaði að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar væru eða gætu tengst fráveitu sveitarfélags. Í frumvarpinu segir jafnframt í athugasemdum við þetta ákvæði að ekki væri gert ráð fyrir að hús, þar sem engu vatni væri veitt inn og ekkert frárennsli væri frá, greiddi fráveitugjald og eru hjallar nefndir þar í dæmaskyni. Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna segir að fram hafi komið ábending um að orðalag 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins væri of víðtækt með því að heimila innheimtu fráveitugjalds af fasteignum sem gætu tengst fráveitu. Tók nefndin undir ábendinguna og lagði til þá orðalagsbreytingu að heimildin næði til fasteigna sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu. Voru lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna samþykkt með því orðalagi. Í framangreindu nefndaráliti segir jafnframt að ákvæðum frumvarps til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna um gjaldtöku sé ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé. Í 10. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga nr. 982/2010, sem sett var með stoð í 21. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er kveðið á um fráveitugjald. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, þ.m.t. óbyggðum lóðum sem tengdar séu, muni tengjast fráveitu sveitarfélags eða njóti þjónustu hennar. Frárennsli er skilgreint í 1. tölulið 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sem ?Rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt er í fráveitur.? Samkvæmt því sem kærandi hefur gert grein fyrir er umræddur bílskúr hans í Hvassaleiti tengdur fráveitu Reykjavíkurborgar. Af því má ráða að ofanvatni sé veitt af bílskúrunum í fráveitu og þar með sé um frárennsli að ræða þó engu vatni sé veitt inn. Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið verður að fallast á að uppfyllt séu skilyrði heimildar, samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, til að leggja fráveitugjald á 20,3 fermetra bílskúr kæranda við Hvassaleiti í Reykjavík. Ekki þykir tilefni til að fallast á varakröfu kæranda, enda hefur kærði gert grein fyrir rökstuðningi sínum við rekstur kærumálsins. Úrskurðarorð: Staðfest er heimild Orkuveitu Reykjavíkur til álagningar fráveitugjalds á 20,3 fermetra bílskúr í eigu Sigurður H. Magnússonar á lóðinni Hvassaleiti 18 ? 22, Reykjavík. Steinunn Guðbjartsdóttir Gunnar Eydal Arndís Soffía Sigurðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta